Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um stríðsglæpinn mikla í Libýu !

 

 

 

Það kemur alltaf að því að sannleikurinn leitar fram. Sprengingarnar á Nordstream leiðslunum í Eystrasalti munu verða skráðar á syndareikning Nató í fyllingu tímans eins og Sy Hersh hefur þegar upplýst. Og hinar villimannlegu loftárásir á Libýu munu fara á sömu syndaskrá. Bandaríkjamenn og Norðmenn eru einkum taldir hafa komið við sögu í þessum hryðjuverkum og vekur það enga furðu varðandi þá fyrrnefndu, en allnokkra varðandi þá síðarnefndu !

 

Annars eru allar líkur á því að stríðsóðir Norðmenn fari brátt að kynna sig svo afgerandi á heimsvísu að engum blandist hugur um það hverjir eru þar læri-meistararnir og þeir sem litið er upp til. Það liggur fyrir að Jens Stoltenberg hefur viðhaft þau orð í uppbólgnum hroka sínum, að hann hafi aftur viljað láta varpa sprengjum á Libýu og norska þingkonan Ine Eriksen Söreide hefur sagst vera stolt af þátttöku Noregs í sprengju-árásunum á Libýu og eyðileggingu landsins, sem þá var mesta velferðarríki Afríku. Og athuga ber, að það eru háttsettir Norðmenn sem svona tala á 21. öldinni ? Hver hefði trúað slíku fyrir um aldarfjórðungi ? Ekki nokkur maður, en svona fara menn að því að verða umskiptingar !

 

Þó þarf nú enginn að undrast, að Bilderbergs-ungi eins og Jens Stoltenberg tali eins og hann talar, en að kona á Stórþinginu telji sér til gildis að hafa samþykkt slíkan glæp sem hér um ræðir, ætti að vekja töluverða furðu. Konur eru yfirleitt taldar líklegri til að taka nærri sér illar gjörðir og vera á móti þeim, en kannski er það liðin tíð í Noregi og víðar að svo sé. Sennilega eru núverandi valdamenn í landinu með þeim lökustu sem norska þjóðin hefur kosið yfir sig um langt skeið og hafa þó margir ráðamenn þar verið slæmir !

 

En þátttaka Noregs í glæpnum mikla í Libýu mun líklega aldrei gleymast þjóðum Afríku og þar mun Noregur aldrei geta áunnið sér fyrri sess. Þessi fyrrum mjög svo virðingarverða Norðurlandaþjóð er nú vægast sagt aumkvunarverð í ríkidæmi sínu með hrunið orðspor. Nú er víða um heim litið á Noreg, og það nánast umfram allar aðrar fylgiþjóðir Sáms frænda, sem sálarlaust viðhengi Bandaríkjanna - og það er nokkuð sem getur ekki talist neinni þjóð til gildis og virðingar !

 

Það voru margir drepnir í árásunum á Libýu. Almennir borgarar, venjulegt fólk sem var að störfum sínum í dagsins önn. Meira að segja allmörg börn. Og flóttinn yfir Miðjarðarhafið á manndrápsfleytum, vegna viðvarandi styrjaldarátaka í landinu, hefur krafist mjög margra mannslífa. Það eru afleiðingar af eyðileggingu landsins, svo það er viðbótarglæpur og sömu aðilar sekir um hann. Í öllu hinu tilbúna hernaðar-yfirburða skapaða helvíti í árásunum á Libýu, var um slíkan hrylling að ræða að ekki er hægt að líta á þá aðila sem menn sem stóðu þar að baki, heldur sem sálarlausar ófreskjur eða viðbjóðsleg skrímsli !

 

Hvernig það fólk er að innviðum til sem hrósar sér af slíkum fjöldamorða hryðju-verkum er engin leið að skilja, en mannúð getur ekki verið til staðar í slíkum persónum. Ef til vill eigum við eftir að sjá, fyrrverandi vestræna leiðtoga fyrir rétti, kannski í Nurnberg, ákærða fyrir glæpi gegn mannkyni. Ef slíkt gerðist, myndi það stórefla trú fólks, alls staðar í þessum heimi, á framgang réttlætisins, og sannarlega væri ekki vanþörf á því. Og einhverntíma verður hið ráðandi vald ekki í höndum þessara ríkja sem svo sví-virðilega hafa misnotað það og þá snýst dæmið við og örlagadómurinn hegnir þeim sem hegna ber !

 

Það eru nefnilega komnir þeir tímar að þjóðir heims gera kröfu til þess að vestræn ríki verði að vera ábyrg gerða sinna. Það hafa þau aldrei verið fram að þessu. Nú verða heiðarlegir menn á Vesturlöndum, ef þeir finnast þar þá enn, að horfast í augu við þá staðreynd, að saklaus börn og alþýðufólk, óbreyttir borgarar margra landa, hafa hvað eftir annað verið sprengdir í tætlur á sinni eigin feðragrund, án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Og ástæðan er einbeittur brotavilji vestrænna ríkja til að viðhalda kúgun og arðráni í öðrum heimshlutum !

 

Og morðingjarnir eiga víst að heita siðmenntaðir Vesturlandabúar, sportlega klæddir í drápstækjum sínum hátt í lofti, sem hafa látið dauðasendingar sínar rigna yfir þetta blessað fólk, eftir fyrirmælum pólitískra og hernaðarlegra forustumanna Nató. Þó að maður trúi, að svona dráp-sjúkir manndjöflar hljóti að enda í helvíti, finnst manni samt að margfalt helvíti þyrfti að bíða þeirra, eftir þau hryllilegu ódáðaverk sem þeir hafa drýgt !

 

Og bak við þessar útsendu morðingja-sveitir eru vestræn yfirvöld, aðilar sem þykjast aldrei hafa gert öðrum illt og alltaf vera að vinna góðverk. Það er ein ógeðslegasta falsbirtingarmynd sem til er, en samt alltaf í umferð. Yfirleitt eru Vestur-Evrópuríkin á bak við mestan viðbjóð heimsmálanna á öllum tímum og hvergi saklaus ef út í það er farið. En sumir virðast þannig gerðir, einkum á Vesturlöndum, að afsaka alla glæpi ef réttir aðilar, að þeirra mati, fremja þá. Þá er vísað til hinna svonefndu góðu gæja, sjálfra Nató-englanna, varðengla hins ofbeldisríka valdakerfis Banda-ríkjanna og Vestur-Evrópu á heimsvísu !

 

Hrun mennskunnar í vestrænum valda-stofnunum á undanförnum árum er meira en geigvænlegt. Það ógnar öllu lífi mann-kynsins. Og nú er fasismanum gert hátt undir höfði, ekki bara í Úkraínu eða á Ítalíu, heldur víðsvegar um Vestur-Evrópu. Margar valdablokkir þar virðast harma ósigur nasistaríkisins 1945 og vilja sýnilega helst geta snúið úrslitum síðari heimsstyrjaldarinnar við um heilan hring, því vítisveldi ómennskunnar í hag !

 

Það er vissulega orðið býsna langt síðan almennileg stjórnvöld hafa farið með völdin í Bandaríkjunum, en það sama fer nú að verða hægt að segja varðandi Noreg. Lýðræðisleg fingraför í stjórnkerfi þessara landa fara líklega brátt að gufa upp og hverfa. Það fer að verða afar fátt sem viðheldur þeim úr þessu. Auðstéttin ræður öllu í báðum ríkjunum og herðir stöðugt tökin !

 

Mammon á bæði ríkin og sá kauði sleppir ekki því sem hann hefur eignast að fullu og ríflega það. En réttlætiskrafan og kallið frá Libýu verður ekki þaggað niður út af stríðsglæpnum mikla 2011. Hinir seku aðilar munu verða afhjúpaðir að lokum og dæmdir. Einum aðila á hvergi að líðast að fara um heiminn með þeim yfirgangshætti sem viðhafður var í Libýu og hefur sýnt sig víðar. Í því framferði kemur fram slíkur hroki að hann dæmir sig sjálfan til stærstu gjalda. Forsjónin sjálf mun taka í taumana þegar slíkt á sér stað !

 

 


« Síðasta færsla

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.9.): 147
  • Sl. sólarhring: 155
  • Sl. viku: 750
  • Frá upphafi: 396150

Annað

  • Innlit í dag: 120
  • Innlit sl. viku: 617
  • Gestir í dag: 117
  • IP-tölur í dag: 115

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband