Leita í fréttum mbl.is

Félagshyggjuna upp – örvæntinguna og vonleysið niður !

 

 

 

Ástæðan fyrir sjálfsvígum í samfélaginu virðist að stórum hluta vera sú, að fólki líst ekki á þróun þess, stöðu þess og áherslur. Það finnur sig ekki lengur eiga heima innan þeirrar framvindu sem það telur að sé að eiga sér stað. Framtíðarsýnin verður myrk hjá því og vonin deyr smám saman fyrir því að það geti átt möguleika á hamingjuríku lífi. Heimsmyndin er heldur ekki til að lífga upp á neitt í þessu sambandi og virkar stöðugt neikvæðari !

 

Ungt fólk er sérstaklega viðkvæmur hópur í þessu tilfelli, því sívaxandi sérgæska í samskiptum fólks fer illa í það, og ýtir undir það viðhorf að hver maður sé í raun einn á báti. Enginn sé til staðar til að hjálpa og samfélagið sé orðið kalt og kærleikslaust. Þú verðir bara að spjara þig í gráðugri hákarlavöðu nútímans, uppfullri af frjálshyggju og markaðs-öfgum, og verjast því með hörku að verða étinn upp til agna efnahagslega af öðrum. Varla sé hægt að tala um heilbrigt samfélag við slíkar aðstæður, miklu frekar gróft og græðgisvætt einstaklinga-þjóðfélag !

 

Margt ágætis fólk sem hefur verið að berjast sinni lífsbaráttu og lagt hart að sér við að skapa sér og sinni fjölskyldu góðar lífsaðstæður, hefur orðið fyrir því að missa börnin sín út í svartnætti óreglu og erfiðleika sem hefur jafnvel endað með sjálfsvígi. Það hefur ekki gefist neinn tími fyrir uppbyggileg, félagsleg samskipti í harðskeyttri lífsbaráttunni, og þegar hinn efnalegi sigur er kannski í sjónmáli eða í höfn, er annað farið sem var óendanlega mikilvægara og verður aldrei endurheimt !

 

Þá er fórnarkostnaðurinn orðinn hærri en nokkur getur staðið undir, jafnvel þó líf sé fengið með þeim ytri gæðum sem sóst var eftir. En samfélag okkar í dag virðist óhikað stefna þessa leið. Félagslegar og samfélagslegar dyggðir eru hrópaðar niður af sérgæskumönnum Mammonshyggjunnar og peningaöflin hamast við það að brjóta manngildið niður og keyra auðgildið upp. Og afleiðingarnar láta ekki á sér standa og þær geta aldrei orðið annað en illar !

 

Þegar manneskjur eru komnir í þann vítahring sálarkreppu og einsemdar – að mestu leyti af mannavöldum, að þær líta á samfélagið sem sívaxandi ógn og geta ekki lengur hugsað sér að vera hluttakendur í því, ættu hættumerkin vissulega að vera orðin mörg og þau eru það sannarlega !

 

En hraðinn í nútímanum, eftirsóknin til hinna efnislegu gæða, veldur því að fólk sér oftast ekki hvað er í gangi fyrr en það er orðið um seinan. En ein sál hefur þá endanlega orðið úti, mitt í hringiðu hinnar fjölmennu samfélagsbræðslu sem er orðin nornaketill neikvæðra afla. Skaðinn er skeður. Svo bera margir sárin frá því sem gerist við slíkar aðstæður til æviloka !

 

Slíkir harmleikir eru miklu fátíðari í samfélögum sem byggja á félagshyggju og samhjálp, þar sem fólk er vakandi fyrir þörfum hvers annars. En í peninga-brjáluðu samfélagi týnist mörg manneskjan og á sér engan samastað. Þannig samfélag höfum við Íslendingar satt best að segja verið að hamast við að skapa mörg undanfarin ár !

 

Fyrirmyndin er líklega að mestu fengin frá Ameríku, hins óhóflega neysluríkis, sem gleymir svo oft mannlegum þáttum lífsins í græðgi sinni eftir efnahagslegum ytri gæðum. Af þessum sökum hafa aldrei verið til fleiri auðmenn á Íslandi en einmitt í dag og líklega flestir á vafasömum forsendum, þó almennings-kjörin eigi jafnt sem fyrr erfitt uppdráttar !

 

Akur lífsins á Íslandi er orðinn býsna kaldur. Það sækir frostkuldi að rótum þar og fátt yljar með afgerandi hætti. Og lyklabörnin verða þar úti, mörg hver, önnur búa ævilangt við afleiðingarnar af þeim skorti á umhyggju sem þau bjuggu við fyrstu lífsárin, meðan báðir foreldrarnir voru úti að vinna fyrir stöðugt meiri ,,nauðþurftum“. Þau verða að mæta lífinu, kalin á sál og sinni !

 

Það eru afleiðingar tilveru sem miðast hefur fyrst og fremst við efnishyggju en ekki tilveru félagslegra samskipta. Sumir halda að leikskólar komi að fullu í staðinn fyrir heilbrigða móðurást, en svo er ekki og getur aldrei orðið, jafnvel þó sumir þeirra þyki góðir !

 

Í hverju því tilfelli þar sem manneskja verður úti í samfélaginu er vissulega um harmleik að ræða, og þegar samfélagið er orðið svo snautt af samhjálp og heilbrigðri félagshyggju, að öll hjálp er sem í skötulíki, virðast oft allar bjargir bannaðar. Varnarráð kerfisins virðast oft frekar miðuð við að skapa öðrum vinnu, en að hjálpa þeim í raun og veru sem þurfa á hjálp að halda. Þessvegna verður útkoma þeirra bjargráða sem gripið er til oft svo nöturleg og í mörgum tilfellum verulega ómanneskjuleg !

 

En það þurfa margir á hjálp að halda vegna sálarlegrar neyðarstöðu. Og við slíku þarf að bregðast með skilningsríkum hætti og forða fólki frá þeirri samfélagsógn sem í slíku býr. Hvert líf sem glatast vegna hraðsóknar gráðugra viðhorfa efnishyggjuafla eftir vindinum, er líf sem hefði trúlega verið hægt að bjarga, ef fólk hefði í tíma getað tekið sér mannlegri stöðu og stillt lífsgæðakröfum sínum í meira hóf sjálfs sín vegna og samfélagsins !

 

,,Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ segir ævafornt spakmæli. Í því býr viska aldanna og gildið er og verður óhrekjandi. Félagsleg samkennd er ekki hátt metin eða skrifuð í íslensku nútímaþjóðfélagi. Vegna þess hafa margir þurft að líða. Algera hugarfarsbreytingu meðal þjóðar-innar þarf til þess að fólk - almennt talað – nái að skilja, að hugsun fyrir sálarheilli velferð heildarinnar, þarf alltaf að byggjast á hugsun fyrir sálarheilli velferð hvers og eins !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 164
  • Sl. sólarhring: 448
  • Sl. viku: 998
  • Frá upphafi: 378349

Annað

  • Innlit í dag: 152
  • Innlit sl. viku: 859
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband