Leita í fréttum mbl.is

,,Íslenskir innviðir !“

 

 

 

Eins og flestir hljóta að vita, eru innviðir íslenska ríkisins og þar með íslenska þjóðfélagsins, eða það sem eftir er af þeim, komnir í mjög brothætta stöðu. Einmitt við þær hrynjandi aðstæður, er farið að flagga með sérstökum innviða-ráðherra, en sú uppstilling mála virðist látin koma fram eins og vísvitandi blekkingartilraun af forhertara tagi !

 

Síðustu þrjátíu árin hefur pólitísk einkavinavæðing verið á teikniborði auðvaldssinnaðrar arðránsmafíu skugga-afla í þessu þjóðfélagi okkar. Ríkiseignir hafa verið seldar, gefnar eða gleyptar upp af sérvöldum gullkálfum fyrrnefndra afla, sem eru á engan hátt þjóðleg eða samfélagsvæn, fremur en annað ræningjakyns !

 

Þetta hefur verið gert með alls konar klækjakúnstum og umsnúningi á öllu því sem ætti að teljast rétt. Íslenska ríkið hefur verið rænt flestum þeim eignum sem þjóðin kom sér upp með sameiginlegu átaki fyrr á árum. Það var ekki hægt að byggja slíka innviði upp með öðrum hætti, en nú hefur einkavæðingar-sérgæskan, fyrir náð póli-tískra vina, hirt þessa innviði úr eignasafni þjóðarinnar, og arðrænir svo samfélagið með þjónustu sem áður var höfð á miklu mannsæmilegri forsendum !

 

Á árunum 1992 til 2003 voru eftirfarandi ríkisfyrirtæki yfirtekin eða ,,einkavædd“ eins og það er kallað : Áburðarverksmiðjan í Gufunesi, Barri hf., Bifreiðaskoðun hf., Búnaðarbanki Íslands hf., Ferðaskrifstofa Íslands, Fjárfestingabanki atvinnulífsins hf., Framleiðsludeild ÁTVR, Hólalax hf., Intís hf., Íslenska járn-blendifélagið hf., Íslenskir Aðalverktakar hf., Íslensk endur-trygging hf., Íslenskur markaður hf., Jarðboranir, Kísiliðjan hf., Landsbanki Íslands hf., Lyfjaverslun Íslands hf., Menningarsjóður, Skólavörubúð Námsgagnastofnunar,, Gutenberg prent-smiðjan, Ríkisskip, Rýni hf., Skýrr hf., SR-mjöl hf., Steinullarverksmiðjan hf., Stofnfiskur hf., Þormóður Rammi hf., Þróunarfélag Íslands, Þörungaverksmiðjan hf.!

 

Frá 2003 til 2007 bættust svo við einka-væðingarránið, Sements-verksmiðjan hf., Landsími Íslands hf., Lánasjóður Land-búnaðarins, Hitaveita Suðurnesja og Baðfélag Mývatnssveitar !!!!!

 

Bylting græðgisafla frjálshyggjunnar og auðvaldsins náði ekki einungis til ríkisfyrirtækja. Á sama tíma sáu hugar-farsbreyttir innanbúðarmenn sér leik á borði með að ræna eignum stærsta einstaka atvinnurekanda landsins, Samvinnu-hreyfingunnar. Það rán gekk svo geyst yfir, að enginn náði að bregðast við því, þegar þessi félagshyggjuhreyfing, sem hafði tekið meira en heila öld að byggja upp, hvarf ofan í vasana á gjörspilltum græðgislubbum !

 

Kvótakerfið, sem komið var á af stjórnmálamönnum, sem voru í sumum tilfellum tengdir við stór útgerðarfélög á landinu, tryggði að nokkrir aðilar eignuðust dýrmætustu auðlind þjóðarinnar og líklega var það og er alvarlegasta brotið sem framið hefur verið gegn þjóðinni og heildarhagsmunum hennar allt frá 1918 !

 

Líklega er svo búið að einkavæða heilbrigðiskerfið að hálfu, þó allar skoðanakannanir hafi sýnt yfirgnæfandi fylgi þjóðarinnar við það fyrirkomulag að kerfið verði á ríkisins vegum. En svo illa er hægt að fara með kerfið í því fari, að það gagnist ekki þjóðinni og virðist sem ýmis öfl leggi hart að sér til að svo verði !

 

Nú á kerfið að vera rekið samhliða undir ríkinu og einka-framtakinu. Menn virðast þjóna þar tveimur herrum og það hefur löngum verið sagt að slíkt væri ógerlegt. Enginn þjónar tveimur herrum jafnt. Hvor aðilinn skyldi þá heldur búa þar við brigð, ríkið eða einkaaðilarnir ? Hver og einn getur hugleitt það fyrir sig !

 

Það er sama hvert litið er, innviðir Íslands eru komnir að mestu í hákarla-hakkavél kapitalismans og út úr henni kemur aldrei neitt gott fyrir almannaheill. Og svo þykjast stjórn-málamenn landsins standa stöðugir á vakt fyrir þjóðarhagsmunum og öryggi Íslendinga ? Þessi pistill undirstrikar og ber með sér að þeir gera það ekki og hafa aldrei gert það síður en nú á dögum !

 

Það er skoðun sífellt fleiri borgara þessa lands, að það séu ekki margar þjóðir í þessum heimi sem búa við jafn handónýtt forustulið og Ísland, og einmitt þessvegna er allt að hruni komið varðandi innviði íslenska ríkisins og staðan versnar stöðugt. Það er nefnilega enginn á vakt fyrir þjóðarheill !

 

Svo spyrja má - yfir hvaða innviði er nú farið að setja sérstakan ráðherra, - á að fara að vernda hlutina þegar allt er farið sem fórn til Mammons og komið í tröllahendur ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 819
  • Frá upphafi: 356664

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 651
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband