Leita í fréttum mbl.is

Nútími hrokans verður fljótt fortíð gleymskunnar !

 

 

Fyrir allmörgum árum voru mál varðandi söfnun og geymslu muna frá fyrri tíð tekin til meðferðar af áhugasömum einstaklingum hér á Skagaströnd sem og víða annarsstaðar um landið. Margir gáfu muni til varðveislu og mikið af ljósmyndum skilaði sér, enda mátti segja að það ætti sér stað viss vitundarvakning varðandi þennan málaflokk á þessum tíma !

 

En sumir höfðu ekki mikinn áhuga fyrir þessu gamla drasli, sem þeir kölluðu svo, og einhvernveginn fóru mál þannig að hvergi virtist vera til staður fyrir þessa söfnunarmuni svo þeir þvældust í slæmum meðförum árum saman og týndu tölunni. Enginn Þórður Tómasson hélt utan um hlutina, en slíkan mann hefði víða þurft !

 

Margt fór því forgörðum á neyðarlegri hrakhólaferð hinna gömlu muna, týndist og eyðilagðist með ýmsum hætti. Á sínum tíma talaði ég við ráðamenn hér um að kaupa gamla kaupfélagshúsið og gera það að safnahúsi Skagastrandar og byggja þar upp arfleifð hins liðna tíma, enda var við-komandi hús í sjálfu sér merkur safn-gripur. Vel var tekið í þá hugmynd en enginn raunverulegur áhugi sýndi sig þó. Það vill löngum svo fara varðandi málefni almannahags, að góðar undirtektir verða innihaldslausar !

 

Svokallaðir ráðamenn virðast oft vera undarlegur söfnuður. En af hverju eru áhugalausir menn um samfélagsmál að bjóða sig fram til þjónustu fyrir samfélagið ? Skyldu ekki einhver annarleg sjónarmið búa þar að baki ? Gamla kaupfélagshúsið var í fram-haldinu keypt af peningamönnum sem hafa gert það upp með sínum hætti og nýtt það til annarra hluta. Og líklega með all-ríkum stuðningi hreppsyfirvalda varðandi leigumál og notkun !

 

Einkaframtakið gerir sig oftast gildandi þegar ekki er hirt um félagslegar og samfélagslegar lausnir. Hygg ég að víða megi finna hliðstæðan framgang mála varð-andi slíka hluti í landinu. Arfur hins liðna, sagan og geymd hennar, situr oftast við skarðan hlut í hinum dreifðu byggðum, en helst gert eitthvað ef það stendur til að tildra einhverju upp í höfuðborginni. En sá sem ber enga virðingu fyrir eigin sögu, endar með því að eiga enga sögu !

 

Og nú er farið að flytja söguna til með þeim hætti, að minningarreitur sem ætti að vera úti í sveit á réttum stað viðkomandi atburðar, er færður inn í næsta þéttbýlisstað, sennilega í þeirri von að það muni auka á straum ferðamanna þangað. Það er svona svipuð sögutilfærsla eins og að tala um Skagafjörð sem Sturlungaslóð. Sennilega hafa engir landsmenn verið Sturlungum jafn mótsnúnir og fjandsamlegir alla tíð og Skagfirðingar !

 

Öll rangtúlkun söguatburða hittir sig sjálfa fyrir og dregur úr tiltrú á því að rétt sé með farið. Og býsna margir virðast ekki sjá neina sérstaka þörf á því að fara rétt með, ef þeir geta fjölgað einhverjum krónum í rekstrarkassanum :

 

Sitthvað ferlið falska skapar,

frómlegheitin mæta grandi.

Margir verða af aurum apar,

ekki síst í þessu landi !

 

En það vill svo til, að fáum er annt um okkar sögu og ef við sinnum henni ekki sjálf getur hún farið forgörðum á tiltölulega skammri stund. Þetta gamla drasl, sem sumir kalla svo, er tengiliður okkar við fortíðina og það líf sem var lifað í landinu fyrir ekki svo löngu síðan. Þann tengilið þarf að varðveita !

 

Það er ótvíræð skylda íslensku þjóðarinnar að vernda sögu sína og arfleifð sem best og halda þar tengslum. Það kostar alltaf eitthvað fyrir hvern og einn að gera skyldu sína. Ef við lærum ekkert af því liðna og þykjumst standa á toppi allrar fremdar og tilvistar í dag, er jafnvíst að við skilum litlu sem engu til framtíðarinnar og fyrir eftirkomendur okkar í þessu landi !

 

Þá hefur líf okkar ekki haft mikinn tilgang. Kannski ekki neinn ? Líf sem er alfarið þrælbundið þeim hégóma að skemmta sér allar stundir, brennur fljótt út á báli hins hraðfleyga tíma. Það er auðvitað gaman að vera 18 ára, en aðeins 20 árum síðar eru menn 38 ára - að verða miðaldra ..... og kannski ekki búnir að vinna neitt sér til gildis sem þroskaðir menn. Vanitatum vanitas !

 

Heiðrum forfeður okkar og formæður, virðum baráttu þeirra í þágu þess lífs sem okkur hefur verið gefið, göngum vel um allt það sem getur minnt okkur á það sem áar okkar urðu að búa við, og skilum okkar hlutverki af okkur eins heiðarlega og þeir gerðu. Leggjum þeim sem taka við af okkur lifandi arfleifð í hendur !

 

Við erum lítil þjóð og við höfum því miður verið að minnka okkur á síðustu árum. En við getum aukið gildi okkar, ef við höldum tryggð við arfleifð okkar sem er drjúgum meiri en ætla mætti, og þannig skipað okkar sess í samfélagi þjóðanna með fullum heiðri !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 53
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 622
  • Frá upphafi: 365520

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband