Leita í fréttum mbl.is

Hverfum ekki inn í hringiðu hégóma og græðgi !

 

 

Athyglisvert er, að við nánast alla umræðu á samfélagsmiðlum og hvar sem mál eru krufin og rædd, virðist yfirgnæfandi hluti þeirra sem blanda sér í málin, vera beinir hagsmunaaðilar. Það er því sjaldnast verið að ræða á hlutlausum forsendum og meta með þeim hætti kosti og galla hvers máls fyrir sig !

 

Flestir virðast fyrst og fremst og öllu heldur vera að meta sína krónulegu hagsmuni og sannleikur málsins í hverju tilviki kann að vera víðsfjarri. Umræðan virðist þannig öll falla undir það að verið sé að fiska eftir peningalegum ávinningi. Hverskonar umræða er það ?

 

Er ekki hægt að ræða neitt mál á grundvelli þess hvað kann að vera samfélagslega gott og hvað slæmt ? Þurfa alltaf einhverjir græðgismálafingur að letra sitt á vegginn til að drýgja sitt sérgæskufulla og mjög svo  einstaklings-bundna gróðahyggju pund ?

 

Getum við ekki lengur komið að málum á félagslegum forsendum, er allt orðið svo mengað af frjálshyggju, markaðsórum og græðgisfullum kapítalisma ? Á engin heilbrigð framtíð að bíða barnanna okkar, verður hlutskipti þeirra óhreinleikinn einn ? Það er ekki bjart framundan og býsna fyrirferðarmikil og óhrein fjármagnsöfl virðast staðráðin í því að gera framtíðarmyndina sífellt svartari !

 

Mér finnst samfélagsumræðan ekki lengur vera á neinum hugarfrjálsum nótum. Það virðist vera búið að einkavæða hana í þágu græðgisaflanna í verslun og viðskiptum. Menn virðast bara tala út frá veskinu sínu. Er öllu íslensku samfélagsfrelsi kannski orðinn markaður bás með þessum hætti ?

 

Er kapítalisminn kannski búinn að hengja allt hugarfrelsi og umþenkingar út frá því, á öllum sviðum þjóðlífsins ? Það mætti sannarlega ætla það, eftir þeim ummerkjum að dæma, sem við augum blasa. Hugsun manna virðist stöðugt vera að verða þrengri, enda fer jafnan svo þegar buddunnar lífæð slær í brjóstinu og allt lífið á að felast í því sem algeru forgangsatriði !

 

Það er til fólk á Íslandi sem segist hafa breytt sínum lífsstíl og gangist nú fyrir hæglæti. Það talar fyrir því að fólk rói sig niður, geri sér grein fyrir hver séu hin raunverulegu verðmæti lífsins, og leiti eftir þeim í kyrrlátri viðleitni. Líklega mættu margir taka sér slíka afstöðu til eftirbreytni. Það er ekki mikið skynsemismál að æða svo á eftir krónum, að menn missi af lífinu í því kapphlaupi !

 

Lífið er dýrmætt og því þarf að lifa með hliðsjón af því kjarnaatriði. Sjá fegurðina í því einfalda, njóta náttúrulegra gæða með hófstilltu hugarfari og auðga andann með heilbrigðum hætti. Þegar slík lífsafstaða er fengin, fer fólk fljótlega að fá skyn á Skapara sínum og hverfur þá frá eigingjörnum fyrri viðhorfum og öðlast nýja og betri sýn !

 

Hraði nútímans hefur fært flestar manneskjur burt frá Guði og því Eilífa lífi sem hann býr einn yfir. Við þurfum öll á því að halda, umfram allt, að nálgast Guð og gjafir hans meðan náðartíminn til þess er gefinn, en hann er sýnilega ekki mikill eftir !

 

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá, að maðurinn í hroka sínum er enganveginn fær um að fara með þau vopn sem hann ræður núna yfir. Það styttist því í að þau verði notuð og þá hlýtur hver maður þau örlög sem hann hefur kallað yfir sig því þá er náðartíminn á enda !


« Síðasta færsla

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.12.): 12
  • Sl. sólarhring: 328
  • Sl. viku: 1159
  • Frá upphafi: 360223

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 969
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband