Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2024

Litið á pólitíska stöðu mála eftir kosningarnar !

 

 

Úrslit alþingiskosninganna virðast mikil falleinkunn fyrir þá flokka sem stóðu saman að síðustu ríkisstjórn og er það í alla staði mjög skiljanlegt. Stefna Katrínar Jakobsdóttur hefur nú endanlega gert út af við Vg. Það var löngu orðið fyrirséð. Svandís Svavarsdóttir reyndi á síðustu stund að berja í brestina, en allt kom fyrir ekki. Þar varð engri tiltrú komið upp aftur. Kjósendur vildu ekki sjá flokkinn og það sannar hvernig almennt var litið á málin. Svik á aldrei að verðlauna. Það hlálega er að einum af Vg þingmönnum frá fyrri tíð, manneskju sem var þar hafnað vegna fylgisvöntunar í prófkjöri, hefur nú verið skilað inn á þing undir öðru flokksmerki !

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir lifir þar með allt Vg þingliðið og getur nú sent því öllu langt nef, ef út í það fer. En þar fyrir utan sé ég enga ástæðu til að fagna endurkomu hennar á þing, nema síður sé. Svo er heldur engin ástæða til að harma brottfall Pírata af þingi. Flokkur sem virðist fyrst og síðast vera með hugann við erlend málefni og umhyggju fyrir slíkum hlutum, þegar ótalmargt er að í okkar samfélagi sem huga þarf að og laga, er ekki að sinna þjóðlegum skyldum sínum á þjóðþinginu, að mínu mati. Ég vona því að þeir eigi enga endurkomu til þings nema þá sem stórlega betrumbætt útgáfa af sjálfum sér, með öðru og þjóðlegra hugarfari !

 

Það er í sjálfu sér gleðilegt að íhaldið skuli vera komið niður fyrir 20% að atkvæðamagni, en hinsvegar er myndin önnur og verri þegar Viðreisnaríhaldinu er bætt þar við, enda er það jafnvel öllu afleitara en gamla íhaldið, þó flest sé nú líkt með kúk og skít. Svo sýnist Miðflokkurinn á leiðinni með að verða þriðja íhaldið, þó hann sé nú ef til vill heldur þjóðlegra fyrirbæri en hin tvö !

 

Flokkur fólksins kemur vel út úr þessum kosningum, en ég hef grun um að einingin innan flokksins geti orðið brothætt, ef sú gamla eykur einræðishneigð sína og vill þar öllu ráða, en vaxandi stjórnsemi hennar kann að verða hugsjónum veg-ferðarinnar dýrkeypt um síðir. Það er alltaf varasamt og felur í sér pólitísk vandkvæði, ef formaður flokks fær of háar hugmyndir um eigið gildi og telur jafnvel kosningalegan ávinning fyrst og fremst persónulegan sigur. Inga Sæland þarf því að gæta að sér ef vel á að fara. Persónulegur skörungsskapur þarf ekki að fela í sér formannslega hæfileika !

 

Framsókn er nú orðin litli flokkurinn á þingi. Formaðurinn sjálfur er uppbótar-þingmaður. Líklegt þótti upp úr alda-mótunum að Framsókn færi bráðlega að lognast út af, en svo hresstist flokkurinn við og vann kosningasigur sem kom eiginlega flestum á óvart og líklega Framsóknarmönnum sjálfum einna mest. En síðan hefur fátt verið maddömunni meðdrægt. Formaðurinn er enginn skörungur og Framsókn hefur helst markað sig þeim stimpli að vera fylgifiskur íhaldsins. Líklegt er að áfram dofni yfir gengi flokksins, uns hann fer í sögukistu hins liðna, trúlega áður en langt um líður. En það er bara leiðin fyrir allt sem verður úrelt !

 

Ég neita því ekki að mér er nokkur forvitni á að sjá hvernig Miðflokkurinn mun spila úr þeirri stöðu sem hann virðist nú hafa á hendi. Flokkurinn er ekki enn kominn með skýrt afmarkaða stefnu og kann því að koma nokkuð á óvart með sín útspil. Þó held ég að Sigmundur formaður sé í mörgu þjóðlega hugsandi maður og fleiri eru þar í flokknum sem kannski má vænta góðs af. Íslenskir þjóðarhagsmunir eru að mínu mati líklegir til að verða metnir þar mun hærra en hjá sumum hinna flokkanna, þó maður viti aldrei til fulls hvernig menn koma til með að halda á málum. En við skulum sjá hvað setur og hverjir drýgja sitt pund best í þágu þjóðarheilla !

 

Samfylkingin er að koma nokkuð sterk út úr þessum þingkosningum, eftir nokkuð langa og stranga eyðimerkurgöngu með  Evrópusambandsdrauginn í eftirdragi. Núverandi formaður ýtti þeirri leiðu fylgju frá í bili hvað sem verður. Sennilegt er þó að farið verði fljótlega að knýja dyra hjá flokknum, með skilaboð frá Brussel. Jafnvel með milligöngu Viðreisnar-sendiboða. En þjóðin kaus ekki að veita Samfylkingunni aukið gengi til að það verði notað til einhverra launráða gegn íslensku sjálfstæði. Þá mun fljótt fjara undan ef slíkt kemur í ljós. En pólitíkin býr yfir ýmsu og völt er hún sem veganesti að trausti. Vert er að minnast þess !

 

Um Viðreisn sé ég enga ástæðu til að fara mörgum orðum. Þar er um að ræða flokk sem varð til þegar Evrópusambandssinnað verslunaríhaldið á Stór-Reykjavíkusvæðinu yfirgaf gamla íhaldið og brestir komu í samtrygginguna, jafnvel innan sjálfrar Engeyjarættarinnar !

 

Ég hef ekki mikið álit á því liði sem þarna er á ferðinni og síst formanninum. Þjóðin mun varla hafa mikinn ávinning af þingsetu þessa hóps, enda fær hann þarna, að minni hyggju, of mikið umboð í hendur. Tel ég meiri en minni líkur á því að því verði illa og ógæfusamlega skilað, en það mun að sjálfsögðu koma í ljós !

 

Lýðræðislegar kosningar á Íslandi eiga að skila góðum hlutum fyrir þjóðina. Ég var því miður svo vonlítill um þjóðhagslegan ávinning af þessum kosningum, miðað við alla uppstillingu, að ég skilaði auðu. En ég fór á kjörstað og virti réttinn sem ég hafði til að kjósa, þó ég gæti ekki notað hann.

Á leiðinni út úr kjörstofunni kvað ég með sjálfum mér eftirfarandi vísu :

 

Allt er þetta rýrt í roði,

ratar fátt á punkta ljósa.

Þegar ekkert er í boði

ekki er nokkur leið að kjósa !

 

Vonandi verður þó 30. nóvember 2024 ekki minnst sem ógæfudags í sögu þjóðar okkar, þegar ljóst verður hverjar afleiðingar þessar kosningar munu hafa fyrir land og lýð !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 7
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 1079
  • Frá upphafi: 358593

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 923
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband