Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um breskan blekkingaferil !

 

Athyglisvert er hvernig Bretar hafa alltaf tekið á málum gagnvart Rússum. Það á við um stjórnmálamenn þeirra, bankayfirvöld þeirra og auðhringa, fjármálaheiminn allan og hermálayfirvöld, sagnfræðinga þeirra, aðalinn og menntamannaelítuna. En sennilega býr þarna að baki afar inngróin minnimáttarkennd !

 

Það þarf eiginlega sálfræðing og hann verulega glöggan til að skilja afstöðu Breta í þessum efnum. Þeir sviku Tékkóslóvakíu ásamt Frökkum, ríki sem þeir höfðu þó tekið ábyrgð á, um 20 árum fyrr við stofnun þess. Eftir Munchensvikin sagði Churchill að sögn, í bréfi til Chamberlains : ,,You were given the choice between war and dishonour. You chose dishonour and you will have war !“

 

Þegar Hitler ætlaði að leika sama leikinn gagnvart Póllandi, var Bretum loks nóg boðið og þeir sögðu Þýskalandi stríð á hendur í septemberbyrjun 1939 og Frakkland líka. Þjóðverjar rúlluðu Frakklandi upp á stuttum tíma, enda var fimmta herdeildin franska búin að vinna þar sitt verk. Ekkert virkaði rétt hjá Frökkum. Þeir sköpuðu þar sjálfir sína aumustu stund með svikara út um allt !

 

Breski herinn á meginlandinu var síðan rekinn til Dunkirk og þá voru Bretar verulega illa staddir. Þaðan tókst þeim þó að flýja yfir sundið, því hver fleyta var send yfir það til að bjarga hernum heim. En Bretar urðu að skilja eftir allan sinn búnað. Það var Vesturlanda viðskilnaður á Afghanistan-vísu. Og hver var búnaðurinn ? Við skulum skoða það. Það sem þeir skildu eftir handan sundsins af hergögnum var sem hér segir :

 

Meira en 2000 fallbyssur, 60 þúsund farartæki, 76 þúsund tonn af skotfærum og 600 tonn af bensíni. Þar við bættist tap við alla flutningana yfir sundið sem var yfir 200 skip og 177 flugvélar, þar á meðal 40% af bestu sprengjuflugvélum Breta. Eftir þessa útreið var talið að í Bretlandi væri eftir búnaður fyrir tvö herfylki, en Þjóðverjar réðu þá yfir meira en 200 slíkum. Bretar tóku jafnvel gamlar byssur af söfnum í neyð sinni !


Þessi atburðarás var vorið 1940 og Bretar voru sem sagt orðnir allslausir um miðjan maí. En skömmu áður höfðu þeir sent til Finnlands hernaðarhjálp og það gerðu Frakkar líka. Við skulum líta á þá ,,aðstoð” hér á eftir, og vera jafnframt minnug þess hver staða Breta og Frakka var á þeim tíma, bundin algjöru hernaðarlegu allsleysi !

 

En áður en við gerum það, skulum við gera okkur grein fyrir því að það höfðu aðrir verið að styrkja stöðu sína fyrir komandi uppgjör. Þegar stjórnvöld í Moskvu fóru að bregðast við stríðshættunni sem var orðin yfirvofandi ógn vegna framferðis Þjóðverja, kröfðust Sovétmenn lands af Finnum til að tryggja varnir Leningrad fyrir hið komandi uppgjör sem allir vissu að hlaut að vera á leiðinni. Þeir buðu Finnum land í staðinn norðurfrá. Finnar höfnuðu boðinu og svokallað Vetrarstríð hófst eftir það, 30. nóvember 1939 !

 

Upp úr því ákváðu ríkisstjórnir Bretlands og Frakklands að senda her til aðstoðar Finnum gegn Sovétríkjunum, en það fórst fyrir, líklega vegna þess að sænsk stjórnvöld neituðu að leyfa slíkum her að fara yfir sænskt land. En á þessum tíma, þegar umrædd ríki voru mjög illa í stakk búin að öllu leyti til að mæta árás Þjóðverja á Frakkland sem hófst um 10. maí, var ákveðið að senda Finnum hergögn úr mjög svo takmörkuðu hergagnabúri Breta og Frakka !

 

Allt sem þessar þjóðir sendu Finnum er skráð og vitað. En sannleikur málsins var að þeir höfðu ekki efni á að senda eitt eða neitt. Hin hægrisinnuðu valdaöfl í Bretlandi og Frakklandi voru enn að vona að það tækist að siga Hitler austur á bóginn. Út á það hafði hann verið fjármagnaður af þeim, Hann átti að kyrkja Sovétríkin, vinna verkið sem hafði mislukkast hjá hvítliðum í lok fyrra stríðsins, þrátt fyrir allan þann stuðning sem þeir fengu frá Vesturlöndum í hinni alræmdu fjórtán þjóða innrás í Rússland !

 

En þegar Sovétmenn höfðu séð að ekki var hægt að treysta Bretum og Frökkum til samstarfs varðandi vörn Tékkóslóvakíu, komu þeir með mótleik sem kom valdaklíkum viðkomandi ríkja algerlega á óvart. Þeir sömdu við Hitler.....!!!

 

Nú en var það ekki einmitt það sem Bretar og Frakkar höfðu gert í Munchen ? Sovétmenn voru enn að flytja verksmiðjur og varnarþing austur fyrir Úralfjöll. Þeir þurftu meiri tíma og fengu með þessu 22 mánuði, - tímann frá 23. ágúst 1939 til 22. júní 1941 og þeir nýttu sér auðvitað þann tíma eins og þeir frekast gátu !

 

Hitler nýtti sama tímann til að bruna í vestur og hjóla í algerlega óviðbúin Vesturveldin. Hatrið til Frakka var leiðandi afl hjá Þjóðverjum. Þeir höfðu ekkert að erfa við Rússa frá fyrra stríði. Allar götur síðan þetta gerðist, hafa Bretar bölsótast út í Sovétmenn fyrir það sem þeir kalla svikasamninginn við Hitler. Að þeirra mati áttu og máttu Rússar ekki semja við Hitler, aðeins þeir og Frakkar máttu gera það og svíkja hvað sem var í leiðinni !

 

Hvern sviku Rússar með því að reyna að tryggja sína hagsmuni ? Kannski Breta og Frakka sem voru búnir að margsvíkja þá ? Nei, Rússar sviku ekki neinn með þessu tímavinningsbragði sínu. En þeir gerðu nokkuð sem hvorki Bretar né Frakkar töldu nokkurn möguleika á að gæti gerst og það kom algerlega flatt upp á þá. Það situr enn í Bretum !

 

Rússum tókst að semja við Hitlers-stjórnina sem taldi sér hag í því að berjast ekki á tveimur vígstöðvum. Hugsunin var að fara í vestur og tryggja sig á meðan í austri. Það var undirritaður griðasamningur. Og úrslit stríðsins mæla með því að þar hafi Hitlersstjórnin leikið af sér, en Rússar tryggt sér þann ávinning sem dugði þeim til sigurs !


En Bretum, hinum krónísku tækifærissinnum í allri alþjóða-pólitík, er ógerlegt að líta á málið út frá þeim pólitísku klókindum sem í því fólust fyrir hagsmuni Sovétríkjanna. Þeir tönnlast sí og æ á svikum Rússa sem sviku ekki neinn, en Bretar og Frakkar sviku hinsvegar Tékka og Slóvaka í Munchen og það verður ævarandi ljótur blettur á hinum mjög svo óhreina skildi þeirra !

 

Í fordæmingu Breta felst hin breska hræsni, hin breska afstaða og hin breska sagnfræði í hnotskurn. Og hún helgast af þeirri grundvallarástæðu, að Bretar hafa líklega síðustu 300 árin þjáðst af stöðugum ótta við Rússa og stundað það að ljúga upp á þá öllu sem þeim hefur til hugar komið, til að ómerkja þá sem mest. Það er algerlega hefðbundin viðleitni hjá Bretum að stunda þá ófrægingu eins og þeir frekast geta !

 

Sú árátta byggist á sálarástandi þeirra. Þeir fylgja rómversku reglunni : ,,Ljúgðu og lastaðu sem mest. Þú getur treyst því að það situr alltaf eitthvað eftir !“ Og með þeim falska hætti fljúga breskar fjölmiðlalygar vítt um heiminn allar stundir, en nú er þeim hinsvegar ekki trúað nema að hálfu miðað við það sem var, því vægi Breta hefur minnkað svo mikið allar götur frá 1945 !


Lengi er þó mannskepnan að læra af reynslunni, enda sýnilegt af öllu að hin breska leið til þess hlýtur að vera afskaplega seinfarin !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 40
  • Sl. sólarhring: 94
  • Sl. viku: 1158
  • Frá upphafi: 397140

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1045
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband