Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023

Hin tvöföldu og siðblindu Vesturlönd !

 

 

Samkvæmt svonefndum alþjóðlegum dómstólum Vesturlanda eru bandarískir stríðsglæpamenn ekki til. Ekki heldur breskir stríðsglæpamenn eða aðrir samstarfsaðilar samtryggingarkerfis sólskinsmafíu ósakhæfra Vesturlanda. Þar af leiðandi þarf ekki að rétta yfir neinum slíkum, enda ekki stefnt að vábrestum í vinahópnum !

 

Réttlætisgyðjan hefur fyrir löngu verið gerð að gleðikonu á Vesturlöndum og seld hæstbjóðanda. Og hæstbjóðandi að blíðu hennar hafa jafnan verið Bandaríkin með öllum þeim viðbjóði sem þeim viðskiptum hafa fylgt !

 

Umræddir dómstólar hafa áreiðanlega ekki leitað með sérlega logandi ljósi um Írak, Libýu, Sýrland, Afghanistan og fleiri lönd, til að finna fórnarlömb bandarískrar heimsvaldastefnu eða nokkur dæmi þess að Bandaríkjamenn eða Bretar hafi framið stríðsglæpi. Bandaríkin eru eina ríkið í heiminum sem getur sprengt lönd aftur á steinöld án þess að gerast í nokkru sek um stríðsglæpi !

 

Tvær borgir í Japan munu lengi bera sitt vitni gegn ómennskum glæpum bandarískra stjórnvalda en þar fórust ófá börn í ógnareldi kjarnorkunnar þó jafnan hafi gleymst að telja þau með. En slíku er ekki gleymt í öðrum stríðsátökum. En eins og löngum fyrr, liggur fyrir að svonefnt alþjóðasamfélag þjónar undir bandarískar forskriftir og Bandaríkin eru aldrei sek um neitt !

 

Í fyrrum Júgóslavíu komust þessir fyrrgreindu dómstólar að því að Serbar hefðu framið stríðsglæpi, en Króatar, Múslímar og Albanir ekki neina. Milosevic var dæmdur stríðs-glæpamaður, en Franjo Tudjman og Alija Isetbegovic voru hvítþvegnir. Allir munu þessir menn samt hafa verið sekir um það sama, en þeir sem játuðust undir forræði Vesturlanda, voru auðvitað hreinsaðir með öllu og fengu nánast geislabaug yfir kollinn sem tákn um hreinleika sinn !

 

Þessir svokölluðu dómstólar Vesturlanda eru auðvitað bara ómerkileg pólitísk tæki til að virka á almenningsálitið í heiminum, og afvegaleiða það með stuðningi ótaldra vestrænna fréttastofa. Sem slíkir eru þeir því, að mati fjölmargra, svívirðing allrar meðferðar á réttlæti og verða það líklega hér eftir sem hingað til. Manni verður óglatt að hugsa til tvöfeldninnar og hræsninnar í öllu þeirra framferði !

 

Það er enginn heimshluti á okkar dögum ábyrgari fyrir verri glæpum en Vesturlönd með alla sína hryllilegu nýlendu-kúgunarsögu allt fram á þennan dag. Jafnvel smærri lönd í því blóðistokkna mengi, voru og eru engu betri. Nýlendutíminn hrópar enn gegn Hollandi, Belgíu og Portúgal. Þar hefur engin réttlætislausn fengist enn og þar er öllu hleypt bak við þagnarlás !

 

Eftir síðari heimsstyrjöldina, og einkum eftir upphafskeyrslu kalda stríðsins af hálfu Trumanstjórnarinnar, gengu bandarísk yfirvöld í hinu hersetna Þýskalandi, hart fram í því að sleppa þýskum stríðsglæpamönnum úr fangelsum og milda á allan hátt refsidóma þeirra. Með þeim hætti var mörgum nazista-óþverranum bjargað frá réttmætri hegningu. Allir voru sagðir betri en kommúnistar !

 

Ferill John J. McCloy, yfirumsjónarmanns í Þýskalandi af hálfu Bandaríkjanna í þeim efnum, er vægast sagt óhugnanlegur. Sá maður var síðan ráðgjafi allra forseta Bandaríkjanna allt fram undir 1980. Og menn geta rétt ímyndað sér hvernig ráðgjöf þessa manns hefur verið, eftir ferli hans að dæma. Ég hef fyrr skrifað pistil um þann mann undir forskriftinni ,, Á ég að sýna ykkur mann ?" Verður þó seint fullkannað það foraðsdýpi sem ævi hans bjó yfir !

 

Enginn heilbrigður maður á Vesturlöndum getur tekið mark á svona dómstólum sem hér um ræðir, eða þrælpólitískum sýndar-réttarhöldum þar sem lygin er í hásæti og sannleikanum úthýst og bókstaflegu öllu réttlæti snúið á hvolf. Hlutverk þeirra er í raun andheiti alls þess sem það er sagt vera !

 

Glæpir Vesturlanda undir forustu nýlendu-veldanna og Banda-ríkjanna eru slíkir, að maður telur að þeim megi aldrei gleyma né afsaka þá á nokkurn hátt. Hverskyns stríðsglæpadómstólar á vegum valdhafa sem ganga í spor Hitlers og gera svart að hvítu, geta því aldrei orðið trúverðugir sem slíkir !

 


Hugsað til sænsku hrollvekjunnar !

 

Margir hafa undrað sig á því að Svíþjóð skuli vera að sækja um aðild að Nató. Og það er vissulega athyglisverð staðreynd. Ekki þarf að undrast mikið með Finnland í því sambandi því fortíð mála þar segir sitt og verður ekki rædd hér að sinni. En Svíar hafa með hlutleysisstefnu sinni búið við frið frá 1815 og hefðu flestir talið að sú stefna hafi sannað sig til góðs fyrir land og þjóð !

 

Sú stefna hefði líka að öllum líkindum sannað sig á sama veg áfram, við óbreyttar aðstæður. En nú eru aðstæður Svía hinsvegar allt aðrar og verri en þær voru þegar ein þjóð bjó í landinu. Og það er alfarið sök sænskra stjórnvalda eftir 1970 og áfram frá þeim tíma. Sjaldan hefur verið verr farið með tiltölulega góðan þjóðararf og sýnir það að hver þjóð þarf vel að gæta að sínu !

 

Innflytjendapólitík Svía hefur verið kolröng allan þennan tíma og nú er svo komið að sænsk yfirvöld óttast að Svíar séu að missa land sitt í óskapnað þess glundroða sem fjölmenn-ingarstefnan hefur skapað í Svíþjóð. En ráðamenn eru ekki þeir menn að viðurkenna þá staðreynd og reyna enn að fela þá stöðu sem mest !

 

Staðreyndin er nefnilega sú að öllum líkindum, að Svíar eru að leita ásjár Nató vegna innanlands-ástandsins í landinu en ekki vegna utanríkismála. Sænsk stjórnvöld treysta sér ekki lengur til að hemja herská og óþjóðleg innflytjendaöflin ein og sér !

 

Þar hafa þau skitið svo á sig upp á bak og lengra, að þau eru orðin alvarlega skelkuð og mega líka vera það. Sofandaháttur þeirra gagnvart þjóðaröryggi og þjóðarheill er vítaverður og hefur kostað ófá mannslífin til þessa og gera það vafalaust áfram !

 

Sú var tíðin að Svíþjóð var friðsamt land og borgaralegt öryggi talið þar tryggt. En nú eru ofbeldisverk, morð og manndráp að verða daglegt brauð í gömlu jafnaðarmanna-paradísinni og stjórnmálaleg yfirvöld ráða þar varla við neitt og lögreglan, að því er virðist, enn síður !

 

Það lifa þannig allflestir hræddir í Svíþjóð nútímans og öryggið sem var þar svo mikilsvirði í eina tíð er horfið. Þannig hefur sænska þjóðin verið leikin af eigin forsjárliði sem hefur eiginlega verið eins og samansöfnuð glópasveit ofmenntunar í fulla hálfa öld. Staða mála í Svíþjóð er þannig orðin að æpandi viðvörun fyrir allar þjóðir Evrópu !

 

Hin sósíaldemókratísku stjórnvöld í Svíþjóð fylgdu lengi vel rétttrúnaðar-viðhorfum jafnaðarmennskunnar og virtust ekki skilja að innfæddir sænskir ríkisborgarar og innfluttur uppreisnarlýður víðsvegar að frá öðrum löndum ættu í raun fá gildi sameiginleg !

 

Í glórulausu tæknikrata andrúmslofti ríkisheimilis Svía var því innflutningur uppreisnareðlis og ofbeldishneigðar stundaður af kappi og allt við þann innflutning átti að styrkja sænska velferðarsamfélagið samkvæmt innmúruðum trúarsetningum krata !

 

En draumurinn gekk auðvitað ekki upp. Hann breyttist í vaxandi martröð og nú er svo komið að Svíþjóð er komin ofarlega á blað í Evrópu með tíðni morða og allskyns ofbeldisverka. Sænsk stjórnvöld hafa fengið uppskeru sem er nákvæmlega eins og sáð var fyrir. Margir telja að sú uppskera sé það sem þeir eiga skilið !

 

Og nú leita Svíar verndar hjá Nató. Þeir vita að þeir eru nálægt því að missa land sitt í ræningjahendur. Og fyrir hina fyrrum friðelskandi og hlutlausu þjóð, er nú ráð tvístígandi og óttasleginna stjórnvalda að leita hælis hjá hernaðarbandalagi, samsteypu sem byggir tilvist sína á viðvarandi styrjaldarhættu og nærist á neyðarástandi meðal þjóða !

 

Nató telur sig nú fá einhverskonar tilvistarsönnun um eigið ágæti í gegnum þessa örvæntingarfullu umsókn Svíþjóðar um aðild að bandalaginu. Það á að ganga í hernaðarklúbbinn í Brussel. Það á að vera lausnin. Svíar geta sem sagt ekki leyst sjálfsköpuð vandamál sín lengur og hafa loksins gefið sjálfum sér falleinkunn !

 

Lengi hafa þeir barist gegn rökum skynseminnar en nú geta þeir það ekki lengur. Það eru að verða til fullar forsendur fyrir borgarastyrjöld í landinu og þeir ætla Nató það verkefni að leysa sænsku þjóðina, þegar þar að kemur, frá innfluttum hermdarverka-mafíum sem hafa sent allan frið í landinu út í hafsauga !

 

Svíar hafa ekki staðið í stríði í 208 ár og það er vissulega merkilegur ávinningur einnar þjóðar í hinni blóðugri sögu Evrópu. Líklega bara met í álfunni. En það eru engar líkur á því að þeir sem aðilar að Nató verði utan stríðs hér eftir !

 

Það fá þeir að launum fyrir að hafa í heimsku sinni stundað langtíma innflutning á ófriðaröflum og sundrað hinu friðsamlega sænska þjóðfélagi og gert það að sannkölluðum vígvelli fyrir erlendan óþjóðalýð og ofsatrúarhópa !

 

Örlög Svíþjóðar sýna skelfilega uppskeru fjölmenningar-stefnunnar í þeirri þjóðlegu uppgjöf sem birtist í niðurstöðu mála í dag. Hinir fyrrum friðelskandi Svíar eiga nú að umvefja hernaðar-bandalagið Nató sem frelsara fyrir samfélag sem hefur glatað þjóðlegri einingu sinni og velferðarstöðu fyrir eigin heimsku !

 

Mikið er gildisfall Svía varðandi þessa vanþróun málanna og í augum umheimsins hafa þeir glatað þjóðlegum trúverðugleika sínum að miklu leyti. Það er nú ljóst og opinberað mál á heimsvísu, að þeir hafa sokkið svo djúpt í sjálfsköpuð vandræði sín, að nú eiga þeir ekki val um neitt nema öskuna eða eldinn !

 

 

 


VG - Söfnunarbaukur óvinsældanna !

 

Núverandi ríkisstjórn Íslands er þriggja flokka stjórn. Hún er undir forsæti minnsta flokksins og ekki að ástæðulausu. Svo virðist stundum vera að Vinstri græn hafi verið miskunnarlaust notuð af samstarfsflokkum sínum í stjórninni sem einskonar högghlíf og það jafnvel af miklum klókindum. Það þarf ekki mikla yfirsýn til að átta sig á því, en illur félagsskapur eyðileggur margt !

 

VG sem íhaldshækja hefur hlotið mest ámæli flokkanna fyrir stjórnarþátttökuna, enda er flokkurinn nokkuð almennt talinn hafa svikið þar nánast allt sem hann hefði átt að standa fyrir og verja. Þessa stöðu mála virðast samstarfsflokkarnir hafa kunnað að nýta sér vel og VG yfirklíkan verið nógu græn til að láta nota sig þannig, enda prímadonnusólskin yfir söfnuðinum og glóran í lokaðri geymslu á meðan !

 

Katrín Jakobsdóttir er líklega einn allra lélegasti flokks-formaður sem stjórnmálasaga Íslands greinir frá. Hún hefur aldrei haft mikið til brunns að bera í þá stöðu. Hún virðist í öllu vera sjálfhverfur sólóleikari og athyglissjúk í meira lagi. Það hefur haft sínar afleiðingar. Á formannsferli sínum er hún komin langleiðina með að eyðileggja VG og það svo afgerandi, að flestir eru farnir að líta á það sem komandi landhreinsun að flokkurinn lognist út af !

 

Ekkert foringjaefni hefur getað vaxið upp í flokknum, enda engin skilyrði til þess við umræddar aðstæður. Nánast má telja víst að VG tapi 3-4 þingmönnum við næstu kosningar og mikil spurning mun vera hvort framboðið lafi inni á þingi. Sá dómur er löngu fyrirséður, enda er Katrín enginn foringi sem fyrr segir og kann ekki að halda liði saman. Og þvílíkt hörmungarlið sem þetta er orðið frá því sem var. Það er ekkert eftir nema einhverjar aumkvunarverðar leifar af fyrrum sæmilega bitastæðum flokki !

 

Íhaldið og Framsóknarfylgja þess eru komin langt á veg með það sameiginlega í ríkisstjórnar-samstarfinu, líklega bæði meðvitað og ómeðvitað, að gera VG ábyrg fyrir flestum skakkaföllum sem þar hafa orðið og þau eru mörg. Sú niðurstaða þarf ekki að koma neinum á óvart sem hefur fylgst með málum. VG hefur bara verið í því að láta aðra nota sig, innanlands sem utanlands !

 

VG fyrirbærið er því sýnilega, að mati samstarfsflokkanna, einkum og sér í lagi nothæft í það hlutverk að vera söfnunarbaukur óvinsældanna í þessari afleitu ríkisstjórn sem ekkert gerir eða virðist geta gert af viti og flokksnefnan á þá meðferð fyllilega skilið. VG forustan á sannarlega hvergi neina samúðar inneign !

 

Prímadonnan sjálf kemur heldur ekki fyrir sem vinstri græn lengur. Hún er orðin Nató blá og það líklega í gegn. Hún virðist orðin að konunni í Hvanndalabjörgum í pólitískri sögu þessa lands. Komin í tröllahendur. Enginn veit lengur hvert hún stefnir og líklega síst af öllu hún sjálf !

 

Sumum er stundum lyft hátt þó þeir hafi litla sem enga burði til að standa sig. Katrín Jakobsdóttir er þegar talin sígilt dæmi um slíkt. Oft er í slíkum tilfellum bara um gráglettni örlaganna að ræða og oftast er þá skammt í syndafallið !

 

Það eru heldur engar líkur á því að Katrín Jakobsdóttir nái einhverjum vinsældum aftur, enda er hún að margra mati orðin hrokafull og merkileg með sig og upphefð síðustu ára hefur greinilega stigið henni til höfuðs !

 

Manneskjan hefur lengi verið ofmetin að flestu leyti og það ranga mat er farið að hefna sín illilega. Það er einfaldlega flestum að verða ljóst, að þar sem lítil inneign hæfnisgetu er til staðar verður ekki mikið tekið út !

 

Það verður engin eftirsjá að Katrínu Jakobsdóttur þegar hún missir prímadonnu-hlutverkið, sem pólitískir andstæðingar hennar og útvaldir samstarfs-aðilar hafa nú þegar gert henni að sannkallaðri hengingaról. Fyrri orðstír er þegar að engu orðinn og líklega hefur hann orðið eftir í Kiyv hér á dögunum eftir faðmlagið alræmda !

 

Það mun líka þjóðlega séð vera fyrir bestu, þegar hin fallna stjarna fer út af sviðinu, að hún taki með sér flokksræfilinn sinn á niðurleiðinni. Hvorki hún eða hann eiga neina pólitíska framtíð eftir. Þar hefur öllu verið rústað til fulls !

 

Varla hefur nokkur íslenskur stjórnmálaflokkur farið verr með pund sitt um langt skeið í þjóðarsögunni en VG, söfnunar-baukur óvinsældanna, hin heillum horfna Kötuklíka !

 

 

 


Nokkur orð um svikna og herleidda þjóð !


 

Við Íslendingar höfum verið flæktir í tvennt sem hvorttveggja er andstyggð fyrir þjóð sem vill teljast frjáls og sjálfstæð. Og í báðum tilvikum varð það fyrir óþjóðleg þjónustubrögð íslenskra ráðamanna sem vildu hlýða keisaralegum boðskap að utan og tóku stórpólitískar ákvarðanir framhjá þjóðinni í báðum tilfellum !


Annað tilfellið var herleiðingin inn í Nató, sem aldrei skyldi verið hafa, og hitt var samþykkt EES samningsins sem var líka hræðilegt þjóðréttarlegt slys. Í fyrra tilfellinu lagðist ríkisstjórn Íslands í heilu lagi undir Bandaríkin og í seinna tilfellinu með sama hætti undir Evrópusambandið !


Í báðum tilfellum urðu stjórnvöld hér íslenskum anda og íslensku mannfrelsi til verulegrar skammar. Hvernig við losnum svo frá þessum mjög svo íþyngjandi frelsishöftum er ekki gott að segja meðan þjóðin virðist niðurnjörvuð í einhvern andlegan doða og einskis virðist vera að vænta af ríkisstjórn og þjóðþingi !


Hlutleysisstefnan frá fullveldis-sigrinum 1918 var svikin og við urðum fyrsta herlausa þjóðin í heiminum til að verða meðlimur hernaðarklúbbs sem byggir tilvist sína á stríðshættu og ófriði milli þjóða. Eftir það er ekki mikið eftir sem undirstaða þjóðarstolts !


Því ætti friðsöm örþjóð sem á allt sitt undir friði að vera að gera sig breiða í samskiptum ófriðarafla ? Af hverju þarf inngróin minnimáttarkennd okkar alltaf að skrúfa sig upp í stórmennsku-brjálæði ? Af hverju eru tvær stelpur frá Íslandi sendar á vettvang stríðsátaka eins og það felist eitthvað stórmikið gagn í slíku ? Getur einhver viti borin manneskja skilið það ?


Af hverju er sýndarmennska orðin okkar helsta útflutningsvara ? Af hverju er hégómi alls hégóma látinn sitja í gyllingarhásæti í höfuðborg Íslands í óþökk alls þess sem getur orðið landi og þjóð til framdráttar með heilbrigðum hætti ? Af hverju er þjóðþingið eins og það er og ríkisstjórnin eins og hún er ? Er hægt að finna þar eitthvað sem við getum talið okkur til gildis sem sjálfstæð og virðingarverð þjóð ? Ekki get ég fundið það !


Af hverju erum við Íslendingar, um 300.000 hræður, að blanda okkur í stríðsátök tugmilljóna þjóða og eyða stórfé í það ? Og það fjármagni sem við höfum fulla þörf fyrir hér heima, til að hlynna að okkar eigin fólki. Hvernig geta ráðamenn hegðað sér svona ?


Það vita það allir á Íslandi, nema líklega ríkisstjórnin og þingið, að hér eiga margir bágt í allri hinni stórauglýstu velferð. Það er blóðug skömm fyrir íslensk yfirvöld að bregðast aftur og aftur íslenskum þjóðarþegnum fyrir útlend hlaupadýr !


En það þykir líklega minni stíll yfir því að hjálpa okkar eigin landsfólki en útlendingum og það fær svo þar að auki enga umfjöllun á alþjóðavísu. Hinar háttsettu sálgæsludömur verða líklega seint heimsfrægar fyrir að sinna þjóðlegum nærskyldum sínum á Íslandi !


Oft hefur því miður setið léleg ríkisstjórn á Íslandi, en ég er farinn að komast á þá skoðun að ríkisstjórnin sem nú situr að völdum sé sú lélegasta sem við höfum haft allar götur frá 1918 og enn versnar hún með degi hverjum !

 

Það er líka sannfæring mín, að enginn ráðherra þessarar stjórnar hafi aukið við gildi sitt með því að sitja þar sem slíkur og þaðan af síður aukið við þjóðlega reisn !


Við getum ekki búið áfram við það verðleikafall sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir í þjóðlífinu með sívaxandi getuleysi sínu og takmarkalausum undirlægjuhætti sínum gagnvart erlendum áhrifavöldum. Það eru tuskur einar í stjórnarstólum hér !


Það á ekki að vera hlutverk íslenskra yfirvalda að draga niður allt sem gott er, íslenskt og þjóðlegt. Það er komið nóg af slíku. Burt með þessa óhæfu ríkisstjórn og það sem fyrst !

 


Sálgæsla fyrir Selenski !!!

 

Íslenska Nató-apparatið hér, sem kallar sig ríkisstjórn landsins eftir síðustu kosningar, sem hefðu reyndar átt að dæmast ógildar, er önnum kafið við að senda ráðherra sína til Kiyv til sálgæslustarfa innan núverandi ríkisstjórnar Úkraínu, sem er þó af mörgum talin með óhreint umboð þjóðarinnar til sinna starfa !


Selenskistjórnin segist vera að berjast fyrir lýðræðinu í landinu jafnhliða því sem hún hefur afnumið svo til öll lýðræðisleg mannréttindi í Úkraínu, en hið háheilaga lýðræðisvestur sér ekkert athugavert við það fremur en fyrri daginn !

 

Ef lýðræði þjónar ekki markmiðum valdhafa á vesturslóðum er lýðræðinu bara kastað á haugana, enda hefur aldrei farið vel um það í faðmi últra-kapítalisma, frjálshyggju og fasisma, en allt þetta merkir Vesturlönd nútímans öðru fremur !

 

En þær stöllurnar Kata Kobba og Dísa Kolla eru nú sem sagt í einhverskonar norrænni þróunaraðstoðarferð sem felst í því að uppörva og hressa kollegana í Úkraínu og herða andspyrnuaflið gegn stóra, ljóta bangsa í austri. Að sjálfsögðu er þessi líknarferð þeirra farin á kostnað íslenskra skattborgara, enda stendur einhversstaðar ,,mikill er andskotinn“ og líklega margt til í því !

 

Mikil leynd hvílir yfir þessari örlagaferð, til að tryggja öryggi íslensku ráðherranna, enda gífurlega mikið í húfi fyrir heimsfriðinn að þeir komist til að inna af höndum sín líknarstörf. Hefði líklega verið hættuminna að geta sinnt þeim störfum á öruggari slóðum annarsstaðar, til dæmis í einhverri villu í Florida !

 

En það er mikill ábyrgðarhluti af ráðherrum í ríkisstjórn Íslands að taka að sér sálgæslu-hlutverk fyrir erlenda leiðtoga, með öllum þeim tilkostnaði sem slíkri þjónustu fylgir. Að vísu er þetta gert samkvæmt helgustu kærleiksboðum Nató, en íslenska þjóðar-buddan á víst að borga þetta og mörgum veitist erfitt að sjá rökin fyrir því. En rakalaus uppátæki ráðamanna hérlendis, eftir erlendum forskriftum, eru hinsvegar vægast sagt býsna algeng. Það hefur löngum verið ógæfa Íslendinga !

 

Miklu betra hefði verið ef þær sálgæslu-dömurnar hefðu farið út til að hressa upp á Jens Stoltenberg, sem vafalaust er að sligast undir þeirri ábyrgð sem hann ber sem Atlas heimsfriðarins. Maðurinn er þó frændi okkar í þrítugasta lið eða þar um bil, og blóð er sagt þykkara en vatn. Í hugum margra hægrisinnaðra Íslendinga eru Noregur og Nató líka það sama og það er víst ekki langt frá sanni !

 

Nú biður maður helst um það að friður haldist í veröldinni, því ef til ófriðar kemur, einhvers-staðar á jarðarkringlunni, er nánast orðið víst, í ljósi atburðarásar síðustu ára, - að Ísland verður þar í einhverju aðalhlutverkinu, rétt eins og önnur stórveldi heimsins – auðvitað með tilheyrandi kostnaði !

 


Um samfélagsstöðu sem stefnt er í glötun !

 


Margir svonefndir framámenn í íslensku þjóðfélagi virðast vera með þeim ósköpum gerðir að samfélaginu væri hrein blessun af því ef hægt væri að senda þá til Fjarskanistan með ákveðnum fyrirmælum um að þeir yrðu þar til frambúðar og kæmu ekki aftur. Hér væru þeir ekki til nokkurs gagns og gerðu bara illt af sér eins og löngum fyrr !

 

Sumir af þessum mönnum sýndu það, að margra mati, fyrir hrunið og í gegnum þá miklu ránsöldu og glæpahríð sem þá átti sér stað, að innræti þeirra var rotið og þjóðhollusta þeirra minni en ekki neitt. Samt þykjast þeir góðir þegnar lands og þjóðar meðan þeir svíkja og pretta allt samfélagið upp á hvern einasta dag, eftir þeirri forskrift sem býr þeim í öllu eðli !

 

Sumir þeirra tóku upp á því að rita bækur eftir hrunið til að verjast ásökunum og héldu að með því yrði allt slétt og hreint varðandi feril þeirra. En almenningur í þessu landi er ekki heimskur og veit sínu viti. Blekkingartilraunir af umræddu tagi hafa því misst marks og aðeins aukið á ógeð fólks á þessum sérgæskufullu og fullkomlega samfélagsvilltu siðleysingjum !

 

Þannig hafa hvítþvottarbækur auðsjúkra brotamanna, eins og þeirra sem hér er vísað til, haft þveröfug áhrif meðal landsmanna og eru miklu frekar skoðaðar sem gildisbær sönnun fyrir óheilindum viðkomandi vandræðamanna og mun sú skilgreining líklega næst sanni. Almenningur veit hvaða menn þetta eru og hefur skömm á þeim !

 

Nú er farið að tala um eina þjóðarsátt enn til að sigrast á verðbólgunni. Og hverjir eru það sem tala fyrir slíku ? Hrunverjar og viðlíka blóðsugur gagnvart almannaheill. Á máli slíkra manna þýðir þjóðarsátt að öllu er velt yfir á alþýðu manna. Þjóðarsátt er argasta lygi og versta ónefni yfir það sem topp-prósentin tíu og talsmenn þeirra meina þegar þau tala fyrir slíkum gjörningi !

 

Þjóðarsátt er sú leið sem toppklíkumenn vilja fara þegar efnahagsstjórn þeirra er komin í óefni eins og hún gerir jafnan eftir allt bruðlið sem þeir heimila blóðsugu-aðlinum í þessu landi. Með blóðsuguaðli er átt við fólkið sem löngu er hætt að vera íslenskt og svívirðir stöðugt eigið þjóðerni, sögu okkar og arf með óþjóðlegum sleikjuhætti við erlent arðránspakk og hernaðarhyski !

 

Þegar lægst launaða fólk landsins verður að neyðast til að fara í verkfall vegna þess að það nær ekki lengur endum saman, segir kapítalistapáfi landsins að rétt sé að hækka stýrivexti til að örva fjármagnsinnlögn í óþjóðleg bankamusterin !

 

Fyrir hverja er það gert ? Fyrir láglaunafólkið sem nær ekki endum saman til að lifa ? Hvað á það að leggja inn í bankaskrímslin, fólk sem á ekki neitt ? Nei, peningapáfinn er að gera þetta fyrir fjármagnsöflin sem hann þjónar auðvitað ljóst og leynt. Stýrivaxtadansinn er stiginn í kringum þann Mammonskálf ómennskunnar sem þar er dýrkaður hömlulaust nú sem forðum. Þar er ekkert hugsað til almannaheilla !

 

Það hafa lengi verið tvær þjóðir í þessu landi, en nú eru þær orðnar þrjár : Dansk-bresk-bandaríska fylgishjörðin sem er svo óþjóðleg að hún getur ekki lengur kallast íslensk, íslenskur almenningur, arðrændur og svikinn alla daga, sem er í raun sjálf íslenska þjóðin, og svo innflytjendur sem taka völdin hér eftir þrjátíu ár með sama áframhaldi, enda allt til þess gert að svo verði !

 

Þjóðleg auðlegð og velmegun íslensku þjóðarinnar, áunnin með óskaplegu erfiði íslensks verkafólks á liðnum áratugum, streymir sem fyrr út úr landinu í hin ýmsu skjól, hundruðir milljóna leggjast inn hjá Nató og annað eins fer til gjörspilltra ráðamanna austur í álfu. En á meðan eykst fátækt og allsleysi fólks í landinu og illskeytt stjórnvöld og andfélagslegt ríkiskerfi vilja ekkert af því vita og ekkert við því gera !

 

Og á sama tíma og allt er gert hér með svo öfugum hætti, tala menn, sem hafa lengi verið innstu koppar í búri Nató af Íslands hálfu, um að stofna hér íslenskan her ! Líklega á þá að byggja stofnun þeirrar vitleysu á enn einni ,,þjóðarsáttinni“ og láta almenning borga brúsann. Það er venja yfirstéttarinnar í landinu !

 

Og eins og löngum fyrr hefur sú hugmynd alltaf búið að baki stofnunar herafla, að hægt verði að beita honum gegn eigin þjóð ef hún fer að vera með einhvern derring gagnvart hinum útvöldu og heimta réttindi sem aldrei hafa verið hugsuð af elítunni til afnota fyrir venjulegt fólk !

 

Við sem heyrum til íslenskri þjóð og erum íslensk og viljum vera íslensk, búum við viðvarandi hrunsástand vegna óþjóðlegra afla sem standa fyrir óþjóðlegri stefnu. Í því svikaspili má finna verðbólguvaldana og hin algerlega óbetrunarhæfu topp-kvikindi. Að óbreyttu endar það ferli með algerri glötun þess sem áunnist hefur í þessu landi, með allri þeirri baráttu sem þar hefur búið að baki, og það má aldrei verða !

 

 

 


Eiga þeir sem eru nánast á förum að ráða örlögum heimsins ?

 

Ýmislegt gæti bent til þess að næstu forsetakosningarnar í Bandaríkjunum verði á milli tveggja gamalmenna. Það vekur upp þá spurningu hvort menn um áttrætt séu réttu mennirnir til að ákvarða hvort miklu yngra fólk megi eiga sér framtíð ?


Eiga menn sem hljóta að vera farnir að tapa töluverðu af fyrra atgervi sínu aldurs vegna, að taka ákvarðanir um líf og framtíð meginhluta mannkynsins ? Vilja menn eiga líf sitt undir þeim ?

Eiga menn sem eiga líklega örfá ár eftir hérna megin, menn sem eru orðnir gamalmenni, að axla ábyrgðarmestu embætti veraldar ?


Vitað er að Ronald Reagan var nánast óstarfhæfur seinna kjörtímabil sitt vegna ellihrumleika og Boris Jeltsin í Rússlandi var enganveginn maður til að gegna sínu embætti sem forseti Rússlands seinna kjörtímabil sitt !


Auk afar lélegs heilsufars var Jeltsin oft svo drukkinn að menn voru iðulega í vandræðum með hann, jafnvel í opinberum heimsóknum til annarra landa. Eru víst margar fáránlegar sögur til um það. En klíkurnar sem standa að baki heilsulausum og óhæfum mönnum reyna að halda þeim við völd lengur en nokkur skynsemi mælir með því og gera stundum hvað sem er til þess ?


Og það liggur í augum uppi vegna hvers það er gert. Til þess að slíkar valdaklíkur geti haldið strengjabrúðum sínum við og framlengt völd sín. Af hverju voru læknar sendir frá Vesturlöndum til að skinna Jeltsin upp fyrir seinna kjörtímabilið þó augljóst væri að hann var að verða lítið annað en lifandi lík ? Svari því hver fyrir sig ? Það var nú meiri skollaleikurinn í kringum það mál !

 

Ekki var heldur mikið líf í Konstantín Chernenko í Sovét-ríkjunum, sem var látinn taka við af Yuri Andropov þegar hann dó heilsulaus maður. Chernenko var Úkraínu-maður, eins og svo margir af sovét-leiðtogunum, og hann var rétt aðeins ódauður þegar hann tók við. Það er hörmung að horfa upp á slíkar múmíur í valdastólum !


Þessi veruleikafirrta gamalmennapólitík er að minni hyggju bein aðför að heilbrigðri framtíðarsýn og hleður stöðugt vitleysu ofan á vitleysu. Og nú er Biden við völd í Washington og virðist ekkert vita hvað hann gerir við leyndarskjöl ríkisins á ráfi sínu um hús og hallir. Þau liggja um allt eins og Andrés andar blöð hjá krökkum !


Hvaða kröfur skyldu annars vera gerðar til þess að æðstu valdamenn ríkja séu heilir til höfuðsins og sæmilegir til heilsunnar og ekki einhverjir sem ættu þess í stað að vera á elliheimilum – sem verulega vankaðir vistmenn ?


Þær eru engar og því sitja margar þjóðir uppi með nánast heiladauða og illa heilsuskerta menn sem yfirlýsta leiðtoga, oftast líklega vegna einhverra loginna gyllinga frá liðnum tíma. Þeir eru þannig kosnir áfram á forsendum sem löngu eru gengnar úr gildi og orðnar blekkingin ein og þeir aðeins skugginn af fyrri gerð !


Leiðtogaleysi er þannig orðið stórt vandamál í heiminum í dag. Ástæðan er ekki síst sú að algjör minnihluti svokallaðra þjóðar-leiðtoga eru leiðtogar í raun og veru. Margir eru bara leikbrúður annarra. Og líklega er hæfa leiðtoga heldur að finna við völd í smærri ríkjum, en áhrif þeirra eru þá að sama skapi takmörkuð !


Sú óskemmtilega staðreynd sem í þessari stöðu býr, býður hættunni heim fyrir mannkynið sem má ekki eiga allt sitt undir vanhæfum, fallvöltum og fjörlausum leiðtogum, mönnum sem eru lítið meira en hálftórandi á síðasta snúningi lífs síns !


Fjöregg heimstilverunnar, framtíðar mannkynsins, líf og vonir allra, líka unga fólksins, virðist þannig að mestu leyti í höndum óhæfra og elliærra manna sem eiga lítið annað eftir en að drepast !

En spurningin er - á að leyfa þeim hinum sömu að hafa vald til þess að allir aðrir verði að drepast um leið ?

 

 


Bandaríkin eru á feigðarvegi !

 

Bandaríkin hafa ekki lengur þá yfirburðastöðu í alþjóðamálum sem þau höfðu svo lengi eftir 1945. Öll veröldin er orðin langþreytt á yfirgangi þeirra og dæmi um það eru farin að sjást um allan heim. Engu ríki ætti að leyfast að tala niður til allra annarra ríkja eins og Bandaríkin hafa gert með ofmetnaði um langt skeið !

 

Dollarinn er að missa sinn fyrri áhrifamátt og fleiri þjóðir en fyrr sjá til sólar vegna þess. Eðlileg viðskipti ættu að geta komist á þegar ofurvaldi dollarsins verður endanlega hnekkt. Yfirgengileg fjármálakúgun Bandaríkjanna gagnvart öðrum ríkjum líðst ekki öllu lengur því aðrir þurfa líka að geta andað í þessum heimi !

 

Síðasta tækifæri Bandaríkjanna til að standa rétt að málum og vinna á ný fylgi sem afgerandi forusturíki fyrir góðum gildum í veröldinni gafst eftir árásina á tvíburaturnana !

 

Fjölmargar þjóðir sýndu þá Bandaríkjunum samkennd og mikla samstöðu sem hefði getað breytt mörgu til betri vegar, en bandarísk stjórnvöld kusu að misnota þá stöðu mála frá fyrstu stund og spilltu þar öllum möguleikum sínum til virðingarauka !

 

Viðbrögð þeirra urðu svo hatursfull og hefndarrík að það fjaraði fljótt undan trausti til þeirra og víða að fullu og öllu. Öfgamenn til hægri tóku öll völd í Washington og gengu fram í sannkölluðu drápsæði. Það átti að kenna öllum að ráðast ekki á Bandaríkin !

 

Hernaðarmáttur Bandaríkjanna var síðan notaður óspart til að sprengja heilu þjóðirnar aftur á steinöld og meðan það var gert þagði fjölmiðlamafía Vesturlanda þunnu hljóði yfir öllum glæpaverkunum eins og hún er vön að gera þegar Bandaríkin eiga í hlut. En þá var samt ort á Íslandi :

 

Víða um heiminn liggja líkin,

ljót er valdapólitíkin,

böðlaklíkan fólskufíkin,

fjandinn hirði Bandaríkin !

 

En hræðilegir vitnisburðir um glæpi bandarískra stjórnvalda á undanförnum árum í Írak, Libýu, Sýrlandi, Afghanistan og víðar, verða ekki þaggaðir niður og tala sínu máli. Þeir vitnisburðir hafa sýnt og sannað umheiminum hverskonar kerfisófreskja hefur nú völdin í Washington. Þaðan er einskis góðs að vænta lengur !

 

Löngum var hér áður talað í kaldastríðstón um svokallaða góða gæja og svokallaða vonda gæja. En nú er svo komið að góðu gæjarnir eru orðnir verri en vondu gæjarnir og glæpaslóðin eftir þá liggur um allan heim. Þar er viðbjóður á viðbjóð ofan !

 

Ljóst er orðið að tilhneigingar til fasisma hafa vaxið mjög meðal sumra hægri þjóðfélagshópa í Bandaríkjunum og nægir að benda þar á árásina á þinghúsið, sem sýnir glögglega að lýðræðið í landinu stendur á miklu veikari fótum en áður var talið !

 

En ráðamenn ríkisins eru enn sem fyrr blindir á allar viðvaranir og gamalmennið í Hvíta húsinu er þægt verkfæri í höndum stríðsóðra hauka sem eru að eyðileggja orðspor Bandaríkjanna að fullu og öllu og vita ekkert hvað þeir eru að gera !

 

Sú tíð kemur kannski bráðlega að Bandaríkin verða búin að fá öll ríki upp á móti sér nema Bretland og Ísland. Þau ríki eru og verða víst áfram sauðtryggir áhangendur Washington-valdsins, með sín heilaþvegnu Nató-stjórnvöld, annað endanlega búið að vera sem það var og hitt á fullu við að eyðileggja allt sem hefur gert það sjálfstætt og sjálfbjarga !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 591
  • Frá upphafi: 365489

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 504
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband