Leita í fréttum mbl.is

Munu fyrri draugar fara á kreik..... eða ?

 

 

Ýmislegt virðist benda til þess að viðhorf til hernaðarhyggju séu töluvert að breytast í Þýskalandi. Þýsk stjórnvöld eru að mati margra að færa sig upp á skaftið með nálgun við fortíðarstefnu sem flesta hryllir við. Byrjað virðist vera á því að fjarlægja úr stjórnarskrá ríkisins þau lagafyrirmæli sem standa í vegi fyrir óheftri hernaðaruppbyggingu í landinu. Þegar Þýskaland er farið að leita að gömlu götunum í þessum efnum, fer vísast hrollur um heiminn, enda má þá búast við ýmsu sem ekki er gott !

 

Það er nú ljóst, að svo til allir eftirlifendur sem upplifðu hrylling seinni heimsstyrjaldarinnar á eigin skinni, hafa nú kvatt jarðlífið og geta ekki öllu lengur borið vitni um þær vítisógnir sem gengu yfir heiminn á þeim tíma. Svo ófriðaröflin telja líklega tímabært að fara á kreik á ný. Síðasta heimsstríð er jafnvel birt sem glansnúmer í áróðri yfirstandandi tíma og allur hryllingur þess settur til hliðar. Sumir virðast fullir af spenningi fyrir þeim allt að því takmarkalausu möguleikum til valda-breytinga sem kunna að felast í nýju stríði og er það síst uppörvandi gagnvart friðarhorfum !

 

Allt slíkt er nefnilega ekkert annað en hluti af uppskrift að nýjum hryllingi og það er eins og aldrei sé neitt hægt að læra af fortíðinni, til að forðast það að endurtaka þau miklu mistök sem þar hafa átt sér stað. Það er eins og marga þyrsti á ný í slík mistök og segir það sitt um hina vaxandi geðveiki ástandsins !

 

Ástæðan fyrir þeirri geðveiki er einfaldlega sú staðreynd, að sagan er að endurtaka sig fyrir augunum á okkur. Atburðarásinni virðist vera ýtt hægt en örugglega að þeim örlagapunkti þegar ekki verður lengur hægt að snúa til baka. Þegar allt fær sitt sjálfvirka framhald og full innspýting er komin á vegferð til milljónamorða, er engin stýring til baka. Og gráglettni örlaganna mun mjög líklega sjá til þess, að Þýskaland fái hlutverk við hæfi í þriðju og síðustu heljarslóðaorustu mannkynsins !

 

Þýskaland er þó, að margra hyggju, land og ríki sem er undir bölvun frá síðasta heimsstríði. Þar hefur aldrei átt sér stað nein heildstæð, þjóðleg iðrun vegna þeirra ómældu hörmunga sem gengu yfir Evrópu og allan heiminn, vegna þess ómennska stjórnvalds sem þýska þjóðin kaus yfir sig 1933. Í þeim efnum hafa mál aldrei verið gerð upp með neinum heilbrigðum hætti !

 

Margir telja að það þýði, að ákveðin bölvun sé enn til staðar í þjóðlífinu sem eitri stöðugt út frá sér. Meðan hún sé ekki hreinsuð út með allsherjar iðrun þjóðarinnar, viðhaldist hún og sái áfram fræjum bölvunar - og jafnframt því, - í andlegum skilningi, frekari niðurlægingu þeirrar þjóðar, sem hefði átt að geta verið í forustu fyrir mörgum bestu eigindum evrópskrar menningar !

 

Þýskaland er þannig, því miður, talið vera undir ákveðnu óhamingjuvaldi. Þjóðverjar voru í sjálfu sér ekki öðrum þjóðum verri í fyrra heimsstríðinu, en í því seinna hafi allt breyst. Þá hafi þýsk stjórnvöld, að margra mati, algerlega gengið því illa á vald. Það komist nánast ekkert í samjöfnuð við þá kollsteypu mannlegrar lægingar sem þá hafi átt sér stað í Þýskalandi og sú staðreynd valdi enn þeirri bölvun sem þar hvíli yfir málum. Sú staða brjóti stöðuglega niður alla raunhæfa, andlega dáð meðal þjóðarinnar !

 

Þýska þjóðin muni því aldrei fá notið sín aftur, fyrr en þetta bölvunarfarg sem hvílir yfir henni, verði hreinsað burt sem fyrr segir. Og þar þarf mikla hugarfars-breytingu til. Margir hafa sannfæringu fyrir því, að þarna geti ekkert lagast af sjálfu sér. Það þurfi meira til. Frá hermennskuanda þeim og stríðshroka sem enn sé til staðar í þýsku þjóðinni, sé langt yfir í sannan og trúverðugan  anda iðrunar og uppbyggingarvilja gegn ágengum draugum ljótrar fortíðar !

 

Allar þjóðir hafa vissulega sinn djöful að draga, en þýska þjóðin hefur að margra áliti verið brennimerkt með alveg sérstökum hætti, vegna þess að hún kaus í rauninni sjálf illskuna yfir sig. Þingkosningarnar 1933 fólu þannig í sér mjög alvarlegan örlagadóm fyrir þjóðina. Hún þurfi því að afneita fyrrnefndu brennimarki af heilshugar dáð og fullri iðrun, vilji hún í alvöru losna undan þeirri bölvun sem við þá arfleifð er tengd !

 

Aukinn hernaðarandi og vaxandi víg-búnaðarumsvif þýsku þjóðarinnar feli hinsvegar í sér skref inn í fyrra svartnætti. Með því sé enn frekar snúið frá allri iðrun og hreinu upphafi eða frá öllu því uppgjöri sem þurfi að eiga sér stað. Þá muni áfram verða hindrun í vegi hverrar þeirrar blessunar, sem annars ætti að geta mætt þessari hæfileikaríku þjóð, þegar hreint borð væri þar fengið !

 

Það er trú margra, að það þurfi og verði að kveða niður illvíga fortíðardrauga Þýskalands og það fyrir fullt og allt. En það verði ekki gert nema Þýskaland taki sér nýja stöðu í samfélagi þjóðanna, eftir iðrun og afturhvarf, eins og að framan greinir. Land og þjóð gangi til fylgis við sanna og heilbrigða menningu og verði þar trúr friðflytjandi, í hreinum anda Óðsins til gleðinnar, en taki ekki á sig að vera áróðursfullt æsingavald fyrir styrjöld og hörmungar, dauða og eyðileggingu !

 

Aðeins með þeim umskiptum, geti þýska þjóðin losnað við sína illu fortíðardrauga og þá sárbeittu bölvun sem hefur, að margra hyggju, hamlað andlegri hamingju þjóðarinnar allt fram á núlíðandi daga. Fortíðin má ekki fá að endurtaka sig, hvorki fyrir Þýskaland, Evrópu né heiminn í heild. Lausnarleiðin er enn sem fyrr sú - að víkja frá dauðastefnu stríðsæsingaafla til friðarstefnu lífs og ljóss, heilbrigðrar samvinnu þjóða og bræðralags manna á þessari jörð !


« Síðasta færsla

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.4.): 174
  • Sl. sólarhring: 174
  • Sl. viku: 1201
  • Frá upphafi: 377736

Annað

  • Innlit í dag: 160
  • Innlit sl. viku: 1046
  • Gestir í dag: 154
  • IP-tölur í dag: 154

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband