Leita í fréttum mbl.is

Um lýðræðislegan ömurleika !

 

 

Hvað á þessi þjóð að kjósa ?

Það á lítið gott sér stað.

Passar fátt við punkta ljósa,

pólitíkin sér um það !

 

Framundan eru kosningar þar sem velja á fulltrúa á þing, að sögn til að annast hagsmuni íslensku þjóðarinnar næstu fjögur árin. ,,Það er vandi að vegsemd hverri“ segir spakmælið og auðvitað er það viss vegsemd að fá að kjósa. En hvernig stöndum við okkur í því ábyrgðarmáli ? Og hvernig eru flokkarnir sem bjóða fram og hvernig eru fulltrúar þeirra sem okkur er boðið upp á ?

 

Svarið við öllu þessu er líklega talsvert verra en það þyrfti að vera. Við höfum verið að lækka þau siðagildi sem oftast áður var reynt að fylgja. Siðfræðileg staða flokkanna er lakari en hún var og það virðist eiga við um þá alla. Fulltrúarnir sem boðið er upp á, eru þar af leiðandi ekki sérlega álitlegir. Fjöldi kjósenda er kominn í þá stöðu að vita ekki hvað þeir eiga að kjósa, þeim finnst ekkert frambærilegt í boði. Og það er því miður töluvert til í þeirri gagnrýni !

 

Mörg getur spurningin verið sem varpar ljósi á slæma stöðu mála. Hvernig erum við til dæmis að ala upp börnin okkar í dag ? Því sem var undirstaða og kjarni heilbrigðs uppeldis á árum áður, er nú nánast úthýst úr uppfræðslukerfinu, og í staðinn hafa allskonar ranghugmyndir verið settar á stall. Og hvaðan kemur slík alda yfir samfélagið ? Ekki síst frá þjóðþinginu, sem er að mínu mati það lakasta sem við höfum haft til þessa. En líklegt er þó að komandi þing muni slá það met og verða ennþá verra !

 

Á hvaða leið erum við ? Nú hafa verið teknar ákvarðanir í utanríkismálum sem ég fæ ekki annað séð en skilji okkur Íslendinga eftir sem þjóð með blóð á höndum okkar. Við erum farnir að fjármagna vopnakaup sem nota á til að drepa fólk í öðrum löndum. Það er að minni hyggju nýtt skref út í ómennskuna. Slíkt þótti ekki boðlegt fyrir nokkrum árum. Við greiðum oftar en ekki atkvæði á alþjóðavettvangi með skammarlegum hætti !

 

Verstu áhyggjur þeirra þjóðlegu Íslendinga sem börðust harðast gegn inngöngunni í Nató á sínum tíma, eru nú að raungerast í veruleika. Við erum orðnir beinir hernaðaraðilar. Svívirðingum er hlaðið ofan á svívirðingar. Við erum að glata því sem var okkur mest til gildis sem þjóð, viljanum til að ástunda frið og jákvæð samskipti við allar aðrar þjóðir og umheiminn. Sú hugsjón var sett fram 1918 við upphaf fullveldisins en alveg frá þeim tíma höfum við verið að ganga aftur á bak, frá þeim gildum sem við ákváðum þá að fylgja !

 

Í fyrstu voru ómennskuskrefin kannski ekki stór, en þau hafa stækkað og stækkað með árunum og nú stöndum við ekki á neinum föstum gildisgrunni lengur, enda virðing okkar ekki lengur sú sem hún var áður í samfélagi þjóðanna. Við eltum þar bara aðra, erum orðin ábyrgðarlaust viðhengi sem þjóð, og siðirnir versna. Og þjóðþingið er sannarlega ekki lengur sú samkunda sem hún var, að mínu áliti, svo þaðan er engrar heilbrigðrar stefnu að vænta lengur fyrir land og þjóð !

 

Svo hvað eiga Íslendingar að kjósa ? Það er ekki langt síðan mestur hluti þjóðarinnar vildi ekki á nokkurn hátt blanda saman pólitík og forsetakjöri. Nú virðast allmargir frambjóðendur í forseta-kjörinu fyrr á árinu vera komnir í pólitísk framboð. Það hefur greinilega verið boðið í þá suma. Aðrir í þeim hópi virðast hafa fengið óhóflega háar hugmyndir um sjálfa sig og vilja sýnilega sprikla áfram á því falska plani. Þarna má sjá hvernig fjölmiðlaathyglin hefur spillt betri eigindum ákveðinna einstaklinga og trekkt upp egó þeirra svo dómgreind þeirra hefur sjáanlega beðið skaða af !

 

Ég endurtek því, hvað eiga Íslendingar að kjósa ? Þegar íhaldið missti Brusselsinnað verslunaríhaldið frá sér fyrir nokkrum árum töldu margir það betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og litu svo á að ákveðin hreinsun hefði þó átt sér stað innan flokksins. En nóg var samt óværan eftir. Verslunaríhaldið skipulagði sig svo í framhaldi mála og kom eigin flokki á laggirnar, flokki sem nú virðist vera að skora hátt í skoðanakönnunum, ef eitthvað er að marka þær. En stefnan er sem fyrr á Brussel og Evrópusambandið, hið gjörspillta miðstjórnarbákn álfunnar, sem leitar hungruðum augum eftir nýlendum, í sívaxandi auðlindaleysi sínu !

 

Óþjóðlegur er flokkurinn, að minni hyggju, þó hann kenni sig við Viðreisn og ekki líst mér betur á formanninn eða forustuna þar yfir höfuð. Eins er með Pírata. Ég sé engan þjóðhagslegan ávinning heldur af þeim flokki á þingi, og tel líka að Vg ætti alveg skilyrðislaust að hverfa af þjóðþinginu eftir sjö ára samfelldan skammarferil. Í því sambandi vil ég benda á pistil minn um Vg 22. október síðastliðinn, en þar er talað afgerandi hreint út um það efni !

 

Flokkur fólksins virðist vera að verða einhverskonar einræðisflokkur Ingu Sælands og það er ekki góð framvinda ef svo er. Og ef Sósíalistar samtímans ætla að gera út á tiltölulega hreina ímynd gamla Sósíalistaflokksins, verða þeir að taka til í sínum forusturanni. Þar mega ekki vera neinir menn sem hafa spillingarorð á sér eftir áralanga þjónustu við ýmis vafasöm öfl !

 

En hvað er þá eftir ? Gamalt mynstur sem löngu er orðið úrelt og búið að lifa sig, að minnsta kosti í tvígang. Það er ekkert nýtt og heilbrigt í hinum pólitísku kortum. Svo hvað eiga Íslendingar að kjósa ? Það er nefnilega stórt atriði fyrir kjósendur að eiga pólitískt athvarf, byggt á trausti, til einhvers flokks eða frambjóðanda. En það er nánast að verða liðin tíð að svo sé !

 

Þá sem sjá ekki forsvaranlegan kost, vil ég samt hvetja til að virða lýðræðið og mæta á kjörstað. Það er þá hægt að skila auðu vegna þess að ekkert sé í boði sem unnt sé að kjósa. Og ég sé ekki fram á annað en að margir séu í þeirri stöðu að geta ekkert kosið af þeirri ástæðu. Vegna þess einfaldlega að fyrir þeim eru engir valkostir í stöðunni eða nokkrir þeir í framboði sem líklegir eru til að auka sæmd lands og þjóðar, úr því sem komið er !

 

Aumt er að kjósa Alþing hér,

allar varnir bila.

En þegar boðlegt ekkert er,

auðu er best að skila !


« Síðasta færsla

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 59
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 925
  • Frá upphafi: 357223

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 736
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband