Leita í fréttum mbl.is

Fullveldið fellt og svikið – inngangan í Nató !

 

Mesta ógæfa Íslands á tuttugustu öldinni var að svíkja hlutleysisstefnuna frá 1918 og ganga í Nató. Frá þeim tíma höfum við átt mjög erfitt með að vera Íslendingar með hreinræktuðum hætti. Ákvörðunin um þessi svik var framkvæmd með löglausum hætti og sjálfstæði Íslands fótum troðið !

 

Séð var til þess með pólitískum bola-brögðum að málið færi ekki í þjóðar-atkvæðagreiðslu, en þá hefði það vísast verið fellt. Síðan hafa í sama óræktaranda öll stærstu sjálfstæðismál okkar verið leidd framhjá þjóðinni. Það er arfurinn frá hinni löglausu inngöngu í hernaðar-bandalagið Nató !

 

Síðan 1949 hefur Ísland ekki verið sjálf-stætt ríki nema að nafninu til. Við höfum í raun verið ómerkilegt viðhengi við Bandaríkin og Nató. Virðing okkar í þjóða-samfélaginu er miklu minni en hún hefði getað verið, ef við hefðum ákveðið að ganga uppréttir og halda fast við full-veldisyfirlýsingu okkar frá 1918. ,,Allt verður Íslands óhamingju að vopni“ var einu sinni sagt, og aldrei höfum við lagst eins lágt eins og við gerðum 1949 og aldrei hafa verið gerð meiri mistök í allri þjóðarsögu okkar frá upphafi !

 

Það er sárgrætilegt að lesa ræður eftir menn sem voru í forustu hægriflokkanna á þeim tíma, ræður sem þeir fluttu rétt áður en þeir urðu múlbundnir og gerðir að þjónustumönnum Nató. Þar töluðu þeir sem sjálfstæðir Íslendingar, en svo hættu þeir allt í einu að vera það !

 

Það finnst svo greinilega á því sem þeir sögðu eftir það, að þeir voru ekki lengur frjálsir menn. Þeir voru komnir undir erlent vald og máttu ekki lengur tala sem frjálsir Íslendingar. Þaggað var niður í Einari Þveræing og Grímsey var gefin !

 

Svokallaðir sjálfstæðismenn, fluttu ræður 1. desember í stríðslokin og fóru mikinn. Þeir voru miklir landvarnarmenn í tali sínu þá. En skömmu síðar skitu þeir í allt sem þeir höfðu sagt sem uppréttir Íslendingar og hafa gengið bognir og mannskemmda-skakkir allar götur síðan, ásamt þeim sem með þeim sviku réttindi lands og þjóðar. Það var sannarlega brotlending allrar þjóðlegrar reisnar !

 

Þessir fullveldisfötluðu menn töpuðu öllum manndómi sínum í hendur utan-landsöflum 1949 og urðu aldrei samir eftir það. Þeir reyndu að byrgja inn í sér skömmina, en vissu það flestallir eftir reynsludóminn, að þeir höfðu brugðist helgustu skyldum sínum !

 

Þessvegna komu þeir alltaf fyrir sjónir eftir það sem flóttalegir og sakbitnir menn og þannig fóru þeir af sviðinu. Íslendingur án frelsis og sjálfstæðis, getur aldrei orðið annað en skugginn af því sem hann ætti að vera - sem maður !

 

Hvort við Íslendingar náum aftur eðlilegu og virðingarverðu sjálfstæði sem þjóð er mikið vafamál. Mestur hluti þjóðarinnar hefur verið alinn upp við blekkingar hvað það snertir í áratugi og hefur aldrei skilið hvað við misstum 1949 !

 

Þjóðhollusta og sjálfstæðisvitund hefur því lotið afbrigðilegum vaxtarskilyrðum um langt skeið í landinu og það hefur brenglað heilbrigð viðhorf til þjóðlegra gilda. Það sem vaxið hefur upp er að miklu leyti kræklótt og bogið. Sú útkoma hefur valdið ómælanlegum þjóðlegum skaða !

 

Enginn veit hinsvegar hvað verður og kannski verður hægt að græða sárin og leiðrétta glapræðið frá 1949. Hver veit nema eitthvað það gerist sem gefur þjóðinni vit sitt aftur og það frelsi til hugar og sálar sem sérhver þjóð verður að eiga til að hún geti notið virðingar meðal þjóða heimsins. Vonandi getur það gerst, en ekki er samt hægt að vera bjartsýnn á þær horfur !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 169
  • Sl. sólarhring: 215
  • Sl. viku: 738
  • Frá upphafi: 365636

Annað

  • Innlit í dag: 164
  • Innlit sl. viku: 649
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 162

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband