Leita í fréttum mbl.is

Hvers virði er að hafa hreinan skjöld ?

 

 

 

Hvers virði er að hafa hreinan skjöld ? Það er ekki lítil nauðsyn að spyrja þess nú á tímum þegar öll óhreinindi virðast vel þegin, bara ef þau skila einhverjum ágóða. En sú var tíðin að menn reyndu að vera sómakærir og sjálfum sér samkvæmir !

 

Auðhyggja skilar engu góðu inn í sálir manna. Ágirnd er ein versta synd sem hægt er að burðast með. ,,Ágirndin er undirrót alls ills“ segir Ritningin. Hefði ágirndin ekki verið til sem slík hefðum við Íslendingar aldrei farið inn í Nató og Íslenskir aðalverktakar líklega aldrei orðið til á sínum upphafsgrunni. Hvorttveggja hefði þá verið hrein blessun fyrir land og þjóð !

 

Við Íslendingar lögðum af stað eftir fengið fullveldi 1918 með hreina, þjóðlega stefnu. Þrjátíu árum síðar virtist stór hluti ráðamanna okkar vera á hlaupum eftir silfurpeningunum þrjátíu, hlut þeirra sem sækjast alltaf eftir svikalaunum. Ekkert hreint var lengur virt af þeim söfnuði. Litla, herlausa friðarþjóðin skyldi leidd inn í hernaðarbandalag og gerð ábyrg fyrir eftirkomandi ófriðarmálum og glæpum stríð-andi stórþjóða. Aldrei lagðist uppsett forustulið Íslendinga lægra en 1949, jafnvel ekki 1262 !

 

Og síðan hefur skjöldur okkar Íslendinga safnað óhreinindum vegna afleiðinganna af þeim svikum sem þá voru framin. Við erum meðábyrgir og meðsekir um manndráp í stórum stíl meðal annarra þjóða. Hvernig gátum við látið fara svona með okkur ? Hvernig gátum við sagt skilið við nánast allt sem gerði okkur að virðingarverðu fólki ? Við sem vildum enga manneskju deyða ?

 

Við Íslendingar vorum skráðir á sínum tíma í bandalag viljugra þjóða til ofbeldis-verka og drápa á fólki sem hafði aldrei gert okkur neitt. Fjölmargar slíkar af-leiðingar í áratugi tengjast hinni lýð-ræðislausu og skammarlegu inngöngu Íslands í Nató 1949 !

 

Það er vont að hafa þetta á samviskunni fyrir litla herlausa þjóð. Hvernig stóð á því að margir forustumenn í okkar þjóðlífi virtust ekki sjá neitt athugavert við það fyrir okkur Íslendinga að taka sameigin-lega ábyrgð á drápum á fjölda fólks erlendis í nafni hernaðarbandalags ?

 

Var stofnun íslensks gróðafyrirtækis á pólitískum og persónulegum sérkjörum, kannski nægileg syndaaflausn fyrir hið hræðilega þjóðlega gildisfall í augum viðkomandi manna ? Hverskonar Íslendingar voru það sem virtust sjá framtíð okkar sem þjóðar með þeim hætti ? Voru þeir kannski gripnir af sturlun, eins og hinir svonefndu höfðingjar Sturlunga-aldarinnar, sem seldu sig erlendu valdi ? Var þeim kannski sama um örlög þjóðar sinnar ?

 

Nú hefur minningu manns sem allir vita að gerði margt gott á sinni ævi, verið ýtt út í horn vegna vafasamra yfirlýsinga sem seint verða sannaðar og kunna meðal annars að byggjast á einberum söluáróðri og einkahagsmunum. Hvað með regluna sem segir að enginn maður eigi að teljast sekur fyrr en sekt hans er sönnuð svo hafið sé yfir vafa ?

 

Og í því sambandi spyr maður, ef svo á til að ganga, hvað með þá menn sem tóku ákvarðanir sem ljóst er að skaðað hafa stórlega orðspor lands og þjóðar í áratugi ? Eiga þeir áfram að vera á stöllum hjá þeirri þjóð sem enn býr við afleiðingar þess hryðjuverks sem unnið var með þeirra stuðningi ? Eigum við þá að búa þar áfram við falskar fyrirmyndir ?

 

Er ekki löngu orðið tímabært að setja á fót Sannleiksnefnd sem gerir upp málin varðandi þau óbætanlegu svik við þjóðina sem þá voru unnin ? Eða viljum við hafa þjóðarskjöld okkar áfram útskitinn eftir Natóaðildina, sem hefur leikið okkur jafn illa og raun ber vitni, þó einhverjir ,,bissnisskarlar“ í ákveðnum flokkum hafi malað gull í gegnum það svínarí um langt skeið, okkur hinum til hneisu og vansa ?

 

Hvers virði er það fyrir þjóð að halda skildi sínum hreinum og forðast að ganga með blóði drifnar ábyrgðarhendur vegna glæpaverka annarra ? Svari því hver fyrir sig, en mitt svar er skýrt. Ég vil að mitt land og mín þjóð haldi frið við allar þjóðir og kappkosti að bera þar hreinan skjöld !

 

Þá getur Guð vors lands verið með okkur í öllu og haldið verndarhendi sinni yfir landi og þjóð og þá vernd megum við ekki missa. Miðvers Ritningarinnar segir : ,, Betra er að treysta Guði en mönnum !"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 53
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 622
  • Frá upphafi: 365520

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband