Leita í fréttum mbl.is

Íslenska þrælahalds-bankakerfið !

 

 

Bankakerfin á hinum Norðurlöndunum virðast á allan hátt töluvert manneskulegri en íslenska bankakerfið. Í Noregi og Danmörku er bankakerfið að lána fólki til íbúðarkaupa af samfélagslegri ábyrgð en hér virðist bankakerfinu sléttsama hvernig það fer með fólk !

 

Íslendingar sem flutt hafa til Noregs, segja norska bankamenn bara ekki skilja hvernig bankarnir hér fara með fólk. Þeir hafi jafnvel boðið fólki að gera upp skuldir þess við íslenska banka og boðið þeim svo endurfjármögnun á skuldastöðunni í Noregi. Og sú aðstoð býður upp á miklu manneskjulegri fjárhagsaðstæður og meira öryggi. Þarna virðist vera mikill munur á !

 

Í norska bankakerfinu er miklu frekar verið að hjálpa fólki, hér er hinsvegar verið að festa það í óendanlegu arðránskerfi sem er aðeins sambærilegt við blóðsjúgandi þrælahald. Íslenska þjóðin virðist að miklu leyti vera njörvuð föst í ómannlegum og andstyggilegum skuldafjötrum skítugra bankaskrímsla ævina á enda. Átti íslenska sjálf-stæðisævintýrið að fara þannig ?

 

Íslensku bankarnir virðast í flestu vera græðgisfullar mannætur. Þeir byggja ekkert upp í samfélaginu á heilbrigðan hátt og sýna enga jákvæða breytni á samfélagslegum nótum. Þeir draga þvert á móti heilbrigðan þrótt úr samfélaginu með gengdarlausu arðráni sínu. Græðgi þeirra er hömlulaus og kann sér engin takmörk. Þeir eru þegar búnir að steypa samfélaginu einu sinni og það er ekkert sem segir að þeir eigi ekki eftir að gera það aftur, enda engin iðrun verið sýnd vegna ótaldra fjárhagslegra misgerða á liðnum árum !

 

Ef það kæmi norskur eða danskur banki hér, teldi ég kjörið fyrir íslenska viðskipta-vini að skipta við hann og finna hvernig það kæmi út. Það yrði líklega eins og fólk væri raunverulega að skipta við manneskju-legan íslenskan banka, sem hingað til hefur ekki verið til. En slíkt myndi ekki gerast, því norrænu bankarnir myndu ekki kæra sig um að fara inn á einkaslóðir mannætu-hákarla og flækjast í blóðugum hengingarsnörum þar og glíma jafnframt við óvinveitt og mannfjandsamlegt ríkiskerfi !

 

Íslenska bankakerfið er stórlega vanþróað hvað ábyrgð og allan þjóðlegan hugsjóna-metnað varðar. Öll samfélagsleg siðbót á Íslandi gagnar lítið meðan fjármálakerfi þjóðarinnar er jafn gráðugt og siðlaust og það er. Einstakar þjónustupersónur þar eru að vísu stundum látnar ,,stíga til hliðar“ þegar brotin uppgötvast, en kerfið sjálft breytist hinsvegar ekkert og lagast ekki hót !

 

Það þarf umfram allt að koma einhverri siðmenningu inn í bankana og rækta þar upp samfélagslega ábyrgðarkennd. En það væri meira en að segja það að koma slíku í verk, meðan hugarfar þeirra sem stjórna þar er óbreytt. Það þarf því að senda hið bankakerfislega mannætuhugarfar græðginnar sem fyrst aftur til skrattans sem lagði það til !

 

Og auðvitað ættu yfirvöld lands og þjóðar að hafa forustu um manndómslega endur-hæfingu í bönkunum og hvernig gætu þau það ? Þau eru nú þannig að þau þyrftu ekki síður sjálf að endurhæfast og vígjast þjóðlegri dáð. Það dylst engum manni eins og málin horfa við. En hver á að moka allan skítinn út ?

 

Gæti það orðið og er einhver von til þess að þjóðin geti eignast óspillt og frambærilegt forustulið, miðað við hið vægast sagt ömurlega spillingarstig kerfisheildarinnar í dag, sem hlýtur að blasa við hverjum manni sem hefur heila sjón ? Hvaða trú hafa menn á þeim möguleika eins og málin horfa við okkur í tíðaranda dagsins ? Svari því hver fyrir sig ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 58
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 627
  • Frá upphafi: 365525

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 539
  • Gestir í dag: 54
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband