Leita í fréttum mbl.is

Útþenslustefna Bandaríkjanna !

 

 

 

Það er nú að verða flestum ljóst, að hugmyndir Donalds Trumps komandi Bandaríkjaforseta um að gera Ameríku mikla á ný, er hugsuð á kostnað undirlægjuþjóða Bandaríkjanna í Nató og víðar. Stærsta eyja heims er nú í sigtinu og vald Dana þar er ekki neitt sem veldur manni eins og Trump áhyggjum. Hann býður sennilega bara Mette og Lars Lökke í heimsókn í Hvíta húsið og málin verða trúlega leyst yfir góðum málsverði af dönsku svínakjöti, þó engin danska verði töluð yfir borðum !

 

Það standast auðvitað engir Natóþjóða forsprakkar heimboð í Hvíta húsið og varla eru Mette og Lars Lökke þar neinar undantekningar. Og náttúrulega verða sjónarmið Grænlendinga sjálfra hreint  ekki mikið til umræðu á svo hásivilíseruðum fundi. Danir tala þar bara fyrir þá á háensku og kannski svolítið fyrir sjálfa sig í leiðinni !

 

Trump býður sem sagt í Grænland, en ekki heyrist að hann bjóði neitt í Ísland. Af hverju skyldi það nú vera ? Er það kannski vegna þess að hann telur Kana eiga hér svo til allt, ef gjörla er að gætt ? Það skyldi þó aldrei vera ! Menn bjóða skiljanlega ekki í það sem þeir telja sig eiga. Og hvernig á að gera Ameríku mikla á ný nema með því að hirða eitthvað af þeim sem eitthvað eiga ? Í þeim hópi verðum við Íslendingar sennilega ekki taldir mikið lengur, enda fjármálagæsla þjóðarbús handhafa hér glórulaus með öllu og virðist ekki ætla að batna með nýrri stjórn !

 

Margt er líka orðið svo þvert á alla eðlilega mannasiði í heimi þessum, að sumir gætu þessvegna hugsað sér að spyrja, af hverju kaupir Trump til dæmis ekki bara Mexíkó eða tekur landið og flytur íbúana, þessar skitnu 100 milljónir, yfir til Gvatemala og Nicaragua og ríkjanna þar suður og austur af, og sleppir því að byggja múrinn mikla ? Myndi það ekki stuðla bærilega að því að gera hina bandarísku Ameríku mikla á ný samkvæmt hinni rísandi stór-hugmyndafræði ?

 

Trump karlinn er eins og allir vita bandarískt ólíkindatól af furðulegasta tagi. Enginn veit hverju hann getur tekið upp á og flestir skjálfa á taugum og beinum vegna þess. Hin umboðslausa Úkraínustjórn þurfti víst að fá Þorgerði viðreisnarvalkyrju í skyndiheimsókn og tveggja milljóna evrusjóð með henni af íslensku þjóðarfé, bara til að hanga á löppunum. Þvílíkt ástand fyrir svona virkilega stórsjálfstæð ríki eins og Ísland og Úkraínu !

 

Grænland er stór biti, stór og girnilegur biti. Washingtonvaldið slefar ekki svo lítið yfir hugmyndinni um amerískt Grænland. Skítt með 36 trilljóna dollara ríkishallann þegar slíkur hvalreki er í sjónmáli. Trump leysir málið. Kannski hann verði sér úti um hagstætt vinaþjóðarlán í Rússlandi, Kína eða Norður-Kóreu, þegar hann hefur losað um tengslin við Natógrúppuna og gert heila galleríið að staurblönkum, Vestur-Evrópuþjóða klúbbi, líklega með hernaðarlega getu á brusselísku núlli !

 

,,Trump er hinn taktíski snillingur sem leysir allt“, segja þeir sem þora ekki að halda öðru fram. En snilld hans er líklega bara tilbúin oligarkasnilld og felst líklega helst í því að taka eitthvað í heimildarleysi. Það er háttur tillits-lausra auðmanna sem ganga um veröldina á skítugum, vestrænum auðvaldsskóm, og hafa lengi gert. Þar er Trump líka á heimavelli sem forstjóri en varla sem forseti !

 

Hvað er svo framundan ? Margir spyrja þess og auðvitað veit enginn neitt þegar 100% ólíkindatól sest að völdum. Sumir kynnu að vilja halda því fram að það ættu að vera til lög sem bönnuðu að slík ólíkindatól öðluðust einhver allsherjar-völd, en það væri náttúrulega í fyllsta máta ólýð-ræðislegt og þar við situr. Margir njóta lýðræðislegs frelsis og það jafnvel margir sem síst ættu að gera það. Það er víst eitt af hinum stærri harmsefnum heims-byggðarinnar !

 

Bandarísk stjórnvöld eru löngu orðin alræmd um heim allan fyrir óvirðingu sína gagnvart lýðræðiskosningum í öðrum löndum. Ef þeim líkar ekki niðurstaðan eru kosningarnar sagðar hafa verið svindl og allt í fölskum dúr. Lagt er fé til höfuðs þjóðhöfðingjanum og öllum gullforða viðkomandi lands stolið. Svo er leiðtogi stjórnar-andstöðunnar viðurkenndur sem sigurvegari og honum boðið til Washington og þar fær hann eflaust klassamáltíð í Hvíta húsinu með eigin þjóðarrétti, og gefur svo á eftir, líklega sæll og saddur, leyfi sitt til allra bandarískra afskipta af málum síns eigin lands !

 

Slík vinnubrögð hafa sem vitað er margsinnis verið viðhöfð, enda orðin þaulæfð í höfuðríkinu mikla og þrælkunn í öðrum löndum. Og afleiðingar andstöðu við slík áform eru svo sem alkunn líka og alræmd að sama skapi. Því ef menn láta sér ekki segjast og hlýða og halda kjafti, er alltaf hægt að splundra og sprengja og senda viðkomandi vandræðaland í rústum til steinaldar, með samþykki klappliðs á lýðræðisþinginu mikla í Vostúni !

 

Hákarlinn hakkar þannig í sig sardínur heimsins án þess að viðhafa nokkurt lýðræðislegt viðbit fyrir eigin kjaft. Græðgi hans er orðin takmarkalaus og ekkert virðist geta stöðvað yfirgang hans. Heimurinn er mun verri bara fyrir það að þessi valdníðsluvargur er til. Frumherjar Bandaríkjanna myndu annarlega ekki vilja sjá hvernig barnið þeirra hefur breyst í hrollvekju heimsmálanna á síðari tímum. Og nú er staðan sú, að enginn veit svo sem hver getur orðið næsta fórnarlamb hroll-vekjunnar, en kannski má ætla að Danmörk verði næsta sardínan fyrir gleypuganginn og græðgina á matarborði hinnar miklu Ameríku ?

 

Að Grænlandi gengnu inn í herbúðir Trumps, liggur ljóst fyrir að samsvarandi rök fyrir öryggishagsmunum Banda-ríkjanna gætu gilt fyrir hvaða landtorfu sem er í veröldinni, eða sem sagt fyrir afganginn af heiminum ! Þá ætti líka flestum að verða ljóst, og það jafnvel vanhugsandi vesalingum og það jafnvel á Íslandi, að skilningur bandarískra stjórnvalda í dag á lýðræði, er greinilega eitthvað allt annað en afgangurinn af heiminum telur það vera !

 

 


« Síðasta færsla

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.1.): 94
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 898
  • Frá upphafi: 364393

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 757
  • Gestir í dag: 73
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband