Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Pistill í tilefni 11. sept.

 

 


"ÓSÓMA SVÍNHLAÐINN "

 

Hryðjuverka-forsprakkinn Osama Bin Laden frá Sádi-Arabíu er almennt talinn hafa verið heilinn á bak við árásina sem gerð var á Bandaríkin þann 11. sept. 2001, fyrir réttum 6 árum. Og víst er að rökin fyrir því að hann hafi lagt þar á ráðin hljóta að teljast nokkuð sterk. Glæpurinn var augljóslega framinn eftir því hryðjuverka-forriti sem hann hefur gefið út og því er maðurinn sannkallaður heimsósómi.

Slíkan mann má ekki gera að dýrlingi eða píslarvotti í augum milljóna manna. Það þarf að ná honum lifandi og stefna honum fyrir rétt þar sem  fletta má ofan af honum og ná að sýna hann í ljósi sannleikans sem hryðjuverkamann sem virðir mannslíf einskis. Aumkvunarverðan mann sem hefur lokað sjálfan sig inn í þráhyggju-vítahring ofbeldis og manndrápa.

Við sem byggjum þennan heim verðum að bregðast við þeirri ógn sem hryðjuverk eru með skipulegum hætti. Ég held að fæstir geri sér fulla grein fyrir því hvílíkt voðaverk var framið þann 11. september 2001 í New York. Glæpurinn sem slíkur er stórfelldur og hrikalegur og samviskuleysið að baki honum algjört. Þúsundir manna sem voru að hefja starfsdaginn voru skyndilega og fyrirvaralaust þurrkuð út fyrir tilverknað örfárra brjálæðinga. Og skipunin um þessi ólýsanlegu hryðjuverk virðist hafa verið gefin af andlega sjúkum manni sem felur sig í óbyggðum fjarlægs lands og sigar öðrum til morða og misgerða.

Það sama og gerðist 2001 í New York getur gerst hvar sem er í heiminum og hefur gerst. Öryggi venjulegra borgara hefur með því verið stórlega skert og hryðjuverk eru orðin alheimsógn.

Á heimurinn að sætta sig við trúarleg viðhorf manna sem telja sig þjóna guði sínum best með því að myrða sem mest í hans nafni ?  Nei, það má aldrei verða !

Vesturlönd verða hinsvegar að taka sig saman varðandi stefnu sína gagnvart öðrum heimshlutum. Hryðjuverkin eru bein afleiðing ástands sem verður að breytast. Postular hatursins nýta sér það ástand til að afla sér stuðnings alveg eins og Hitler nýtti sér viðvarandi Gyðingahatur til að komast til valda.

Hitler bjó ekki til Gyðingahatrið. Það var þegar til staðar vegna ástands sem skapað hafði verið.

Ástandið í Austurlöndum nær er afleiðing langvarandi arðráns og spillingar og skapað að talsverðum hluta af Vesturlöndum með Bandaríkin í broddi fylkingar. Það verður að snúast gegn hatrinu sem logar í þessum heimshluta með mannúð og kærleika þess heims sem vill virða kristin gildi.

Það má alls ekki nota hryðjuverkaógnina sem tæki til þess að afnema borgaraleg réttindi og skerða það lýðræði sem er þjóðfélagsleg undirstaða okkar á Vesturlöndum. Nokkuð hefur borið á því að öfgafullir hægrisinnaðir stjórnmálamenn hafi viljað nota tækifærið til að þoka okkur í átt að lögregluríkinu við þessar aðstæður.

En lausn vandans felst ekki í Stóra bróður aðferðum þar sem menn eru undir eftirliti hverja mínútu sólarhringsins. Það þarf að efla borgaralegt traust með þeim hætti að borgararnir séu meðvirkir í lagaumhverfi sínu og leggi sitt til málanna. Allir eiga og verða að bera sinn hlut af þeirri ábyrgð sem fylgir því að halda uppi þjóðfélagi sem flestir ætlast áreiðanlega til að rekið sé á manneskjulegum forsendum. Þar getur enginn verið  " stikkfrír " !

En jafnframt verður að láta lög og rétt hafa sinn gang gagnvart þeim fulltrúum hatursins sem hafa stigið endanlega fram af brún hins mannlega og gerst djöflar í mannsmynd.

Þar er einna fremstur í flokki sá maður sem er svínhlaðinn ósóma og viðbjóði, hryðjuverka-forsprakkinn, Osama Bin Laden.

 

 

 


Stríðslygar og stjórnmálalegar blekkingar

 

 


 

Á sínum tíma tilfærði Clinton Bandaríkjaforseti þrjár ástæður til réttlætingar hernaðaríhlutun sinni í hjarta Evrópu. Þegar litið er yfir þær, kemur í ljós að þær fela skýrt í sér þær dæmigerðu villandi upplýsingar sem búast má við að komi frá ríkisstjórn á stríðstímum.

Í fyrsta lagi sagði Clinton að verið væri að varpa sprengjum á Júgóslavíu til að hindra útbreiðslu stríðs. Þetta er tekið beint úr Orwell. Það að stigmagna stríð kemur ekki í veg fyrir útbreiðslu þess. Það eykur það.

Það skapar meiri eyðileggingu eigna, þjáningu og dauða. Það eykur á reiði, skapar stöðnun, sáir djúpstæðu hatri og dregur fleiri inn í langvarandi átök.

Í öðru lagi sagði Clinton að hann vildi draga úr möguleikum Milosevics til að byggja upp varnir og knýja fram kröfur Serba til landsréttinda. Nákvæmlega þessi sama setning var notuð í stefnuyfirlýsingu Bandaríkjanna í upphafi stríðsátakanna við Írak. Nafnið Milosevic kom bara í stað nafnsins Saddam.

Það var eiginlega undarlegt að það skyldi ekki vera farið að tala um að Serbar væru farnir að framleiða gjöreyðingarvopn !

Í þriðja lagi sagði Clinton  að hann vildi undirstrika trúverðugleika NATÓ.

Sannleikurinn er hinsvegar sá að NATÓ hefur ekki búið yfir neinum trúverðugleika síðan kalda stríðinu lauk og opinbera ástæðan fyrir tilvist bandalagsins hætti að vera til. Öll heimsbyggðin veit nú hvað þetta bandalag er í raun - verkfæri í þágu bandarískrar heimsvaldastefnu !

NATÓ er nú orðið ógnun við frið í Evrópu vegna þess að Bandaríkin telja að bandalagið verði að heyja stríð til að viðhalda bandarískum yfirráðum.

Átökin í Kosovo tóku mið af eftirfarandi forsendum: Serbía telur að Kosovo tilheyri sér vegna þess að svo hefur verið sl. 600 ár. Serbía bendir á að vernda þurfi tilvist fornra kirkna og klaustra í Kosovo sem tilheyri serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni og verka þau sjónarmið sterkt á þjóðerniskennd Serba.

Á hinn bóginn er Kosovo í dag að mestu byggt múslimum sem krefjast sjálfstæðis.

Hvort sjónarmiðið er rétthærra ? Krafan vegna sögulegs réttar eða stjórnmálaleg krafa meirihlutans á margþjóða landssvæði ? Lítum rétt sem snöggvast á bandaríska sögu. Bæði krafan vegna sögulegs réttar og krafa meirihlutans voru algerlega aðskilnaðarsinnum í Suðurríkjunum í hag á sínum tíma. Þó komst Bandaríkjastjórn að þeirri niðurstöðu að vernda þyrfti ríkisheildina með valdi.

Alla tíð síðan hafa Bandaríkin verið alfarið á móti aðskilnaði ákveðins landshluta frá alríkinu, ekki aðeins heima fyrir heldur út um allan heim.

Bandaríkin reyndu að halda Sovétríkjunum saman þegar Eistland, Lettland og Litháen, ásamt Úkraínu og öðrum fyrrum sovétlýðveldum fóru að krefjast sjálfstæðis. Á sama hátt studdu Bandaríkin óskipta Nígeríu, Kongó og Rúanda gegn þeim sem vildu skipta ríkjum þessum upp eftir ættflokkum.

Sömuleiðis styðja Bandaríkin Breta gegn kröfum skoskrar og írskrar þjóðernishyggju um sjálfstæði, Frakka gegn sjálfstæðiskröfum Bretóna og Korsíkubúa, Ítalíu gegn þjóðernishyggju á Langbarðalandi, Spán gegn katalónskri þjóðernishyggju og Böskum, Rússa gegn tjetsnesku sjálfstæði og Mexikó gegn aðskilnaðarsinnum í Chiapas héraði svo nokkur dæmi séu nefnd.

Munu Bandaríkin nú snúa alfarið við blaðinu og styðja sjálfstæðiskröfur allra þessara þjóðabrota á sama hátt og þeir styðja sjálfstæðiskröfur Kosovo-Albana nú ?  Svari því hver fyrir sig.

Óhreinleikinn í afstöðu Bandaríkjanna kemur ef til vill hvergi betur í ljós en í andstöðu þeirra við kröfur Kúrda um aðskilnað frá tyrkneskri stjórn. Bandaríkin sjá Tyrkland sem áreiðanlegt lénsríki og þess vegna horfa þau blindum augum á hryllilegar þjóðernishreinsanir Tyrkja á Kúrdum. Svo reglan sem farið er eftir er ekki sú að kúgaðir og niðurníddir þjóðernishópar eigi að fá sjálfsstjórn, heldur snýst málið einfaldlega um að Bandaríkin hafi réttinn til að teikna heimskortið eftir eigin hentugleikum.

Og hvernig tekst svo þessi heimsstjórnun hjá Bandaríkjunum ? Á sama svæði og þau vörpuðu sprengjum á fyrir nokkru, knúðu þau fram sameinaða, fjölþjóða Bosníu, þar sem bandarískir hermenn verða staðsettir til frambúðar, og það gegn vilja allra þjóðabrotanna sem þar búa og óska eftir sjálfstæði. Þar hefur aðeins verið skapaður fangabúða friður. Bandaríkin sviptu sömuleiðis Serbíu landssvæði þar sem meirihluti íbúanna voru Serbar, nokkuð sem jók enn á hættuástandið og var þó ekki á það bætandi.

Og hver hafði þá rétt fyrir sér í Kosovo-deilunni ?

Sjálfstæðishreyfing Kosovo-Albana sem sagðist tala fyrir munn hins múslimska meirihluta í héraðinu eða ríkisstjórn Milosevics sem sagðist tala fyrir munn hins kristna meirihluta í serbneska ríkinu sem vill að Kosovo verði áfram serbneskt land ?

Svarið er í sjálfu sér einfalt. Það er ekki hlutverk Bandaríkjastjórnar að ákveða það. Yfirlýsingar ráðamanna í Washington eiga oft lítið erindi við raunveruleikann. Þeir hafa reyndar enn til þessa veigrað sér við því að ganga alfarið inn á sjálfstæði Kosovo þó allar gerðir þeirra hafi gengið út á þá niðurstöðu, en hafa hafnað því að héraðið verði áfram serbneskt land. Friðarsamkomulagið sem Clinton hrósaði svo mjög í fjölmiðlum á sínum tíma var í raun ekkert nema heimild um að NATÓ yrði til frambúðar með hernámslið í Kosovo og af þeirri ástæðu hafnaði Milosevic því.

Já, því miður hafa Bandaríkin verið enn einu sinni á ferðinni í þessu máli með viðskiptaþvinganir, sprengjukast og endurritun á landakortum.

Bandaríkin eru ekki að læra af mistökum liðins tíma, heldur er verið að endurtaka þau aftur og aftur. Eldflaugar Clintons ollu óbætanlegum skaða í Júgóslavíu og kristnir menn þar, tilheyrandi Rétttrúnaðarkirkjunni, skelfdust við það að sjá Bandaríkin standa að baki múslimum þar og kröfum þeirra. Það má því eflaust bæta Serbum á hinn vaxandi lista þeirra sem svarið hafa bandaríska heimsveldinu eilíft hatur.

Þegar svo við hugleiðum hina upphaflegu amerísku hugsjón - hugsjónina um friðsamt verslunarlýðveldi, sem væri vígi frelsisins, verslaði við alla og héldi sér utan við hin endalausu rifrildismál gamla heimsins - getum við aðeins orðið stórkostlega fjarlæg þeim stjórnvöldum sem stýra nú landi fæddu í frelsi.

Bandarísk yfirdrottnun er víða að verða óbærileg með öllu og sannkölluð ógn við heiminn. Það ber líka að hafa það í huga að hún traðkar ekki síður á sönnum amerískum hugsjónum og gildum sem auðvitað fara saman við frelsisþrá manna hvar sem er í veröldinni.

 

 (Unnið upp úr greinum úr bandarískum blöðum og efni á netinu. )

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband