Leita í fréttum mbl.is

Um niðurrif íslensks samfélags !

 

 

Margt íslenskt fólk er orðið svo yfir sig þreytt á lífsaðstæðum hérlendis, að það flytur úr landi og sumir hafa við orð að þeir muni aldrei koma hingað aftur. Samfélagskerfið er orðið svo spillt og fjarri því að vera mannvænt, að æ fleirum ofbýður það og hvernig komið er fram gagnvart almenningi, ekki síst af stjórnvöldum. Kapítalisminn veður yfir allt og peningagræðgin virðist hafa flæmt alla dómgreind og siðvitund út í hafsauga !

 

Fjármálaspillingin,mannfyrirlitningin,

vaxtaokrið, leiguokrið, öll húsnæðismála-kúgunin og ófrelsið til lands og sjávar, er að breyta Íslandi í samfélag sem er að verða allt sem það átti ekki að verða. Það getur ekkert heilbrigt fólk fundið til stolts yfir því að tilheyra slíku ríkisóbermi.

Hér er óhæft kerfislið á hverri tröppu valdastigans og framasjúk goggunarröðin gengur fyrir öllu. Íslensk velmegun er bara til hjá auðmannaklíkum og ríkis-jötuhyski sem arðræna samfélagið frá degi til dags með öllum hugsanlegum hætti !

 

Hér hafa kerfissköpuð auðvaldskvikindi traðkað yfir allt sem mannlegt var og peningavaldið ræður lögum og lofum með alla skapaða hluti. Auðlindir lands og sjávar, eignir þjóðarinnar, eru meira og minna komnar í hendurnar á ógeðslegustu fyrirbærum íslenskrar sögu. Og íslenska ríkið hefur haft alla forgöngu um þau blygðunarlausu svartnættis svik gagnvart lífshagsmunum þjóðarinnar. Kvótakerfið hefur sannað það til fulls !

 

Íslenskt samfélag er orðið skammarlegt fyrirbæri. Það er búið að gera það með pólitískum hætti að einhverskonar afskræmislegri Litlu-Ameríku, sem sýgur í sig alla lesti og ómennsku úr vestrænum viðbjóðsheimi og telur sig menningarlegra fyrir vikið. Staðreyndin sýnir hinsvegar hrollkalda veruleikamynd, sem fjarlægist stöðugt meira það sem að var stefnt, meðan heilbrigðri dómgreind var fylgt í þessu landi !

 

Auðvald og frjálshyggja er innflutt bölvun fyrir íslenska þjóð. Það sem gagnast getur litlu þjóðinni okkar best er félagshyggja og samhjálp. Sú var tíðin að þjóðin efldi með félagslegri samstöðu þrjár fjölda-hreyfingar í landinu, til almannaheilla. Í krafti þeirrar samstöðu voru miklir og góðir sigrar unnir. Það voru Ungmenna-félagshreyfingin, Samvinnuhreyfingin og Verkalýðshreyfingin sem unnu þá sigra með stuðningi fólksins í landinu !

 

Nú hefur peningavaldið eyðilagt ávinning þessarar þjóðlegu og félagslegu sóknar að stórum hluta. Allt er nú metið til verðs. Íþróttahreyfingin virðist nú undirlögð peningasjónarmiðum og ískaldri gróða-hyggju. Ræktun lands og lýðs er sýnilega ekki lengur neitt takmark. Samvinnu-hreyfingin hefur verið rústuð innanfrá af forhertu eiginhagsmunaliði. Verkalýðs-hreyfingin er í mörgu spillt og ótrúverðug því þar virðast margir í forustu sem ættu þar ekki að vera – þjóðarinnar vegna, fólksins vegna !

 

Þannig hefur hin ómannlega græðgi auðvalds og frjálshyggju leikið þjóðina okkar. Hvernig náum við að ganga til góðs á nýjan leik ? Kenningar kristindóms og góðra siða eru flæmdar burt úr skólum og uppeldis-stöðvum. Reynt virðist sem ákafast frá byrjun, að innræta börnunum okkar rangan rétttrúnað, með atfylgi ríkis og sveitar-félaga. Auðmannaklíkur Íslands hafa aldrei verið öflugri, meira kerfisráðandi og samviskulausari en þær eru í dag !

 

Slíkar klíkur eru orðnar aðall í landinu og herja í öllu á almannahagsmuni. Hvenær ætlar þjóðin að skilja að það þarf að mynda samstöðuhreyfingu og berjast gegn Mammons alinni sérgæsku þessara óþjóðlegu, kerfissköpuðu afla ? Gegn slíkum óþurftar-öflum þarf að bregðast með samstilltu þjóðarátaki. Almannaheill Íslands er í veði !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband