Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
20.6.2009 | 11:48
" Fimmta valdið "
Í svokölluðum lýðræðisþjóðfélögum hefur þrískipting valdsins verið grundvallaratriði.
Við höfum löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald. Síðan þegar áhrifavald fjölmiðla fór að aukast verulega var gjarnan farið að tala um þá sem fjórða valdið og þá sem vald sem var eitthvað meira í áttina að því að vera rödd fyrir fólkið.
En eftir að fjársterkir aðilar fóru að kaupa upp fjölmiðla í stórum stíl, einnig hér á landi, og beita þeim sem áróðurstækjum fyrir sig og sína hagsmuni, hefur trú manna, á að fjölmiðlar væru eitthvað sérstaklega að þjóna hagsmunum almennings, farið ört minnkandi.
Nú er svo komið að fjölmiðlar njóta almennt lítillar tiltrúar sem óháðir og frjálsir miðlar, enda hafa sumir þeirra, eins og vitað er, orðið sér til skammar með framferði sínu. Svo fjórða valdið þykir ekki nú til dags öllu almenningsvænna en hin þrjú.
Framkvæmdavaldið er eins og allir vita stórlega rúið trausti í okkar landi eftir feril sumra þeirra sem þar hafa ráðið mestu. Löggjafarvaldið hefur að mati stórs hluta þjóðarinnar verið tuska í höndum framkvæmdavaldsins til fleiri ára og dómsvaldið virðist ekki lengur hafa með höndum það verkefni að þjóna almenningi í þágu réttlætisins. Margir líta svo á að það sé fyrst og fremst til þess nú til dags að fita lögfræðimenntað fólk í þágu stéttarinnar. Hvað er þá til ráða fyrir almenna þjóðfélagsþegna þegar þessi fjögur valdastig virðast öll meira og minna misheppnuð í ljósi reynslunnar ?
Það væri hugsanlega hægt að fara þá leið að byggja upp fimmta valdið, sem yrði þá bloggið og netið. Þar höfum við ótrúlega mikla möguleika til að ástunda beint lýðræði og láta í okkur heyrast. Þar ætti rödd fólksins að geta heyrst með frjálsum hætti.
En það er eins með fimmta valdið og hin fjögur, það er hægt að eyðileggja það ef illa er á málum haldið og það mun verða reynt - á því er ekki nokkur vafi. Og sennilega verður það ekki hvað síst reynt innanfrá. Svikaraddir verða látnar tala til að ýta málum til ófarnaðar. Valdaklíkur fjárplógsmanna - samtryggingaröflin -, eru ekki lýðræðisleg fyrirbæri og hafa aldrei verið það, en hafa lengstum kunnað flestum betur að stýra lýðræðinu í þágu eigin hagsmuna.
Alfrjáls umræða fimmta valdsins yrði því fljótt ógn í augum slíkra afla. Það yrði erfitt að kaupa hana eða hafa stjórn á henni, ráða því hvert hún stefndi og hverju hún kæmi til leiðar. Það yrði því hætta á því, að áliti hins svarta baktjaldavalds, að bastillur nútímans, sem byggðar hafa verið upp sem óðast í seinni tíð af kúgunaröflum fjármagnsaflanna, verði brotnar niður í áhlaupum lýðsins - gegnum alfrjálsa umræðu !
Við skulum nefnilega hafa það fast í huga, að einstaklingur sem farið hefur verið illa með, einstaklingur sem hefur verið sviptur öllu því sem hann hefur barist baki brotnu fyrir árum saman, - en uppgötvar svo við gjaldþrot og niðurbrot, að hann hefur aldrei verið annað en arðránsmöguleiki í augum hins frjálshyggjusinnaða bankavalds sem hefur náð að læsa klónum í hann, telur sig ekki hafa neinu að tapa þegar svo er komið. Leiðin til öþrifaráðanna er þá algjörlega opin. Mönnum í þeirri stöðu getur þótt handhægt og eðlilegt að grípa til ýmissa gagnverkandi meðala. Það getur verið beltagrafa í einu tilfellinu og eitthvað annað í öðru.
Fjármagnsöfl nútímans sem eru skilgetin afkvæmi fyrri tíðar auðvalds, telja sig sjáanlega enn geta farið með fólk eins og þeim sýnist og hrokinn og græðgin leika víða enn lausum hala.
En það skyldi þó aldrei vera að þeim skjátlaðist þar illilega og fólk færi í það að afneita fjórveldi samtryggingaraflanna og hæfist handa um að mynda breiðfylkingu fimmta valdsins í komandi tíð gegn þeim sérhagsmunum sem vaðið hafa yfir allt og lagt þjóðfélagslega velferð á Íslandi í rúst á skömmum tíma ?
11.6.2009 | 22:10
Sagan af Mefíbóset
Hver var Mefibóset ? Mefibóset er maður sem sagt er frá í Heilagri Ritningu og saga hans er athyglisverð og getur sagt okkur ýmislegt ef við gefum okkur tíma til að rýna í hana og opna okkur andlega fyrir því sem hún hefur að geyma.
Sál konungur var afi Mefíbósets, Jónatan faðir hans var sonur Sáls en jafnframt fóstbróðir Davíðs. Konungdómurinn var frá veraldlegu sjónarmiði nær Jónatan en Davíð, en Jónatan var ekki neinn venjulegur maður. Hann var laus við öfund og eigingirni, hann skildi að Davíð var útvalinn af Guði og gerðist vinur hans algjör, já, ekki bara vinur, heldur fóstbróðir.
Þeir Davíð voru blóðbræður og samband þeirra helgað með sáttmála, sáttmála sem var innsiglaður með blóði þeirra sem gagnkvæm lífstíðarskuldbinding. Vinátta þeirra var því gegnheil og sönn af beggja hálfu.
Biblían greinir ekki frá því hve oft Jónatan hefur bjargað lífi Davíðs með því að vara hann við hættum frá hendi Sáls, en mikil raun hlýtur það að hafa verið fyrir Jónatan að upplifa að faðir hans var í andstöðu við Drottin og sóttist eftir lífi fóstbróður hans.
Jónatan skildi að Davíð var útvalinn af Guði og undir sérstakri blessun Hans. Það var atriði sem enginn mátti mistúlka eða ganga framhjá. Jónatan var trúr sonur í öllu því sem honum bar að vera, en þegar hann varð að velja milli föður síns og Guðs, valdi hann Guð. Það segir okkur mikið um það hvílíkur maður Jónatan var og víst mætti hver maður óska sér þess að líkjast honum að hreinleika hugar og hjarta.
Þau urðu ævilok þessa ágæta manns að hann féll í orustunni á Gilbóafjalli sem hermaður ásamt bræðrum sínum tveim, en Sál konungur svipti sig þar lífi. Hann hafði svívirt konungdóm sinn og köllun sína og endalok hans hlutu því að verða ömurleg. Örlög hans ættu að vera öllum mönnum eftirminnileg og víti til varnaðar.
Ísbóset sonur Sáls varð konungur eftir föður sinn yfir Ísrael, en konungdómur hans varð skammær, aðeins tvö ár. Þá var hann myrtur af eigin mönnum. Benjamínsætt hafði þar með runnið sitt skeið á konungsstóli og tími Davíðs og ættar Júda var kominn. Davíð var tekinn til konungs yfir öllum Ísrael og ríkti yfir landi og þjóð í 40 ár.
Mefíbóset sonur Jónatans var 5 vetra er fregnin kom um fall föður hans og afa. Fóstra hans flýði með hann, en í ofboðinu féll hann og varð lami á báðum fótum. Hann dvaldi á stað þeim sem Lódebar hét, alinn upp við hatur til Davíðs konungs, sem var sagður óvinur ættar hans. Þið getið ímyndað ykkur hug Mefíbósets til Davíðs, því eflaust hefur hann verið orðinn beiskur í lund,vegna mótlætis og fötlunar.
En skyndilega gerist það að hann er sóttur til Lódebar, eftir fyrirmælum konungsins, hins mikla óvinar, og kallaður til samneytis við hann í höllinni, sem vinur, sem meðlimur hinnar konunglegu fjölskyldu. Þvílík breyting !
Mefíbóset hafði verið alinn upp við lygar og röng viðhorf, hann varð að snúa frá öllu sem hann hafði vanist við í Lódebar - Sannleikurinn var allur annar - hann var í blóðsáttmála við konunginn og hefði aldrei þurft að flýja neitt. Hann var ekki dauður hundur - hann var lifandi maður með dýrmæt réttindi sem honum voru áunnin fyrir fæðingu hans. Hann þurfti bara að vita af þeim, taka við þeim. Hann þurfti að þekkja sannleikann og hætta að hlusta á lygarnar í heiminum umhverfis. Hætta að trúa myrkrinu og leita fram í ljósið. Þannig er það líka með okkur öll.
Áreiti heimsins er mikið á sálarlíf okkar og alla hugsun. Okkur hættir til að vilja blanda blóði við tíðarandann, sama hversu rangsnúinn og illur hann er. Heimurinn lamar okkur, lýgur að okkur, vill halda okkur í ömurleika Lódebar-ástands Mefibósets, þar sem við erum réttlaus, beiskjufull og heiftrækin, þar sem við nærum óvild í hjarta okkar, jafnvel til þeirra sem síst eiga það skilið.
Við þurfum því að komast frá Lódebar. Við þurfum að vita að Guð hefur gert sáttmála við okkur í gegnum Jesú Krist, sannan blóðsáttmála sem er endurleysandi og eilífur að gildi.
Við erum í sporum Mefíbósets í Lódebar meðan við trúum lygum heimsins, en við erum í höll Konungsins, sitjum til borðs með honum, þegar við játum Jesú Krist sem leiðtoga lífs okkar og höldum af trúfesti í hans klæðafald.
Það er eina leiðin fyrir okkur - upp á við til þess ljóss sem er hið Eilífa Líf.
5.6.2009 | 23:22
Nokkur orð um átthagana
Við sem búum á Skagaströnd þekkjum vel tíðarfarið eins og það gerist að vetrarlagi í ystu byggðum landsins, Það getur vissulega verið rysjótt og umhleypingasamt og þreytandi á köflum. En við þekkjum líka eftirvæntinguna sem fer að gera vart við sig þegar vorið er í nánd. Við þekkjum þessa kitlandi tilfinningu sem fer um taugarnar og við finnum hvernig brjóstið fyllist af birtuþrá og blóðið verður næstum grænt af gróðurlöngun.
Skyldum við kunna að meta sólskinið og vordægrin svo vel ef við þekktum ekki skammdegið og veturinn ? Nei, það er nábýlið við það stríða sem kennir okkur að meta og njóta þess blíða. Og frá vordögum til haustdægra þurfum við að læra að safna í okkur krafti og styrk fyrir hvern komandi vetur.
Við þurfum að gegnvökva okkur af sumri og sól til anda, sálar og líkama, og mæta svo öllum vetrarskuggum með þeirri ómetanlegu orkugjöf.
Það er svo margt sem við eigum sameiginlega og þurfum væntanlega öll að hafa fyrir augum, ekki bara hinum náttúrulegu augum, heldur líka hinum innri augum - augum anda og sálar.
Þar ber fyrst að telja Spákonufellið - Borgina okkar, þessa yndislegu perlu sem er eins og verndarvættur yfir byggðinni, og gagnvart henni breiðir Höfðinn okkar úr sér, eins og voldugt virki gegn afli Ægis.
Milli Borgarinnar og Höfðans lifum við Skagstrendingar flestir og þar er allt land nánast helgi bundið í okkar augum, sögulega séð. Öll eigum við þessar minningar sem mannlægastar eru, um ástvini og aðra sem gengu hér sína lífsgötu og bættu köflum í þá sögu sem kynslóðirnar hafa skrifað hér.
Það er þessi náttúrulega umgerð sem vefur sig um okkar persónulegu minningar með þeim hætti að þar verður ekki skilið á milli. Þar fer gullið í náttúrunni saman við gullið í mannfólkinu og myndar hina gullvægu heildarmynd.
Stundum talar fólk um átthagatryggð á neikvæðum nótum, snýr þeirri tilfinningu við og nefnir hana átthagafjötra. Oftast er slíkt á orði haft af fólki sem er rótlaust og á hvergi heima, fólki sem er að leita að samastað í tilverunni en gengur það erfiðlega. Það áttar sig sjaldnast á því, að oftast er rótleysi þess sálarlegs eðlis og þarf að leysast á andlegan hátt. Það að flytja stöðugt af einum stað á annan leysir oftast ekki neitt og það sem verra er - það eykur rótleysið.
Átthagatryggð er jákvæð kennd og best er að búa þar sem ræturnar liggja, ef þar er hægt að lifa við sæmilega afkomu og una glaður við sitt.
Við erum gestir á þessari jörð og dveljum hér aðeins meðan stundaglasið okkar er að renna út. En það skiptir máli hverskonar gestir við erum og hvernig við hegðum lífi okkar. Kynslóðakeðjan heldur áfram að rekja sig út og við erum öll hlekkir í þeirri keðju - en við erum ekki keðjan sjálf eins og sumir virðast halda.
Við erum aðeins hlekkir og hinir hlekkirnir eru alveg jafn mikilsverðir sem hafa læst sig hver um annan í aldanna rás.
Það vinnur hver úr sínum aðstæðum og það sem gildir er að vera maður í því sem maður er að gera hverju sinni.
Oft heyrir maður fólk tala um þörfina á því að fara út í heim og sjá sig um. Það sé svo lítið þroskandi að sitja alltaf á sömu þúfunni. En þeir eru til sem flækjast um allan heim og koma svo á gamals aldri heim á gömlu þúfuna, og það jafnvel á sama þroskastigi og þeir voru þegar þeir fóru.
Og þá hitta þeir kannski fyrir jafnaldra sína sem aldrei fóru neitt, en hafa safnað í sig speki lífsins á sínum heimastað og orðið víðsýnni og þroskaðri en þeir sem flæktust um allt og stoppuðu hvergi nógu lengi til þess að höndla eitthvað varanlegt.
Og víst er það trúlega svo, að þeir sem ætla sér að sigra heiminn heilan eða hálfan, hafa trúlega lítið við að vera á blettinum undir Borginni, en það myndi þá gilda um hvaða stað sem væri á jörðinni því slíkir menn eru rótleysingjar rótleysingjanna. Þeir eiga hvergi heima nema þá kannski í hroka-afkima lítillar sálar sem hefur snúið eigin minnimáttarkennd upp í stórmennskubrjálæði.
Menn eiga að hlynna að sínum rótum og hin náttúrulega umgerð mannlegra lífsróta býr yfir þeirri fegurð hér á Skagaströnd, að hún ætti að duga hverjum og einum út lífið - hverjum þeim sem hefur það í sér að geta unað glaður við sitt.
3.6.2009 | 19:15
Hin ofmetna menntun
Eitt af því sem því miður hefur orðið að dýrkunaratriði á síðustu árum er menntun. Áður var menntun skilgreind sem farvegur til að skerpa hæfni manna og gera þá færari um að sinna flóknum skyldum í réttu hlutfalli við vaxandi reynslu. Í seinni tíð hefur reynslan verið látin lönd og leið og menntunin ein hefur átt að tryggja farsælan árangur í hvívetna. Sú stefna var að sjálfsögðu ávísun á vonda útkomu vegna innistæðuleysis á reynslureikningum manna.
Með því að úthýsa gildi reynslunnar var beinlínis farið í það að losa um eðlilega tengingu menntunar við mannlega dómgreind og síðan hefur menntunarstig manna verið skilgreint sem höfuðgilt atriði varðandi almennt manngildi í víðasta skilningi. Sú afstaða er náttúrulega svo vitlaus að engu tali tekur.
Ég skrifaði pistil á bloggið á sínum tíma um að asnar sem settir væru til mennta, hættu ekki að vera asnar við það, heldur yrðu þeir aðeins menntaðir asnar, og þá heldur varasamari sem slíkir.
Menntun er góð og til þess hugsuð að gera fólki kleyft að ávaxta hæfileika sína, en menntun býr ekki til hæfileika þar sem efniviðurinn til þeirra er ekki fyrir hendi. Sumir virðast halda að menntakerfið búi til mannlega hæfileika, en það er að sjálfsögðu ekki rétt, menntakerfið gerir aðeins einstaklinga með hæfileika færari um að nýta þá og virkja það sem í þeim býr.
Menntuð manneskja lærir síðan að hagnýta sér lærdóm sinn í réttu hlutfalli við vaxandi reynslu og eftir því sem hæfnin vex er henni eðlilega falin meiri ábyrgð.
Hámenntuð manneskja getur hinsvegar orðið stórhættuleg í störfum fyrir ríki eða sveitarfélag, ef henni eru falin mikil ábyrgðarstörf án þess að nokkur reynsla mæli með því. Menntun og reynsla þurfa að haldast í hendur ef vel á að fara.
Það var yfirleitt fullur skilningur á þeirri samtengingu hér áður fyrr, en svo fóru atriði eins og vaxandi menntahroki að spilla áhrifum reynslunnar og gera lítið úr þeim. Að lokum fór svo að menntunarstigið var viðurkennt eitt og sér óumdeilt gildismál en reynsluþörfin metin einskis !
Og þá byrjaði andskotinn að skemmta sér fyrir alvöru á kostnað þeirrar skynsemi sem mennirnir eiga víst að búa yfir. Heimska og menntahroki fóru að ráða öllu og lærðir asnar yfirtóku stjórnunarstöður hjá ríki og bæjarfélögum, nýskriðnir úr skólum, reynslulausir með öllu, náðu sér samt í allskonar embætti, og settust að í kerfinu eins og flugur á skítahaug.
Ein af ástæðunum fyrir bankahruninu og vangetu stjórnkerfisins til að taka á efnahagsvandanum fyrir og eftir það, var og er hin ofmetna menntun. Hvarvetna í kerfinu og varðstöðvum þess voru menn í lykilstöðum, menn með allskonar menntagráður, en reynslulitlir og alveg ófærir til að skilja vandann og taka á honum. Sama var um bankakerfið að segja.
Og enn í dag er talað um þetta velmenntaða fólk sem dýrasta fjársjóð þjóðarinnar - þetta fólk sem í raun og veru setti hér allt á hausinn - í nafni sinnar ofmetnu menntunar. Þetta fólk var margt eins og gangandi verðbréf, metin á milljónatugi, meðan dansinn dunaði, en hefur reynst eftir hrunið mestanpart innistæðulaust.
Það er ærin þörf að viðurkenna þetta ofmat á menntuninni sem einn þáttinn í því hve illa fór og ekki þann minnsta. Senda ber þetta yfirlýsta hámenntaða fólk í endurmenntun - þar sem hamra verður á því grundvallaratriði að gildi reynslunnar sé höfuðatriði varðandi það að menntun skili sér eins og til er ætlast.
Við höfum engin efni á því að fela reynslulausu " hámenntuðu " fólki að gæta efnahagslegs öryggis okkar - enda hefur það sýnt sig með hrikalegum hætti !
Þó að slíkt fólk geti stráð um sig prófgráðunum, getur það samt verið og hefur verið, í bankakerfinu og víðar, eins og gangandi tímasprengjur fyrir heill okkar allra og þess þjóðfélags sem við lifum í. Reynum nú einu sinni að læra af reynslunni og hætta þessu uppskrúfaða menntadýrkunar-kjaftæði svo það verði ekki bráðlega að endurnýjaðri uppskrift að öðru syndafalli.
Felum hér eftir menntuðu fólki ábyrgðarstörf í samfélagsins þágu í samræmi við vaxandi reynslu sem ein segir með réttu til um gildisbæra hæfni.
Birt í Mbl. 2.6.sl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.6.2012 kl. 20:14 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 31
- Sl. sólarhring: 80
- Sl. viku: 600
- Frá upphafi: 365498
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 513
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)