Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um átthagana

 

Við sem búum á Skagaströnd þekkjum vel tíðarfarið eins og það gerist að vetrarlagi í ystu byggðum landsins, Það getur vissulega verið rysjótt og umhleypingasamt og þreytandi á köflum. En við þekkjum líka eftirvæntinguna sem fer að gera vart við sig þegar vorið er í nánd. Við þekkjum þessa kitlandi tilfinningu sem fer um taugarnar og við finnum hvernig brjóstið fyllist af birtuþrá og blóðið verður næstum grænt af gróðurlöngun.

Skyldum við kunna að meta sólskinið og vordægrin svo vel ef við þekktum ekki skammdegið og veturinn ? Nei, það er nábýlið við það stríða sem kennir okkur að meta og njóta þess blíða. Og frá vordögum til haustdægra þurfum við að læra að safna í okkur krafti og styrk fyrir hvern komandi vetur.

Við þurfum að gegnvökva okkur af sumri og sól til anda, sálar og líkama, og mæta svo öllum vetrarskuggum með þeirri ómetanlegu orkugjöf.

Það er svo margt sem við eigum sameiginlega og þurfum væntanlega öll að hafa fyrir augum, ekki bara hinum náttúrulegu augum, heldur líka hinum innri augum - augum anda og sálar.

Þar ber fyrst að telja Spákonufellið - Borgina okkar, þessa yndislegu perlu sem er eins og verndarvættur yfir byggðinni, og gagnvart henni breiðir Höfðinn okkar úr sér, eins og voldugt virki gegn afli Ægis.

Milli Borgarinnar og Höfðans lifum við Skagstrendingar flestir og þar er allt land nánast helgi bundið í okkar augum, sögulega séð. Öll eigum við þessar minningar sem mannlægastar eru, um ástvini og aðra sem gengu hér sína lífsgötu og bættu köflum í þá sögu sem kynslóðirnar hafa skrifað hér.

Það er þessi náttúrulega umgerð sem vefur sig um okkar persónulegu minningar með þeim hætti að þar verður ekki skilið á milli. Þar fer gullið í náttúrunni saman við gullið í mannfólkinu og myndar hina gullvægu heildarmynd.

Stundum talar fólk um átthagatryggð á neikvæðum nótum, snýr þeirri tilfinningu við og nefnir hana átthagafjötra. Oftast er slíkt á orði haft af fólki sem er rótlaust og á hvergi heima, fólki sem er að leita að samastað í tilverunni en gengur það erfiðlega. Það áttar sig sjaldnast á því, að oftast er rótleysi þess sálarlegs eðlis og þarf að leysast á andlegan hátt. Það að flytja stöðugt af einum stað á annan leysir oftast ekki neitt og það sem verra er - það eykur rótleysið.

Átthagatryggð er jákvæð kennd og best er að búa þar sem ræturnar liggja, ef þar er hægt að lifa við sæmilega afkomu og una glaður við sitt.

Við erum gestir á þessari jörð og dveljum hér aðeins meðan stundaglasið okkar  er að renna út. En það skiptir máli hverskonar gestir við erum og hvernig við hegðum lífi okkar. Kynslóðakeðjan heldur áfram að rekja sig út og við erum öll hlekkir í þeirri keðju - en við erum ekki keðjan sjálf eins og sumir virðast halda.

Við erum aðeins hlekkir og hinir hlekkirnir eru alveg jafn mikilsverðir sem hafa læst sig hver um annan í aldanna rás.

Það vinnur hver úr sínum aðstæðum og það sem gildir er að vera maður í því sem maður er að gera hverju sinni.

Oft heyrir maður fólk tala um þörfina á því að fara út í heim og sjá sig um. Það sé svo lítið þroskandi að sitja alltaf á sömu þúfunni. En þeir eru til sem flækjast um allan heim og koma svo á gamals aldri heim á gömlu þúfuna, og það jafnvel á sama þroskastigi og þeir voru þegar þeir fóru.

Og þá hitta þeir kannski fyrir jafnaldra sína sem aldrei fóru neitt, en hafa safnað í sig speki lífsins á sínum heimastað og orðið víðsýnni og þroskaðri en þeir sem flæktust um allt og stoppuðu hvergi nógu lengi til þess að höndla eitthvað varanlegt.

Og víst er það trúlega svo, að þeir sem ætla sér að sigra heiminn heilan eða hálfan, hafa trúlega lítið við að vera á blettinum undir Borginni, en það myndi þá gilda um hvaða stað sem væri á jörðinni því slíkir menn eru rótleysingjar rótleysingjanna. Þeir eiga hvergi heima nema þá kannski í hroka-afkima lítillar sálar sem hefur snúið eigin minnimáttarkennd upp í stórmennskubrjálæði.

Menn eiga að hlynna að sínum rótum og hin náttúrulega umgerð mannlegra lífsróta býr yfir þeirri fegurð hér á Skagaströnd, að hún ætti að duga hverjum og einum út lífið - hverjum þeim sem hefur það í sér að geta unað glaður við sitt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband