Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015
23.8.2015 | 18:49
Evrópusambandskleppurinn !
Evrópusambandið má heita undarlegur kleppur ! Það hefur í raun aldrei verið auðvelt að sjá í hverju stefna þess hefur verið fólgin. Hún er ýmist út og suður og í vestur, en líklega lítið í austur. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur Evrópusambandið lengst af verið lítið annað en nokkurskonar afleggjari og leyndarútibú hins bandaríska auðvaldsheims.
Það er að vísu stöðugt að sýna sjálfstæða takta til að auka gildi sitt, en í reyndinni er því meira og minna fjarstýrt að vestan. Þessvegna er líka svo erfitt að henda reiður á stefnu þess, því stundum eru menn búnir að segja eitt og jafnvel byrjaðir að gera annað þegar fyrirmæli koma að vestan og setja allt í steik. Allt gerist það auðvitað að tjaldabaki og í skuggaveröldinni þar - því enginn vill yfirleitt viðurkenna að hann sé annars leppur eða kleppur !
Þegar Sovétríkin hrundu gengu Rússar út frá því að fyrri samningar um áhrifasvæði yrðu lagðir til grundvallar nýrri heimsskipan. En málið var ekki svo einfalt. Rússar áttu að vísu kjarnorkuvopn og því þótti skynsamlegt að herða ekki mikið að þeim, en ásælnin byrjaði samt fljótt með ýmsum hætti. Það varð bara að nota hið einstæða tækifæri til að skipa málum upp á nýtt !
Meðan Jeltsin var við lýði var hægt að dylja eitt og annað nokkuð vel vegna þess að hann virtist oft og tíðum varla vitandi þess sem fram fór í kringum hann. Á síðustu valdaárum sínum var hann gjörsamlega út úr korti og alls kyns lið óð uppi og stal öllu steini léttara af eigum ríkis og þjóðar. Spillingin var yfirgengileg og afglöpin sem gerð voru legio. Þá risu hinir illræmdu oligarkar til auðs og valda og engum var þá meira skemmt en hugarfarslegum lagsbræðrum þeirra í Wall Street !
Og þótt Jeltsin væri nánast að verða eins og lifandi lík, þótti nauðsynlegt að notast við hann sem lengst og læknar voru jafnvel sendir frá Bandaríkjunum til að hressa upp á karlinn. Þannig tókst að koma honum í gegnum síðustu kosningarnar sem hann stóð í en þá var hann í raun og veru óframbærilegur valkostur fyrir þjóð sína, heilsulaus og farinn maður. Fyrri vinsældir hans héldu stöðugt áfram niður á við og voru nánast að engu orðnar þegar hann var látinn segja af sér. Sagt var að hann hefði valið sinn eftirmann og velþóknun Vesturlanda og þá sérdeilis Bandaríkjanna fylgdi því vali. Vladimir Putin kom þá á sviðið, lítill og snaggaralegur - og að menn töldu - til þjónustu reiðubúinn !
Svo átti spilið bara að halda áfram, grafið skyldi undan málum hér og þar og stefnt að aukningu áhrifasvæða fyrir vestræna pólitík, allt á kostnað áhrifa Rússa. En nú var komið að því að mönnum innan rússneska stjórnkerfisins, og það hreint ekki svo fáum, var ekki farið að lítast á blikuna, það virtist eiga að smækka Rússland niður í eitthvað afskaplega lítið og þeim hugnaðist það enganveginn. Menn fóru að bera stöðuna saman við fyrri daga þegar Sovétríkin voru og hétu og samanburðurinn var alls ekki mönnum að skapi. Sagan sýnir líka að það er ekki til það ríki í heiminum sem hægt er að svínbeygja öðruvísi en það hafi sínar öfugu afleiðingar !
Ný staða kom upp og Rússar fóru í auknum mæli að standa í lappirnar gagnvart áganginum að vestan og þeir sem fleiri lærðu að nýta sér War against Terror með ýmsum hætti sínum málum til framdráttar. Og mörgum til furðu kom allt í einu upp sú staða að Vladimir Putin fór að verða einhverskonar rússnesk ímynd um styrk og ósveigjanleika, og sennilega hefur það komið honum sjálfum í fyrstu allra mest á óvart. En hann varð nokkuð skyndilega nánast eins og samnefnari við De Gaulle þegar Frakkland var komið í skítinn 1940. Sá stórfranski gíraffi þrástagaðist þá á því að Frakkland væri stórveldi þó allt mælti því í mót og með þráanum hafði hann sitt í gegn. Rússland var eiginlega samsvarandi komið í skítinn um tíma, en hernaðaraðgerðir í Tsjetsníu og fleira kom Rússum til að endurheimta hluta af sínum fyrri valdsmannsbrag. Þeir fóru að hugleiða það í alvöru að þeir væru nú enn stórveldi og öðrum þjóðum bæri að viðurkenna það og sýna þeim hæfilega virðingu með góðu eða illu !
Og síðan hafa mál þróast með þeim hætti að ný gjá hefur verið að myndast milli Vesturveldanna og Rússlands og viðhorfið til Putins hefur versnað að sama skapi. Hann sem var áður vinur og félagi, álitinn nokkurskonar Little Putin eða Lilliput er nú talinn verstur allra manna og skuggaráðherrar Vesturlanda naga sig í handarbökin fyrir að hafa talið hann vera ákjósanlegan lepp á rússneskum valdastóli á sínum tíma. Það snúast víða vopn í höndum !
En áróðurinn fer einatt að lyktum í hringi eins og sagan sýnir. Krímskagamálið er mjög athyglisvert í sögulegu samhengi. Þar er um að ræða landssvæði sem er byggt hreinum meirihluta Rússa og tilheyrði lengi Rússlandi, en það var fært undir stjórnskipunarlegt forræði Ukrainu 1954 að skipan Nikita Kruschevs. Kannski var Kruschev þar að hygla eitthvað Ukrainu, en flestar heimildir segja hann hafa átt þar sinn uppruna, en sögulega hefur Krímskaginn lengi verið landfræðilegur hluti Rússlands.
En það var eins og við manninn mælt, að Vesturlönd tóku upp hanskann fyrir Ukrainu í Krímskagamálinu og allt í einu var tiltekin geðþóttaákvörðun Nikita Kruschevs þess umdeilda manns, orðin ómótmælanleg að gildi og svo fór vitleysan að vefja upp á sig eins og gjarnan gerist og snúast í pólitíska þráskák. Auðvitað lá fyrir að ætlun Bandaríkjanna og Brusselklíkunnar var að gera Ukrainu að sínu fylgiríki og bitinn þótti auðvitað enn girnilegri meðan Krímskaginn var með í dæminu. En Rússar sáu hvað var á döfinni og hugsuðu líklega með sér : Hvernig sem fer, látum við aldrei Krímskagann í kjaftinn á þeim !
En í framhaldi skákarinnar er ljóst að samkvæmt vestrænu mati eiga íbúar vesturhluta Ukrainu að hafa margfaldan lýðræðisrétt gagnvart íbúum austurhluta Ukrainu og Rússar eru stöðugt sakaðir um ásælni gagnvart málum grannríkis....! En hver er að auka áhrifasvæði sitt á kostnað fyrri stöðu í Ukrainu, í Georgíu og nánast hvar sem er á þeim landssvæðum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og þar sem áhrif Rússa voru jafnan sterkust ? Hver er að sækja á og hver er að verjast ?
Af hverju er alltaf verið að veifa lýðræði af hálfu Vesturlanda þegar í raun er verið að skapa sér nýjar nýlendur og áhrifasvæði ? Er einhver staða önnur fyrir hendi í Ukrainu en að landið skiptist í Austur og Vestur Ukrainu ? Ef fólkið í landinu vill ekki eiga samleið á jöfnum forsendum þá er vandséð að önnur lausn sé þar í sjónmáli en skipting landsins ?
Evrópusambandið sem framhandleggur Bandaríkjanna í málefnum gömlu álfunnar, skilgetið afkvæmi Marshallhjálpar og annarra bandarískra valdstryggingarákvæða liðinna tíma, hefur einblínt svo um hríð á Ukrainu að brestir í Brussel-kastalaveggina vestar í álfunni hafa orðið að bíða viðgerðar. Yfirgangssemin hefur þó víða komið fram, svo sem í löndunarbanni á Færeyinga, tilraun með að kúga Íslendinga til að vera lítilþæga í skiptingu makrílkvóta o.s.frv.
Síðasta útspilið var svo auðvitað þrýstingsverkun á að fá fram íslenska Nató-ákvörðun um samstöðu með viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum vegna deilnanna um Ukrainu. Það lá í hlutarins eðli að þeirri hjörð yrði haldið til aga þó það myndi hafa miklar og slæmar afleiðingar fyrir viðskiptahagsmuni Íslands !
En nú bregður svo við að sumar raddir heyrast sem eru ekki alveg sáttar við það hvernig áralöng uppbygging viðskiptalegra samskipta og hagsmuna er sprengd í loft upp og gjörsamlega lögð á altari svokallaðrar vestrænnar samvinnu, án þess að nokkuð virðist eiga að koma til og bæta íslensku þjóðarbúi upp meintan skaða !
Á meðan blómstra ýmis viðskipti milli deiluaðila á stóra sviðinu og áfram streymir gasið frá Rússlandi til Þýskalands og ekkert breytir þeim miklu viðskiptum. Þjóðverjar munu tæplega til viðtals með að skrúfa fyrir gaskranana til að hegna Rússum, enda er það þeim mjög mikilvægt að þeir skili áfram sínu. Þýskir neytendur vilja fá sitt gas hvað sem tautar og raular. Litlu bandamönnunum má blæða en ekki þeim stóru !
Núverandi ríkisstjórn Íslands þykist kannski ekki ginkeypt fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið, en þegar vald Bandaríkjanna talar í gegnum Nató og Evrópusambandið, rennur íslensku kaldastríðsliði blóðið til skyldunnar og það hleypur umhugsunarlaust út í eld og vatn og vill fórna öllu fyrir heilaga samstöðu Vesturlanda !
Slík uppákoma sást líka í landhelgismálunum forðum og sýndi þjóðhollustu sumra Íslendinga í afskaplega einkennilegu ljósi svo ekki sé meira sagt. Þegar slíkt gerist kemur það skýrt fram að furðu lítið hefur breyst frá fyrri tíð og draugar fortíðarinnar ganga enn um sviðið í ljósum logum !
Til hvers er að hafna aðild að Evrópusambandskleppnum og þykjast sýna sjálfstæða þjóðlega tilburði, ef það á svo að hlaupa eftir geðþóttaákvörðunum í Brussel varðandi valdapólitík stórveldanna, sem hefur ekkert með lífsbaráttu lítillar þjóðar við ysta haf að gera sem á allt sitt undir viðskiptafrelsi og friði við allar þjóðir ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook
19.8.2015 | 19:39
"Treystu mér, ég er læknir !"
Fyrirsögn þessa pistils er jafnframt heiti nýlegs sjónvarpsmyndaflokks og langar mig til að pæla aðeins í því sem felst í þeirri staðhæfingu sem þarna kemur fram. Í almennum skilningi er þó kannski ekki neitt athugavert við hana í sjálfu sér en í raun segir hún talsvert meira en hún getur staðið undir með sannferðugum hætti.
Það er ekkert sem segir að þú eigir að treysta lækni bara vegna þess að hann segist vera læknir og jafnvel þó að hann sé það. Læknar eru alls ekki allir þannig að ástæða sé til að treysta þeim. Þeir eru upp og ofan eins og annað fólk. Traust er hinsvegar nokkuð sem lærist við reynslu og viðkynningu.
Þú getur kynnst lækni sem reynist þannig að allri gerð að þú myndir hvenær sem væri leggja líf þitt í hans hendur í öruggu trausti. En þú gerir það ekki bara vegna þess að hann sé læknir, heldur vegna þess að hann hefur sýnt það og sannað með daglegu framferði sínu að hann er það sem hann á að vera og stendur sem slíkur undir nafni.
Það er því á misskilningi byggt að manni sé treystandi bara vegna þess að hann sé læknir. Hann getur hafa útskrifast úr háskóla sem læknir, hann getur haft alla pappíra í lagi varðandi það, en hvort hann er í raun og sannleika læknir sem þú getur treyst, það er nokkuð sem þú kemst aðeins að raun um í gegnum samskipti þín við hann.
Og því miður virðist það hafa farið í vöxt á seinni árum að læknum sé ekki treystandi bara vegna þess að þeir hafi menntunarlegar forsendur til að vera læknar. Alls kyns reynslusögur sem ganga fólks á milli af samskiptum þess við lækna, virðast staðfesta það að full ástæða sé til þess að bíða með traustið þar til samskiptin hafa byggt undir það með áþreifanlegum hætti !
Það er eins með þetta og svo margt annað í samfélagi nútímans, að fólki virðist yfirleitt í allri umræðu yfirborðsins vera uppálagt þetta og hitt á þeim forsendum einum að menntun sé og hljóti að vera 100% ígildi þess sem hún er sögð vera !
Það eru eflaust miklir hagsmunir tengdir því að koma á slíku viðhorfi, en það breytir engu um þá staðreynd að það er rangt. Það getur átt að vera búið að slípa einstaklinginn sem demant, en það er það sem skólaganga og menntun á að gera til að áskapaðir hæfileikar manna skili sér, en reynslan ein mun færa heim sanninn um það hvort viðkomandi einstaklingur kemur til með að skína með sönnum hætti og hvort yfirleitt sé um einhvern demant að ræða !
Sum störf geta með góðum, siðrænum rökum talist störf sem þarf köllun til að rækja vel. Læknismenntaður maður sem hefur ekki í sér neina köllunarskyldu til líknarverka er ekki maður sem sjálfgefið er að treysta vegna þess eins að hann er bókaður á lista mannfélagsins sem læknir. Guðfræðimenntaður maður sem hefur ekki í sér neina köllunarskyldu við prests-starfið eða trúarlega hollustu gagnvart Almættinu, er ekki maður sem ákjósanlegur er sem boðberi fagnaðarerindisins eða huggari fyrir sál í neyð. Og áfram mætti eflaust nefna margt í hliðstæðu sambandi varðandi aðrar stéttir.
En alls staðar er traust sú undirstaða mannlegra samskipta sem skiptir höfuðmáli. Menn kynnast og smám saman byggja þeir upp traust sín á milli þegar reynslan sýnir að það eru fullar forsendur til þess. Yfirlýsingar eins og fyrirsögn þessa pistils gera kröfu til trausts á litlum sem engum forsendum !
Á Íslandi myndi tæpast þykja trúverðugt nú um stundir að maður segði : Ég er bankamaður, treystu mér ! Það þýðir hinsvegar enganveginn að það sé hvergi til bankamaður hérlendis sem hægt sé að treysta. Reynslan sker úr í því máli sem öðrum. En í víðari skilningi getur þú að öllum líkindum verið nokkuð viss um að þú búir í þokkalega heilbrigðu þjóðfélagi, ef þú telur þig geta sagt á fullum forsendum: Ég treysti lækninum mínum, prestinum mínum og bankastjóranum mínum !
Og gott hlýtur þjóðfélagið að vera ef þú telur þig yfir höfuð geta sagt með fullum sanni : Ég treysti náunga mínum til alls góðs !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook
16.8.2015 | 17:20
Varðandi almannaöryggi í Reykjavík !
Oft virðist svo að mikið sé gert úr því í umræðu að ýmsir staðir á landinu séu hættulegir til búsetu og jafnvel gefið í skyn að það sé í raun og veru bara vitleysa að búa þar. Oftast er umræða af því tagi eitthvað sem á bakland sitt á höfuðborgarsvæðinu þar sem allt á víst að vera öryggið sjálft í búsetulegum skilningi sumra. En þá er það spurningin - er það raunverulega svo ?
Það hefur sem kunnugt er löngum verið mikið talað um Vík í Mýrdal með hliðsjón af hugsanlegu Kötlugosi, eins hefur verið mikið talað um þá staði þar sem snjóflóðahætta getur skapast og svo framvegis. Allt hefur það iðulega verið notað af borgríkissinnuðum búsetusérfræðingum á suðvesturhorninu sem innlegg í umræðuna og þá sem skýlaus dæmi um það hvað landsbyggðin sé og geti verið dýr í rekstri fyrir þjóðarbúið !
En eins og spurt var hér að framan, hversu örugg og trygg er þá höfuðborgin Reykjavík sem búsetustaður fyrir fólk þegar allt kemur til alls ? Hvaða náttúruhamfarir gætu hugsanlega orðið í Reykjavík ?
Er ekki tiltölulega stutt síðan jarðskorpan hristist þar töluvert í jarðskjálftum ? Hvað með eldgos ? Hver er skilgreind hættumatsstaða á því að hafist geti eldgos í Reykjavík eins og til dæmis gerðist í Vestmannaeyjum ? Ef eitthvað slíkt gerðist, er þá til rýmingaráætlun fyrir Reykjavík ? Eða er einhver hugsanleg hætta á því að þúsundir manna gætu lokast þar inni í einhverju eldsvíti og kæmust hvorki lönd né strönd ?
Hvernig eru stjórnstöðvar Almannavarna byggðar upp og er einhver áætlun fyrir hendi um stjórnstöð utan Reykjavíkur sem gæti tekið við, ef allt fer í óefni í höfuðborginni af völdum náttúruhamfara ?
Hver er öryggislegur grundvöllur höfuðborgarsvæðisins varðandi hugsanlega ógnaratburði og eru einhverjar skýrar áætlanir fyrirliggjandi um það hvernig tekið skuli á málum ef þar yrðu náttúruhamfarir, svo sem meiriháttar jarðskjálfti eða eldgos ?
Er kannski bara treyst á það að allt muni lafa áfram í óbreyttu fari og ekkert hugað afgerandi að þessum málum vegna þess að opinská umræða um lífsöryggi íbúa höfuðborgarsvæðisins sé ef til vill talin skaðleg hagsmunum öflugra aðila ?
Það hefur nokkrum sinnum komið fram í fréttum að ýmsir atburðir hafa gerst hérlendis sem ekki áttu að geta gerst samkvæmt virku eftirlitskerfi og réttum reglum. Það hefur sem sagt sýnt sig að eftirlit hefur brugðist og farið hefur verið á svig við réttar reglur. Í slíkum tilfellum hefur ekki alltaf verið hægt að forða slysum og verðmætatjóni þó aðeins hafi verið við menn að eiga !
En hvernig skyldi það vera þegar náttúruöflin eru annarsvegar ? Getum við alfarið treyst því að þegar náttúran fer afgerandi út af sporinu með einhverjum hætti, sé vandlega útfærð og úthugsuð viðbragðsáætlun til staðar, heilstæð björgunaráætlun fyrir þann stóra hluta þjóðarinnar sem býr á Reykjavíkursvæðinu ?
Ég vona að svo sé, því staðreyndin er auðvitað sú að ýmislegt getur gerst á höfuðborgarsvæðinu ekki síður en úti á landsbyggðinni þegar ógurlegir frumkraftar hins náttúrulega umhverfis okkar taka upp á því að fara hamförum. Þá er sannarlega eins gott að hlutirnir virki eins og fólki hefur verið talin trú um að þeir geri. Það er nefnilega hreint ekki svo lítið í húfi !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook
12.8.2015 | 20:33
Skáldið og Ögmundur í Önnuhúsi !
Skáldið stóð við skrifpúltið og tyllti sér á tær. Það fann fyrir vaxandi þreytu í fótunum og kominn virtist einhver doði yfir hugsunina. Það var líklega réttast að hætta skriftum í bili og hvílast örlítið.
Skáldið varp öndinni hálf þunglega og leit upp á vegginn á móti púltinu og grandskoðaði samkvæmt venju málverkið sem hékk þar af Ögmundi í Önnuhúsi. Það hafði oft gefið innblástur að horfa á mynd hins kæra vinar frá liðnum árum, en nú var jafnvel Ögmundur áhrifalaus.
Skáldið lagði ritblýið niður og gekk hægum skrefum yfir í svefnherbergið og lagðist þar upp í rúmið. Þar festi það augun á loftinu og hugsaði ekki neitt. Hvíldi sig fyrir næstu skriftalotu, hvíldi fætur sem stóðu og stóðu meðan stætt var, hvíldi huga sem enn fæddi af sér orð á blað.
Skáldið lá þannig um tíma, en setti svo hendur aftur fyrir höfuð sér og spennti þær saman þar. Svo leið drykklöng stund. Allt var hljótt og húsið sjálft virtist halda niðri í sér andanum. Öll hin kunnuglegu hljóð þess virtust þögnuð og skroppin frá. Skáldið hóstaði ofurlítið og krosslagði fótleggina ofan á rúmteppinu. Síðan leið aftur drykklöng stund í þögn hússins.
En svo reis skáldið skyndilega á fætur, gekk út að glugganum, greip kíkinn sem lá þar og horfði í gegnum hann löngum augum út dalinn. Mikið var umhverfið fallegt og þrungið þessu undarlega lífi sem fyllti landið. Skáldið fann til djúprar gleði einhversstaðar inni í sér og andvarpaði ósjálfrátt af heimatilbúinni vellíðan. Það lagði kíkinn frá sér og gekk fram ganginn, niður stigann og inn í borðstofuna, settist þar í djúpa hornstólinn og kveikti sér í vindli.
Konan hafði farið í bæinn. Skáldið horfði upp í loftið og mælti af munni fram :
Hetjan mig á höndum ber,
hollust sínum manni.
Finn ég það að ávallt er
Auður í mínum ranni !
Skáldið hló að hugarsmíð sinni og kláraði vindilinn. Svo stóð það upp úr stólnum, liðkaði axlirnar aðeins og gekk síðan föstum skrefum fram og upp stigann og brátt stóð það við skrifpúltið aftur, tilbúið fyrir næstu vinnulotu. Það leit upp á myndina af Ögmundi vini sínum og nú var bjart yfir henni, enda lá innblásturinn í loftinu. Það var ekki eftir neinu að bíða, hefjast varð handa og grípa flugið.
Skáldið greip ritblýið og textinn rann fram í hugann og frá hönd á blaðið eins og bunuhreinn lækur úr urð á fjöllum. Gangverk snilldar var enn einu sinni komið af stað og annað skipti ekki máli.
7.8.2015 | 16:16
Ránshönd sauðargærunnar !
Þegar lífeyrissjóðakerfið var sett á fót átti það að liggja klárt fyrir að fjármagnið sem safnaðist innan þess kæmi frá fólkinu, yrði fólksins vegna til og væri eign fólksins, yrði ávaxtað með sem tryggustum og áhættuminnstum hætti og skilaði sér til fólksins þegar þar að kæmi með viðunandi útkomu. Raunverulega áttu þeir samningar sem gerðir voru varðandi þetta kerfi að innifela í sér hluta af launakjörum fólks sem yrði svo ráðstafað með sem bestum hætti til aukningar á velferð fólks á efri árum. Þarna voru sem sagt afskaplega fallegir hlutir settir á blað og samþykktir sem slíkir !
Það er samt skoðun mín að önnur eins svikamylla hafi líklega aldrei verið sett upp í þessu landi og hefur þó margt slæmt verið gert í arðráns-efnum hérlendis síðustu áratugina og ekki síst í seinni tíð. Óþverralegri atlaga að almannakjörum hefur aldrei verið gerð svo ég viti, enda sviksemin og óhreinleikinn í þessu með ólíkindum. Allt átti þarna að vera fyrir fólkið að sagt var, en reyndin varð þveröfug, enda lá það víst alla tíð í bakhöndinni - sem var auðvitað blá og búraleg !
Eftir að þetta öfugsnúna kerfi var búið að hreiðra um sig fyrir alvöru, er það skoðun mín að sú skipan hafi komist á, að arðrán gagnvart almennum launþegum hafi orðið meira innan verkalýðshreyfingarinnar en utan hennar, og þarf engan að undra það eins og fyrirkomulagið er orðið í dag. Fjöldi fólks trúði því samt í byrjun að þarna væri verið að stíga farsælt skref fyrir almenna launþega, en því miður var það ekki svo. Blekkingin var svo mögnuð að margir ágætir verkalýðssinnar voru blindir fyrir henni til endadægurs !
Þegar ég var á tiltölulega ungum aldri kosinn í stjórn verkalýðsfélags, taldi ég mér skylt að kynna mér reglugerðir varðandi lífeyrissjóði og hvernig það kerfi virkaði fyrir hagsmuni almennra launþega. Ég taldi mig fljótt finna það að þarna væri ýmislegt gruggugt á ferðinni. Skemmst er frá því að segja, að síðan þá hef ég orðið því harðari andstæðingur lífeyrissjóðakerfisins sem ég hef betur kynnst því hvernig það er því telja má að það sé ættað beint úr helvíti, sem er eins og flestir ættu að vita - hákapítalískur staður !
Bjarni Þórðarson bæjarstjóri í Neskaupstað lýsti þessu kerfi eitt sinn sem framlengingu á launamisréttinu í landinu og vissulega má það til sanns vegar færa. Og þá ættu menn svo sem að vita hvaðan það er ættað. Það er mín skoðun að enginn sem þiggur laun á vegum þessa kerfis sé að vinna fyrir fólkið heldur gegn því. Það er sárt til þess að vita að sumir menn sem unnu mikið í þágu verkalýðshreyfingarinnar hér á árum áður skyldu falla í þá gildru að verja þetta margbölvaða svika og arðránskerfi sem ég tel hiklaust að hafi spillt meira fyrir hag launafólks í landinu en með nokkrum tölum verður talið !
Þetta kerfi er svo mikill óþverri að mínu mati, að það virkar eins og tiltekinn maður sagði fyrir nokkrum árum þegar honum nægði ekki að segja að annar tiltekinn maður hefði rekið hníf í bakið á honum, að hann talaði um heilu hnífasettin í því sambandi. Ég tel að lífeyrissjóðakerfið virki í raun með samsvarandi hætti gagnvart hagsmunum launþega. Þar eru heilu hnífasettin í gangi að baki manna !
Þetta fjármagn fólksins hefur iðulega verið notað eins og menn væru í glórulausu fjárhættuspili og þegar fé glatast þannig er það bara látið koma niður á fólkinu. Afkoma sjóða er þá sögð ekki nógu góð og allra handa ástæður týndar til skýringa og því verði að skerða lífeyrinn um svo og svo mikið ! Stjórnunin á fjármagni fólksins virðist alfarið orðin slík að hún vinnur gegn lífsafkomu manna !
Aldrei virðist um neina ábyrgð að ræða þegar sjóðir rýrna og skerðast. Þeir eru ófáir mennirnir sem hafa sest upp hjá þessum sjóðum sem óformlegir bankastjórar, lifað í vellystingum á fólksins fé árum saman og þóst heldur en ekki miklir verkalýðssinnar. Í mínum augum er þar um að ræða einar verstu afætur sem til eru í landinu.
Það eru einkum þeir sem þykjast alla tíð vera að gera gott, en eru í raun úlfar í sauðargærum, sem verða að verstu martröð fólksins. Þeir sem éta sjálfir það fóður sem ætlað er smáfuglunum og það í stórum stíl eru ekki merkilegir fuglar og eiga aðeins megnustu fyrirlitningu skilið !
Það er margt í lífinu sem býður upp á baráttu. Verkalýðshreyfingin sjálf varð öll til í gegnum baráttu, þá baráttu þurfti að heyja á hörðum forsendum árum saman vegna þess að þeir sem höfðu arðrænt fólkið vildu geta haldið því áfram óáreittir. En þegar miklir sigrar höfðu unnist og verkalýðshreyfingin var orðin lifandi staðreynd og afl sem ekki var hægt að sniðganga lengur, fóru arðránsöflin og sérgæskuliðið að leita að nýjum leiðum til að koma sínu fram og hafa pening af fólkinu. Það sem þetta andskotahyski fann þá til ráða var ekki hvað síst þetta lífeyrissjóðakerfi sem er látið vinna öfugt við gefnar forsendur. Það er að minni hyggju hrópandi dæmi um það hvernig tókst að hefja stórfelldara arðrán innan vébanda en áður hafði þekkst utan þeirra !
Það er nánast öllu spillt og engu hlíft þegar græðgi og siðleysi fylgjast að. Ágirnd er rót alls ills segir á vísum stað og lífeyrissjóðakerfið virðist alfarið rekið með ágirndina eina að leiðarljósi. Þar hefur sú fjármagnshít verið sett á laggir sem aldrei verður mettuð. Hún sýgur blóð fólksins ár og síð !
Það er löngu orðið mesta hagsmunamál almennra launþega í þessu landi að lífeyrissjóðakerfið verði afnumið og málum komið í það horf að eftirlaunakerfi landsmanna verði í samræmi við eðlilega heilbrigða velferð á siðlega vísu !
5.8.2015 | 13:06
Tilbeiðsla eigin tilfinninga !
Eitt af því sem virðist ofarlega á blaði hjá þeim sem líta á yfirstandandi tíð sem toppstöðu mannlífs allra tíma, er að setja mannslíkamann og tilfinningamálin í hásæti í huganum. Það er léleg uppsetning. Okkur er kennt að við séum andi, sál og líkami, en lengst af hafa menn deilt um stöðu andans og sálarinnar, en allir vita hvað verður um líkamann.
Hinsvegar sögðu gömlu Grikkirnir að takmark hvers manns ætti að vera heilbrigð sál í hraustum líkama og í Biblíunni er okkur boðið að fara vel með líkama okkar því hann sé musteri Heilags Anda. Hann er sem sagt hús sem hefur að geyma það sem býr yfir hinu raunverulega gildi !
Nútíminn virðist hinsvegar leggja mest upp úr húsi þessu en ekki því sem á að vaxa þar innandyra. Alls kyns líkamsrækt og vaxtarrækt er stunduð með öfgafullum hætti og keppst við að hlynna að þeirri ytri skel sem dugir aðeins í nokkra áratugi. Ræktin við þetta er svo áköf og gengur svo langt að andinn er sveltur og lítið hirt um sálina !
Á fyrri tímum var staðan hinsvegar oftar en ekki sú að fjölmargir féllu í ýmsa öfga varðandi andann og sálina og leiddust út í margskonar villutúlkanir sér og öðrum til ógæfu. Þá voru menn að hugsa um að tryggja sér betri aðstæður í komandi lífi, en þeir sem í dag dýrka líkama sinn á allar lundir, eru líklega lítið að hugsa um slíkt, enda sá líkami til lítils gagns að lokinni jarðlífsgöngu manna. Hinsvegar er líklega verið að hugsa um að gera út á hið sýnilega sem mest svo húsið líti sem best út í annarra augum - hvað sem líður andlegri innréttingu þess !
Boðun nútímans virðist sem sagt ganga mikið út á að menn lúti tilfinningum sínum sem mest og gefi þeim sem víðtækast vald yfir lífi sínu. Það er ekkert minnst á dómgreind í því sambandi !
Það er löng reynsla komin af því í gegnum söguna, að tilfinningar eru afleit undirstaða eins og allt sem er óstöðugt frá degi til dags. En það er almælt að konur séu meiri tilfinningaverur en karlar og aukið kvennavald í nútíðinni eykur því líklega á vægi tilfinningalífs á öllum sviðum samfélagsins. Kannski skýrir það að hluta til hvernig komið er í þessum efnum ?
Það er manninum eðlilegt að geta fundið til. En að láta leiðast af síbreytilegum tilfinningaöldum sálarlífsins og hafa hvergi fasta viðspyrnu með dómgreind og viljafestu að kjölfestu er engum til farsældar. Í efnahagslegu tilliti er stöðugt verið að kalla eftir stöðugleika, án þess að menn hugsi mikið um það í sjálfu sér að samfélagið sjálft er farið að hverfast um svo margt sem grefur undan slíkum stöðugleika. Þar á meðal er vaxandi óróleiki hins mannlega sálarlífs sem er að týna sjálfu sér í hraðfleygum tíma sem æsir upp tilfinningar og setur þær í hásæti hugans.
Og þegar hið óstjórnlega er farið að stjórna, er ekki von á að vel fari. Sálarlegur óstöðugleiki verður með þeim hætti forsenda fyrir efnahagslegum óstöðugleika og eina leiðin til að bæta þar úr er breytt hugarfar. Tilfinningar eiga ekki að ráða yfir dómgreind og vilja !
1.8.2015 | 21:09
Samgæska og sérgæska !
Illgresi mannlífsins er sérgæskan og hún setti snemma upp ölturu sín í alls konar forréttindaklíkum hér áður fyrr. Þær klíkur urðu síðan útungunarstöðvar þeirra hægri flokka sem samtíminn þekkir. Hvar skyldi nú upphafið vera að því fyrirbæri mannlífsins sem síðar varð þekkt undir nafninu aðalsmenn, hvernig skyldi sú aðgreining hafa komið til að sumir ættu að vera öðrum æðri og aðrir ættu að þjóna þeim ?
Því sú var nú tíðin að menn voru bara menn, af sama upphafsmeiði,en ekki aðalsmenn og ófrjálsir menn, ekki forréttindalið annarsvegar og þrælar hinsvegar. Sú hugsun að finna sig öðrum æðri mun fyrst hafa fundið sig í brjósti Kains fyrsta manndráparans, sem var bróðurmorðingi, enda er slík hugsun ekkert nema fjörráðahugsun gegn almennu bræðralagi manna. Þar vantaði ekki að höggormseðlið segði til sín !
Nimrod var síðan einn helsti brautryðjandi sérgæskunnar, fyrsti valdsmaðurinn á jörðinni, ofbeldisfullur maður sem kúgaði aðra undir sig og aðrir hans líkar fylgdu á eftir. Brátt varð heimurinn fullur af stríðandi sérgæskudjöflum sem kölluðu sig konunga og börðust hver við annan til að auka vald sitt og auðlegð. Þeir áunnu sér fylgjendur með mútum af því ránsfé sem þeir komust yfir og sú aðferð hefur verið tíðkuð af þeirra líkum allar götur síðan. Og konungar sérgæskunnar töldu það rétt og sjálfsagt að slátra venjulegu fólki og leiða það á blóðvellina. Allt fram til okkar daga hefur sú glórulausa vitleysa viðgengist að menn ættu að skoða það sem heiður að fá að deyja fyrir hefðbundin skurðgoð sérhyggjunnar king and country !
Skaparinn sáði fyrir heilbrigðri og hollri mannlífsuppskeru í upphafi þessa heims, en fjandinn komst í spilið og spanaði upp sérgæskuna hvar sem hann gat. Allt til þessa dags hefur hún sem illgresið í mannlífinu vaxið meira og minna hindrunarlaust fyrir hans tilverknað. Svo mun verða til uppskerutímans þegar endanleg skil verða gerð milli góðs og ills. En þá verður illgresið líka að fullu upprætt og því í eld kastað og sérgæskan fær þar sín maklegu málagjöld !
Þeir sem fylgja vildu þeim rétti manna að fá að ganga uppréttir, áttu við erfiðar aðstæður að búa lengst af eftir að konungsvaldið hafði rutt almennum mannrétti úr vegi. Það fór ekki að rofa til í þeim efnum fyrr en á 18. öld við ljós upplýsingarinnar. Þá fengu mannréttarhugsjónir nýjan og skapandi styrk í gegnum ótal rit sem flettu ofan af kúgun og harðstjórn yfirstéttanna.
Það ranglæti sem hafði fram að því verið talið rétt og sjálfsagt af þeim sem með völdin fóru og nutu í öllu ávaxta af erfiði annarra, var þá opinberað í allri sinni grimmd og mannvonsku. Hatrið á yfirstéttunum og því misrétti sem þær höfðu komið á, gaus þá fram í ljósum logum og með svo augljósum hætti að afæturnar fóru loks að óttast um sinn hag. Enda fór líka að nálgast hin óhjákvæmilegu skuldaskil sem Lúðvík XV sagði réttilega að koma myndu eftir sinn dag. Fílabeinsturnarnir riðuðu til falls út um alla Evrópu, álfuna sem hafði fóstrað sérgæskuna svo lengi sér við barm en látið almenningi blæða án afláts !
Hin forna skipan - að hver maður ætti sinn rétt, hafði lengi verið troðin undir fótum sérgæskuaflanna, þeirra sem vildu meira en meðalhóf fyrir sig og sína og höfðu komist upp með yfirgang sinn í krafti ofbeldis og manndrápa. Allt of lengi hafði almenningur verið svo kúgaður að hann hafði nánast viðurkennt afætuliðið sem máttarvöld himins og jarðar.
En á upplýsingaöldinni fóru menn fyrst að skilja að fólk var ekki fætt til að verða þrælar, að hver og einn hlaut að eiga sinn rétt og að því kom að fámenn forréttindastétt aðals og kirkju gat ekki lengur haldið fólkinu niðri. Reiði almennings var farin að sjóða upp úr eftir margra alda svívirðilega kúgun og arðrán. Fólkið fór hvarvetna að rísa upp í krafti sameinaðrar stöðu !
Hin svokallaða siðmenning hafði skilað af sér þrælahaldinu í sinni mögnuðustu mynd. Það var fyrsta stig arðránsins og auðkenndi til að mynda Grikkland hið forna og Rómaveldi þar sem þrælar voru geysilega margir. Síðan komu önnur stig hins sama ferlis, bændaánauð miðaldanna og loks launavinna nútímans. Alltaf hefur verið reynt að viðhalda þrælahaldi í einhverskonar mynd og svo er enn. Jafnvel íslensk launabarátta á árinu 2015 er háð í skugga gömlu skítmennskunnar hinnar illu sérgæsku !
Eftir orustuna við Culloden um miðbik átjándu aldar var hin ævaforna ættflokkaskipan Hálandanna eyðilögð því hún var skoðuð sem ógn við konungsvaldið. Menn með frjálsan anda eiga nefnilega aldrei samleið með konungsvaldi ! Það sem gert var eftir Culloden var í raun hræðileg eyðilegging á sérstakri skoskri mannlífs-arfleifð og svo margt sundraðist og skekktist við þær aðfarir enskra stjórnvalda að Hálöndin hafa aldrei orðið söm eftir það.
Því var það dapurt að Skotar skyldu ekki hafa einurð í sér til að varpa af sér enska okinu þegar þeir áttu þess kost fyrir skömmu. En það tekur sinn tíma að afvenjast aldalangri undirgefni og ávanabundnu helsi og kannski þurfa Skotar enn um hríð að læra að venjast því að sá möguleiki sé fyrir hendi að þeir geti öðlast fullt sjálfstæði frá kúgunarmiðstöðinni í Lundúnum ?
Sérgæðingar hatast við allt jafnrétti og eigingirnin er drifkraftur alls í þeirra hugsun. Vegna þess eru þeir menn sem hafa auðgast mikið oftast verið af þeirri manngerð. Þar hefur sýnt sig í fullum framgangi sú viðleitni sem sjaldnast er vönd að meðulum og mótast af þeirri eigingjörnu afstöðu að sjálfsagt sé að níðast á rétti annarra til að koma sér áfram til auðs og valda !
Og enn á ný virðist vera að myndast sú fyrirlitning auðmanna á almenningi sem merkti svo mjög fyrri tíma, enn á ný virðist hrokinn í uppsiglingu vegna aukinna frjálshyggjusjónarmiða og sívaxandi Mammonsdýrkunar, enn á ný þarf venjulegt fólk að halda fullri vöku sinni gegn sérgæskunni og samviskulausu hirðliði hennar !
Sigrar hins liðna fyrir samgæsku og jafnrétti munu ekki haldast ef enginn vilji er til nýrra sigra á þeim vettvangi. Samgæskan og sérgæskan eru ósættanlegar andstæður og verða það allt til loka þessa heims. Gullna reglan, það sem þér viljið að aðrir gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra, er hjartað í samgæskunni en hjartað í sérgæskunni er blóðskylt sjálfu helvíti !
Ert þú samgæskumaður eða sérgæðingur ?
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 21
- Sl. sólarhring: 70
- Sl. viku: 590
- Frá upphafi: 365488
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 503
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 18
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)