Leita í fréttum mbl.is

Hvað er nálægt okkur og hvað ekki ?

Í umfjöllun íslenskra fjölmiðla af nýliðnum atburðum á Gaza, hafa þeir hvergi vikið frá þeirri forskrift, að fjalla um stríðsglæpi og aðrar hörmungar út frá pólitískri réttlínu í áróðursmálum.  Horft er á aðra hlið málanna og lítið sem ekkert skeytt um hina. Fólki sem hefur talið sig hafið yfir fordóma gagnvart öðrum, fannst það t.d. alveg rétt að stjórnvöld okkar hygðust ekki taka á móti fulltrúa Ísraelsstjórnar eða yfirleitt hlusta á sjónarmið Ísraelsmanna.

Það var víst hin víðsýna og fordómalausa afstaða þess varðandi deilumálin fyrir botni Miðjarðarhafsins...........!!!

Gengið var út frá því sjónarmiði einu sem réttu, að arabar í Palestínu undir beinu forræði hryðjuverkamanna væru saklaus fórnarlömb yfirgangs Zíonista !

Íslendingar voru í eina tíð þroskameiri en þetta. Þá sömdu spekingar ýmsar viðvarandi leiðbeiningar fyrir komandi kynslóðir sem flestar ættu að vera í fullu gildi enn í dag - ef við hefðum þá dómgreind til að bera að fara eftir þeim. Hvað felst t.d. í spakmælinu : " Sjaldan veldur einn þá tveir deila ! " ?

Gerir það ekki þá kröfu til okkar að við séum tilbúin að hlusta á deiluaðila, vega og meta mál, og taka afstöðu á grundvelli þeirrar skynsemi sem Guð gaf okkur ?

Eigum við að blanda okkur inn í deilur annarra þjóða eða þjóðabrota á forsendum pólitískra upphlaupa og bálandi tilfinningasemi, og skeyta í engu um skynsemi eða efnisrök ?  Íslenska ríkisútvarpið hefur fjallað um átökin á Gaza með þeim hætti að ég sem Íslendingur skammast mín orðið fyrir þann fjölmiðil. Allar upplýsingar virðast þar fengnar í gegnum arabíska aðila sem fá að útmála Ísraelsmenn á allar lundir átölulaust.

Um daginn las ég grein í Mbl. frá ónefndri konu sem var að hvetja fólk til að kaupa ekki vörur frá Ísrael !

En hvað þá með Bandaríkin ?

Hefur þessari blessaðri konu aldrei dottið í hug að hvetja til þess sama gagnvart þeim vegna fangabúðanna á Guantanamo, þar sem fangar hafa að öllum líkindum verið pyntaðir ? Hvernig stendur líka á því að hún og aðrir íslenskir mannúðarvinir hafa ekki sagt orð um fjöldamorð Bandaríkjamanna og fylgifiska þeirra á þúsundum Talibana í Dasht-el-Leili eyðimörkinni í Afghanistan eða fundist ástæða til að sniðganga bandarískar vörur af þeirri ástæðu ?

Skyldi ástæðan vera sú, að umrædd kona viti ekkert um þessi fjöldamorð vegna þess að það hefur svo til ekkert verið fjallað um þau í íslenskum fjölmiðlum og reyndar sáralítið í vestrænni pressu ?

Og af hverju skyldi það vera ?

Líklega er ástæðan sú að fjöldamorðingjarnir í umræddum glæp eru  " the good guys " og gegn þeim snúast vestrænir fjölmiðlar ekki eða vekja athygli á ódáðaverkum þeirra. Ef fólk leitar sér ekki sjálft upplýsinga, getur auðveldlega svo farið að það komi sér í þá stöðu að láta mata sig með alla hluti.

Þeir eru ófáir fjölmiðlarnir á Vesturlöndum sem hafa tekið sér einhliða dómsvald gegn Ísrael og þeir eru ófáir -  nytsömu sakleysingjarnir - sem hlaupa þá til og éta upp allt það sem matreitt er ofan í þá umyrðalaust.

Og það er ekkert hugsað um það, að margir fjölmiðlar á Vesturlöndum eru nú orðið í eigu araba með einum eða öðrum hætti.

Margt mætti um nútíma áróðurshætti segja, þó hér verði aðeins minnst á fátt eitt, en líklegt þætti mér að Jósef Göebbels yrði hrifinn ef hann sæi sviðið í dag og fengi að sjá hvað vinnubrögð hans eru mikils metin í fjölmiðlum samtímans !

Mikið hefur verið talað um látin börn í tengslum við nýliðna atburði á Gaza. Það er eins og verið sé að gefa það stöðugt í skyn að Ísraelsmenn séu alveg sérstakir barnamorðingjar.

Enginn ærlegur maður ver dráp á börnum, en stríðsátök hafa alltaf komið niður á börnum sem öðru fólki og varðandi það eru vafalaust allir sem stríð heyja sekir.

En hvernig var það í Brasilíu þegar umhverfismálaráðstefnan var haldin í Rio hér um árið ? Lögreglan var send út á barnaskitterí - til að fækka götubörnum í borginni, því þau voru talin svo mörg að það kæmi óorði á landið. Hvar sáust mótmælin gegn því ?

Mikið gasalega gleymdu íslenskir barnavinir sér þá illa á mannúðarvaktinni !

Jón Ormur Halldórsson segir í kafla sem hann ritaði í bókina " Íslam með afslætti ", að  - " 30.000 börn deyi í heiminum á hverjum degi úr fátækt ! 

Flest þeirra deyi úr niðurgangi sem orsakist af vondu vatni og lélegu fæði.

Dauði þeirra eigi sér stað með þegjandi samþykki og fullkomnu afskiptaleysi þeirra sem gætu bætt þar úr málum. Auðugasta ríki heims, Bandaríkin, sé nískast allra þróaðra ríkja á framlög til baráttu gegn fátækt ! "

Ekki kemur það mér á óvart að heyra þetta, þar sem Bandaríkin eru versti arðræningi heimsins á okkar dögum og bíða nú aðeins þess örlagadóms sem yfir þau mun ganga í náinni framtíð.

Í ljósi þessara og annarra staðreynda varðandi það sem er í gangi í heiminum, verður hinn pólitíski æsingaleikur varðandi Gaza, bókstaflega fáránlegur.

Það virkar ekki sannfærandi hvað sumt er látið ganga nálægt okkur, en sumt sem er miklu alvarlegra mál er þagað í hel, haldið fjarri umræðu eða látið eiga sig með öllu. Eigum við að láta stýra okkur þannig varðandi skilning á mörgu því sem er að gerast í samtímanum ?

Getum við sætt okkur við að fjölmiðlar nauðgi dómgreind okkar dag eftir dag, allan ársins hring, með slíkum og þvílíkum hætti ?

30.000 börn deyja dag hvern í heiminum vegna þess að öllum virðist sama um þá staðreynd !  30.000 börn - á hverjum degi ! Hugsið um það !

Lögregla er sumsstaðar með það í sínum verkahring að drepa börn í umhverfishreinsunar skyni ! Hugsið um það !

Börn eru seld í þúsundatali víða um heim í kynlífsþrælkun og svívirðilega misnotkun ! Hugsið um það !

Börn eru drepin austur í heimi vegna þess að líffæri þeirra eru orðin verslunarvara á hinum syndum spilltu Vesturlöndum ! Hugsið um það !

- Og enginn segir neitt eða gerir - þó ótal stofnanir séu fyrir hendi sem eiga að sjá til þess að svona viðbjóður eigi sér ekki stað.

En á sama tíma er sorglegur dauði nokkurra barna á Gaza í stríðsátökum, þar sem báðir aðilar eiga skiljanlega sök, notaður að því er virðist sem allt að því kærkominn efniviður í pólitísk áróðurshögg !

Ég hef megnustu skömm á öllum þeim sem stunda slíkt framferði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband