Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Um fjölmiðlalyddur ?

Það er í meira lagi ömurlegt þegar fjölmiðlamenn fá Davíð Oddsson í viðtal. Það virðist ekki skipta neinu máli hverjir þeir eru. Þeir virðast ekkert vita hvernig þeir eiga að vera í viðmóti gagnvart honum. Það er engu líkara en þeir séu skíthræddir við hann og forðist eins og heitan eld að spyrja hann að einhverju sem gæti komið illa við hann. Ef það kemur fyrir að þeir missa eitthvað slíkt út úr sér, draga þeir sem óðast í land og biðjast eiginlega auðmjúklega afsökunar. Hverskonar lyddur eru þetta eiginlega ?

Það ætti nú að vera hægt að spyrja þennan mann að ýmsu og reyna að fá fram svör, því hver ætti nú að vita meira um atburðarásina sem leiddi til hrunsins en einmitt hann, sem öllu réð í landsstjórninni í hálfan annan áratug þar á undan ? Á hans valdatíma gerðist bókstaflega talað allt sem orsakaði hrunið !

Hver setti okkur inn í forstofuna hjá Evrópusambandinu, hver seldi eða gaf bankana, hver seldi Símann - að sögn til að fjármagna hátæknisjúkrahúsið sem var alveg að koma, hver setti okkur á stríðslistann alræmda o.s.frv. o.s.frv. Það er hægt að spyrja þennan lykilmann valdaheimsins fyrir hrun um æði margt, en það er bara ekki gert. Það má víst ekki styggja goðið !

Hvernig eru þessir fulltrúar fjórða valdsins, þessir mjög svo fjölvísu menn á fjölmiðlunum, eru þetta tómir vesalingar, er enginn þar sem getur talað við valdamenn eins og þeir gerðu á sínum tíma Ólafur Ragnar Grímsson og Vilmundur Gylfason ?

Þvílíkir rófuliða-rakkar og silkihanskasauðir eru þessir menn sem fara nú með upplýsingakröfugerð fjórða valdsins fyrir hönd almennings í landinu. Þar virðist hver seppinn öðrum afleitari og gjamma bara í vissum tilfellum, það er að segja þegar það er talið óhætt !

Það mætti gera ansi laglega ritgerð um samskipti Davíðs Oddssonar við fjölmiðla og fréttamenn í gegnum árin. Það hefur verið venja hans að valta yfir viðmælendur sína ef þeir hafa ekki verið reiðubúnir til að sleikja skósólana hans. Þannig byrjuðu drottningarviðtölin á Íslandi.

Það voru ófá þau skiptin sem Davíð kom einn í fjölmiðlaþátt til að lýsa sínum viðhorfum og sinni sýn á málin. Enginn var ræstur út til að vera á annarri skoðun og mynda þar lýðræðislegt mótvægi. Nei, Davíð virtist kunna illa við það þegar aðrir voru ekki sammála og það var náttúrulega látið eftir honum að hafa þar sína hentisemi.

Davíð fór snemma að tileinka sér það háttalag að ávarpa fréttamanninn með nafni og skapa þannig einhverskonar persónulega nánd. Síðan hafa aðrir tekið upp þann sið vegna þess að það þótti virka svo vel.

Ef fréttamaðurinn reyndi eitthvað til að vera beittur, en það kom stundum fyrir menn framan af, þá sagði Davíð sem svo: “ Já, sumir sem þekkja ekki til mála eru að ímynda sér þetta og hitt, en við vitum nú betur !” Og fréttamaðurinn varð eins og smjör og hefur líklega sagt við konuna sína er hann kom heim, hafi hann verið giftur :” Veistu hvað, hann Davíð ávarpaði mig bara með nafni !”

Frá ofurvaldsárum sínum hefur Davíð náð þessum tökum og hann er greinilega ekkert að sleppa þeim þó ýmislegt hafi nú gefið á bátinn síðan og trúin á leiðtogann mikla og sterka hafi nú orðið fyrir drjúgum áföllum.

Sú ímynd er í raun og veru farin í hundana þó sumir hangi á henni eins og hundar á roði. En þar er um að ræða lið sem aldrei myndi taka sönsum eða beygja sig fyrir nokkrum staðreyndum, svo því er ekki viðbjargandi.

Og það má auðvitað hver liggja eins og hann býr um sig, svo framarlega sem hann er ekki að svíkja einhverjar skyldur sem honum hefur verið trúað fyrir. En fréttamenn hafa skyldur við almenning og hafa nú oftast viljað undirstrika það sérstaklega, og þegar þeir liggja hundflatir fyrir einhverjum valdamanni og smjaðra jafnvel fyrir honum, eru þeir ekki að framfylgja þeim skyldum eins og vera ber !

Hundsleg auðmýkt af slíku tagi á ekki að þekkjast og Davíð Oddsson á ekki rétt á neinni sérmeðferð vegna þeirra miklu valda sem hann hefur haft í okkar samfélagi á liðnum árum. Þau völd hafa heldur ekki orðið íslenskri þjóð til farsældar.

Við Íslendingar höfum lengst af talið okkur eiga fullan rétt til þess að vera frjálsir menn í frjálsu landi, en sú afstaða leggur okkur þá skyldu á herðar að við sýnum það í hugsun og verki að við séum það !

Fulltrúar fjórða valdsins eiga þar að sýna gott fordæmi með reisn og skeleggri framgöngu, í stað þess að vera oft eins og lúpur og lyddur og þora ekki að tala eins og tala ber !

 

 

 


Spjall um væntanlegt forsetakjör !

 

Það hefur löngum virst erfitt fyrir marga sem notið hafa

 

 valda að draga sig í hlé. Nú hefur það gerst sem

 

sjaldgæft er, að einn slíkur hefur gert það - að lokum !

 

Ólafur Ragnar hefur dregið framboð sitt til baka og sett

 

það aftur í gildi sem hann sagði um áramótin.

 

 

Það virðist sem svo, að sá þrýstingur sem líklega var

 

settur á hann af stuðningsmönnum að bjóða sig fram,

 

hafi í raun höfðað meir til þess sem hann hefur talið

 

skyldu sína að gera, en beinlínis þess sem hann hefur 

 

langað til.

 

Ólafur gerði grein fyrir því í aðdraganda þess að hann

 

dró framboð sitt til baka, að staða mála hefði breyst

 

með þeim hætti að reynslumiklir menn hefðu komið 

 

fram sem vel væru færir um að axla þær skyldur sem

 

forsetaembættinu fylgdu og geta menn svo sem haft

 

ýmislegt við þá skoðun að athuga í sjálfu sér, en þetta

 

sagði forsetinn fráfarandi hvað svo sem hann meinti í

 

raun og veru.

 

Það mætti því ætla að Ólafi Ragnari hafi eiginlega ekki

 

litist sem best á þau framboð sem fram voru komin fyrir

 

framboðs-yfirlýsingu hans upp úr miðjum apríl, og 

 

kannski er hann í því ólíkur Sigurði Jónssyni sem eitt

 

sinn var hreppstjóri okkar Skagstrendinga, skynugur karl

 

og sérstæður.

 

Sigurður benti á Jón Áskelsson nágranna sinn á

 

Hólanesinu sem eftirmann sinn í starfi hreppstjóra, en

 

milli þeirra grannanna hafði þó verið fremur fátt. Jóni

 

þótti merkilegt að heyra að Sigurður hefði bent á hann

 

varðandi þetta og hugsaði með sér að líklega væri

 

karlinn skárri en hann hefði haldið.

 

Hann gerði sér því ferð yfir til grannans til að þakka

 

fyrir traustið. Sigurður pírði augun þegar hann heyrði

 

erindið og sagði: “Hélstu að ég vildi að eftirmaðurinn

 

yrði betri ?”

 

Svona geta nú viðhorfin verið breytileg en kannski er

 

Ólafur Ragnar ef til vill bara líkur Sigurði hreppstjóra

 

og vonar eindregið innst inni - eigin orðstírs vegna, að

 

eftirmaður hans á stóli forseta verði Davíð Oddsson !

 

 

Sumir frambjóðendur í þessum forsetakosningum hafa 

 

látið liggja að því í fjölmiðlum að aðalástæðan fyrir

 

litlu fylgi þeirra samkvæmt skoðanakönnunum sé að

 

þeim hafi ekki gefist tími til að kynna sig. Það virðist

 

búa nokkuð merkilegt sjálfsálit bak við slíkar

 

skýringar,sem gefa þá í skyn að fylgið muni þjóta upp á

 

við ef viðkomandi nær því bara að koma því til skila 

 

hversu frábær hann er.

 

Og maður spyr sjálfan sig, hvernig getur það verið að

 

svo frábærir einstaklingar þurfi að kynna sig fyrir

 

sinni litlu þjóð ? Atgervi þeirra ætti þá fyrir löngu að

 

vera orðið alþjóð kunnugt, skyldi maður ætla !

 

Í eina tíð var talið að ekki myndu bjóða sig fram aðrir

 

einstaklingar til forsetakjörs hérlendis en þeir sem

 

þegar væru orðnir þjóðkunnir af ferli sínum og störfum.

 

Nú er sýnilega öldin önnur. En auðvitað mega allir bjóða

 

sig fram, hvort sem þeir eru þekktir eða ekki, en

 

afleitt er þó alltaf ef lýðræðið er notað með þeim hætti

 

að verið sé að grafa undan því og allt að því fíflast

 

með þann rétt sem það gefur mönnum.

 

Tíminn líður og það býður alltaf breytingum heim. Nýir

 

menn koma á sviðið og þannig á það að vera.

 

Gamlir vendir sem löngu eru hættir að sópa eiga að lúta

 

því lögmáli sem tímanum fylgir og víkja fyrir nýjum.

 

En það er nú þetta sem ég minntist á hér í upphafi, það

 

er svo erfitt fyrir marga sem notið hafa valda – að

 

víkja. Slíkir menn vilja koma aftur og aftur, íklæddir

 

nýju og nýju gervi. Þeir birtast kannski sem

 

borgarstjórar, formenn flokka, þingmenn og ráðherrar,

 

jafnvel forsætisráðherrar, svo verða þeir kannski

 

seðlabankastjórar og hver veit hvað. Allt vilja þeir

 

verða og virðast sumir hverjir kosta kapps að safna

 

vegtyllum fram í bláan dauðann.

 

Það er jafnvel reynt að húkka sér einhver völd löngu

 

eftir að flestallir eru búnir að fá sig fullsadda af svo

 

valdagírugu einstaklingsframtaki og sjá lítið gott við

 

það, enda hafa ávextirnir oft verið þannig að óbragðið

 

eitt situr eftir.

 

Það verður því að segjast eins og er, að þegar fréttist

 

af ótilteknu framboði stóðst Enginn Allrason ekki mátið

 

og orti smákvæði það sem hér fer á eftir. Enginn er

 

líklega að orða þar nokkuð sem margir gætu tekið undir

 

og það heilshugar.

 

 

Gleypugangurinn

 

 

Tignarstöðu stóra eygir,

 

stífur sér í slaginn fleygir

 

karl með höfuð hallt.

 

Samt með hroka hátt sig reigir

 

hann og með því nánast segir:

 

Verða vil ég ALLT !”

 

 

Þjóðin undrast þessa takta

 

þar sem valdagræðgin rakta

 

birtist sjúk í sér.

 

Suma þyrfti vel að vakta,

 

vilja þeir í öllu blakta

 

á við heilan her !

 

 

Ekki má það endurvekja

 

er allan jöfnuð kýs að hrekja

 

og ber í sárin salt.

 

Heft sé mannsins frama frekja,

 

ferilinn þarf ekki að rekja.

 

Verði hann aldrei ALLT !

 


Íslenska græðgin !

 

Heimurinn hefur kynnst mörgum slæmum hlutum sem hafa verið afleiðingar af óheilbrigðu framferði og endað á verðskuldaðan hátt – með skömm og skaða !

Á síðustu árum hefur íslensk peningagræðgi sannarlega skorað hátt í þeim efnum og nýjustu birtingarmyndirnar af þeirri græðgi hafa sýnt sig með býsna ljótum hætti í því hvernig ferðamenn virðast arðrændir til hins ítrasta þegar þeir koma til landsins.

Ísland sem kynnt er fyrir heiminum sem hið hreina og óspillta náttúruland, reynist stundum allt annað þegar ferðamennirnir eru komnir hingað. Þá er þeim selt vatn á flöskum á hóteli í höfuðborginni vegna þess að kranavatnið er sagt svo eitrað og hættulegt. Hvernig getur svona háttalag farið saman við ærlega hluti og hvernig er hægt að hegða sér svona gagnvart öðru fólki ?

Öll verðlagning hækkar og hækkar stöðugt í krafti græðginnar og allir sem vilja meira og meira eru að byggja hótel og gistiheimili út um allt land til að fá hlutdeild í gróðanum sem alltaf á að vaxa. Áætlanir hljóða upp á stöðuga aukningu ferðamanna á næstu árum, enda má engin áætlun hljóða upp á annað !

Það má enginn vara við eða skemma veislufagnaðinn, ekki frekar en hérna um árið þegar allt fjármálahyskið fór á þankeyrslu með þjóðfélagið út og suður og nánast til andskotans í græðgisferð óvissunnar !

Einstaklingsframtakið virðist rótast í þessum málum á fullu og sjáanlega undir þekktri viðmiðunarreglu: “Gróðinn til okkar, kostnaðarliðir sem mest á ríkið !”

Af hverju er ekki hægt að fara með skynsemi í málin ? Af hverju þarf alltaf að miða allt við hámarksgróða og helst meira ? Af hverju þarf að reyta blóðfjaðrirnar af öllu sem við komum nálægt, hver mjólkar kúna þegar hún er dauð ? Hver hagnast á slíku þegar til lengdar er litið ?

Hvernig var með síldina forðum þegar hún stakk af úr veislunni ? Hvernig var með verslunarævintýrin í Dublin, Edinborg, St. Johns og víðar, þegar Íslendingar komu í stórhópum þangað til að versla vegna hins hagstæða vöruverðs ? Á fáum árum steig verðið svo að ávinningur varð að lokum lítill sem enginn. Allir vildu græða á Íslendingunum og kaupmenn viðkomandi borga fóru að okra hver öðrum meira á íslensku kúnnunum svo viðskiptin drógust saman og fjöruðu út að mestu.

Græðgi er auðvitað víðar til en á Íslandi en af hverju þurfum við að vera svo gráðugir að það sé haft á orði víða um lönd, talað um litla, gráðuga Ísland ?

Nú hefur verslunardæmið snúist við og nú vilja Íslendingar sýnilega okra á ferðamönnum eins og þeir frekast geta og hvernig mun það enda ? Það virðist hvergi um að ræða neina marktæka viðleitni til að miða viðskiptin við hóflegan arð. Það er bara botnlaus græðgi í spilinu og púra arðrán í gangi. Niðurstaðan verður því óhjákvæmilega eins og í öllum hliðstæðum dæmum.Ferðamenn fara að átta sig á því að Ísland er að verða eitt dýrasta land í heimi og okrið þar svo mikið að það fer að virka í vaxandi mæli sem óyfirstíganleg fyrirstaða þeirrar ánægju sem fólk getur annars haft af heimsókn til landsins.

Blóðsuguaðferðin gengur aldrei til lengdar !

Sú tíð mun því koma að ferðamenn munu heldur kjósa að ferðast eitthvað annað en til Íslands, þeir munu velja sér nýja áfangastaði þar sem heilbrigðari viðskiptahættir eru virtir.

Okur virkar á sama hátt og ofveiði. Miðin tæmast og ekkert aflast. Ætlum við áfram að fara fram með þeim hætti í ferðamálunum - að hin gefandi lind þorni upp ?

Hverskonar hugsunarháttur er það sem drottnar svona yfir afkomendum fólks sem var heiðarlegt og nægjusamt og gestrisið í liðnum tíma ? Við erum því fólki til skammar með þessu græðgisfulla framferði og kunnum bersýnilega ekki lengur að taka á móti gestum með viðeigandi gerðarbrag og almennilegheitum og hófstilltri þénustu !

Þetta þarf að breytast og því fyrr því betra, áður en þjóðfélagið situr uppi með hótel og gistiheimili út um allt, risavaxið móttökukerfi fyrir túrista, skuldsett í botn, en enga ferðamenn, enga gesti !

Þeir verða þá farnir annað, á einhverja þá staði þar sem tekið er á móti þeim með öðru og betra hugarfari en íslenskri græðgi !

 


Þjónum ekki þeim sem vilja eyða okkur !

Það er ljóst að samtíminn hefur búið sér til ákveðinn rétttrúnað og það mitt í allri hinni fjálgu umræðu um brýna nauðsyn skoðanafrelsis og fordómaleysis. Framleiðandi þessarar rétttrúnaðarhyggju samtímans er og hefur verið sjálfskipuð menningarelíta sem er altekin mikilmennsku eigin menntunar og telur sig því hafa fullkomnar hæfnisforsendur til að standa fyrir allt að því heilagri forræðishyggju.

Rétttrúnaður þessarar menntamafíu snýst því um skoðanir og hvað fólki á að leyfast að aðhyllast og hvað ekki. Þetta er sem sé ný útfærsla á skoðanakúgun sem smellpassar við hræsni samtímans í þeim efnum. Stór hluti af þessum rétttrúnaðar-skoðunum tengist að sjálfsögðu fjölmenningar-hugmyndafræðinni sem hefur tröllriðið Vesturlöndum síðustu áratugina og leitt fólk inn í andlegt tómarúm rótleysis þar sem enginn getur átt heima til lengdar !

Til hvaða gagns er langskólamenntun manna fyrir samfélagið þegar hún virðist skorða þá alfarið við skakkar myndir ? Til hvers er menntunin þegar hún fær menn til að kalla það víðsýni sem í sannleika er þröngsýni ? Til hvers er menntunin þegar hún færibandaframleiðir lærða asna sem draga síðan samfélagið út í keldur og foræði hættulegra og óþjóðlegra refilstiga ?

Af hverju fær mannsandinn ekki að vera frjáls fyrir valdboðum pólitísks páfadóms sem birtist í gervi valdaklíku sem hleypur stöðugt frá einni villunni til annarrar, en þykist þó alltaf standa fyrir hinum eina og sanna rétttrúnaði ? Af hverju vill slíkt dekurfólk samfélagsins drepa niður allar þjóðlegar áherslur og einblína á einhvern fjölþjóðlegan hrærigraut sem alstæða lausn á vandamálum mannkynsins ? Hversvegna gerir slíkt fólk sig að lifandi brúarsporðum innrásar annarra siða í eigið land og leggur þar allt menningarframlag liðinna kynslóða eigin þjóðar að veði ?

Er þar um að ræða heilaþvott eða heimsku – eða er einfaldlega um andlega uppgjöf að ræða ? Kannski eru sumir á því að prófa eitthvað nýtt þó það þýði að því sem áður var í gildi sé varpað á haugana og engin leið verði eftir á að höndla það aftur ? Hver veit, veröldin er á fleygiferð og sá sem rúllettunni stjórnar hlýtur að vera með klaufir, horn og hala, eftir framvindunni að dæma !

Rétttrúnaðarfólkið, menningarelítuklíkan, talar mikið um friðsama múslima, jafnvel að islam sé hugtak yfir frið ? Það talar um umburðarlyndi og kærleika gagnvart fólki sem gerir með einum eða öðrum hætti kröfu til þess, allt frá fyrstu kynnum, að þú hegðir þér í samræmi við siði þess og gildismat. Þú átt að leggja allt þitt fram í þess þágu en það á ekki að koma með neitt þar á móti. Ef þú gerir ekki eins og rétttrúnaður fjölmenningarinnar býður, ertu stimplaður rasisti, fordómafullur, þröngsýnn og menntunarlaus og öllu því til skammar sem gott getur talist !

Innflytjendur hafa náð að skapa sér mikla og sterka áróðursstöðu með tilstyrk fjölmenningarafla innan fjölmiðla og í stjórnmálaflokkunum. Það hefur skapað hroka í mörgum þeirra sem er leið fylgja hvar sem hún birtist í fari manna. Það ýtir undir kröfugerð af þeirra hálfu sem er ekki í neinu samræmi við eðlilega málsmeðferð. Það hefur sýnt sig á margan hátt í túlkun þeirra á þeim réttindum sem þeir telja sig hafa í landi sem þeir hafa ekki lagt neitt til á neinn hátt. Samt sem áður álíta þeir sig eiga margskonar kröfurétt til lífsgæða þar !

Þetta aðkomna fólk telur sig alls ekki þurfa né eiga að samlagast siðum þess lands sem það er komið til, hvort sem um Ísland er að ræða eða önnur vestræn ríki. Þú átt samt að bjóða því inn á þitt heimili, inn í stofu þar og leyfa því alfarið að ráða þar öllu, annars verður þú stimplaður eins og að framan greinir. Stór hluti þessa fólk er ekki að koma til að aðlagast heldur gerir það kröfu til að viðkomandi landsfólk aðlagist því og margir telja sig verða að gera það.

Þeir eru nefnilega hreint ekki svo fáir sem hafa látið kefla sig og múlbinda á undanförnum árum af ótta við að fá á sig fordómastimpilinn. Skoðanafrelsið er nú ekki meira en það að rétttrúnaðarkrafan ýtir því nánast í kaf. Þeir sem vilja mynda sér sjálfstæð viðhorf og láta ekki segja sér fyrir verkum eru litnir fjandsamlegum augum, af algæsku-elítunni sem situr í fílabeinsturni rétttrúnaðarins, og taldir spilla fyrir framgangi friðar og samstöðu. Það er því reynt að brennimerkja þá með hverjum þeim hætti sem talinn er til þess fallinn að gera þá skaðlausa málstað „hinna syndlausu réttrúnaðarsinna“ !

Fjölmenningar-hugmyndafræðin sem er einn skelfilegasti vitleysisgangur síðari tíma, er í raun ekkert nema tilræði við öll þau gildi sem byggja sín viðmið á þjóðlegum grunni. Þar kemur fram enn ein birtingarmyndin á goðsögninni um Babelsturninn. Þar heyrist gamli söngurinn um að allir eigi að standa saman, vera saman og vinna að einhverju saman, – eins og til dæmis því að byggja turn upp í skýin !

En eins og löngum áður verður draumsýn samvinnunnar ekki lokaniðurstaðan í þessari fölsku fléttu. Það sem gerist og hefur verið að gerast, er að þeir sem koma úr hinum múslimska trúaröfgaheimi inn í okkar vestrænu samfélög eru að breyta okkar heimi með sínum siðum og sínu framferði. Og um leið og það gerist krefjast þeir í sífellu umburðarlyndis af okkar hálfu gagnvart slíku framferði um leið og þeir hundsa okkar gildi og sýna þeim enga virðingu í neinu.

Þannig hefur hin svokallaða fjölmenning virkað, að hún hefur orðið eitt drýgsta tæki múslima til að islamisera vestræn samfélög og grafa undan evrópskum mannréttindagildum. Á næstu árum mun fjölmenningar-hugmyndafræðin afhjúpa sig enn frekar sem ein lævísasta birtingarmynd árásarstefnu gagnvart þjóðmenningum evrópskra landa. Þar hafa margir þjónað blindandi þeim öflum sem þeir aldrei myndu þjóna með fullri sjón.

Verjum álfuna okkar svo að hún skapi okkur áfram þau heimkynni sem við viljum búa við !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 149
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 718
  • Frá upphafi: 365616

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 629
  • Gestir í dag: 144
  • IP-tölur í dag: 142

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband