Leita í fréttum mbl.is

,,Karlavígin falla !“

 

 

 

Um alllangt skeið hefur hljómað í fjölmiðlum landsins sú sigrihrósandi yfirlýsing sem er fyrirsögn þessa pistils. Og um leið er líklega verið að segja að samfélagið allt græði á því að hin og þessi karlavígi séu fallin. Og víst væri það gott ef svo væri, en spurningin er hinsvegar sú – er það í raun og veru svo ? Tökum dæmi af einum vígstöðvum hins daglega lífs :

 

Fyrir hálfri öld voru kennarar í barnaskólum landsins líklega að miklum meirihluta karlmenn. Í kennaraskólanum voru nemar undir leiðsögn afburðamanna eins og Magnúsar Helgasonar og Freysteins Gunnarssonar. Þeir skiluðu af höndum sér heilum hópum hugsjónafólks, bæði körlum og konum, sem gengu síðan til starfa af þjóðhollustu og skyldurækni. Þá vantaði ekki að börnin lærðu að lesa !

 

Nú er margt breytt. Meðal annars það, að nú eru konur líklega í yfirgnæfandi meiri-hluta kennarar í grunnskólum landsins. Þar var sem sagt eitt karlavígið fallið og margir fögnuðu því trúlega sem áfangasigri í yfirlýstri jafnréttisbaráttu, ekki síst konur. En þó að umræddir skólar séu nú í höndum kvenna hvað kennsluna varðar, hefur lestrarkunnátta barna verið á hraðri niðurleið á undanförnum árum. Það er jafnvel til í dæminu að nemendur klári grunnskólastigið án þess að vera orðnir læsir. Slíkt er auðvitað ekki boðlegt, en hvað veldur ?

 

Það hlýtur eitthvað að vera bogið við kerfið og uppfræðsluna, því varla eru börn Íslands orðin þetta miklu heimskari í seinni tíð, en þau voru þegar karlar voru mikið til einir um að kenna þeim að lesa. Af hverju er stétt sem var karlastétt en er núna orðin kvennastétt, að skila af höndum sér börnum sem kunna ekki að lesa ?

 

Af hverju er þessi mikla afturför orðin á ekki lengri tíma en raun ber vitni ? Er tíðarandinn á móti lestrarkunnáttu ? Ekki virðist hinn stóraukni glæpasagnalestur landans undirstrika það. Hvað er þá að ? Hlutirnir eru greinilega ekki að skila sér !

 

Það getur ekki talist gott að karlavígi samfélagsins falli, ef útkoman verður með þessum hætti. Konur jafnt sem karlar verða að standa sig við það sem þau gera. Það eitt styrkir samfélagið. Margt er rætt um þennan afskaplega nöturlega samfélags-vanda, en sannarlega ekki á þeim nótum sem gert er hér !

 

Grunnskólakennarar hljóta að vera í lykilstöðu varðandi það að kenna börnum landsins að lesa. Þeir hljóta að bera ábyrgðina á því að börnin nái þessu mikil-væga menntunarstigi – að læra að lesa. Þeir gerðu það með sóma áður fyrr, en eitthvað virðist vanta verulega inn í dæmið núna. Vígið hefur verið endurskipað, þar er ný áhöfn til staðar, að miklu leyti konur í stað karla, en af hverju ganga mál ekki eins og þau gerðu áður ?

 

Það kann að felast í einhverjum breytingum sem hafa verið gerðar eða hafa átt sér stað. Og hverjar eru þær ? Af hverju er útkoman svona slæm ? Hvað er vanrækt í þessu sambandi ? Það virðist blasa við, að kennarar í grunnskólum landsins valdi ekki lengur því hlutverki að gera börnin læs. Grundvallarforsenda menntunar virðist þannig vera að gufa upp í höndum þeirra sem eru beinlínis menntaðir til að hún skili sér þjóðinni til farsældar !

 

Og ráðamenn kunna sýnilega engin ráð til að leysa vandann, frekar en vant er, og enginn nefnir það sem kann að vera meginorsök vandans. Að kennarar ráði ekki lengur við verkefnið af einhverjum ástæðum. Þeir eru kannski að sinna einhverju öðru sem þeim finnst standa sér nær og allur slagkrafturinn fer í það, svo sem eigin mannréttindum og launabaráttu !

 

En á hvaða kaupi eiga kennarar að vera sem geta ekki kennt nemendum sínum að lesa ? Það er full ástæða til að spyrja þess ? Það er nefnilega ýmislegt í hættu sam-félagslega séð ef þessi ófarnaðarvandi heldur áfram að versna með hverju árinu. Íslenska bókaþjóðin gæti þessvegna smám saman verið að hverfa - vegna þess að uppvaxandi landslýður sé ekki lengur læs !

 

Í mínum huga skiptir það engu hvort svonefnd vígi samfélagsins séu skipuð körlum eða konum. En ég ætlast til þess, sem ábyrgur borgari í þessu landi, að þessi vígi skili sér með skyldur þær sem þau eiga að inna af hendi fyrir sam-félagið. Það er frumskilyrði þess að mál gangi eins og þau eiga að gera !

 

Konur verða jafnt sem karlar að axla þá ábyrgð sem því fylgir að verja vígið. Vígið þarf að skila sinni vörn og sinni grunnþjónustu út í samfélagið. Annars er það ekki að standa sig. Og í þessum vanda sem við blasir, virðist ljóst að einhverjir eru ekki að standa sig. Það þarf því að rannsaka þetta vandamál með einbeittum vilja til að leysa það. Það dugir ekki að vera alltaf að hugsa um það að hlífa öllu og öllum í leiðinni. Sú nálgunaraðferð leysir ekki neitt !

 

Kerfið og þeir sem þjóna þjóðarskyldum, í gegnum menntakerfið, heilbrigðiskerfið og önnur kerfi samfélagsins, verða að vera færir um að skila því sem skila ber – og axla þá ábyrgð sem í því felst. Aðeins með þeim hætti fær þjóðfélagið haldið velli til frambúðar !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 167
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 736
  • Frá upphafi: 365634

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband