Leita í fréttum mbl.is

Aumingja Noregur !

 

 

Það er meira en dapurlegt að velta fyrir sér stöðu Noregs sem ríkis nú á tímum, ekki síst með hliðsjón af þeirri virðingu sem borin var fyrir Norðmönnum á heimsvísu, fyrir ekki svo ýkja löngu. En jafnvel allt frá stríðslokum 1945 virðist álit Norðmanna jafnt og þétt hafa verið að minnka að gildi, og nú eru Norðmenn ekki taldir neinir sérstakir hugsjónamenn góðra gilda, eins og þeir voru eitt sinn álitnir vera, og líklega má færa nokkuð frambærileg rök fyrir þeirri breytingu þó sumir haldi kannski að ekkert hafi breyst !

 

Norðurlandaþjóðirnar bjuggu við lof og heiður fyrir 50 árum eða svo. Svíar hafa nú nánast eyðilagt sitt eigið land og allan frið innan þess, með arfavitlausri fjölmenningarstefnu kratismans til fjölda ára. Þeir sjá nú ekkert til ráða lengur annað en það að sameinast Nató. Það eitt sannar algjört gjaldþrot stefnu þeirra !

 

Hlutleysi Svía gagnvart stórveldaslagnum, sem gaf þeim 208 ára frið, er nú glatað mál vegna heimsku þeirra og hroka og staðfestir þeirra stærstu skömm. Við skulum þessvegna ekki hafa mörg orð um Svíþjóð. Sænska ríkið er nú aðeins skugginn af því sem það þótti vera og það á enga frambærilega stjórnmálamenn lengur og kemur heldur ekki til með að eignast þá sem undirlægja Nató !

 

Danmörk er að mörgu leyti merkilegt samfélag og líklega hefur því verið stjórnað best af þessum ríkjum, enda er þjóðin skynsöm og lætur ekki svo auðveldlega blekkjast. En samt hefur hún bæði ánetjast Nató og ESB og er þar af leiðandi enganveginn eins frjáls og hún var áður en þeir fjötrar komu til. Danir hefðu þurft að búa við færeyska stjórnun og hefðu þá komist enn betur frá málum !

 

En Noregur hefur þó sokkið miklu dýpra í Natópyttinn en Danir, þó enn hafi ekki verið bitið að fullu á öngul ESB. En eins og á Íslandi er norska stjórnkerfið eiginlega gengið í ESB þó þjóðlega staðfestingu þess vanti. Þannig eru norskir leiðtogar síst betri en druslurnar sem teljast stjórna á Íslandi og því er stöðugt verið að auka reglugerðaráþjánina frá Brussel í báðum þessum löndum. ESB fylgir forriti skrattans og tekur litla fingurinn fyrst og síðan afganginn í innleiðandi orkupakkaskömmtum !

 

Það er nánast með eindæmum hvað norska kerfisheildin er mikil Natósleikja og það tel ég meginástæðuna fyrir álitsfalli hennar í alþjóðlegum skilningi. Í Noregi hefur ekki komið fram bitastæður leiðtogi til fleiri ára. Líklega þarf að fara alla leið aftur til Einars Gerhardsens til að finna verulega virðingarverðan norskan leiðtoga. Þó hafði hann samt sínar takmarkanir sem slíkur !

 

Norðmenn hafa allt frá stofnun Nató verið að rýrna að virðingu í samfélagi þjóðanna. Þeir sjá ekkert annað í málum en að fylgja Bandaríkjunum í blindni. Enda eru þeir lofsungnir um öll Bandaríkin sem hin traustasta vinaþjóð og tryggustu fylgismenn Nató. Jafnvel Íslendingar falla þar í skuggann !

 

Norðmenn tryggðu Barack Obama friðarverðlaun Nóbels fyrir ódrýgðar dáðir, sem ekki hafa verið unnar enn og verða það seint. Það var í fyrsta sinn sem fangabúðastjóri fékk þessi vestrænu snobbverðlaun. Norðmenn eru líka hafðir fyrir sökum fyrir að hafa aðstoðað Kana við að sprengja Norður-straumsleiðslurnar í Eystrasalti samkvæmt upplýsingum bandaríska fréttamannsins Sy Hersh. Varla hefðu margir tekið að sér slíkt hlutverk af fullri þægð við ofurvaldið, en Norðmenn virðast hafa gert það. Vesturlönd hafa síðan hindrað alla rannsókn á þessu mengunar-hryðjuverki !

 

Það er þannig ekki af engu sem það þykir henta að hafa norskan dindil í forsvari fyrir Nató. Líklega væri það fátt sem Norðmenn myndu veigra sér við að gera ef bandarísku vinirnir bæðu um það. Norska ríkiskerfið er svo mikil undirlægja Nató og Bandaríkjanna að sumir myndu hiklaust efast um að það gæti talist á eigin vegum og sjálfstætt sem slíkt. Noregur virðist eiginlega orðinn eins og fimmtugasta og fyrsta ríkið í botnlausu hræsnissambandi hinnar bandarísku helgislepju !

 

Í síðari heimsstyrjöldinni reyndi mjög á manndóm norsku þjóðarinnar og þá komu fram margar hetjur sem börðust fyrir ættjörð sinni af fyllstu dáð við erfiðustu skilyrði. Menn eins og Gunnar Sonsteby, Claus Helberg, Morsetfeðgar í Selbu, Gunvald Tomstad á Hellu, Jan Baalsrud og ótalmargir fleiri sem geymast í þakklátu þjóðarminni meðan norskur manndómur er og verður til !

 

En svikararnir voru líka margir, afskaplega margir. Norskir föðurlandssvikarar voru til svo gjörsneyddir dyggðum og heiðarleika, að maður trúir því varla. Og maður spyr sig eiginlega furðu lostinn, hvaðan kom þessi illska sem í þeim bjó inn í norskt þjóðlíf ? Það er ekki af engu sem alþjóðlegt nafn yfir slíka menn, ef menn skyldi kalla, er tekið frá Noregi, af höfuðsvikaranum þar Quisling. Að vera kvislingur er í raun að vera ærulaus maður og þjóðarskömm sem slíkur !

 

Sú var tíðin að Vidkun Quisling majór var hermálafulltrúi við norsku sendisveitina í Leningrad. Hann mun hafa kvænst hvítliðakonu og störf hans í Sovétríkjunum voru af mörgum talin skuggaleg og gagnbyltingarlegs eðlis. Árið 1927 er breska stjórnin sleit stjórnmála-sambandi við Sovétríkin var majór Quisling, þá ritari við norsku sendisveitina í Moskvu, settur til að gæta hagsmuna Breta í landinu. Það sýnir berlega að það vantaði ekki að manninum væri treyst af breskum ráðamönnum þess tíma !

 

Fyrir þá hagsmunagæslu var Quisling síðar veittur breskur heiðurstitill og hann gerður að Honorary Commander of the British Empire. Eitthvað skyldi það nú heita. Síðar átti Quisling eftir að verða hermálaráðherra Noregs en endaði svo feril sinn sem nazisti og föðurlandssvikari af verstu gerð. Ekki var nú innrætið betra þegar það kom í ljós !

 

En hvað lærðu Norðmenn svo af seinni heimsstyrjöldinni ? Að best væri að skríða sem fyrst inn í hernaðarbandalag, að farsælla væri að þjóna hernaðarmarkmiðum en  friðar-markmiðum ? Og svo var Trygve Lie gerður að fyrsta aðalritara S.Þ. líklega vegna hins góða orðspors Norðmanna á alþjóðavísu á þeim tíma. Það átti líklega að tryggja eitthvað !

 

En Trygve Lie þjónaði þar bara á einn veg og vann sér því aldrei traust sem sá fulltrúi sem hann hefði þurft að vera, heimsins vegna. Því fór sem fór og S.Þ. varð smám saman lítið annað en málpípa bandarískra sjónarmiða og nú eru samtökin nánast einskis virði og búin að vera sem slík !

 

Stærstu þjóð veraldar var til dæmis haldið utan við samtökin í um aldarfjórðung og örlítið brot af henni fékk að leika þar hennar hlutverk allan þann tíma. Allt samkvæmt fyrirmælum bandarískra stjórnvalda og Noregur litli brást þar ekki stóru vinaþjóðinni. Heldur einhver skyni borinn maður að pólitísk bolabrögð af slíku tagi hafi verið í þágu heimsfriðarins ? Nei, S.Þ. klikkaði strax á fyrstu árum sínum, undir fyrsta aðalritara sínum !

 

Norðmenn sem ég ber ósvikna virðingu fyrir, auk virkra föðurlandsvina í seinni heimsstyrjöldinni, eru yfirleitt allir fyrri tíðar menn. Menn eins og Hans Nielsen Hauge, Fritjov Nansen, Roald Amundsen, Otto Sverdrup, Kristofer Brun, Hendrik Ibsen og nokkrir fleiri. Jafnar slíkra karaktera virðast ekki prýða Noreg nú á tímum. Þjóðlegur undirlægjuháttur stuðlar ekki að því að slíkir menn komi fram !

 

Læt ég svo úttalað um Noreg þó mér finnist dapurlegt hvað norska þjóðin hefur smækkað sig á seinni árum og kokgleypt auðvalds-hyggjuna og gleymt sínum fyrri félagshyggju hugsjónum, sem hennar bestu menn studdu og leiddu fram til sigurs, til fullra hagsbóta fyrir almannahag. En sú úrkynjunarbölvun er líklega sameiginleg nú til dags með Íslandi og Noregi !

 

Græðgin ein virðist nefnilega öllu ráða núorðið í báðum þessum löndum. Það virðist ekkert vaxa þar lengur nema peningavaldið eitt í öllum lífsgróðri í þjóðlífi þeirra beggja, - og að því er virðist - við næstum fullkomið manndómsleysi !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 167
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 736
  • Frá upphafi: 365634

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband