Leita í fréttum mbl.is

Vandræðagangurinn í borgarstjórnarmálum Reykjavíkur

 

 

 

Hvað er að gerast í Reykjavík, hinni háheilögu Davíðsborg eða hinni vanheilögu Sódómu, borginni sem hefur verið vagga íhaldsins á Íslandi um áratugaskeið ? Já, hvað er að gerast þar ?

Rifjum aðeins upp ferli liðinna missera. Íhaldið og Ólafur F ætluðu að mynda meirihluta eftir síðustu kosningar, Björn Ingi kom þá með samstarfstilboð sem íhaldsoddvitanum Vilhjálmi Þ. hugnaðist betur. Ólafur var látinn lönd og leið í beinni og varð eðlilega mjög sár. Féll ef til vill í depurð vegna þess.

Síðan verður Vilhjálmur Þ. borgarstjóri og aldrei hefur annað legið fyrir en hann hafi átt að verða borgarstjóri líka í því samstarfi sem átti að taka upp við Ólaf F. En svo klúðrar íhaldið málum og þó einkum fyrir vanhæfa forustu Vilhjálms Þ. Hann lék klárlega einleik og hafði ekki félaga sína í borgarstjórn með í spilinu og honum varð ýmislegt fleira að fótakefli.

Hann vissi um kaupréttarsamningana sem voru í smíðum en segist ekki hafa vitað hvað hver og einn átti að fá. Ég lít svo á að hafi hann vitað um kaupréttarsamningana, sem hann viðurkennir, hafi honum verið skylt að vita nánar um hvað í þeim fólst. Hverskonar borgarstjóri er það sem veit að slíkt er í bígerð en kynnir sér ekki hvernig er verið að fara þar með almannafé og hvað mikið sé í húfi ?

Það bendir ekki til þess að mikið sé verið að hugsa um heildarhag !

Vilhjálmur Þ. hefur enganveginn gert hreint fyrir sínum dyrum í þessum málum og það eru margir á þeirri skoðun að það muni hann seint geta.

Hinir borgarfulltrúar íhaldsins urðu sárir og svekktir þegar þeir voru sniðgengnir í málunum, og  gerðir að hálfgerðum núllum í atburðarásinni. Þeir gagnrýndu vinnubrögð leiðtoga síns og sennilegt er að sumum þeirra hafi hreint ekki líkað hvernig átti að gera út um málin.

Trúnaðarbresturinn milli þeirra og Vilhjálms Þ. varð augljós en sá innanflokksslagur fór þó að mestu leyti fram án vitundar fjölmiðla, því kastljós þeirra beindist um þessar mundir að Svandísi Svavarsdóttur sem ótrauð tók forustu í þeirri baráttu að afhjúpa þann spillingarvef sem verið var að spinna.

Nýr meirihluti var myndaður og svívirðilegri atlögu að almannahagsmunum var afstýrt. En hvað gerðist svo ?

Hinum sex borgarfulltrúum íhaldsins, sem tekið höfðu afstöðu gegn oddvita sínum og hans vinnubrögðum, var í framhaldinu haldið til hlýðni af Valhallarvaldinu og þeir látnir endurnýja hollustueið sinn við hinn afsetta og lánlausa Vilhjálm Þ.

Og síðan var hafist handa á fullu við að reyna að sprengja samstöðu sitjandi meirihluta. Og það fannst maður sem tilbúinn var í verkið, tilbúinn að versla !

En þau viðskipti kostuðu nokkuð sem íhaldið hafði aldrei fyrr látið úr höndum sínum ganga. En staðan var orðin svo veik að í fyrsta sinn urðu bláliðar að kaupa meirihlutavaldið með stóli borgarstjóra. Og þeir gengust undir að greiða það ofurgjald !

Af hverju ? Jú, það er nefnilega ljóst að einveldi íhaldsins í höfuðborginni heyrir sögunni til !

Nú er sú staða komin upp og hefur sannast undanfarin ár, að íhaldið getur ekki náð völdum í Reykjavík nema með því að afla sér viðbótarhækju.

Það var auðvitað súrt fyrir hægri menn að þurfa að kingja svo blóðugri staðreynd, en þó hefur veruleikinn versnað enn frekar fyrir Valhallarvaldið.

Það hefur neyðst til að lúta enn einu áfallinu og afhenda borgarstjórastólinn til einliðans baklandslausa. Sjö borgarfulltrúar urðu að dansa þar eftir hljóðpípu hans.

Að hugsa sér afturför íhaldsins frá veldisárum Davíðs í borginni ! Það virðist nú alveg heillum horfið og lýðræðið styrkist áreiðanlega við það á öllu landinu. Fleiri og fleiri eru sýnilega farnir að sjá að það er hægt að lifa í Reykjavík án þess að selja sig Sjálfstæðisflokknum.

Og það hrynur meir og meir úr gömlu valdablokkinni. Fólk sér hvað er að gerast. Íhaldið þarf hækju, íhaldið gefur frá sér borgarastjóraembættið, íhaldið er upp á aðra komið með völd og áhrif, íhaldið er á flótta !

Og nú þegar Vilhjálmur Þ. er orðinn að meginvandamáli Sjálfstæðisflokksins í borginni og það blasir við að það er höfuðnauðsyn fyrir íhaldsmenn að losa sig við hann, koma sér upp nýjum oddvita og hefja gagnsókn, láta þeir hann sitja og lýsa yfir stuðningi við hann svo hann geti safnað að þeim meiri og meiri óvinsældum. Og enn virðist sem þeir ætli honum að vera í forustu í borginni fyrir næstu kosningar. Þvílík glámskyggni hjá mönnum sem þykjast hafa vit á pólitík !

Vilhjálmur Þ. er versti valkostur sem þeir geta valið sér í þeim efnum og kýrljóst er að íhaldið mun fara illa út úr hverjum þeim kosningum þar sem honum er ætlað að leiða liðið. Rei-málið hefur vakið upp það vantraust meðal almennings á Vilhjálmi Þ. og starfsaðferðum hans að þar dugir ekki neinn plástur til bóta eða nokkur skottulækningabrögð. Hann hefur verið veginn og léttvægur fundinn af almenningsálitinu og traustið er farið. Trúlegt er líka að það hafi aldrei verið til staðar í verulegum mæli. Það er því orðin óhagganleg staðreynd að oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík er rúinn trausti.

En íhaldið má hinsvegar mín vegna berja höfðinu við veggi Valhallar og tjalda valkostum sem eru búnir að vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 141
  • Sl. sólarhring: 155
  • Sl. viku: 921
  • Frá upphafi: 357102

Annað

  • Innlit í dag: 126
  • Innlit sl. viku: 734
  • Gestir í dag: 124
  • IP-tölur í dag: 123

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband