Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2024
28.8.2024 | 15:01
Litið til baka dæmi um dómgreindarleysi !
Bretar urðu að flýja frá öllum búnaði sínum í Dunkirk á tímabilinu frá 26. maí til 4. júní 1940, yfir sundið til Bretlands. Búnaður þeirra fól í sér meira en 2000 fallbyssur, 60 þúsund farartæki, 76 þúsund tonn af skotfærum og 600 tonn af bensíni. Það munaði um minna !
Eftir var þá talið í Bretlandi búnaður handa 2 herfylkjum, með því að hirða gamlar byssur af söfnum, en Þjóðverjar réðu þá yfir meira en 200 herfylkjum. Tap Breta við liðsflutningana yfir sundið var eftirfarandi : Yfir 200 skip og 177 flugvélar, þar á meðal 40% af bestu sprengjuflugvélum Breta. Allt var þetta hin hræðilegasta útreið. Þeir björguðu samt meginhluta hersins, 338 þúsund allslausum hermönnum, breskum og frönskum, og má líklega segja að það hafi verið afrek út af fyrir sig !
En hvað hafði hinsvegar verið í gangi ? Aðeins 3 mánuðum áður höfðu Bretar og Frakkar ætlað að senda 100 þúsund manna hjálparher til Finna í Vetrarstríði þeirra við Sovétríkin, en Svíar neituðu að leyfa för hersins yfir sænskt land og því varð ekkert af því. Svíar vildu nefnilega meina að þeir væru hlutlausir. Það virtist þó allt annað viðhorf ráða hjá Svíum þegar þýskar hersveitir voru fluttar með járnbrautum yfir land þeirra til að berjast við Norðmenn og Breta í Narvik. Hlutleysi þeirra stóð ekki í vegi fyrir því. !
Og hinir allslausu Bretar sendu Finnum 144 flugvélar, 114 þungar fallbyssur, 185.000 fallbyssu-sprengjur, 50 þúsund hand-sprengjur, 15700 flugvélasprengjur, 100.000 hermannafrakka og 48 sjúkrabíla. Og hinir allslausu Frakkar sendu þeim 179 flugvélar, 472 fallbyssur, 795 fallbyssu-sprengjur, 5100 vélbyssur og 200 þúsund handsprengjur !
Hvorugt ríkið hafði nokkur efni á þessum hergagnasendingum og forsætisráðherra Breta hafði skömmu áður lýst því yfir að það væri mikil vöntun á herbúnaði í Bretlandi og franskir ráðamenn töluðu alveg á sömu lund hvað Frakkland varðaði. En Chamberlain og Daladier og þeirra fylgifiskar trúðu því eins og nýju neti, að Hitler færi að orðum þeirra og réðist á Sovétríkin. Það var því, að þeirra mati, allt í lagi að styðja Finna. En Frakkland hrundi strax upp úr júníbyrjun við árás Þjóðverja og Bretland var sem vitað er, alveg á nástrái hernaðarlega séð, um nokkurt skeið þar á eftir !
Hefði Hitler ekki óttast svo mjög Sovétríkin og talið þau allt of öflugt ríki á næstu grösum við Þýskaland og að þau settu honum skorður, hefði hann ekki hikað við að ráðast á Bretland í framhaldi flótta Breta frá Dunkirk og menn geta velt því fyrir sér hvað lengi Bretar hefðu þá getað varist ?
Auk þess hafði það alltaf verið ætlun nazistaríkisins að ráðast á Sovétríkin og Hitlersstjórnin vissi að tíminn skipti máli og að sú árás mætti ekki dragast lengi. Öll bið í þeim efnum þjónaði fyrst og fremst hagsmunum Sovétmanna !
Innrás Þjóðverja í Sovétríkin 22. júní 1941 kom endanlega í veg fyrir alla hættu á innrás Þjóðverja í Bretland. En þá fór ,,lýðræðisríkið Finnland með Nasista-Þýskalandi í beint árásarstríð gegn Sovétríkjunum. En uppbyggðar varnir Rússa eftir vetrarstríðið, vestan við Leningrad, áttu sinn þátt í að borgin gat varist Þjóðverjum í 900 daga og féll aldrei í hendur þeirra !
En glóruleysi breskra og franskra stjórnvalda frá þessum tíma virðist ekki síður fyrir hendi í dag. Þar eru litlir karlar við völd sem löngum fyrr, menn sem senda öðrum vopn þó birgðir séu litlar heima fyrir og treysta á Sám frænda handanhafs og bomburnar hans, ef í nauðir rekur. Og kannski eru forsendur til þess nú að það reki í nauðir og það verulegar nauðir. Og hvar er þá veröldin stödd með sitt brothætta fjöregg ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook
24.8.2024 | 11:45
Um niðurrif íslensks samfélags !
Margt íslenskt fólk er orðið svo yfir sig þreytt á lífsaðstæðum hérlendis, að það flytur úr landi og sumir hafa við orð að þeir muni aldrei koma hingað aftur. Samfélagskerfið er orðið svo spillt og fjarri því að vera mannvænt, að æ fleirum ofbýður það og hvernig komið er fram gagnvart almenningi, ekki síst af stjórnvöldum. Kapítalisminn veður yfir allt og peningagræðgin virðist hafa flæmt alla dómgreind og siðvitund út í hafsauga !
Fjármálaspillingin,mannfyrirlitningin,
vaxtaokrið, leiguokrið, öll húsnæðismála-kúgunin og ófrelsið til lands og sjávar, er að breyta Íslandi í samfélag sem er að verða allt sem það átti ekki að verða. Það getur ekkert heilbrigt fólk fundið til stolts yfir því að tilheyra slíku ríkisóbermi.
Hér er óhæft kerfislið á hverri tröppu valdastigans og framasjúk goggunarröðin gengur fyrir öllu. Íslensk velmegun er bara til hjá auðmannaklíkum og ríkis-jötuhyski sem arðræna samfélagið frá degi til dags með öllum hugsanlegum hætti !
Hér hafa kerfissköpuð auðvaldskvikindi traðkað yfir allt sem mannlegt var og peningavaldið ræður lögum og lofum með alla skapaða hluti. Auðlindir lands og sjávar, eignir þjóðarinnar, eru meira og minna komnar í hendurnar á ógeðslegustu fyrirbærum íslenskrar sögu. Og íslenska ríkið hefur haft alla forgöngu um þau blygðunarlausu svartnættis svik gagnvart lífshagsmunum þjóðarinnar. Kvótakerfið hefur sannað það til fulls !
Íslenskt samfélag er orðið skammarlegt fyrirbæri. Það er búið að gera það með pólitískum hætti að einhverskonar afskræmislegri Litlu-Ameríku, sem sýgur í sig alla lesti og ómennsku úr vestrænum viðbjóðsheimi og telur sig menningarlegra fyrir vikið. Staðreyndin sýnir hinsvegar hrollkalda veruleikamynd, sem fjarlægist stöðugt meira það sem að var stefnt, meðan heilbrigðri dómgreind var fylgt í þessu landi !
Auðvald og frjálshyggja er innflutt bölvun fyrir íslenska þjóð. Það sem gagnast getur litlu þjóðinni okkar best er félagshyggja og samhjálp. Sú var tíðin að þjóðin efldi með félagslegri samstöðu þrjár fjölda-hreyfingar í landinu, til almannaheilla. Í krafti þeirrar samstöðu voru miklir og góðir sigrar unnir. Það voru Ungmenna-félagshreyfingin, Samvinnuhreyfingin og Verkalýðshreyfingin sem unnu þá sigra með stuðningi fólksins í landinu !
Nú hefur peningavaldið eyðilagt ávinning þessarar þjóðlegu og félagslegu sóknar að stórum hluta. Allt er nú metið til verðs. Íþróttahreyfingin virðist nú undirlögð peningasjónarmiðum og ískaldri gróða-hyggju. Ræktun lands og lýðs er sýnilega ekki lengur neitt takmark. Samvinnu-hreyfingin hefur verið rústuð innanfrá af forhertu eiginhagsmunaliði. Verkalýðs-hreyfingin er í mörgu spillt og ótrúverðug því þar virðast margir í forustu sem ættu þar ekki að vera þjóðarinnar vegna, fólksins vegna !
Þannig hefur hin ómannlega græðgi auðvalds og frjálshyggju leikið þjóðina okkar. Hvernig náum við að ganga til góðs á nýjan leik ? Kenningar kristindóms og góðra siða eru flæmdar burt úr skólum og uppeldis-stöðvum. Reynt virðist sem ákafast frá byrjun, að innræta börnunum okkar rangan rétttrúnað, með atfylgi ríkis og sveitar-félaga. Auðmannaklíkur Íslands hafa aldrei verið öflugri, meira kerfisráðandi og samviskulausari en þær eru í dag !
Slíkar klíkur eru orðnar aðall í landinu og herja í öllu á almannahagsmuni. Hvenær ætlar þjóðin að skilja að það þarf að mynda samstöðuhreyfingu og berjast gegn Mammons alinni sérgæsku þessara óþjóðlegu, kerfissköpuðu afla ? Gegn slíkum óþurftar-öflum þarf að bregðast með samstilltu þjóðarátaki. Almannaheill Íslands er í veði !
21.8.2024 | 05:18
Siðrænt gildi Vesturlanda hefur hrunið !
Sú var tíðin að litið var svo á að Vesturlönd væru allur heimurinn. Afríka var öll undirlögð arðráni ríkja í Vestur-Evrópu og farið ránshöndum um ríki Asíu eins og frekast var hægt. Hinar sjálf-kjörnu siðmenningarþjóðir leyfðu sér allt í krafti iðnvæðingar og hernaðarlegra yfirburða. Allir aðrir voru réttlausir og yfirleitt bara í stöðu hinna kúguðu stöðu þræla og undirmálslýðs !
En Vesturlönd eru ekki allur heimurinn og hafa aldrei verið það. En sennilega eru þau ómerkilegasti hluti heimsins og sá hluti hans sem er sekastur um mestar misgjörðir gagnvart náungum sínum.
Sá sem ekki sér þær staðreyndir sem hrópa hvað hæst gegn kúgun og misgjörðum Vesturlanda, hlýtur að hafa mjög takmarkaða innréttingu andlega séð. Og slík sálarstaða manna kallar í öllu á guðleysi og fráhvarf frá öllu sem er frambærilegt og siðlegt og rétt !
Að öllum líkindum er samviskulausasta og eigingjarnasta fólk veraldar búsett á Vesturlöndum. Mammonstengingin er lang-samlega sterkust þar og efnishyggju-dýrkunin takmarkalaus. Helstu auðmenn þar hreykja sér af því að vera trúleysingjar. Þeir trúa ekki á Guð. En hverjum þarf það að koma á óvart ? Menn sem fylgja Mammoni í öllu og glepjast af gulli hans, trúa auðvitað ekki á Guð. Það fer vafalaust ískaldur hrollur um þá, ef minnst er á Dómsdag í þeirra áheyrn !
Menn þurfa ekki að ímynda sér að slíkir sálarleysingjar fáist til að viðurkenna eitthvað vald sér æðra ? Að einhver dómur bíði þeirra þegar öll skil verða gerð upp ? Að sjálfsögðu ekki. Andavaldið sem ræður þeim og ríkir að baki öllu peningavaldi, á ekkert skylt við ríki Guðs. Það er af andstæðum rótum og þjónar þeim öflum sem þar ráða og eru í uppreisn gegn Guði. Illa fenginn auður talar aldrei í þágu góðra málefna !
Rætur mála vísa annaðhvort til góðs eða ills. Stór hluti auðmanna reynir stöðugt að skapa sér betri ímynd í gegnum gjafir til góðgerðarmála og með því að styrkja eitthvað af slíkum toga, en það verður aldrei til góðs. Ávextirnir verða alltaf beiskir frá slíkum rótum. Illa fengið fé skilar aldrei blessun !
Þórdís spákona vissi það á tíundu öld og vildi ekki að Þorvaldur Koðránsson, verðandi fóstursonur hennar, yrði alinn á slíku fé. Hann varð síðar fyrsti íslenski kristniboðinn og skilaði sér til góðs í mörgu. Orð Sveins Danakonungs um mannkosti hans eru ein mestu lofsyrði sem sögð hafa verið um íslenskan mann !
Nýlega sagði Íslendingur sem fór hringferð um hnöttinn frá viðtökum sem hann fékk hjá bláfátæku fólki á stríðshrjáðu svæði í Afríku. Það sýndi honum einstakan kærleika og vildi allt fyrir hann gera. Það gaf fúslega af fátækt sinni. Það var heldur ekki Vesturlandafólk og Vesturlönd eru ekki allur heimurinn, sem betur fer. Þá væri staða mannkynsins mun verri en hún er, þó ekki sé hún góð. Manngæskan lifir víða góðu lífi utan Vesturlanda fyrir þá náð sem þar er gefin !
Í Afríku og víðar eru kenningar kristindómsins boðaðar og sýndar í daglegu lífi með hreinni og sannari hætti en á Vesturlöndum. Það er virkilega kominn sá tími, að við þurfum að þiggja heilagar gjafir og endurnýjaðan og sannan mannkærleika úr höndum þeirra sem ekkert eiga nema það sem mölur og ryð fá ekki grandað. Þaðan og aðeins þaðan er blessun að fá af hreinum rótum Guðs Náðar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:28 | Slóð | Facebook
18.8.2024 | 10:59
Natóskattlandið Ísland !
Íslendingur sem vill fá hrein svör við ýmsu sem angrar hann, er líklegur til að vilja spyrja margs í yfirstandandi tíma, en þeir sem kynnu að geta svarað og ættu að geta svarað, þegja jafnan þunnu hljóði. Það er nánast venja ráðamanna hérlendis sem og víðar, að reyna að þagga allt niður sem þeim líkar ekki og þegja mál í hel. En spurningarnar leita samt fram og krefjast svara, spurningar eins og þær sem koma hér á eftir, í framhaldi þessa pistils !
Getur ríki sem greiðir öðru ríki skatt kallast sjálfstætt ? Eru Íslendingar alltaf að láta draga sig meira og meira undir yfirþjóðlegt vald og þvinganir þess ? Er allt sem gamla sjálfstæðisbaráttan stóð fyrir glatað og gleymt ? Erum við Íslendingar alfarið að verða skynlaus skoffín í samfélagi þjóðanna ?
Er landið okkar alltaf að sökkva dýpra sem samfélag niður í fenjalönd fjárglæfranna, erum við alltaf að sleikja þær hendur sem arðræna okkur mest ? Hvað er orðið af sjálfsvirðingu okkar og þeim frjálsa íslenska anda, sem var kjarninn í þeirri þjóðarhugsjón sem ruddi okkur með lifandi hætti brautina til fullveldis ?
Erum við að verða aðhlátursefni hjá skynbæru fólki um heim allan fyrir inngróið stórmennskubrjálæði lítil-mennskunnar og króníska hugarlömun minnimáttarkenndarinnar ? Af hverju er forustulið okkar svo steindautt í stjórnar-farslegu tilliti, að meiri vesalmenni finnast varla þó leitað væri um alla jörðina ? Og af hverju er efnahagsleg og andleg staða okkar sem þjóðar, í lóðréttu gengisfalli allar stundir ? Er það eitthvað sem verður að vera, til að hægt sé að ganga frá okkur að fullu og öllu sem marktækri þjóð ?
Af hverju förum við í yfirlýst stríð við aðrar þjóðir, þjóðir sem hafa ekki gert okkur neitt nema gott ? Af hverju látum við erlend öfl stöðugt leiða okkur fyrir björg ? Af hverju getum við ekki hegðað okkur í þjóðlegu tilliti eins og vinir okkar Færeyingar ? Af hverju lærum við aldrei neitt af öllum okkar glórulausu mistökum ? Hversvegna köstum við okkur stöðugt með blindum augum fyrir borð allrar bölvunar, í þágu blóðugra þrælahalds og stríðsæsingaafla úti í heimi ?
Af hverju vinnum við, með hörðum hroka framgangi, að því að eyðileggja allan velferðarávinning þjóðarinnar sem vannst með botnlausum þrældómi þriggja undan-farandi kynslóða ? Af hverju rífum við stöðugt kjaft þegar við ættum að þegja og reyna að skammast okkar ? Það er gæfuleg framtíð fyrir íslensku þjóðina eða hitt þó heldur, þegar hún er komin í þá stöðu, að verða blóðmjólkuð bæði af Nató og ESB. Er okkur alls varnað núorðið sem þjóð sem vill vera virðingarverð ?
Spurningarnar geta verið margar en svörin virðast fá og innantóm sem slík. Fara íslensk ungmenni ef til vill eftir nokkur ár út í heim undir herboði með ,, license to kill, fyrir nýjar nýlenduherferðir Vesturveldanna og Nató ? Verðum við Íslendingar þá með löggildingu manndrápa í nafni vestrænnar hagsmunaklíku ? Verður það framtíð þeirrar þjóðar sem var friðelskandi fyrir svo skömmu ? Hvert er verið að leiða okkur, örþjóðina sem engum vildi illt í eina tíð ?
Nú erum við orðin skylduð til skattgjalds undir árásargjarnt og heilalaust hernaðar-batterí sem fæðir sig á stríðsástandi. Og hver skyldu verða næstu manngildis lækkunarskref í þeirri herleiðingu úrkynjunar og ómennsku sem við höfum verið þvinguð inn í ? Það vita sennilega bara blóðsuguandinn sem ræður Nató og ESB í Brussel - og púkarnir í Pentagon ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.8.2024 kl. 21:36 | Slóð | Facebook
15.8.2024 | 10:33
Skrifstofuríkið SÞ !
Það er löngu ljóst, að vonir þær sem bundnar voru við stofnun Sameinuðu þjóðanna í lok heimsstyrjaldarinnar síðari eru horfnar og týndar og tapaðar. Endurtekning mistakanna með Þjóðabandalagið varð fljótt hin ömurlegasta staðreynd, og ekkert hefur getað bætt þá ímynd sem fljótt varð grútskítug í gegnum stöðugan hráskinnaleik stórveldanna. Allt traust milli aðila fór fljótlega í súginn og einskisverður kjaftaklúbbur sat eftir !
Auðvitað hefðu aðalstöðvar slíkra samtaka sem SÞ var ætlað að verða, aldrei átt að verða staðsettar í Bandaríkjunum. Það er með ólíkindum að það skyldi verða niðurstaðan. Aðalstöðvarnar hefðu auðvitað helst átt að byggjast upp í einhverju hlutlausu landi en ekki á öðrum valdapóli heimsmálanna. Eftirferlið hefur líka allt tekið mið af því hvað illa var af stað farið í þessum efnum !
SÞ hefur lengst af og nánast alla tíð verið hagsmunalegt tæki til að viðhalda fullu forræði Vesturlanda í heimsmálum. Stofnanir samtakanna enduróma þann tilgang með ýmsum hætti. Allir aðalritarar SÞ hafa verið hallir undir þá stefnu, en sumir telja að U Thant hafi helst sýnst vera þar nokkur undantekning. En á hans tíma voru mál komin í nokkuð fastan farveg þeirrar stýringar sem löngum hefur ráðið för hjá samtökunum og í raun, allt frá byrjun, stuðlað að því að brjóta áhrifavald þeirra niður innanfrá !
Nú er SÞ fyrst og fremst þunglamalegt skrifstofubákn, verulega kostnaðarsamur kjaftaklúbbur sem skilar ákaflega litlu í heimsfriðarlegum skilningi. SÞ er því nákvæmlega eins og Þjóðabandalagið var á sínum tíma. Sumir tala með fyrirlitningu um samtökin sem algera gólfþurrku Bandaríkjanna eða mjög svo skítugan afþurrkunarklút Vesturlanda og sannarlega virðist það ekki að ástæðulausu !
Sameinuðu þjóðirnar hafa aldrei verið sameinaðar og nafnið eitt er hið argasta ónefni sem slíkt. Stórveldapólitíkin hefur fyrir löngu eyðilagt allt í þessum efnum og spillt sérhverjum möguleika til gagnlegra milliríkjasamskipta. Öryggis-ráðið virkaði alla tíð öfugt og tryggði hagsmuni stórveldanna og þar með framvindu ranglætisins. Það valtaði yfir Allsherjar-þingið hvenær sem þörf var á því talin. Svo til sérhver stofnun á vegum þessa bákns sem SÞ er, hefur allt frá upphafi borið sitt vitni um tvöfeldni og hlutdrægni í málum. Þar hefur alltaf skinið í gegn og drottnað í öllu, undirlægjuhátturinn gagnvart yfirboðinni stefnu ráðandi ríkja !
Það væri því hreint og beint heilsufarsleg bót að því fyrir heiminn og heimsmálin, að leggja SÞ niður sem fyrst og verja þeim óhemju fjármunum sem í það bákn fara, til einhvers gagns fyrir þurfandi þjóðir, hvernig svo sem það yrði gert. En þar mætti auðvaldið eitt ekki fá að ráðskast með öll mál bak við tjöldin, eins og verið hefur hingað til, allri veröldinni til óþurftar og skammar !
Tilraunin sem gerð var til ætlaðra heimsfriðarmála 1945, með stofnun Sameinuðu þjóðanna, var mjög snemma eyðilögð og líklega vitandi vits, enda hefur enginn nokkra tiltrú lengur á framgöngu og gagnsemi SÞ í því sambandi og segir það sína sögu um það hvernig til hefur tekist !
Í margpóla heimi þar sem kapitalískt einræði fær ekki að drottna yfir öllu, er fólgin helsta von mannkynsins um manneskjulegri viðhorf í samskiptum þjóða. Þar ætti að vera hægt að koma milliríkjaviðskiptum í traustara og trúverðugra horf. Það sem kynni að verða þá til, eftir tímabært og endanlegt fráfall SÞ, verður að flestu leyti að taka mið af því að verða í engu eins og SÞ !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook
11.8.2024 | 09:01
Nýlendustríðið í Úkraínu !
Bandaríkin og Vesturveldin, með Nató og ESB í broddi fylkingar, halda af einbeittum brotavilja áfram hinni nýju nýlendustefnu sinni í Úkraínu, sem er fyrsta skref þeirra til arðráns í austri í seinni tíð. Það er upptekið framhald auðvaldsríkjanna af þeirri sókn Drang Nach Osten - sem hafin var til austurs 22. júní 1941, og endaði svo hrapallega, móti öllum vonum þeirra sem að henni stóðu, vorið 1945. Sömu öflin eru enn að verki !
Skuldsetning úkraínska ríkisins gagnvart Bandaríkjunum og Brussel, Nató og ESB, er að verða stjarnfræðileg, enda ræður fasistastjórnin í Kiyv engu lengur með sjálfstæðum hætti. Hún er ekkert nema 100% leppstjórn vestrænnar íhlutunar í landinu. Úkraína hefur átt sér afar litla sjálfstæðissögu til þessa, en mun áreiðanlega ekki koma til með að eiga neina slíka héðan í frá. Vesturveldin hafa gleypt landið og sett það í ævarandi skuldafjötra, nema þann hluta þess sem Rússland hefur tekið, til varnar íbúum þeirra svæða, sem eru Rússar !
Á dögum frelsisstríðs þjóðar Úkraínu 1648-1654 undir forustu Bohdans Kmelnytskys, sem háð var gegn Pólverjum og kúgun pólskra lénsherra á Úkraínumönnum, ákvað Perejaslavskaya Rada, ráðstefna allra stétta hinnar úkraínsku þjóðar, að leita eftir sameiningu við Rússland, sér til hjálpar og viðnáms. Það var síðan gert en þrátt fyrir það tókst Pólverjum að halda nokkrum hluta landsins í vestri undir sínu valdi allt til 18. aldar, en Austurríki sem þá var stórveldi innlimaði síðar vestustu svæði Úkraínu undir sitt vald !
En enn og aftur réðust Pólverjar, og nú undir fasistavaldi, á Úkraínu 1920 og tóku Kiyv, en voru jafnharðan reknir þaðan af Rauða hernum, allt til Varsjár. Pólverjar hafa ekki alltaf verið píslarvottar, þó þeir láti stundum þannig. Og aftur kom svo hættan úr vestri yfir mannfólkið í Úkraínu, þegar Hitlers Þýskaland réðist án stríðsyfirlýsingar á Sovétríkin 1941, en þá var Úkraína öll nánast lögð í rúst ásamt Hvíta-Rússlandi !
Um 1955 var samt uppbyggingu landsins eftir þá auðn lokið, eftir sannkallað risaátak í þeim efnum. Sovétríkin misstu 27 milljónir þegna sinna í seinni heims-styrjöldinni, 1/4 hluti allra eigna landsmanna var eyðilagður, þar á meðal 17 þúsund borgir, 70 þúsund þorp, 31 þúsund verksmiðjur, 84 þúsund skólar og um 60 þúsund kílómetrar af járnbrautum. Hestum, nautum og svínum hafði fækkað um 45 milljónir og í stríðslok áttu 25 milljónir manna ekki þak yfir höfuðið !
Rússar þekkja flestum þjóðum betur afleiðingar stríðs í eigin landi og hafa þurft að þola mikið af þeim sökum. Það er hinsvegar reynsla sem Bandaríkjamenn hafa lítið sem ekkert þurft að kynnast. Kannski að beiting kjarnorkuvopna í því hugsanlega gereyðingarstríði sem Nató og ESB virðast vilja starta um þessar mundir, verði þeim hinn endanlegi lærdómur hvað það snertir ?
Uppkeyrsla stríðsins í Úkraínu og sífellt vaxandi ögranir Vestursins gagnvart Rússum með ágang til austurs, auka stöðugt líkurnar á því að stríðið breiðist út. Þá styttist í að breiðu spjótin verði notuð. Kjarnorkuvopnum verður því beitt að óbreyttu áður en langt um líður. Þau eru til og nógar birgðir af þeim ef til kemur, til að eyða heiminum margsinnis !
Það er kannski það sem stríðsóðum mönnum í Brussel og víðar finnst helst að vanti um þessar mundir, svo sjálfsmorðsstefna þeirra virki til fulls, - kjarnorkustríð í Evrópu ? Það er kannski styttra í það en margir halda og þegar svo er komið, verður ekki hægt að taka nein skref til baka. Þá er sjálfvirk dauðaframvinda alls lífs komin í gang !
Sagan sýnir okkur alltaf að skrattinn er iðinn við kolann. 2014 tókst leyni-þjónustum Vesturveldanna að koma nýjum stjórnvöldum að í Kiyv, með ólöglegu valdaráni og skipti þá engu að öfgamenn og fasistar voru þar í forustu. Nokkrum sinnum hefur tekist að koma slíkum valdaránstilraunum í gegn, svokölluðum litabyltingum, sem allar eiga náttúrulega að þjóna frelsinu og lýðræðinu, samkvæmt hinum fullkomnu forskriftum að vestan !
Það hlýtur samt að vera farið að ganga á fjármagnið hjá CIA í gegnum slíkar aðgerðir. Að vera kannski mánuðum saman með nokkur hundruð ef ekki þúsundir fólks á launaskrá sem mótmælendur í fullri vinnu hvern dag, gegn réttkjörnum yfirvöldum. Það þarf mikla peninga í kringum slíkt og Bandaríkin eru nú ekki eins rík og þau voru. Í öllu þessu er svo auðvitað um fullkomlega ólýðræðisleg vinnubrögð að ræða í eitruðum andhverfustíl bandarískrar moldvörpustarfsemi !
Nú er ekkert lýðræðislegt umboð frá þjóðinni fyrir hendi hjá stjórninni í Kiyv, þar sem kjörtímabili er lokið og engin endurnýjun þess í gegnum kosningar hefur átt sér stað. En sú staðreynd virðist ekki breyta neinu hjá hinum margyfirlýstu mannréttindasinnuðu og lýðræðiselskandi Vesturlöndum sem ráða þarna alfarið ferðinni. Enda er spilað um flest annað en frelsi fólks og mannréttindi í nýlendu-stríðinu þar eystra. Í því valdaspili ræður öllu djöfulleg Mammonsgræðgi hins tvíhöfðaða og síhungraða auðvalds-skrímslis í Brussel. Sú Hitlerseftiröpun sem þar hefur verið sett í gang, setur heiminn allan í þann voða sem kann að hleypa gereyðingar-skriðunni af stað og þá verður ekki aftur snúið !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.8.2024 kl. 17:11 | Slóð | Facebook
8.8.2024 | 12:46
Hugleiðingar sögulegs efnis !
Eins og flestir vita eru sumar þjóðir því marki brenndar að telja sig öðrum fremri, og það jafnvel að flestu leyti. Það hefur valdið því að þær eru alltaf meðvitað eða ómeðvitað að siða aðra til. Það er þó löngu vitað að þær hafa engin efni á því og þeirra eigin saga er alls ekki svo geðsleg að hún leyfi slíkt umfram aðra !
Hrokafullt framferði af þessu tagi hefur löngum þótt loða við stjórnvöld Breta og Frakka og námfúsasti lærisveinn þeirra að þessum siðum hafa síðan verið stjórnvöld Bandaríkjanna, sem alltaf eru að siða aðra til, þó þau séu oftast með allt niður um sig í nánast öllum siðrænum efnum !
Flestir geta vafalaust verið sammála um það, að eitt ömurlegasta lægingarár frönsku þjóðarinnar í gervallri Sögu hennar hafi verið árið 1940. Þá sviku þjóð sína leiðandi menn í stjórnmálum, her og fjármálalífi, með þeim hætti að Frakkland bókstaflega hrundi á nokkrum dögum við innrás Þjóðverja í landið. Það var fimmta herdeild landráðamanna sem lék frönsku þjóðina þá svo illa, að allt lá opið fyrir þýsku nazistunum sem komu, sáu og sigruðu !
Sambærilegt ár í enskri sögu er líklega árið 1660. Eftir að enska þingið neyddist til að rísa upp gegn einræðistilburðum Karls I og borgarastyrjöldin hófst 1642, milli konungsins og þjóðarinnar, aðalsins og borgaranna, gekk á ýmsu fyrst í stað og herafla þingsins vegnaði verr, enda var hann þá undir stjórn manna sem stóðu eiginlega með annan fótinn í herbúðum konungsmanna !
En Oliver Cromwell ásamt Thomas Fairfax endurskipulagði her þingsins og kom fram með The New Model Army. Þeir félagar unnu síðan afgerandi sigur á konungs-hernum við Naseby 1645. Konungur var að lokum dæmdur landráðamaður gagnvart þjóð sinni og hálshöggvinn 1649, enda langt frá því að vera saklaus. Konungssleikjur allra tíma hafa þó tekið Karl I nánast í dýrlingatölu og það jafnvel hér á Íslandi !
En leið Englendinga til lýðveldis varð auðvitað þyrnum stráð. Án Cromwells hefðu þeir líklega ekki náð einu eða neinu. Eftir dauða hans 1658 fór líka allt í handaskolum hjá leiðtogum þingsins, enda flest komið þar í bullandi svikapólitík, og loks var konungsveldið endurreist með Karli II, sem yfirleitt er talinn hafa verið afskaplega lélegur og siðlaus konungur !
Ávinningur lýðræðisins við sigur þingsins í borgarastyrjöldinni var því takmarkaður og ekki síst er frá leið. Aðallinn kom aftur og konungsvaldið og allt óhófið og allur viðbjóðurinn sem því slekti fylgdi. Almenningskúgunin var óbreytt sem fyrr. Blóðfórnir þær sem færðar höfðu verið af alþýðu Englands fyrir vonir um aukið frelsi og tryggari lýðræðisréttindi, voru við fyrsta tækifæri gerðar að engu, að enskri aðalsréttar-siðvenju !
Enska þjóðin þekkti ekki sinn vitjunartíma og situr enn uppi með allt sitt forréttindahyski á sínu framfæri, enda forfallin í konungsdýrkun og glans-fígúrumyndum hégómleikans út í gegn. Þó Þorsteinn Erlingsson hafi ort á sínum tíma ,, Og kóngar að síðustu komast í mát og keisarar náblæjum falda verður það áreiðanlega seint sem slík siðbót á sér stað í Bretlandi !
Það segir sitt um endurkomu konungs-valdsins, að strax og Karl II fann sig sæmilega traustan á konungsstóli, fór hann að ofsækja menn sem höfðu verið í forsvari fyrir þingið, lifandi sem dauða. Hann lét grafa upp lík þeirra sem látnir voru, þar á meðal lík Cromwells, svívirða náina og hengja þá og hálshöggva. Svo var líkamsleifum þessara merku manna fleygt í ár eða á öskuhauga !
Ensk siðmenning var með slíkum hætti ofarlega á seinni hluta 17. aldar. Sá maður átti að heita konungur Englands og Skotlands, sem braut þannig allar reglur siðaðra manna í hefndarþorsta sínum og af inngróinni lítilmennsku. Hann níddist á jarðneskum leifum látinna manna sem hann og fylgjendur hans höfðu ekki ráðið við meðan þeir voru á lífi !
Og þá voru þessir menn í raun og veru hinir sönnu leiðtogar þjóðarinnar. Meðal Cromwells og þeirra sem svo voru svívirtir látnir, má nefna hinn frábæra flota-foringja Robert Blake, sem margir telja föður breska flotans og sjálfur Nelson taldi sér fræknari og fremri !
En Englendingar hafa yfirleitt látið yfir sig ganga alla glæpi, sem konungar þeirra hafa drýgt, eins og aftökur sæmdarmanna á borð við Thomas More og John Fisher. Sú saga er þess eðlis, að hún getur aldrei - hreint út sagt - orðið neinni þjóð til heiðurs eða virðingarauka !
Það er afar fátt sem styður við franska sæmd í atburðum sem tengjast árinu 1940, og það er á sama hátt afar fátt sem fylgir árinu 1660 sem lyftir undir enska sæmd !
Og þarna áttu og eiga í hlut þjóðir og stjórnvöld sem yfirleitt hafa leyft sér að tala niður til annarra þjóða varðandi ærlega siði og heiðursverða framkomu. Sumir aðilar ættu og mættu greinilega líta sér nær, í siðmenningarlegum efnum sem og öðru !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook
5.8.2024 | 11:19
Um líf í heimi lyga !
Það er á vitorði allmargra að þessi heimur okkar gengur fyrir lygum. Og þeir sem eru ekki sáttir við það og vilja lifa undir áhrifum Sannleikans, reyna að tala fyrir betri siðmennt, en það gengur ekki vel. Miklu fleiri eru sáttir við lygarnar, nærast á þeim á hverjum degi og nota þær sem sitt vítamín !
Það er samt engum til ávinnings að lifa í trú á lygar. En staðreyndin er sú í þessum glataða heimi, að milljónir manna vinna hvern dag við að framleiða lygar fyrir milljónir annarra manna. Svo að fram-færsluþörfin í gegnum lygarnar er hreint ekki svo lítil efnahagsuppspretta í dag. Hinar viðurkenndu hagfræðiformúlur undirstrika það líka með afgerandi hætti, enda yfirleitt sendar frá miðstöð Mammons á Sílygastöðum í Brussel !
Það er líka þannig allar stundir, að fréttastofur fáviskunnar leggja allan heiminn undir upplýsingaflæði sitt af færiböndum í milljónatali, þaðan kemur stöðugt flæði ósannindaáróðurs og stórkostlegrar blekkingariðju, sem gerir flestu fólki ófært að standast slíkt ofurmagn síbyljulyga, svo það flýtur bara með saurflæðinu fram í sjó. Í hinum risastóra, ofurskreytta viðhafnarsal hinnar fölsku veraldarumræðu, á lygin allt rýmið nema örlítið horn þar sem Sannleikurinn reynir enn að láta til sín heyra !
Sem sagt, menn lifa á lygum. Sumir lifa á því að ljúga að öðrum og eru á háu kaupi við það út um allan heim. Aðrir lifa á því að láta ljúga að sér og una sælir við það, því veruleikinn lætur svo illa í eyrum. Þetta gerir það að verkum, að heimurinn gengur fyrir tómum blekkingum og staða mála er aldrei raunsönn eins og hún er birt. Lygar flæða um allar gáttir um allan heim !
Ekki þarf neinn að velkjast í vafa um að í þessum efnum er vandlega séð fyrir öllum hlutum. Allskonar innherjar koma þar að málum og beinir hagsmunaaðilar sjá um alla fóðrun dags daglega og lygar eru þeirra sérgrein. Og yfirgnæfandi meirihluti mannkynsins gleypir við öllu sem felst í fóðruninni, sér í lagi náttúrulega sá hluti þess sem hugsar kannski lítið sem ekki neitt !
Ég hef haft kynni af nokkuð mörgu fólki sem virðist kunna vel við þessar lygar. Það virðist vilja hafa heiminn í stíl við þá mynd sem þar er gefin. Það segir blátt áfram með afstöðu sinni, til þess sem er í gangi hverju sinni, ,,ef sannleikur málanna dregur úr öryggiskennd minni og trú á það að allt sé í lagi, vil ég ekkert hafa með hann að gera ! Svo það gerir jafnvel vísvitandi lygar að vörn sinni og trúir því að þær veiti skjól. Þannig vill það lifa og deyja, og kemur líklega helst til með að deyja þannig !
Lygar eru mjög áþreifanlegar í öllu umhverfi okkar. Heiðarleiki í viðskiptum er bara brot af því sem hann var fyrir sextíu árum eða svo. Lygar í daglegu tali eru skilgreindar sem varnarviðleitni gegn hverju sem er. Handsöl eru löngu liðin tíð, enda allt traust milli manna í mýflugumynd nú til dags - eins og vitað er !
Þó skjöl séu margstimpluð í kerfinu og fái jafnvel blessun margra gráðufeitra lögspekinga, getur sitthvað klikkað fyrir því. Ekkert heldur vatni í tíðarandatáli hins falska veruleika. Ævagömul eignarbréf fyrir jarðeignum, sem hafa verið tekin gild í gegnum margar kynslóðir, eru nú véfengd og höfð að engu, og það af fulltrúum þess valds sem síst skyldi. Og jafnvel við slíkar aðstæður er logið svo að fólki, að það heldur að mál séu á framfaravegi og allt fari batnandi, þegar æpandi reyndin er alveg þveröfug og á skjön við allt sem rétt er og satt !
Lygar í sambandi við þjónustustig kerfisins gagnvart almenningi aukast með hverju ári. Fólki er sagt að það eigi margvísleg réttindi sem síðan reynast ekki til þegar eftir þeim er leitað. Fólk sem komið er á efri ár og ólst upp við ærleg viðhorf, veit ekki lengur sitt rjúkandi ráð í gjörbreyttum og gjörspilltum heimi. En sá vandi býður upp á sína tíðarandalausn, því tölvurnar sjá þar um samskiptin og þær eru tilfinningalausar !
Kristindómurinn á orðið mjög erfitt uppdráttar á Vesturlöndum, því sannur kristindómur á aldrei samleið með lygum. Eftir því sem fleiri yfirlýstir fulltrúar trúarinnar gerast boðendur lyganna, skaddast hin heilnæma kenning meira. Baldur Skagapóstur lýsti Jesú Kristi og því sem hann stendur fyrir að eilífu, vel í eftirfarandi vísu :
Sannleikurinn sagður hreinn
sigrar falska dóma
- honum þjónað hefur einn,
himni og jörð til sóma.
Kristur samsamaði sig Sannleikanum og sagði ,, Ég er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið ! Samkvæmt kristnum skilningi er engin önnur leið til yfir á eilíft land lifenda nema í gegnum Drottin Jesúm. Þeir sem ánetjast hafa lygum og fylgja þeim, geta aldrei átt samleið með Jesú Kristi. Þeir hafa þess í stað valið sér veginn til eilífs dauða !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.8.2024 kl. 21:31 | Slóð | Facebook
2.8.2024 | 11:36
Eftirmæli á fyrra falli !
Við stofnun var Vg líklega í hugum margra vinstri manna lausnarsvar gegn því að allt vinstra fólk yrði að sópast undir sósíal-demókratíska millisamsuðu, sem var eiginlega að öllu leyti síðasta sort fyrir marga. Tilraunin var því talin þess virði að hún yrði reynd !
Fyrstu árin virtist líka allt þjóna væntingum með skaplegum hætti og Vg styrkti stöðu sína og talaði með rödd sem margir töldu að þyrfti að heyrast. Steingrímur J. stóð sig bærilega og átti mjög góða spretti á þingi. En það ber sannarlega ekki allt upp á sama daginn. Það sýnir sig yfirleitt fyrr en síðar, þegar fararnestið reynist galli blandað, að ekki er allt sem sýnist !
Hefði Steingrímur Sigfússon farist í bílslysinu sem hann lenti í inn við Bólstaðarhlíð í Austur Húnavatnssýslu í janúar 2006, hefði hann áreiðanlega fengið önnur og betri eftirmæli en líklegt er að hann fái hér eftir. Stundum má líklega segja að menn fái ekki að fara á réttum tíma og lifi jafnvel sjálfa sig og það í meira lagi. Það má vafalaust hugleiða slík dæmi á marga vegu !
Eitt er víst að árið 2009 og þar á eftir voru afdrifarík mistök gerð af hálfu Vg, með því að mynda samstjórn með krötum og ganga allt of mikið inn á málamiðlanir við þá sem ekkert áttu skilið. Eftir það stjórnarsamstarf virtist Steingrímur J. í margra augum vera orðinn umskiptingur. Það var enganveginn hlutverk Vg að þrífa upp skítinn eftir hrunið. Það áttu aðrir að gera, þeir sem virkilega voru taldir sekir í þeim efnum, íhaldsíhaldið, frjálshyggju-íhaldið, Framsóknaríhaldið og krataíhaldið !
Vg var eini flokkurinn sem bar ekki neina ábyrgð á hruninu og það var glórulaust af flokknum að bjarga krötum frá afleiðingum gjörða sinna með þeim hætti sem gert var. En Vg fór í þrifin og það undir stöðugum skömmum gerenda þjóðarhrunsins og þjónaði um leið undir svikula Samfylkinguna með svívirðilegum undansláttarhætti. Og víst er að siðleysið í umræðum á þeim tíma var fordæmalaus lágkúra og engum til sóma !
Enginn virtist skilja hvað réði stefnu Vg um þær mundir. Margir af betri mönnum flokksins voru flæmdir úr honum og hinn alræmdi prímadonnu-valdstími gekk brátt í garð. Það var eins og hinn fyrrum fríski andi frá Gunnarsstöðum væri þar með gjörsamlega útþurrkaður. Vg batteríið var svo látið fljóta blint og sofandi yfir til hægri, upp í opið fangið á Bjarna Ben & Có !
Síðan hefur Vg flokksnefnan ekki haft neitt nema mínusgildi. Allt hefur verið svikið og sundrað sem standa átti fyrir. Aðalstofnandi flokksins hafði áður endað feril sinn sem meint íhaldssleikja og eftirmaður hans þótti orðinn það sama, margfaldað með 100 !
Fylgið var hrunið og flokkurinn mældist ekki lengur inn á þingi samkvæmt skoðanakönnunum, og ekki reyndist neinn frambærilegur forustumaður, að þjóðar-áliti, vera eftir hjá Vg. Og ekkert virtist líklegt þaðan af til að forða þeirri marg verðskulduðu rass-skellingu sem beið flokksins !
En við þær fallboðnu aðstæður, stökk prímadonnan frá borði og ímyndaði sér víst að þjóðin vildi fá hana sem forseta. En nei og aftur nei. Það kom ekki til mála. Þjóðin hefur aldrei lyst á neinu því sem er orðið eins og rótnagað bein frá íhaldinu og sú staðreynd kom skýrt í ljós við úrslit kosninganna !
Vg á nú vonandi ekkert annað eftir en að verða fleygt á skítahaug Sögunnar. Saga flokksins og allur undirlægjuhátturinn við íhaldið og frjálshyggjuna síðustu árin fer jafnvel fram úr ræfildómi krata við íhaldið á árum áður og er þá töluvert meira en mikið sagt !
Stór hluti landsmanna telur sig nú líklega hafa fullar forsendur til að líta á Vg sem Vonlaus grey. Slík grey eiga auðvitað ekki að sitja á þjóðþingi okkar, hvorki fyrir þennan flokk eða aðra flokka. Þar þarf að vera íslenskt kjarnafólk !
Vandamálið er hinsvegar, hvar finnum við slíkt fólk nú til dags ? Hvar finnum við það í forustulausu flækjusamfélagi nútímans þar sem hver asninn reynir að yfirganga annan í egosjúkum framadraumum sínum og menntunarlegri vitleysu ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 22
- Sl. sólarhring: 71
- Sl. viku: 591
- Frá upphafi: 365489
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)