Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017
25.2.2017 | 00:36
Nokkur orð um Virðingu og Réttlæti !
Hið íslenska mannfélag hefur beðið mikið tjón á síðustu árum vegna sérdrægni manna og hömlulausrar eigingirni og peningagræðgi. Hin almenna velferð sem menn töldu sig vera að byggja upp hér á árum áður er ekki lengur markmið í sjálfu sér.
Raunar hefur almenn velferð verið á niðurleið hér mörg undanfarin ár enda fátækt farin að hefja innreið sína í þjóðfélag okkar aftur af mannavöldum - svo illt og bölvað sem það er !
Hugsjónir hafa horfið fyrir stöðugri ásókn efnishyggju og margir seilast langt til að auðga sjálfa sig, enda segir eigingjarn tíðarandinn að það sé mál málanna að fita sig á annarra kostnað. Jafnvel fólk sem hefur byrjað feril sinn í krossferð gegn spillingu sest nú sjálft að í spillingardíkinu og virðist samt ekki hafa hugmynd um hvar það er statt. Svo samdauna hefur það orðið viðbjóðnum sem það ætlaði að uppræta, að það skynjar hann ekki lengur !
En samt er baráttunni fyrir heilbrigðara og réttlátara samfélagi haldið áfram og þó að ýmsir svíki og bregðist verður það aðeins til að stappa stálinu í þá sem heilir eru til orðs og æðis og vilja ekki níðast á neinu því sem þeim er trúað til.
Meðal þess sem slíkt fólk berst fyrir er að það ríki virðing og réttlæti í öllum samskiptum. Það er afar þýðingarmikið atriði varðandi það að skapa traust - að virða heilbrigð gildi og sýna í öllu stuðning við réttlátar lausnir í málum !
Verkalýðshreyfingin hefur innan sinna vébanda samtök sem ganga undir félagsheiti sem skammstafað er VR. Oft er talað í því sambandi um gildi Virðingar og Réttlætis og það er sannarlega ekki á hvers manns færi að standa undir stefnu sem hefur slíkt að markmiði. Þá þarf að vanda til verka og vera trúr og sannur !
En þegar forustumenn í verkalýðssamtökum eru komnir svo djúpt niður í spillingardíkið, að þeir telja sig þurfa að hafa margföld laun miðað við almenna félagsmenn, þá eiga þeir að hætta. Þá eru þeir ekki lengur hæfir til þjónustu og græðgi þeirra orðin slík að þeir eru farnir að eitra út frá sér. Þá vita þeir greinilega ekki lengur hvað Virðing og Réttlæti er. Þá er framgangan sýnilega orðin sýkt af þveröfugu hugarfari sem virðist öllu heldur taka mið af Villuferli og Rangindum !
Ofurlaun eiga engan rétt á sér í okkar samfélagi og auðvitað síst af öllu í verkalýðshreyfingunni sem á að vera baráttuarmur okkar eigin réttindagæslu. En þar er líka fólk sem hefur villst af götunni til Virðingar og Réttlætis vegna eigin græðgi. Það er sárt til þess að vita að fólk skuli telja sér trú um að það sé að starfa í þjónustu venjulegs launafólks, og það af fullum heilindum, þegar launakjör þess eru orðin himinhá og það telur sig samt vinna ærlega fyrir hverri krónu !
Við þurfum að koma þeim úr valdastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar sem þar sitja á fölskum forsendum. Við þurfum að losa okkur við alla úlfana í sauðargervinu, alla svikarana sem þar hafa hreiðrað um sig og gengið til liðs við þá sem arðræna fólkið í landinu, alla þá sem eyðileggja Virðinguna og brjóta á Réttlætinu !
Við þurfum að veita nýjum mönnum tækifæri, mönnum sem hafa sýnt að þeir vilja berjast gegn öllu því sem óhreint er, þar með talið gjörspilltum gróðaklíkum og svívirðilegu lífeyrissjóðakerfinu sem deilir og drottnar með fé fólksins að vopni og er löngu orðið að ófreskju auðvalds og spillingarviðbjóðs í þessu landi. Þar vantar nú ekki ofurlaunin !
Sýnum í öllum tilfellum að við styðjum ekki spillt fólk til forustustarfa. Höfum kjark til að segja meiningu okkar og leggjum fram okkar skerf til þess að bæta samfélagið okkar og hefja aftur sókn að þjóðarvelferð og eflingu heildarhags með Virðingu og Réttlæti að leiðarljósi !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook
18.2.2017 | 11:37
Verðlaunafárið !
Eitt af því sem er afskaplega dæmigert fyrir taumlausan nútímann er hin yfirborðskennda og nánast allsráðandi egofýsn fólks á svo til öllum sviðum, sem snýst í langflestum tilfellum um tóman hégóma. Fjölmargt fólk virðist svo upptekið af því sem það er að gera hverju sinni að ekkert annað kemst að og allt annað sýnist einskisvirði í augum þess. Samfélagið virðist allt orðið undirlagt af einhverjum persónulegum eylöndum sem stjórnast hvert og eitt af því að álíta sig allt að því nafla alheimsins !
Þessi allt um lykjandi afburðamennska eigin lífssýnar kallar auðvitað á andsvör frá meðvirkum tíðaranda og þau felast meðal annars í því að sí og æ er verið að veita fólki af þessu tagi einhver verðlaun. Forsetinn er notaður ótæpilega til þess að afhenda slík verðlaun því matarmeira þykir að taka við þeim úr hans höndum.
Svo eru allskyns samtök - oftast kennd við menningu og mannauð - að útdeila verðlaunum og viðurkenningum í allar áttir. Maður skilur eiginlega ekki hvernig stendur á öllum vandamálum þjóðfélagsins þegar fyrir liggur að svona gífurleg verðlaunahæfni er alls staðar sögð til staðar !
Háskólarnir dæla út fólki sem komið er með allskonar gráður sem eiga að vera algildur mælikvarði á hæfni viðkomandi til starfs og dáða. Fólk við nám í æðstu menntastofnunum skrifar í þúsundatali meistararitgerðir um tiltekin viðfangsefni og fær menntagráður og manngildis-stimplun í samræmi við það.
Allt ætti þetta auðvitað að virka sem bein ávísun á farsæld samfélagsins, sem fær þá að njóta starfskrafta allra þessara gildismiklu gráðumeistara, en niðurstaðan virðist ekki fylgja væntingum og æ erfiðara virðist afburðafólkinu ganga við það verkefni að stýra samfélagsmálunum til heillaríkra og góðra lausna. Hvernig skyldi annars standa á því ?
Fyrr á tímum voru menn líka að stunda háskólanám og þeir skrifuðu lærðar ritgerðir um viðfangsefnin og fengu margir gott orð fyrir þekkingu og vitsmuni, en ekki voru þó ritgerðir þess tíma allar sjálfkrafa sagðar meistararitgerðir. Mat eftirtímans sá um að úrskurða slíkt ef þurfa þótti og mun það vafalítið meira í takt við eðlilega dómgreind en ótímabær sýndarþörfin í þessum efnum nú til dags.
Einhvernveginn læðist að manni sá grunur að menntun í dag sé komin með ólíkt meira holhljóð tómarúmsins en þekktist áður og því sé umbúðum hennar flaggað meira en fyrr. Því meiri umbúðir, því minni kjarni !
Það sem áður hét ritgerð heitir nú meistararitgerð og eftir 10-15 ár með sama áframhaldi mun líklega enginn námsmaður á háskólastigi skrifa annað en stórmeistararitgerð !
Hvað skyldi nú vera gert við allar þessar þúsundir meistararitgerða, sem eru væntanlega fullar af samþjöppuðu mannviti, og hver skyldi ávinningur mannfélagsins hafa orðið - svona eftir á séð - af menntun allra hinna gráðum prýddu ritgerðarsmiða ?
Ég óttast að uppskeran sé lítil og í engu samræmi við það sem reynt er að telja fólki trú um. Lærdómstitlar fólks í nútímanum eru orðnir legio að tölu en velferð samfélagsins hefur ekki aukist að sama skapi en sérgæskan hinsvegar margfaldast !
Í nútímanum virðist fólk mennta sig fyrst og fremst til að hafa það gott. Þar ræður egofýsnin för. Í fæstum tilvikum virðist þar einhver hugsjón að baki. Fólk vill fá hátt kaup fyrir að sýsla í ró við pappíra og ávinningur samfélagsins af slíku sýsli er að því er virðist algert aukaatriði. Lærdómsgráðan ein á að tryggja kjörin hvort sem hún skilar einhverju til gagns og gæða eða ekki !
Og til þess að öllu sé haldið til skila á Hégómastöðum og hið útvalda lið finni að það sé virt og metið eins og það ætlast til, er ýmislegt lagt til með því af hálfu gráðukerfisins og þá er náttúrulega komið að verðlaunum og viðurkenningum. Svo er tálþörfinni til hámarks uppfyllingar sett það höfuðhégóma-fyrirbæri sem heitir Fálkaorða, til þess að tryggja að sumir í sérflokki fái jafnan fullvissu-stimpil á eigið ágæti. Og enn og aftur er þá forsetinn notaður til að gera gjörninginn frambærilegri !
Allt er þetta auðvitað bölvaður hégómi og innihaldslaus sýndarmennska og síst til þess fallið að gera samfélagið manneskjulegra og jafnréttisbetra. Miklu fremur er þarna unnið að aðgreiningu fólks og eins og aðalsréttindin voru notuð í gamla daga er menntunarstigið nú notað til að auka hroka og sérgæsku þeirra sem telja sig öðrum fremri !
Það er með ólíkindum hvað mannskepnan er í rauninni sjálfhverf og sjálfselsk og þar virðist fátt geta bætt úr og eitt er víst að það hefur sannast áþreifanlega í oföldum nútímanum að ekki virkar það sem kallað er hærra menntunarstig til neinna mannfélagsbóta, heldur eykst sérgæskan sem því nemur, jafnt hjá konum sem körlum !
Eitt af því sem sagt er merkja síðustu tíma er að menn séu alltaf að verðlauna hver annan. Og víst er það svo að verðlaunagripir eru orðnir svo að magni til í nútímanum að sumir þekktir keppnismenn hafa jafnvel byggt hús yfir draslið sitt og hugsa sér líklega að sitja þar í sælli egóvímu liðinna dýrðardaga síðarmeir.
En svo fer þetta dótarí auðvitað að mestu í ruslatunnurnar þegar þeir eru dauðir. Pétur Salómonsson fann jafnvel riddarakross Fálkaorðunnar á öskuhaugunum hér áður fyrr og sést best á því hvar hégóminn lendir að lokum !
Maðurinn er ekkert án Skapara síns. Hann getur hreykt sér í sjálfumgleði í einhvern afmarkaðan tíma en svo fer honum óhjákvæmilega að hrörna. Allt er hverfult í þessum heimi og ekki síst hégóminn. Og mannsævin er ekki löng, jafnvel ekki þegar best lætur. Það kemur að því að silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar, skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn. Og hvað tekur við eftir það ?
Það veit svo sem enginn lifandi maður, en eitt tel ég að fullvíst sé - að þeir sem hafa allt sitt líf hér á jörð keppt eftir vindi, fánýtum hlutum og tómum hégóma, þurfa ekki að ímynda sér að þeir komist í þær aðstæður að eyða öðru tilverustigi í hliðstætt verðlaunafár vit-leysunnar og þeir gerðu hér !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook
11.2.2017 | 11:49
Hin skjalfestu skurðgoð !
Margt sem í upphafi var gert og hugsað til skamms tíma vegna nauðsynjar yfirstandandi atburðarásar, hefur oft verið sett á stall og fljótlega orðið að einhverju átrúnaðarefni sem enginn má hagga við. Tilbeiðsla á slíkum hlutum er hinsvegar alveg jafn fráleit og öll manndýrkun yfirleitt. Meðal slíkra átrúnaðarefna sem hér mætti nefna, má til dæmis tilgreina Magna Carta Englands og hina marglofuðu og margtilvitnuðu sjálfstæðis-yfirlýsingu Bandaríkjanna !
Auðvitað voru þetta og eru ófullkomin plögg, gerð við allt aðra þjóðfélagsgerð en nú er til staðar og taka ekki í neinu til fjölmargra þátta sem nú þurfa skilgreiningar við. En þessi börn síns tíma eru komin á stall hjá býsna mörgum !
Þó má segja að mörg ákvæði sem þar eru skráð varðandi mannlegt frelsi eigi að vera í fullu gildi um alla framtíð, en það gætu þau auðvitað líka verið í endurnýjuðum útgáfum og enn fyllri gerðum af samfélags-sáttmála byggðum á sama gildismati !
Konungar Englands reyndu með ýmsum hætti lengi vel að sniðganga ákvæði Magna Carta, enda var hinn einskisnýti þáverandi konungur landsins John Lackland neyddur til að undirrita gjörninginn og tórði reyndar stutt eftir það. Að lokum leiddi andstaða konungsvaldsins við tryggingu almennra þegnréttinda til borgarastyrjaldar, sem lauk til allrar hamingju með sigri þingsins gegn konungi.
Þá fékk enska þjóðin gullið tækifæri til að stofna lýðveldi til frambúðar og losa sig við kostnaðarsamt og uppáþrengjandi konungsvald, en menn skorti kjark og getu til að stíga svo stórt skref. Aftur var málum hleypt í sama farið og hlaðið áfram undir konungsvald og sérréttindi. Það var mikið ógæfuspor og einkum með hliðsjón af almennum hagsmunum venjulegra þjóðarþegna !
Síðan hafa Bretar setið uppi með sitt yfirborðskennda og hlægilega titlatogskerfi þó þeir lofsyngi í orði kveðnu Magna Carta samtímis. Það er löngu orðin þeim inngróin fylgja að sleikja sig upp við konungsvald og aðalshirð hvað sem Magna Carta líður. Sumir geta sýnilega orðið býsna leiknir í því að þjóna til tveggja meginpóla sem í raun og veru eru þó andstæðir að öllu inntaki !
Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var upphaflega samþykkt sem nokkurskonar fyrstaskrefs sameiningar-plagg þeirra íbúa Norður Ameríku sem gátu ekki lengur unað breskum yfirráðum. Það var aldrei meiningin á þeim tíma að þetta plagg yrði háheilagt og sett á stall um aldur og ævi. Reyndar var ameríska byltingin alls ekki eins glæsilegt fyrirbæri og sumir hafa alltaf viljað halda fram !
Efnameiri borgarar hrundu henni af stað til að þurfa ekki að borga móðurlandinu skatt. Allt snerist auðvitað um peninga eins og jafnan í konungdæmi kapitalismans !
Hin uppskrúfaða sjálfstæðisyfirlýsing sem rituð var af Thomas Jefferson, manni sem var nú ekki alveg sjálfum sér samkvæmur varðandi mannlegt frelsi, hefði auðvitað átt að taka sínum textabreytingum í áranna rás og uppfærast með eðlilegum hætti. En hún var fljótlega orðin svo heilög að það mátti ekki hrófla við henni. Það komu bara af og til lögbundnir viðaukar, sem voru þó eiginlega eins og ómerkilegir sneplar samanborið við hið gullna letur hins ofurdýrkaða Jeffersons !
Þegar Franklin D. Roosevelt tókst á við Hæstarétt Bandaríkjanna, sem hafði dæmt ýmis ákvæði New Deal stefnunnar andstæð sjálfstæðisyfirlýsingunni, sagði hann um dómarana sem vissulega voru margir hverjir komnir til ára sinna: Þeir lifa enn á tímum hestvagnanna !
Og bandaríska þjóðin hefur lifað og lifir enn í sjálfstæðisyfirlýsingarvímu frá tímum hestvagnanna. Það breytir engu þótt stjórnvöld þeirra séu löngu búin að fótum troða flest það sem í yfirlýsingunni stendur og einkum það sem viðkemur mannlegu frelsi.
En flestir Bandaríkjamenn sjá sjálfstæðisyfirlýsinguna í rómantískri stjörnubirtu þrátt fyrir það !
En í hverju skyldi heimsvaldasinnað ofurveldi svo sem eiga samleið með frelsi manna ? Höfuðríki kapitalismans fær auðvitað ekki staðist ef það á að virða mannlegt frelsi og það út um allan heim. Blóðsugur þurfa blóð og mikið af því !
En sjálfstæðisyfirlýsingin er dýrkuð og tilbeðin af Bandaríkjamönnum þó mannlegt frelsi sé og geti verið víðsfjarri. Hver myndi til dæmis velja sér viljugur það hlutskipti - jafnvel nú á tímum - að vera blökkumaður í Júessei ? Og gleymum því ekki að það er árið 2017 og sjálfstæðisyfirlýsingin er frá 1776 !
Hvernig var tekið á mannlegu frelsi í Bandaríkjunum þegar mikill meirihluti íbúa Suðurríkjanna mátti ekki í nafni eigin frelsis segja skilið við ríkjasambandið ? Það kostaði þónokkuð yfir 600.000 mannslíf að neyða Suðurríkjamenn inn í sambandið aftur og eftir það 12 ára hömlulausan yfirgang Norðurríkjanna. Hin sigruðu Suðurríki urðu þannig raunverulega fyrsta nýlenda Bandaríkjanna !
Þar komst hið bandaríska stjórnvald fyrst verulega á bragðið með kúgun og arðrán og brátt var það farið að leika sama yfirgangshlutverkið gagnvart öðrum þjóðum sem Bretar léku gagnvart þeim 1776 !
Síðan hafa ráðamenn í Washington tekið svo miklu ástfóstri við þetta alræmda ágangshlutverk að þeir hafa verið að leika það síðan og það um veröld alla !
Það er svo sem ekkert nýtt að stórveldi hegði sér þannig, en Bandaríkjamenn eru hinsvegar svo miklir hræsnarar að þeir slá öllum við. Alltaf eru þeir góðu gæjarnir, alltaf eru þeir að siða aðra til og ekki síst í sambandi við mannlegt frelsi.
Þeir leyfa sér allt og þegar þeir gera hlutina er það allt í lagi, en ef að aðrir gera það sama er það rangt og óverjandi. Ef þeir reisa veggi milli manna er það bara öryggismál þeirra og kemur engum öðrum við !
Við þekkjum það að nútíminn tileinkar sér allskonar idol, menn eru dýrkaðir og talað um stjörnur og nú í seinni tíð um ofurstjörnur. En það á hvorki að dýrka skeikula menn eða mannanna verk. Hver verða líka oftast að lokum örlög þeirra einstaklinga sem teknir eru í guðatölu og dýrkaðir sem slíkir. Þeir fara líkamlega eða andlega eins og Heródes Agrippa þar sem hann tók við tilbeiðslu lýðsins, - tærast upp og rotna fyrir tímann !
Öll skurðgoð eru afvegaleiðandi andstyggð og hverskyns manndýrkun felur í sér vegferð til vondra hluta. Það á enginn rétt á tilbeiðslu nema Drottinn einn, Skapari himins og jarðar. Við mennirnir erum hinsvegar alltaf að tilbiðja eitthvað annað á einn eða annan hátt - í meðvitaðri eða ómeðvitaðri uppreisn gegn Almættinu. Það er hættuleg ávanabundin uppreisn sem þar er að verki !
Sérhver maður - sem vill huga að varanlegri velferð sálar sinnar - þarf að gera sér grein fyrir því sjálfs sín vegna - hver síðastur gengur fram á foldu og hjá hverjum allt dómsvald verður um síðir !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook
4.2.2017 | 10:36
Austurríski öskurapinn !
Það líður að þeim tíma að allir þeir sem upplifðu hryllinginn í kringum Þriðja ríkið og nazismann í Þýskalandi verði horfnir úr heimi. Þegar fórnarlömb og vitni verða ekki lengur til staðar aukast færin til þess að umskrifa söguna og bylta staðreyndum !
Það þarf enginn að efast um að vilji til slíks er víða fyrir hendi og til eru víst jafnvel menn sem eiga að heita sagnfræðingar sem neita því að helförin hafi átt sér stað.
Mannkynssagan er undarlegt fyrirbæri og þar hafa margir einstaklingar verið uppfærðir svo að gildi í sögulegri túlkun eftirtímans að flestum samtíðarmönnum þeirra myndi blöskra ef þeir sæju hvernig farið væri með sannleikann í þeim efnum !
Við vitum að fjölmargir einvaldar hafa hlotið auknefnið hinn mikli þó að þeir hafi verið þjóðum sínum verstu böðlar og grannþjóðum ekki betri. Tilhneiging margra til að skríða fyrir valdi og ekki síst misbeitingu þess er vissulega sjúklegt fyrirbæri !
Það er því alveg hægt að búast við því að Adolf Hitler, austurríski öskurapinn sem komst til valda í Þýskalandi 1933 illu heilli, muni einhverntíma í komandi tíð fá auknefnið hinn mikli. Það getur svo sem vel verið að reistar verði styttur af honum á ónefndum slóðum í siðvilltri framtíð og að farið verði að gylla nazistatímabilið á flesta lund !
En slíkt væri aðeins staðfesting á því hversu langt maðurinn væri kominn út af spori siðmenningarinnar og undirstrika afvegaleiðslu þeirrar kynslóðar sem er þar svo langt leidd, að hún telur sig sjá hetjuímynd þar sem skepnuskapur var allsráðandi !
Það er þegar ljóst að margt yngra fólk sem ekki upplifði hörmungar Hitlerstímans, er farið að lesa Mein Kampf eins og sumir lesa Biblíuna, og sýn þess á hryllinginn sem viðgekkst á valdatíma nazista virðist orðin fjarri allri dómgreind. Slíkt fólk virðist geta klætt þennan ógnartíma einhverri rómantískri hulu og sér eitthvað allt annað út úr hlutunum en var í raun til staðar.
Að umsnúa hryllilegum sögulegum staðreyndum í eitthvað sem virkar laðandi, virðist ekki sjaldgæft fyrirbæri meðal fólks sem nærir með sér annarleg viðhorf og á trúlega við einhver sálarmein að stríða.
Margt ungt fólk virðist hrifið af einkennisbúningum nazista og finnast þeir flottir. Það hefur jafnvel komið fram hjá afsprengi kóngafólks. Mikið er skraddarans pund var einu sinni sagt og víst mun það sannmæli. Hefði nazisminn aldrei verið annað en þessir búningar hefði margur dregið andann léttar á árunum 1933-1945, en þeir menn sem íklæddust þessum búningum voru hinsvegar þannig hugsandi að þeir hafa einna frekast af öllum mönnum sem lifað hafa hér á jörðu afklæðst mennskunni !
Af hverju er annars svona óskaplega erfitt fyrir manninn að draga lærdóm af Sögunni ? Af hverju gera menn sömu mistökin aftur og aftur ? Eru ekki vítin til að varast þau og hvaða víti hafa verið mönnum verri en nazisminn með öllu sínu djöfullega ferli ?
Hitlersandinn er ekki dauður, hvorki í Þýskalandi né annarsstaðar. Alls staðar finnast menn sem eru andlega í ætt við þá manndjöfla sem stjórnuðu Þriðja ríkinu og væru tilbúnir að þjóna slíku valdi ef það risi upp á ný. Mannkynið hefur ekki sigrað það svartnættisvald þó það hafi kostað tugmilljóna mannslíf á sínum tíma að bægja því frá. Enn eru viðlíka ógnir á sveimi og um stöðuna mætti því kveða eftirfarandi stef:
Einhver fer eldi um heiminn,
öskrar þar hátt sem ljón !
Einhver á andasveiminn,
ólmur vill skapa tjón !
Einhver vill alla svíkja,
eiga sér hæstan sess !
Einhver vill ráða og ríkja,
reynandi allt til þess !
Óvinur alls sem gott er
æðir um jarðarsvið.
Veröldin öll þess vott ber,
vantar þar allan frið !
Flest er í fari illu,
finnst það á hverjum stað.
Mannfólkið vafið villu
veltist um sitt á hvað !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 29
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 598
- Frá upphafi: 365496
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 511
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)