Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Ísland í dag !

Þegar Íslendingar hlutu fullveldi 1918 og eins þegar lýðveldið var stofnað 1944 voru flestir á því að hér mætti skapa forsvaranlegt smáríki sem ætti að geta haldið stöðu sinni með sóma í samfélagi þjóðanna. Og það vantaði ekki að þjóðin ynni og erfiðaði til að svo gæti orðið. En snemma fór að bera á gömlu meini frá fyrri tíð. Forréttindakolin voru ekki útbrunnin og sérgæskan og sjálfselskan komu fljótt á sviðið. Sumir voru ekki með þá hugsun að leggja sitt af mörkum, sumir hugsuðu eingöngu um að skara eld að eigin köku, að njóta ómælt ávaxtanna af annarra striti !

Slíkir menn gáfu strax skít í ungmennafélagsandann, fyrirlitu samvinnustefnuna og hræktu á allar verkalýðshugsjónir. Það eina sem bjó þeim í huga var að þjóna sjálfum sér og þeir komu að öllum samfélagslegum hugsjónamálum með sérgæskuna innprentaða í merg og bein. Þau eru ófá málin sem menn vildu framkvæma og hefðu getað orðið landi og þjóð til blessunar en voru eyðilögð fyrir tilverknað slíkra hrægamma sem alls staðar voru og eru til ills og bölvunar !

Snemma sáu margir einstaklingar af þessu tagi að best myndi vera að hreiðra um sig hjá ríkinu. Þar yrði alltaf tryggast að vera og nóg um æti. Og þannig byrjaði kerfið að draga að sér eins og risastór segull fjölmarga sem þóttust hafa vilja til að þjóna fólkinu en voru í raun og veru aðeins með það í huga að þjóna sjálfum sér. Og oftar en ekki fór svo að sú þjónusta varð beinlínis á kostnað fólksins með ýmsum hætti. Og eins og uppmögnunar-apparat hinnar öfugu þjónustu í sjálfvirkum gír, fór ríkiskerfið að þenjast meira og meira út, þar sem fleiri og fleiri fundu sér spena í þjónustubákni sem varð brátt þess eðlis að það snerist aðallega um þjónustuna við eigin launaliði.

Íslenska farsældaríkið varð því aldrei að veruleika. Og aðrir lærðu af þeim sem komu sér fyrir í ríkiskerfinu. Það var svo sem hægt að hafa það náðugt víðar. Þegar frumherjar verkalýðshreyfingarinnar féllu frá, tóku aðrir við sem fóru að iðka sérgæskusiðina þar á bæ og týndu öllum áttum varðandi hugsjónir og annað. Samvinnuhreyfingin lagði upp laupana því þar var ekki lengur um neina samvinnu að ræða – bara sérvinnu. Og jafnvel ungmennafélagshreyfingin og íþróttahreyfingin smituðust af uppdráttarsýki sérhyggjunnar og þar fór allt að snúast um afreksfólk og peningalegan gróða en ekki hin upprunalegu markmið - ræktun lands og lýðs !

Já, ríkiskerfið fór á undan á ófarnaðarbrautinni og lagði línurnar og eftir höfðinu dansa limirnir. Og við þekkjum afleiðingarnar og það kerfi sem fyrir löngu er orðinn andfélagslegur ófagnaður. Við finnum að velferð fólksins í landinu er orðið aukaatriði en velferð fólksins í ríkiskerfinu aðalatriði. Við finnum að þjóðræktarleg viðmið eru ekki virt lengur í íslenskri stjórnsýslu og þykja gamaldags og úrelt. Auðhringur sérgæskunnar hefur sogað inn í græðgishít sína fyrri þjónustulund og fórnarvilja manna og tortímt heilbrigðum samfélagsmiðum.

Í landfræðilegri viðmiðun er ríkiskerfið eins og versta þúfnastykki. Þar eru mosavaxnar þúfur út um allt. Þó það hafi alltaf verið sagt og sé sagt enn í dag, að verið sé að slétta og rækta fallegt heimatún fyrir okkur öll, já, íslensku þjóðina eins og hún leggur sig, þar sem ríkiskerfið er, fjölgar þúfum þar jafnt og þétt og ekki síst þeim mosavöxnu.

Það er erfitt að rækta eitthvað gott þar sem ræktarleysi við land og þjóð virðist beinlínis í hávegum haft og óháðir sérfræðingar valta yfir allt í vaðandi lærdómshroka og af fullkomnu ábyrgðarleysi.

Og þegar kostnaðarsöm mistök eru gerð í málefnum þjóðarbúsins sem gerist nú býsna oft, er engum sagt upp, en sama vandræðaliðið fær að halda áfram að verja það sem ekki er hægt að verja, með tilheyrandi útgjöldum fyrir land og þjóð. Við þekkjum Landeyjahafnarvitleysuna, tölvukerfiskaupa-klúðrið, ríkiseignasölumálin þar sem gleymdist að innheimta söluverðið, fjármálaeftirlits-eftirlitsleysið o.s.frv.o.s.frv. Og milljarðar sem ættu með réttu að fara í að bæta velferð fólksins, fara eins og eftir föstu lögmáli í alls konar vitleysu og hafna oftast að lokum eftir flókna færibandaleið í vösum alikálfa og sérgæðinga sem eiga sér pólitíska verndaraðila sem hafa komið sér vel fyrir innan ríkiskerfisins.

Þannig er Ísland í dag ! Hér treystir enginn neinum lengur, allra síst yfirvöldum, sem eru síðasta sort. Silfurskeiðungastjórnin mun brátt renna sitt skeið og þjóðin bíður eftir að losna við forréttindagaurana Bjarna og Simma. Svo langt er vantraustið gengið að píratar eru það eina sem menn virðast binda vonir við nú um stundir. Og raunar ætla margir greinilega að kjósa þá til þess eins að lýsa frati á hina !

Eitt sinn var talað um að ekki væri hægt að sjá skóginn fyrir trjám. Það er eins með spillinguna á Íslandi, hún er orðin svo mikil og alltumlykjandi að menn koma ekki auga á hana, hún er orðin samofin öllu og daunninn finnst ekki því hann er alltaf í nösunum svo enginn virðist vita lengur hvað hreint loft er í kerfislegum skilningi. Menn verða smám saman háðir því sem þeir anda að sér og hér anda menn aðallega að sér andlegum spilliefnum. Og aðalspillingin þrífst auðvitað í aðalkerfinu – þar sem heilbrigð, þjóðleg hugsun er löngu hætt að þrífast !

Af hverju fæddist maður ekki sem Færeyingur !

 


Reykjavíkursæðið !

Nýlega leit ég yfir ritstjóragrein í blaði sem heitir Akureyri og er að mér skilst dreift um allt norðurland. Blað þetta ætti auðvitað að heita Norðurland en ekki Akureyri, en sumir eru víst þannig gerðir að þeir sjá ekki norðurland fyrir Akureyri. Þeir eru eins og sumir syðra, sem sjá ekki landsbyggðina fyrir umfangi Reykjavíkur !

Í þessari ritstjóragrein var einmitt verið að fjalla um Reykjavíkursvæðið en svo hafði viljað til að seinna vaffið í orðinu hafði fallið út svo eftir stóð Reykjavíkursæðið !

Þetta varð til þess að ég fór að hugsa enn meira en endranær um það hverskonar sæði það sé fyrir land og þjóð sem sáð er í Reykjavík nú á dögum. Mér finnst það nefnilega vont sæði ! Og þegar andinn á höfuðborgarsvæðinu stjórnast af stöðugri sáningu þessa sæðis er ekki von á góðu. Við erum með hverju árinu sem líður að fjarlægjast þau gildi sem ber að fylgja – og það blasir við, að sérgæskan sem enn virðist tröllríða öllu í Reykjavík er þjóðlega séð ekkert nema bölvun ! Það leiðir af sjálfu sér að ekkert gott getur fylgt framferði sem ræðst af taumlausri eigingirni og gengdarlausum hroka, sjálfselsku og sérgæðingshætti. Mér virðist margt benda til þess að séríslenska alheims-fjármálaveldið sé í uppsiglingu á nýjan leik og menn hafi ekkert lært af biturri reynslu. „You Ain´t Seen Nothing Yet“ er kannski víða enn í kortunum !

Í Bók bókanna talar sjálfur Frelsarinn í líkingasögu um sæði, hvernig því er sáð og hvernig það skilar sér. Mér finnst að það sæði sem sáð er í höfuðborg landsins sé að stórum hluta óheilbrigt og landi og þjóð til ófarnaðar. Það er eiginlega sama hvort við tölum um sáðmanninn í líkingu stjórnvalda, ríkiskerfisins,fjármálakerfisins, heilbrigðiskerfisins, alls staðar virðist sáningin vera komin í einhvern þann farveg að verið sé að búa illa að fólki. Það er orðið mörgum ljóst að það er ekki starfað í anda þjóðlegra velferðarmarkmiða í þessu landi, heldur með græðgissýn og arðrán fyrir augum !

Í Reykjavíkursæðinu býr rót alls ills, ágirndin holdi klædd, fíknin í meiri og meiri peninga. Þar sem menn koma saman er talað um peninga, eignir og efnisleg hlunnindi. Andleg málefni eru orðin síðasta sort hjá stórum hluta Íslendinga nú á dögum. Allt virðist snúast um það að ná í peninga, helst með eins lítilli fyrirhöfn og frekast er hægt !

Það vita líka allir að enginn eignast nokkra peninga að ráði á Íslandi nú á dögum með heiðarlegum og sanngjörnum hætti, til þess verða að koma til einhver hjálparmeðul, kvóti eða einhver hliðstæð arðráns-hlunnindi. Og fjölmargir sem enginn veit til þess að hafi nokkurntíma unnið ærlegt handtak eru orðnir ríkir í þessu landi, einkum á síðustu árum, og slíkt gerist ekki þar sem heilbrigðir viðskiptahættir eru við lýði !

Reykjavíkursæðið er ekki gott og það er því miður byrjað að sá sér út um landið, en ég segi, Guð forði landsbyggðinni frá þeirri óþjóðlegu sendingu. Á flestu öðru þurfum við sem á landsbyggðinni búum frekar að halda, en því andavaldi ágirndarinnar sem kemur að sunnan. Enn lifir samt víða í hinum dreifðu byggðum andi samhjálpar og samstöðu, það félagslega afl sem lyfti þessari þjóð frá örbirgð til bjargálna á síðustu öld. Þar býr það allt sem þarf að styrkja og efla til þjóðlegra heilla !

Og meðan landsbyggðin stendur fyrir sínu, mun íslensk dyggð eiga einhversstaðar heima, eins og segir í góðri vísu. En íslenskar dyggðir vaxa sannarlega ekki upp af því sæði sem ræður lögum og lofum í Reykjavík. Þar er annað afl í gangi sem virðist engin takmörk þekkja í einokunar kapitalisma sínum, græðgisvæðingu og frjálshyggjukeyrslu í öllum málum. Sæði sem sáir sér þannig að það tortímir góðum gildum og spillir þjóðlegum vaxtarmætti og upphefur einstaklinginn í tilbeiðslu á eigin sjálfi, er illt og ekkert nema illt !

Ég vil óska þess innilega að þetta Reykjavíkursæði mætti í heilu lagi sökkva á sextugu djúpi – ásamt öllum sundurlyndisfjandanum sem er að rífa þessa þjóð okkar á hol. Ég vil að þjóðin rísi upp til varnar sínum fornu gildum og betra er seint en aldrei !

Við þurfum heilbrigð yfirvöld sem leiða í stað þess að eyða. Við þurfum ríkisstjórn, þing og dómstóla sem njóta trausts, við þurfum endurreisn þjóðlegra gilda og vakningarbylgju réttlætis í þessu landi okkar !

En við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því, að slík endurreisn verður aldrei að veruleika meðan illt sæði fær að fjölga sér án afláts út frá höfuðborgarhreiðrinu - á ómældan kostnað lands og þjóðar !


Mótmæli á sautjánda júní !

Það virðist liggja fyrir að þjóðhátíðardagurinn okkar sé að sumra mati dagur sem eigi ekki og megi ekki notast sem mótmæladagur. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en hinsvegar er það lýðræðislegur réttur fólks að fá að mótmæla þegar það telur að stjórnvöld standi sig illa í stykkinu. Ég hefði hinsvegar kosið að þeir sem voru að mótmæla hefðu staðið þannig að málum að láta allt detta í dúnalogn rétt á meðan Þjóðsöngurinn stóð yfir. Það hefði verið mjög áhrifaríkt og skilaboðin verið með skýrasta móti!

Við skulum líka hafa í huga að 17. júní er þjóðhátíðardagur okkar vegna þess að Jón Sigurðsson fæddist þann dag og varla er frægari mótmælandi til í sögu þjóðarinnar en hann. Eins og kunnugt er, lýsti hann því yfir á þjóðfundinum 1851 að hann mótmælti gerræði Dana í málefnum Íslands og líklega var framganga hans þar hans stærsta stund.

Það er því ekkert að því að nota daginn til að mótmæla því sem fólki finnst illa gert af valdhöfum gagnvart landi og þjóð. Gerræðisleg vinnubrögð verða ekkert geðslegri við það að íslenskir valdhafar viðhafi þau og þeir sem halda að 5-7% topp-elíta sé öll þjóðin eru á algjörum villugötum gagnvart þjóðarviljanum !

Það má líka hugleiða það, að þegar athafnir stjórnvalda eru allan ársins hring ekkert nema níðangurslegar árásir á almannahag með einum eða öðrum hætti og venjulegt fólk fyrirlitið og kjör þess einskisvirt, sé hinum sömu stjórnvöldum hreint ekki stætt á því að halda einhverja prumphátíð með sléttu yfirbragði þegar eldur óánægjunnar kraumar undir í þjóðlífinu.

Tiltekinn sagnfræðingur talaði um það í fjölmiðli að helgi þjóðhátíðardagsins,Þjóðsöngsins og forsætisráðherra hefði ekki verið virt ! Ég veit vel að sumir telja að þjóðhátíðardagurinn eigi að falla inn í ákveðið hátíðarform, þó ég telji það út af fyrir sig ekkert sjálfsagt mál, helgi Þjóðsöngsins er ég tilbúinn að virða hvar og hvenær sem er, en helgi forsætisráðherrans kannast ég ekki við og veit ekki til þess að neinn helgur maður hafi gegnt umræddu embætti til þessa á Íslandi !

Það má vel vera að fólk eins og Vigdís Hauksdóttir, sem talaði um það nýlega í fjölmiðli að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri líklega langmerkasti stjórnmálamaður Íslands frá lýðveldisstofnun, sé með þá skoðun að umræddur maður eigi að teljast helgur og sé orðinn einhversskonar dýrlingur en ég get ómögulega fallist á það. Og ég held, að ef forsætisráðherra hefði verið að segja satt í þjóðhátíðarræðu sinni um hinn mikla jöfnuð sem ríki nú á Íslandi, hefði legið ljóst fyrir að engir mótmælendur hefðu verið að trufla hátíðarræðu hans !

Það er einmitt sú beiska staðreynd, að fátækt er að verða böl á Íslandi á nýjan leik, sem skapar reiði meðal fólks í garð stjórnvalda sem fyrst og fremst eru í því að hygla gráðugum og oföldum sérhagsmunaklíkum landsins. Þessvegna kemur fólk saman til að mótmæla, því stór hópur Íslendinga veit að sankti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er í merg og bein fulltrúi sérhagsmuna-aðalsins í landinu og einmitt þessvegna gengur ekki hnífurinn á milli hans og Bjarna Ben. Þar er hugsunin ein og hin sama – mettuð sérgæsku silfurskeiðunganna !

Það er fróðlegt að skoða söguna aðeins með hliðsjón af því hvernig þeir menn hafa getað orðið helgir sem aldrei áttu fyrir því. Ólafur digri Haraldsson er þjóðardýrlingur Noregs, en hann var í raun slíkur konungur að bændur landsins sáu sig loks tilneydda til að fara að honum og drepa hann. Í framhaldinu var hann gerður helgur af kirkju og konungsvaldi og sagan lagfærð honum til heiðurs ! Í Danmörku var Knútur II. Sveinsson afar illræmdur konungur sem herti mjög að almenningi og lauk harðstjórn hans með því að hann var drepinn í uppreisn sem varð meðal bænda. Það stóð ekki á því að hann var yfirlýstur helgur af kirkjunni og hafði þó ekki nokkra inneign fyrir slíku. Þannig eignuðust Danir sinn fyrsta helga mann. Það virðist þannig lengi hafa verið nokkuð rík siðvenja meðal höfðingjavalds ríkis og kirkju að gera þá menn helga sem verst hafa komið fram við alþýðu manna !

Kannski má segja að enn dragi ýmislegt dám af þessu gamla spillingarspili hinnar lagfærðu sögu. Og kannski er vilji til þess hjá sumum að gera vissa menn helga í dag ? En nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því hvað er satt og rétt í málum og hegði sér í samræmi við það. Það sem hægt er að virða á að virða en það sem ekki er hægt að virða á ekki að virða. Réttur fólks er að fá að mótmæla þegar því er misboðið og fólk ætti ekki að vera skyldað nú til dags til að leggjast hundflatt fyrir öfugum lagasetningum og kerfislegu ranglæti !

Það skiptir engu þó einhverjir sápuþvegnir elítu-refir tali um helgi einhverra valdamanna, það hefur ekkert gildi þegar verk þeirra tala ekki með þeirri túlkun. Það getur líka vel verið að sumir vilji tala um skrílslæti þegar fólk mótmælir, en því er til að svara að mannréttindi eiga ekki að vera einskorðuð við efstu tröppur þjóðfélagsstigans. Það ætti öllum að vera ljóst að mótmæli kvikna ekki af engu og mótmælin á Austurvelli á sautjánda júní eru hrópandi vottur þess að enn virðist gjáin breikka milli hinna tveggja - alls óskyldu - tekjuþjóða sem byggja þetta land !

 

 

 


Nokkur varúðarorð !

Það skiptir heilmiklu máli hvenær menn deyja með hliðsjón af því hvaða sess menn fá í sögunni. Abraham Lincoln var myrtur áður en valdaöflin í Washington eyðilögðu hann en það hefðu þau vafalítið gert ef hann hefði lifað lengur. Þessvegna er Lincoln maður sem hin sömu öfl mæra dag hvern og monta sig af. Og sumir hafa verið svo lánsamir að deyja áður en þeir hafa þurft að taka afleiðingum slæmra gerða sinna og eru því leystir frá því. John F. Kennedy var til dæmis myrtur áður en Vietnamstríðið varð honum að hengingaról.

Ef Adolf Hitler hefði látist - segjum árið 1937 - væri hann líklega talinn af fjölmörgum eitt af mestu stórmennum Þýskalands. Hefði Philippe Pétain látist sama ár væri hann ein af hetjum Frakklands í stað þess að hafa verið dæmdur föðurlandssvikari. Hefði Knut Hamsun látist um 1930 væru eftirmæli hans önnur á heildina litið og mun betri en þau eru og sama mætti líklega segja um landa hans Vidkun Quisling. Svipað mætti segja um fjölmarga aðra einstaklinga sem lifðu orðstír sinn í hel.

Hefði Karl XII Svíakonungur orðið bráðkvaddur skömmu áður en kom að úrslitaorustunni við Pultava, hefði hann farið ósigraður af þessum heimi og verið trúlega litið á hann sögulega séð sem sænska hliðstæðu Alexanders mikla. En Karl XII var ekki góður konungur fyrir sænska þjóðarvelferð og markmið hans í stríði voru landvinningar fyrst og fremst en þó að mörgu leyti óskilgreind sem slík.

Sagan er snúin viðfangs til skilnings og þess eru jafnvel dæmi að orðstír látinna manneskja sé notaður til að efla veg sömu afla og urðu þeim að bana, saman ber Jóhönnu af Örk sem var dæmd á bálið fyrir villutrú af kaþólsku kirkjunni, undir miklum þrýstingi af hálfu enskra heryfirvalda, en er í dag dýrlingur hinnar sömu kirkju. Og ekki nóg með það, franska þjóðin, sem manni skilst að sé að miklu leyti kaþólsk enn í dag, telur líka Jóhönnu þjóðardýrling sinn. Það er eitt af hlálegri dæmum sögunnar, með hliðsjón af seinni tíma viðhorfum kirkju og þjóðar. Og kaþólska kirkjan heldur velli í dag – meðal annars - fyrir hæfileika sína til að bregða sér í breytta stöðu - eftir því sem valdahagsmunir hennar hafa virst krefjast hverju sinni.

Þær tugþúsunda raddir sem Rannsóknarrétturinn þaggaði niður í á sínum tíma, kveina enn undir altarinu og bíða þess að fá uppreisn sinna mála og hafa í millitíðinni ekki mikið um það að segja að hnekkja veraldlegu gengi páfa og preláta í Rómarkirkjunni. En enn í dag hrífast ótrúlega margir menn af veldi kaþólskunnar og leiða lítt hugann að mönnum eins og Jóhanni Húss og Giordano Bruno og öðrum slíkum sem brenndir voru á báli fyrir það að hugsa öðruvísi en kirkjuhöfðingjarnir í Róm vildu og töldu að þeir ættu sjálfir að ráða sínu samviskufrelsi. Aldrei gæti ég verið stundinni lengur meðlimur í slíkri kirkju - og vegna hvers – jú, vegna samviskufrelsis míns !

Siðbótin varð að koma fram og hún var knúin fram gegn því kúgunarvaldi sem kirkjan var orðin á sínum tíma, en hvar er siðbótin nú á okkar dögum og ávextir hennar ? Og reyndar mætti líka spyrja þess hvar kristindómurinn sé nú um stundir og hver staða hans sé í dag ? Erum við að tala um lífsstíl í því sambandi eða raunverulega trú á hinn Lifandi Guð ?

Hver og einn hefur rétt til að velja fyrir sig og gerast fylgjandi þess sem hann telur hæfa sínu samviskufrelsi. En áður en valið er þurfa menn að nálgast svokallaðar sögulegar staðreyndir með varúð og gera sér grein fyrir að bókuð staða manna í sögunni er oft með vafasömum hætti og ekki síst með tilliti til þess hvenær og jafnvel hvernig þeir fóru af þessum heimi. Sama má segja um mannleg kenningakerfi, að þau berjast um sálirnar með þeim fítonsanda að þar er engu vægt sem tekur ekki við.

Þessi stutti tími sem er sæmilega þekktur af sögu mannkynsins er skrifaður og framsettur með þeim hætti að við verðum stöðugt að hafa það í huga að þar er sjaldnast allt með þeim hætti að sannleikurinn sé sagður hreinn og umbúðalaus. Það sem er rétt og sannleikanum samkvæmt á nánast aldrei samleið með áróðri og áróður er orðinn svo fyrirferðarmikill á okkar dögum að fæstir átta sig á því að „hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi !“

Við lifum á síðustu tímum. Rúm öld mun nú vera liðin síðan síðasta kirkjuöldin – Laodíkea – hófst. Margt hefur gerst undanfarna áratugi sem sýnir að atburðarásin er orðin mjög hröð og tími höfðingja þessa heims orðinn takmarkaður. Messíönsk vakning meðal Gyðinga virðist í gangi og það eitt segir sitt. Það er hræðilegt mál að menn séu andlega sofandi á slíkum tímum. Verið algáðir – segir Guðs Orð – varist hið illa og leitið skjóls hjá Drottni !

Hvað er í veði – líf og sálarheill hvers manns ?

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 577
  • Frá upphafi: 365475

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 493
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband