Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2021

Botnlaust ástand !

 

Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins hefur löngum verið eldfimt og vandséð hvað getur leyst þar úr málum. Hvort sem við tölum um Ísraelsmenn eða araba eiga hvorir um sig sína öfgamenn sem blása að glóðum haturs og úlfúðar. Ættmennadeilur eru sjaldnast til fyrirmyndar og ættfaðirinn Abraham ætti bara að sjá hvernig afkomendur hans hegða sér enn þann dag í dag !

 

En hatur er ekkert nýtt fyrirbæri í okkar syndum spilltu veröld. Gyðingahatur hefur alltaf verið til og leitt af sér eina mestu ómennskulægð sem mannkynssagan þekkir. Sumir hata semíta yfir línuna og til eru þeir sem sérstaklega eru hatursfullir út í araba og múslima. Ekkert af þessu er líklegt til að bæta heiminn, enda víst ekki verið að stefna að því !

 

Og þeir sem ættu þar helst að bæta úr, eins og forustumenn öflugustu ríkja heims og ýmissa valdamikilla alþjóðastofnana, gera lítið annað en að halda endalausa fundi og rífast. ,,Heimur versnandi fer” segir gamla fólkið enn sem fyrr, og unga fólkið er svo upptekið við að skemmta sér, að það gefur sér engan tíma til að huga að versnandi framtíðarhorfum. ,,Lífið er núna !” segir það í upphafinni sjálfsdýrkunar-dagskrá sinni !

 

En tíminn líður hratt og unga fólkið í dag mun búa við það sem kemur og afleiðingarnar af þeim ákvörðunum sem nú er kannski verið að taka. Þegar þar að kemur verður ábyrgð ekki vísað annað en til þeirra !

 

Þá mun líka vera að vaxa upp ný kynslóð ungs fólks sem skeytir lítið sem ekkert um varnaðarorð foreldra sinna, sem ef til vill hafa loksins lært eitthvað, og sagan endurtekur sig svo í enn verri mæli en áður !

 

Sumir sem eru hatursfullir út í Ísraelsmenn og gyðinga almennt, tala mikið um það, að þeir ættu öllum fremur að hafa lært þá lexíu að forðast ofbeldi ? En hver hefur gert það, og af hverju ættu gyðingar að bregðast þar við öfugt við alla aðra ? Ofbeldi fæðir af sér ofbeldi – hjá öllum !

 

Fjölskyldudeilur eru oft hatrammar og rætur Ismaels og Ísaks munu víst seint vaxa saman. Þær eru ekki af sama meiði þó ættfaðirinn sé sá sami. Andleg samleið er þar ekki til og auk þess á blóð Söru og Hagar enga samleið heldur. Þarna glíma andstæðir pólar og hafa gert frá upphafi !

 

Menn um heim allan taka afstöðu til vandamálanna fyrir botni Miðjarðarhafsins á svo margbreytilegum forsendum að það hálfa væri nóg. Ekki er hægt að segja að eðlileg dómgreind komi þar mikið við sögu. Þeir sem þar hafa viljað ganga veg friðarins að einhverju leyti hafa yfirleitt orðið fyrstu fórnarlömbin !

 

Það eru raunar engar forsendur fyrir lausn þessara mála meðan heimurinn er eins og hann er !

 


Leikur að orðum – um alþýðu og elítu !

 

 

 

Eins og jafnan hefur verið, virðist alltaf tilhneiging til þess hjá sumum að hafa goggunarröð á öllu. Þá eru sett forskeyti á orð sem eiga að lýsa stöðu manna, svona til að undirstrika að um sé að ræða annan flokk og líklega þá óæðri á einhverja vísu. Alltaf virðist þá liggja að baki óhamin umhyggja fyrir eigin sjálfi !

 

Nú er kveðskapur ákveðin íþrótt meðal þjóðarinnar sem margir stunda. En af einhverjum ástæðum er þar um einhverja skiptingu að ræða, það er talað um alþýðukveðskap og svo eitthvað annað, líklega menntamanna-yrkingar, sem á þá sennilega að vera eitthvað miklu merkilegra fyrirbæri !

 

Það er svo sem allt í lagi að einhverjir menntamenn vilji aðgreina sig frá þjóðinni með sinn kveðskap, en þá er líka hið eðlilegasta mál að hann heiti eitthvað afmarkað líka, til dæmis menntamanna-skáldskapur sem fyrr segir eða bara elítuskáldskapur !

 

Hvernig var það annars með Bólu-Hjálmar ? Var hann alþýðuskáld eða þjóðskáld ? Og hvað um Pál Ólafsson, hvernig ber að skilgreina hann ? Og fleiri mætti sosum nefna sem virðast vera læstir þarna í einhverskonar millistöðu. En er ekki nóg að segja bara að umræddir menn hafi verið skáld ?

 

Eigum við kannski að fara að yfirfæra umrædda aðgreiningu á aðrar íþróttir og tala um alþýðugolf, alþýðufótbolta, alþýðuhandbolta, alþýðusund, alþýðuglímu og frjálsar alþýðu-íþróttir !

 

Og svo í framhaldi mætti tilgreina einhverjar uppskrúfaðar æðra stigs íþróttir með tilheyrandi pomp og pragt ? Ég held þó að slík viðtenging á málfræðivísu yrði ekki sérlega vinsæl í daglegu máli eða muni falla í kramið hjá þjóðinni !

 

En hvað kemur þjóðinni annars málið við ? Sú skipting sem hér er gerð að umtalsefni er ekki gerð að tilhlutan þjóðarinnar. Það er sjálfskipuð elíta sem býr slíka aðgreiningu til, væntanlega til þess eins að auka eigið ágæti. Önnur leið til þess er nefnilega ekki til og verður aldrei til !

 

Þegar menn ganga um kirkjugarða, geta þeir séð að aðgreining er þar líka viðhöfð. Þeir legsteinar sem rísa þar hæst eru yfirleitt á grafreitum peningafursta og annarra slíkra goggunarraða-greifa, stundum stærðar björg !

 

Ég held að nógu erfitt muni slíkir eiga varðandi upprisuna, þó þeir séu ekki jafnframt pressaðir niður með grjóti í tonnatali !

 

 


Skagastrandarbyggð eða Skagabyggðarströnd ?

 

 

Ákallið eftir hinu mikla forsjárvaldi hefur löngum viljað verða sterkt í þessum heimi. Það hafa aftur og aftur verið byggð upp öflug ríki á þeim grunni, en þau hafa öll hrunið með skelfilegum afleiðingum. Menn hafa varið þar heilu öldunum í gífurlega fórnfreka uppbyggingu í krafti drauma sinna um síðari velsæld, en það hefur alltaf endað með hruni !

 

Samþjöppun valds er ekki af því góða og verður það aldrei. En allir vilja samt fá hlutina til sín en enginn vill láta taka neitt frá sér. Staðreyndin er hinsvegar sú, að maðurinn verður að geta búið við skikkanlegt frelsi ef honum á að geta liðið vel. En sem vitað er, býr miðstýringarvald alltaf yfir frelsisskerðingum !

 

Frelsisþrá hins mannlega hjarta þarfnast þess sama á nærslóðum sem annars staðar. Súdan og Grímsnesið er enn af svipuðum toga hvað það snertir. Þannig verður það alla tíð !

 

Ef gamli Vindhælishreppurinn tekur upp á því að sameinast á ný, ætti svo sem ekki að vera erfitt að finna nafn á krógann. Þau sveitarfélög sem eru þar innan marka eru bara tvö, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagabyggð. Samkvæmt fyrirsögn þessa pistils væri líkast til auðvelt að mynda sameiginlegt nafn á getnaðinn út frá fyrri nöfnum þessara sveitarfélaga !

 

En samvinna þessara tveggja sveitarfélaga hefur lengi verið allmikil og góð og í sjálfu sér engin sérstök ástæða til að breyta því sem er. Ef menn kjósa að líta á það sem óhjákvæmilegt lokatakmark að sameina alla austursýsluna í eitt sveitarfélag og hafa alla stjórnsýslu á Blönduósi, má spyrja, af hverju ætti það að vera lokahnykkurinn á sameiningarferlinu, í leitinni að hinum sterka bakhjarli ? Vilja þeir sem þannig hugsa ekki bara fara alla leið !

 

Mætti ekki í framhaldinu sameina sýsluna og Skagafjörðinn og færa svo stjórnsýsluna fyrir allt svæðið á Sauðárkrók ? Myndu Blönduósingar ekki fagna því – eða hvað ?

 

Mætti ekki síðar víkka svigrúm hins rísandi stórveldis svo enn frekar út til austurs og færa stjórnsýsluna á Akureyri ? Skagfirðingar myndu líklega fagna því – eða hvað ?

 

Mætti svo ekki að lokum gera allt landið að einu sveitarfélagi undir nafninu Reykjavíkurhreppur og hafa stjórnsýsluna í höfuðborginni ? Akureyringar myndu trúlega fagna því – eða hvað ?

 

Svo þegar hreppsómagar hinnar takmarkalausu menningarhyggju verða kannski orðnir óþarflega margir, gæti framhaldið orðið að sveitfesta þá út í Brussel, sem hlýtur þá að vera úthugsað lokamarkmið innmúraðra sameiningarsinna !

 

Enda telja þeir hinir sömu þá vafalaust flestir, að þeir séu þar með komnir í aldingarðinn Eden og lengra verði ekki komist í velmegun. En þar var nú reyndar til staðar höggormur !!!

 

 


Hvert liggur leiðin ?

 

Eins og menn hljóta að vita er ekki hátt mat á því í dag sem er hreint. Hið mikla frelsisákall nútímans gerir það að verkum að ekkert á að vera hreint eða má vera hreint. Menn eiga að hafa fullan rétt til að skíta sig út eins og þeim þóknast. Hreinleiki er sagður merki um reynsluleysi og menn eiga að vera sjóaðir og reyndir í þessari tilveru. Annað er sagt aumingjadómur !

 

Í eina tíð voru hreinar meyjar eftirsóttar. Menn vildu eignast hreinar meyjar þegar þeir giftust. Það þótti eðlileg krafa á sínum tíma.

Og þannig virðist hafa verið gengið frá málum varðandi konur að þessu leyti, að líkamlega átti að geta legið fyrir hvort kona var hrein mey eða ekki. Meyjarhaftið sagði til um það meðan það var til staðar. Áður þótti það ljóður á konu ef hún gekk ekki hrein til brúðarsængur !

 

En af hverju voru karlmenn ekki skapaðir með einhverskonar sveinshaft ? Eða máttu þeir bara hafa það eins og þeim sýndist ? Af hverju sagði ekki neitt til um það hvort þeir væru hreinir sveinar eða ekki ? Gat ekki verið að konur vildu að verðandi menn þeirra væru líka hreinir að þessu leyti þegar út í hjónaband var komið ? Eða eru kröfur kvenna til hreinleika miklu minni en kröfur karla ?

 

Maður nokkur sagði eitt sinn, að hann vildi ekki að verðandi eiginkona hans væri eins og hálfétið epli. Það var áður en svokallaður fjölbreytileiki í kynlífsreynslu fór að þykja frelsis ávinningur til meiri þroska og aukins gildis, og allt að því allra meina bót í samskiptum kynjanna !

 

Casanóvar og Messalínur virðast á hverju strái í dag og þykir ekkert tiltökumál. En að hamingja fólks hafi aukist við allt frjálsræði nútímans í kynferðismálum er ekki þar með sagt. Eftir ótal sambönd verður fólk líklega miklu frekar sálarlega og hugarfarslega tætt. Seint verður nefnilega fjöllyndi talið næsti bær við tryggð og dyggð !

 

Það er eiginlega merkilegt á þessum tæknitímum, að fólk skuli ekki vera farið að ganga með teljara á sér varðandi bólfélaga. Svona svipað og taldir eru laxar sem fara upp laxastiga. Það hljóta að aukast líkur á því að viss ruglingur komist á afrekaskrána þegar fjöldinn er orðinn mikill ?

 

Og hver er svo eiginlega ávinningurinn af slíku líferni ? Hætt er við að það skilji sín merki eftir á sál og líkama þeirra sem þannig lifa. Það getur því enganveginn verið æskilegt og heilbrigt á lífsleiðinni að mannfólk verði einhverskonar kynferðislegar umferðarmiðstöðvar ?

 

Margir eyðileggja sig á fáum árum með því að aðhyllast svall og svínarí. Það er kallað ,, að lifa lífinu,” en æði oft endar það hinsvegar með ótímabærum dauða. Gömlu, grísku spekingarnir töluðu um það sem gott lífsmarkmið að stefna að heilbrigðri sál í hraustum líkama, en hvorugt verður lengi til staðar í lífi þeirra sem aðhyllast ofnautnir og hófleysu !

 

Þegar allt kemur til alls, virðast hin gömlu viðmið vera hollari til heilbrigðis og velfarnaðar, en hið mikla frjálsræði nútímans. Þó það veifi sínu afvegaleiðandi Laodíkeu-flaggi af miklum ákafa á heimsvísu, er það í raun og veru að fara með svo margt gott og uppbyggilegt til a……… !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband