Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um ,,fallega ævikvöldið“ !

 

 

Það virðist því miður víða vera pottur brotinn í aðbúnaði aldraðra í þessu landi. Einkaframtakið er sagt vera að sölsa það svið undir sig og þar eru peningasjónarmið aldrei sögð úr sjónmáli. Ríkið virðist helst vilja losa sig frá allri ábyrgð á gömlu fólki og helst er svo að sjá og heyra, að fólk sem leyfir sér að lifa framyfir starfslok sé bara til óþurftar. Heldur er nú kapitalisminn farinn að drottna yfir lífsvötnunum, enda nánast búið að myrða félagshyggjuna í landinu með stungum í bakið, stefnuna sem byggði hér flest upp áður fyrr með sameinuðum átaksvilja fyrir almannaheill !

 

Hagfræðin, ofmetnasta fræðigrein allra tíma, samkvæmt umsögn Görans Persson hér um árið, leggur bara til vandræða-tölur varðandi eldri borgara og þeir eiga líklega bara að skammast til að deyja sem fyrst. Þeir skekkja svo góðar lausnir á hagfræðidæmunum. Öll fallegu orðin um friðsælt ævikvöld eru víst löngu gleymd og þó að búið sé að arðræna eldri borgara miskunnarlaust alla starfsævi þeirra, er sýnilega stefnt að því að halda því áfram þar til gröfin tekur við. Allt tal um að tryggja mannlega reisn til hins síðasta, er falsi vígt og innihaldslaust að langmestu leyti !

 

Íslenska velferðarkerfið virðist í sumum tilfellum orðið að einhverri skrum-skælingu í höndum óprúttinna aðila. Fólk kemur kannski á dvalarheimili, allavega sums staðar, til að sjá hvernig aðstaðan sé fyrir aldraða foreldra. Það fær að sjá afskaplega fína og flotta mynd af því sem boðið er upp á. Svo þegar gömlu hjónin ganga í bæinn, er þeim boðið upp á eitthvað allt annað og lakara !

 

Ég hef heyrt slíkar sögur býsna oft og á satt að segja erfitt með að trúa þeim. Samt hafa sumar slíkar ratað í fjölmiðla, en svo virðist allt fljótlega þaggað niður, líklega svo að glansmyndin fái að njóta sín áfram. Það er hrollvekju líkast að heyra ýmsar lýsingar af því sem fólk virðist þurfa að búa við, þegar það er orðið ófært um að bera hönd fyrir höfuð sér. Og lögmál þagnarinnar virðist þá sitja eitt að völdum, svo illt sem við það er að búa, bæði hér og á Sikiley. Ótíndir bófar virðast þá geta hrósað sigri í skjóli kerfis og kærleiksleysis og makað krókinn með ómannlegum hætti !

 

Sú kynslóð sem byggði upp velferðina í þessu landi og er nú orðin gömul og þarfnast manneskjulegrar aðhlynningar og á það öllum frekar skilið, virðist þannig mæta í sumum tilfellum einhverjum skutil-sveinum Mammons sem bregða yfir sig gervi miskunnsama Samverjans á hátíðastundum, en eru kannski í raun bara ósvífnir peninga-plokkarar, krónukaldir níðingar að sínum bláu hjartarótum !

 

Hverju á að trúa ? Sögum um glæsilega stemmningu á ævikvöldi, eða sögum um ósvífið blekkingaferli og algera andstæðu góðra mála ? Það virðist því miður líða óðum að því að það verði ekki neitt sældarbrauð að verða gamall á Íslandi. En það var ekki þannig fyrir nokkrum árum, þá var litla þjóðin í norðrinu ekki orðin háð kaptalískum græðgismaskínum og kúguð af auðgildissjónarmiðum eins og nú er. Þá var manngildið enn virt og metið !

 

Ég minnist þess að fyrir þrjátíu árum eða svo, var viðtal við Íslending einn í sjónvarpinu. Hann var orðinn frægur og vinsæll læknir í Bandaríkjunum, með rífandi tekjur. Ég gleymi því seint þegar hann sagði: ,,Ég á eftir svona 10 til 15 ár hér, en svo fer ég heim !“ Hann var spurður hvers vegna hann yrði ekki áfram í Ameríku, fyrst hann hefði gert það þar svo gott sem raun bæri vitni ? Þá svaraði blessaður maðurinn, líklega í hjartans einfeldni – eða þannig : ,, Nei, það er ekkert gaman að vera gamall hér !“

 

Hann var sem sagt með það í huga að eyða starfsævinni í landi sem bauð honum mjög góð launakjör, verða þar efnaður og safna í sjóði, skila þar af leiðandi litlu sem engu til Íslands, en hann ætlaði samt að eyða ævikvöldinu hér, í skjóli þess velferðarkerfis sem var og hét. Aðrir áttu sem sagt að sjá til þess að það viðhéldist og væri til staðar þegar hann kæmi heim til að njóta þess !

 

Svona hugsa held ég býsna margir og þarflaust er að geta þess hvar þeir flestir munu vera til húsa í pólitískum skilningi. Sérgæðingar hætta ekki að vera sérgæðingar þó þeir verði gamlir og samfélagskenndin truflar þá ekki mikið, enda sjaldnast til staðar sem slík. Sjálfið skiptir þá yfirleitt öllu máli og viðhorf slíkra manna til annars fólks eru oftast slík að það tekur ekki að minnast á þau. Þar er oftast ekkert til staðar sem hægt er að virða !

 

Samfélagsskyldur þeirra sem þannig eru gerðir, eru því litlar að vöxtum í raun, og þeir nota lífið síst af öllu til að ávaxta þær. Manneskjan er þannig gerð, að hún þarf stuðning fyrstu 15-20 árin sín, meðan hún er að ná fótfestu í lífinu. Þar er átt við þann stuðning sem góðir foreldrar eru líklegastir til að veita. Hver manneskja sem fær slíkan stuðning á þeim viðkvæma tíma ævinnar, ætti að vera nokkuð vel undirbúin fyrir lífið. Þarfir hins unga lífs eru mjög mikilvægar fyrir alla ævigönguna og samfélagið allt - og þeim þarf að mæta !

 

En það gleymist oft, að síðustu 15-20 ár mannsævinnar gera að ýmsu leyti svipaðar mannlegar kröfur um stuðning. Fáir geta átt fallegt ævikvöld án slíks stuðnings. Jafnvel ekki ríkir Íslendingar, sem kusu að eyða sinni starfsævi erlendis og skeyttu ekki um eigið land og íslenskt samfélag. Samfélag er öllum nauðsyn en þar þurfa allir að leggja eitthvað til. Allt sem þar vantar á, gildisfellir samfélags-hugtakið og vinnur gegn heilbrigði þess. Ísland er orðið töluvert kaldara samfélag og kærleiksminna en það var !

 

Í góðu samfélagi þurfa börnin að fá sitt og gamla fólkið sitt. Og þeir sem eru á aldrinum þar á milli, eiga að þekkja skyldur sínar gagnvart báðum þessum hópum og skapa tryggingu fyrir því að þar sé vel fyrir öllu séð. Öll rányrkja á samfélags-legum verðmætum er blóðug skömm hvar sem hún er látin viðgangast og ætti að sjálfsögðu hvergi að vera til !

 

Í örsamfélagi okkar Íslendinga er slík græðgis framganga meira en blóðug skömm, hún er svívirðileg synd gegn öllum mannrétti. Allir níðingar munu vissulega fá sinn dóm þegar öll skil verða gerð upp við endi daganna og þá verður of seint fyrir skrautfugla mannfélagsins að iðrast misgerðanna, enda verður þá komið að hinum endanlegu skuldadögum fyrir þá og þeirra líka!


« Síðasta færsla

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.8.): 49
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 908
  • Frá upphafi: 392627

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 759
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband