Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
22.3.2012 | 19:06
HVAÐ ER LÝÐRÆÐI ? ( Á lýðræðisnótum III. )
Það sem lýðræði merkir fyrst og fremst er þrennt :
Í fyrsta lagi þýðir lýðræði vald fólksins, frelsi fjöldans til að ráða sínum eigin málum og þannig er það andstæða höfðingjaræðis eða einræðis.
Í öðru lagi stendur lýðræði fyrir jafnrétti í mannlegu samfélagi.
Í þriðja lagi boðar lýðræðið bræðralag manna.
Á þessum grundvelli hófst franska byltingin með kröfum sínum um frelsi,jafnrétti og bræðralag. Nýafstaðið frelsisstríð nýlendnanna í Norður Ameríku gegn breska stórveldinu, varð þá frönskum hugsjónamönnum mikil hvatning til að krefjast mannréttinda í eigin landi, þar sem konungurinn, aðallinn og kirkjan ráðskuðust með allt þjóðfélagið án nokkurs sambands við þegnana. Fólkið átti bara að þegja og hlýða !
Þegar Benjamín Franklin var sendur til Frakklands til að tala máli amerísku nýlendnanna þegar frelsisstríðið var á viðkvæmasta stigi, varð hann þegar í stað miðdepill allrar athygli í franska samkvæmislífinu. Og hann var sannarlega maður sem kunni að tala máli þjóðar sinnar.
Á undra skömmum tíma fóru menn að skilja að það voru fleiri stjórnarfars-valkostir til en endalaust konungsvald og það voru jafnvel til menn sem heyrðu aðlinum til sem skynjuðu þá kall nýrra tíma. Og sannarlega var það kall hróp lýðræðisins, krafa hinna afskiptu til þátttöku í þjóðfélagsréttindum, krafa hinna undirokuðu til mannréttinda og mannsæmandi lífsafkomu.
Öll hin framsæknustu og frjálslyndustu öfl Evrópu litu með hrifningu til Frakklands í byltingunni miklu. Þegar þýsku ríkin áttu í stríði sínu við heri frönsku byltingarinnar, fagnaði skáldið og aðalsmaðurinn Göethe ósigri landa sinna eftir orustuna við Valmy 1792 og lýsti þeirri skoðun sinni að með sigri Frakka hæfist nýtt tímabil í mannkynssögunni.
Og Fichte, hinn frægi þýski heimspekingur og þjóðfrelsisfrömuður, prófessor við háskólann í Berlín, sagði í ræðu um svipað leyti, að Frakkland væri hið eina sanna föðurland hvers einasta frelsisunnandi manns. Og þannig bergmáluðu frelsiskröfur Frakka um alla hina einræðiskúguðu álfu.
En þó að franska byltingin væri borgarabylting fyrst og fremst en ekki verkalýðsbylting, varð hún samt til þess að gjörbreyta þjóðfélagslegum valdahlutföllum, fyrst í Frakklandi og svo í framhaldi víðar um álfuna og sá þeim fræjum sem síðar uxu fram til hagsbóta fyrir þjóðlegar framfarir og vaxandi velferð almennings. Það var heldur ekki vanþörf á því að breyta hlutunum hvað það snerti, en enn þurfti þó öld að líða áður en verulega fór að birta til í veröld hins almenna manns.
Alþýðan varð í millitíðinni sem löngum fyrr, að sætta sig við hið " sorglega jafnrétti til dauðans ", eins og Sören Kierkegaard orðaði það, að upplifa það eina jafnrétti að höfðingjarnir dóu líka !
En nú skulum við skoða lýðræðishugtakið enn frekar og skilgreina það nánar að innviðum til.
Hin upphaflega merking hugtaksins lýðræði - demokratí - er sem nærri má geta komið úr grísku og dregið af demos sem þýðir lýður og kratein sem þýðir að ráða. Svo lýðræði merkir að fjöldinn, fólkið sjálft, - þjóðin, á að ráða stjórnarfari sínu. Einnig þarf að tryggja að hún hafi þá stjórn á atvinnulífi sínu, menningarlífi og öðru því sem þörf er að ráða, svo ekki sé hægt að afnema eðlileg mannréttindi fólks til hagsbóta fyrir yfirstéttarvald og önnur einræðisöfl, í þágu sérhagsmuna tiltekinna þjóðfélagshópa eða fámennrar valdaklíku. Lýðræðishugsjónin skar upp herör gegn öllu því kúgunarfargani sem hafði tröllriðið öllum ríkjum frá alda öðli og valdið meira misrétti og þjóðfélagslegum glæpaverkum en nokkurn tíma verður hægt að koma tölum yfir.
Lýðræðið opnaði augu manna fyrir því að margt sem hafði verið sett fram á forsendum jákvæðra hugtaka var í rauninni neikvætt og andstætt almennri velferð. Lengi hafði til dæmis verið talið til dyggða að vera konunghollur, en við ný viðhorf, sem byggðust á skoðun lýðræðislegrar hugsunar, sáu menn að þessi margrómaða konunghollusta var í rauninni ekkert annað en undirlægjuháttur gagnvart einræðisvaldi, menn skriðu fyrir valdhafanum í von um að hann viki einhverjum dúsum að þeim. Viðhorfið var það sama og hundanna undir borðinu sem biðu eftir því að beinum væri hent til þeirra - og dingluðu rófunni á meðan. Og þegar menn fóru að átta sig á þessu, fjaraði fljótt undan orðstír konunghollustunnar, eins og allra annarra blekkinga sem eru afhjúpaðar.
Lýðræðið flutti með sér kröfuna um skoðanafrelsi, ritfrelsi og fundafrelsi, það sem í einu orði kallast nú til dags sjálfsögð mannréttindi. Ekkert af þessu var til í stjórnarfyrirkomulagi ríkja sem bjuggu við konungsvald. Lýðræði stóð líka fyrir því og á að standa fyrir því, að hver maður hafi rétt á því að njóta arðs af erfiði sínu, vinnu sinni.
Engin ánauð er leyfileg samkvæmt siðréttu lögmáli lýðræðisins.
Það var ekki að ófyrirsynju að þetta var í sérstöku ákvæði sett inn í mannréttinda-yfirlýsingu amerísku frelsisbyltingarinnar :
" Vér álítum eftirfarandi augljósan sannleika ; að allir menn séu skapaðir jafnir, að þeim sé af skapara sínum veitt ákveðin óafsalanleg réttindi ; að þar á meðal sé lífið, frelsið og leitin að hamingjunni ".
Og menn mega aldrei gleyma því að til þess að lýðræðið næði völdum, þurfti að sigrast á andstæðu valdi. Vald fólksins, áhrifavald þess, samtakamáttur þess, ríkisvald þess, er og verður vörður og frumskilyrði frelsis hins almenna manns.
Þegar ógnir steðja að frjálsri valstöðu almennings, þá gildir hið gamla kjörorð frönsku lýðræðisbyltingarinnar " föðurlandið er í hættu " og þá þarf að verjast draugum fortíðarinnar, nýju konungsvaldi, nýjum aðli, nýjum trúarbrögðum sérréttinda og svikræðis. Baráttan fyrir lýðræðinu er því viðvarandi og mun aldrei taka enda meðan mannkynið er í þeirri stöðu að líða fyrir eigin syndir.
Ef ein kynslóð sefur á verðinum fyrir velferð fólksins, fær næsta kynslóð svo sannarlega að gjalda þess. Hver kynslóð verður því að halda vöku sinni og hafa fullan skilning á því að sú vaka er forsenda velferðar barna þeirra.
Og lýðræði er jafnréttismál, ekki bara fyrir lögunum, heldur í víðasta mannskilningi þess orðs. Ef lýðræðið væri aðeins jafnrétti fyrir lögunum, þá væru hin beisku orð skáldsins Anatole France þungur dómur yfir því, en hann sagði eitt sinn : " Lögin, sem eru jöfn fyrir alla, banna í hátign sinni jafnt fátækum sem ríkum að sofa undir brúm, betla á götunum og stela brauði ! "
Jafnrétti lýðræðisins er miklu meira en jafnrétti fyrir lögunum, það felst meðal annars í viðurkenningu á því að allir eigi sama rétt til jarðarinnar og auðlinda hennar, jafnan rétt til menningararfs og lífsgæða þjóðfélagsins, jafnrétti án tillits til efnahags, stéttar, þjóðflokks eða kyns, jafnrétti allra einstaklinga til þess að fá að þroska hæfileika sína, sjálfum sér og þjóðfélaginu öllu til hagsældar. Þetta jafnrétti er svo víðtækt að gildi og inntaki að það er með réttu einn af hyrningarsteinum lýðræðisins.
Og þegar við tölum um að lýðræðið standi fyrir bræðralag manna um gjörvalla jörðina, þá gerum við það vegna þess að lýðræðið sem slíkt getur ekki staðist nema bræðralagshugsun sé fyrir hendi og sameiginleg tilfinning fyrir því að velferð fólksins byggist á því að menn hugsi eins og skytturnar þrjár gera í sögunni - einn fyrir alla og allir fyrir einn !
Bræðralagshugsjón lýðræðisins stefnir að því að tryggja að enginn geti kúgað annan í krafti valds yfir honum. Vald fólksins sem býr í lýðræðinu þarf skiljanlega að vera til staðar sem grundvöllur þjóðskipulagsins, en þó kemur vonandi að því að menn fari að skilja að valdið sem slíkt þarf smám saman að hverfa af sjálfu sér, því sérhver beiting valds hefur í för með sér neikvæða fylgifiska.
Yfirráð fjöldans í kraftbirtingu lýðræðisins þurfa jafnan að undirstrika í öllum greinum að þau séu fullkomin andstæða höfðingjavalds fyrri tíma og einræðis kónga og keisara. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því þegar menn tala um lýðræðið og eðli þess. Lýðræðið er ekki og á aldrei að vera innantómt orð eða dauður lagabókstafur. Það er dýrmætur málstaður sem barist hefur verið fyrir og er barist fyrir, málstaður sem miklu hefur verið fórnað fyrir og er fórnað fyrir - hugsjón og veruleiki sem menn hafa lifað fyrir og dáið fyrir um langt skeið.
Og við megum aldrei gleyma því að menn ruddu lýðræðinu braut, þrátt fyrir ofsóknir, útlegð og hverskonar bönn, það voru fyrst og fremst brautryðjendur lýðræðisins sem hvarvetna mótmæltu harðstjórn og ofríki umboðslausra valdhafa. Við megum því aldrei missa sjónar á gildi lýðræðisins eða láta hversdagslega vanabindingu eða sljóleika blinda okkur fyrir verðleikum þess.
Við megum aldrei láta ágalla í framkvæmd lýðræðis verða til þess að við förum aftur að tilbiðja skurðgoð hinnar hátignarlegu skítmennsku, einræðið og höfðingjavaldið, ókindina sem bíður alltaf færis að tjaldabaki í hræsnislegum felubúningi sínum, til að ræna völdunum af fólkinu um leið og það sofnar á verðinum. Það er vert að hafa í huga að Abraham Lincoln aðvaraði þjóð sína með þessum orðum, nokkru áður en hann var myrtur 1865 .
" Ég sé í framtíðinni kreppu nálgast, sem ég óttast og veldur mér áhyggjum um öryggi lands míns. Voldug auðfélög hafa risið upp í kjölfar styrjaldarinnar ; tímabil spillingarinnar á æðstu stöðum landsins mun af því leiða og peningavaldið í landinu mun reyna að lengja drottnunartímabil sitt með því að auka sér í vil hleypidóma fólksins, þangað til allur auður hefur safnast á fáar hendur og lýðveldið er eyðilagt. Mig uggir nú meir um öryggi lands míns en nokkru sinni fyrr, jafnvel meir en þegar styrjöldin var verst. "
Þannig mælti einn rismesti maður bandarískrar sögu árið 1865, hvað myndi hann segja ef hann sæi hvað gerst hefur síðan ? Orð hans hafa ræst fullkomlega og ríkið sem hann varði og bar fyrir brjósti er fyrir löngu orðið gjörspillt kúgunartæki í höndum auðhringa, sem arðrænir og traðkar á frelsi annarra þjóða.
Og annar dáðríkur hugsjónamaður, Íslendingurinn Hallgrímur Kristinsson, einn besti maður Samvinnuhreyfingarinnar og frumkvöðull Sambandsins, sagði árið 1929 í Andvara, í viðtali sem Jónas Þorbergsson tók við hann, að hann óttaðist um framtíðar-örlög Sambandsins. Hann uggði að starfsemi Sambandsins myndi, er stundir liðu fram, snúast í hagsmunabaráttu einvörðungu, meðan eldur hugsjónanna félli í fölskva hjá gröfum frumherjanna, enda væri þá með öllu unnið fyrir gýg, með því að raunverulegt gildi sérhverrar félagsmálahreyfingar og umbótaviðleitni manna væri fólgin í þeirri þróun, er hún fengi orkað í andlegum og siðferðilegum efnum. "
Og Hallgrímur Kristinsson varð sannspár í ótta sínum varðandi örlög síns hugsjónabarns. Það kom á daginn sem hann sagði þó hann væri þá fallinn frá og þyrfti ekki að horfa upp á ósómann.
Samband íslenskra Samvinnufélaga varð er stundir liðu fram, íslenskur auðhringur, gráðugt afskræmi þess sem því var ætlað að verða.
Auðvaldið tók þar öll völd og það fór brátt að berjast gegn velferð almennings . Brátt stjórnaði Sambandið Framsóknarflokknum og réð því að langmestu leyti hvernig þar var tekið á málum í landsstjórninni. Hin lifandi, stríðandi Samvinnuhreyfing - sem leiddi bændur og verkamenn fram undir forustu fórnfúsra hugsjóna og baráttumanna, til atlögu gegn auðvaldi og afturhaldi og reisti sveita-alþýðuna upp úr sárustu niðurlægingu, varð í Sambandinu að voldugu auðsöfnunarbákni, sem tengdist innlendu og erlendu auðvaldi sterkum gróðaböndum. Það urðu þar algjör hausavíxl á hlutunum.
Og fólkið í Samvinnuhreyfingunni varð brátt á valdi forstjóra sinna sem gerðu sitt besta til að grafa undan velferð þess og auka sína auðsöfnun á kostnað þess. Undir forustu Vilhjálms Þór varð Sambandið alfarið amerískt fyrirbæri, ógeðslegt arðráns-skrímsli sem tók að sér allskyns umboð á Íslandi fyrir bandaríska auðhringi án þess að blikna. Risavöxnustu auðdrottnar heimsins, hinir fyrrum svörnu fjendur samvinnuhreyfingarinnar, svo sem Standard Oil olíuhringurinn, sem varð að lokum svo stór að það braut í bága við bandaríska löggjöf og er þá mikið sagt, og fleiri og fleiri slíkir aðilar með ósamvinnuþýða og görótta fortíð, urðu á forstjóratíma Vilhjálms Þór innstu koppar í búri SÍS.
Menn af gerð Hallgríms Kristinssonar gátu þegar svo var komið, ekki lengur lifað innan Sambandsins. Þeir hefðu aldrei getað þolað spillingardauninn þar.
Í stað slíkra heiðursmanna komu þeir lítilmótlegu menn sem urðu að lokum erfingjar Sambandsins þegar þetta spillingarbákn auðvaldsins féll að lokum á verkum sínum, mennirnir sem skiptu reytunum á milli sín þegjandi og hljóðalaust og gáfu skít í almenna félagsmenn og rétt þeirra.
Og við getum séð í mörgu hvernig félagsleg sókn til betri kjara hefur unnið mikla sigra á ýmsum tímaskeiðum, um heim allan og líka hér á Íslandi, í krafti hugsjóna og samstöðu, en svo hefur allt koðnað niður í ómerkilegt sérhagsmunapot sem flutt hefur uppdráttarsýkina og dauðann með sér.
Ég get þessvegna hugsað með miklum trega til þess hvernig endalok hins góðkunna útgerðarfyrirtækis Skagstrendings urðu að lokum.
Við Íslendingar erum að mörgu leyti undarleg þjóð og sveiflukennd. Þjóðrækni okkar sem var í eina tíð annáluð, er farin að verða mjög vafasöm að gildi - einkum í seinni tíð. Stjórnmálamenn okkar sumir hverjir virðast flagga því hiklaust að sjálfstæði okkar, unnið eftir 700 ára ómælda baráttu þjóðarinnar, sé ekki annað og eigi ekki að vera annað en inneign til verslunarviðskipta við þá sem bjóða best í okkur. Og forsætisráðherrann sjálfur notar ræðustól alþingis til að rakka niður gjaldmiðil þjóðarinnar án þess að kunna að skammast sín.
Skyldi hann ráðast þannig á fánann okkar næst ?
Þannig hegðar sér ekki forustufólk sem vill umgangast lýðræði með eðlilegum og ærlegum hætti. Það á ekki að ráðast á neitt það sem því er skylt að verja, það á ekki að höggva þar sem því ber skylda að hlífa !
Guð vors lands forði okkur frá slíku forustuliði og framferði þess !
Til að tryggja sjálfstæði og frjálsa tilveru þjóðar er stöðug nauðsyn á framkvæmd lýðræðisins í fullkomnasta formi þess, valdi fjöldans í viðurkenndri stöðu jafnréttis, í anda mannlegs bræðralags.
Skáldið Einar Benediktsson var stundum gagnrýndur fyrir það að hann væri of hliðhollur fjármagnsöflunum og sæi sumt í hillingum gróðasælunnar, en þjóðrækinn var hann þó í besta máta og hann veit hvað hann er að segja í Aldamótakvæði sínu þar sem hann kveður svo :
Því menning er eining sem öllum ljær hagnað
með einstaklingsmenntun sem heildinni er gagn að;
og frelsi þarf táps móti tæling og lygð,
ei trúgirni á landsins fjendur.
Þá verður vor móðir og fóstra frjáls,
er fjöldinn í þjóðinni nýtur sín sjálfs,
Er kraftarnir safnast og sundrungin jafnast
í samhuga fylgi þess almenna máls.
Og tíminn er kominn að takast í hendur,
að tengja það samband er stendur.
Því þegar um stór mál er að tefla í þjóðlegum skilningi, verður alltaf - ef lýðræði skal haft um hönd - að leggja slík mál fyrir heildina, láta fólkið kjósa um hvaða leið skuli fara. Þá er það þjóðin sem birtir vilja sinn og ákvarðar sín örlög sjálf.
Þannig á lýðræðið að birtast í verki - í anda og sannleika þeirrar hugsjónar sem þar að baki býr.
Kannski hefur enginn maður orðað kjarna lýðræðishugsjónarinnar betur en Abraham Lincoln í niðurlagi Gettysborgar-ávarpsins:
" Veri oss minning þeirra, sem með drengskap dóu, áminning um aukinn þegnskap við þá hugsjón sem þeir fórnuðu öllu, og strengjum þess heit að hinir horfnu skuli ekki hafa til einskis dáið, að þessi þjóð megi með Guðs hjálp öðlast endurfætt frelsi, og að stjórn fólksins, á fólkinu byggð, fólksins vegna til, skuli ekki líða undir lok !
( Pistillinn var frumfluttur í Kántrý-útvarpinu 18. mars sl. )
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 22
- Sl. sólarhring: 71
- Sl. viku: 591
- Frá upphafi: 365489
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)