Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.12.2024 | 12:54
Valkyrjustjórn eða valkvendastjórn ?
Það er auðvitað ekki æskilegt að gera því skóna að illa takist til með þá stjórnar-myndun sem nú er verið að reyna, en víst er þó að margt getur þar brugðið til beggja vona. Líklegt þykir mér að Flokkur fólksins eigi þar mest á hættu. Flokkur sá er til kominn að mestu vegna óánægju kjósenda með aðra flokka, og því ekki ennþá kominn með þá samhentu einingu sem rík þörf er á, þegar ganga skal til stjórnarsamstarfs. Það mun hætt við að ýmsar brotalamir komi fljótt í ljós innan flokksins af þeim sökum !
Það velkist enginn í vafa um það, að Inga Sæland er skörungur til orðs og æðis. En er hún formaður sem getur haldið flokki sínum saman þegar fer að gefa á bátinn, því það mun gefa á bátinn og líklega fyrr en seinna ? Hversu samstillt mun þinglið Flokks fólksins verða ? Þar kunna að vera uppi ýmis sjónarmið sem eftir er að samræma, enda hefur lítill tími gefist til þess. Við slíkar aðstæður mun reyna verulega á hæfni formannsins til að halda flokknum saman og leysa þau margvíslegu vandamál sem hljóta að koma upp. Hafa má í huga, að Flokkur fólksins stækkaði nú ekki á þingi við Klausturbarsdýfuna !
Það er talað um valkyrjustjórn ? Ef þessar þrjár forustukonur ætla að hegða sér sem valkyrjur í þessu stjórnarsamstarfi, býð ég ekki í friðinn á komandi stjórnar-heimili. Hann verður þá varla mikill. Ætli það verði ekki meiri þörf á að sýna samstarfshæfni, gagnkvæman skilning og vilja til að láta hlutina ganga með vaxandi trausti milli aðila, en að viðhafa einhvern brussugang, yfirgang og frekju, með stöðugum tilraunum til að valta yfir annarra sjónarmið og ráðskast með allt ?
Það má reyndar segja, að við þessa stjórnarmyndunartilraun hafi þær forustu-konur sem hér er verið að fjalla um, fengið einstakt tækifæri til að sýna hæfni sína við slíkt verkefni. Það er því nokkuð í húfi fyrir þær, og mikilvægt mál fyrir pólitískan feril þeirra, að þær geti staðist það próf með trúverðugum hætti. Það munu þær líka allar vita, en reynslan mun leiða það í ljós hvernig til tekst. Það er nefnilega ekki nóg að langa til að standa sig það þarf líka að hafa getu til að standa sig !
Líklegt er að þeir séu allmargir sem eru ekki nema hóflega bjartsýnir gagnvart þeim möguleika að þessir þrír flokkar nái saman með skynsamlegu og skipulögðu samstarfi. Það þarf nefnilega að semja um fleira en ráðherrastólana. Það er heldur ekki nóg, að fólk vilji komast í þá aðstöðu að hafa völd !
Það þarf umfram flest annað að fylgja þeim framgangi eftir, með ábyrgð, festu og hæfni, og það af ákveðni í þágu íslensku þjóðarinnar sem mun fyrst og fremst gjalda þess, ef illa tekst til !
Flestum er ljóst að íhaldið hefur verið allt of langan, órofinn tíma í ríkisstjórn landsins, enda sér þess merkin á mörgu. Vg tryggði íhaldinu margra ára viðbótar valdavist með því að læsa eigin stefnu niður í innsiglaða skuldaskúffu. Þjóðin krafðist að lokum uppgjörs á þeirri skuld við kosningarnar 30. nóvember síðast-liðinn. Vg féll út af þingi, enda gat ekki öðruvísi farið. Stefna Katrínar Jakobs-dóttur hlaut að fá sinn dóm. Slíkan dóm flýja menn ekki, ekki einu sinni í baðstofuhitann á Bessastöðum !
Nú er að sjá hvort það tekst að halda íhaldinu utan stjórnar og koma á laggirnar stjórn sem verður gagnleg fyrir þjóðina og hagsmuni almennings í þessu landi. Sérhagsmunaöflin hafa nógu lengi setið að fullsælu á ríkisjötunni og fjármála-ráðuneytið verið í réttnefndum trölla-höndum á sama tíma. Veður eru jafnan válynd í pólitíkinni og gagnvart slíkum ávinningi, að koma hér á almennings-vænni og réttsýnni hagstjórn, er því miður ekki unnt að vera nema mjög hóflega bjartsýnn !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook
13.12.2024 | 10:25
Hverfum ekki inn í hringiðu hégóma og græðgi !
Athyglisvert er, að við nánast alla umræðu á samfélagsmiðlum og hvar sem mál eru krufin og rædd, virðist yfirgnæfandi hluti þeirra sem blanda sér í málin, vera beinir hagsmunaaðilar. Það er því sjaldnast verið að ræða á hlutlausum forsendum og meta með þeim hætti kosti og galla hvers máls fyrir sig !
Flestir virðast fyrst og fremst og öllu heldur vera að meta sína krónulegu hagsmuni og sannleikur málsins í hverju tilviki kann að vera víðsfjarri. Umræðan virðist þannig öll falla undir það að verið sé að fiska eftir peningalegum ávinningi. Hverskonar umræða er það ?
Er ekki hægt að ræða neitt mál á grundvelli þess hvað kann að vera samfélagslega gott og hvað slæmt ? Þurfa alltaf einhverjir græðgismálafingur að letra sitt á vegginn til að drýgja sitt sérgæskufulla og mjög svo einstaklings-bundna gróðahyggju pund ?
Getum við ekki lengur komið að málum á félagslegum forsendum, er allt orðið svo mengað af frjálshyggju, markaðsórum og græðgisfullum kapítalisma ? Á engin heilbrigð framtíð að bíða barnanna okkar, verður hlutskipti þeirra óhreinleikinn einn ? Það er ekki bjart framundan og býsna fyrirferðarmikil og óhrein fjármagnsöfl virðast staðráðin í því að gera framtíðarmyndina sífellt svartari !
Mér finnst samfélagsumræðan ekki lengur vera á neinum hugarfrjálsum nótum. Það virðist vera búið að einkavæða hana í þágu græðgisaflanna í verslun og viðskiptum. Menn virðast bara tala út frá veskinu sínu. Er öllu íslensku samfélagsfrelsi kannski orðinn markaður bás með þessum hætti ?
Er kapítalisminn kannski búinn að hengja allt hugarfrelsi og umþenkingar út frá því, á öllum sviðum þjóðlífsins ? Það mætti sannarlega ætla það, eftir þeim ummerkjum að dæma, sem við augum blasa. Hugsun manna virðist stöðugt vera að verða þrengri, enda fer jafnan svo þegar buddunnar lífæð slær í brjóstinu og allt lífið á að felast í því sem algeru forgangsatriði !
Það er til fólk á Íslandi sem segist hafa breytt sínum lífsstíl og gangist nú fyrir hæglæti. Það talar fyrir því að fólk rói sig niður, geri sér grein fyrir hver séu hin raunverulegu verðmæti lífsins, og leiti eftir þeim í kyrrlátri viðleitni. Líklega mættu margir taka sér slíka afstöðu til eftirbreytni. Það er ekki mikið skynsemismál að æða svo á eftir krónum, að menn missi af lífinu í því kapphlaupi !
Lífið er dýrmætt og því þarf að lifa með hliðsjón af því kjarnaatriði. Sjá fegurðina í því einfalda, njóta náttúrulegra gæða með hófstilltu hugarfari og auðga andann með heilbrigðum hætti. Þegar slík lífsafstaða er fengin, fer fólk fljótlega að fá skyn á Skapara sínum og hverfur þá frá eigingjörnum fyrri viðhorfum og öðlast nýja og betri sýn !
Hraði nútímans hefur fært flestar manneskjur burt frá Guði og því Eilífa lífi sem hann býr einn yfir. Við þurfum öll á því að halda, umfram allt, að nálgast Guð og gjafir hans meðan náðartíminn til þess er gefinn, en hann er sýnilega ekki mikill eftir !
Það hlýtur hver heilvita maður að sjá, að maðurinn í hroka sínum er enganveginn fær um að fara með þau vopn sem hann ræður núna yfir. Það styttist því í að þau verði notuð og þá hlýtur hver maður þau örlög sem hann hefur kallað yfir sig því þá er náðartíminn á enda !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook
10.12.2024 | 11:30
Um sjálfsmorðssinnaða framvindu heimsmála !
Það er þekkt staðreynd úr sögu mannkynsins að styrjaldir fara oft úr böndunum, skipulagið bregst og skyndilega finna stríðsaðilar sig í stöðu sem þeim hugnast alls ekki og bjuggust aldrei við að koma myndi upp. En þá er svo komið að engin leið er til baka og of seint að sjá að sér. Menn standa bara frammi fyrir því að þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum, sem þeir þó sjaldnast gera. Þeir fallast heldur á eigið sverð, taka inn ólyfjan eða skjóta sig !
En það eru mjög oft fulltrúar smáríkjanna sem eru iðnastir við að hella olíu á ófriðarelda. Þeir eru oft fullir af hatri gagnvart einhverri stórþjóð sem er kannski granni þeirra og sökuð um kúgun og yfirgang. Þeir reyna því að kynda undir úlfúð og óvild sem mest þeir megna. Þó hernaðarleg geta slíkra smápostula sé ekki mikil, eru áhrif slíkra rógbera og hatursdreifenda oft drýgri en ætla mætti. Þeir spúa sí og æ heift og illsku milli stríðandi aðila !
Þó að í flestum tilfellum séu viðkomandi aðilar fulltrúar fyrir þjóðir sem eiga allt sitt undir friði og góðum milliríkja-samskiptum, hegða þeir sér sjaldnast mikið í þeim anda. Til þess er hatur þeirra allt of djúpt og glórulaust. Fólk af slíku tagi er oft að finna sem lökustu fulltrúa lítilla þjóða og þeir skaða oft eigin þjóðir frekar en hitt !
En slíkir haturspostular halda víst oftast í sjálfsblekkingum sínum að engir þjóni þjóðum sínum betur en þeir. Það er því mikil nauðsyn fyrir stórar þjóðir að vara sig á slíkum óþokkum sem æsa yfirleitt mjög til blóðsúthellinga á annarra kostnað. Slíkir menn eru sagðir til í Eistlandi, Lettlandi og Litháen, þeir eru sagðir til í Georgíu og Moldovu, og miklu víðar. Þeir eru jafnvel sagðir til á Íslandi, þó ótrúlegt kunni að þykja !
Þó bandaríska herveldið hafi gengið á skítugum skónum um alla jarðarkringluna í áttatíu ár, staðið fyrir hryllilegum ótöldum styrjöldum, og valdið mikilli bölvun víða, hafa þau ekki alls staðar borið sigur úr býtum. Víetnamska hetju-þjóðin sigraði þau eftir tveggja áratuga ofboðslega þolraun og nýlega spörkuðu Talibanar herveldinu mikla út úr Afghanistan með skömm. Það þótti alveg með ólíkindum og sýndi hvað skakkt var þar unnið að málum !
Örfáum dögum áður en það gerðist, hafði Biden Bandaríkjaforseti lýst því yfir í sjónvarpsávarpi að afghanski herinn væri fullfær um að kljást við Talibana. Búið væri að fullbúa herinn að vopnum og vígbúnaði eins og best yrði á kosið af hálfu Vesturveldanna. Biden var varla búinn að sleppa orðinu, þegar hinn mikli afghanski her var kominn í fullkomna upplausn og hættur að vera til. Þar að auki var allur fyrsta flokks víg-búnaðurinn, allar hinar nýtísku morð-græjur, allt komið með skilum í hendurnar á Talibönum. Vopnabúr þeirra margfaldaðist að stærð á svipstundu !
Nú er sagt að Talibanar eigi auðvelt með að útvega ýmsum hryðjuverkahópum vopn og vígbúnað af þessum miklu birgðum sem Biden var svo örlátur að skenkja þeim með afghanska herinn sem afar jákvæðan millilið. Pentagon útreikningarnir ganga sýnilega ekki alltaf upp eins og þetta dæmi sýnir og sannar !
Biden gamli er iðinn við að ausa haturs-olíu á ófriðareldana enda valdatími hans senn á enda. Hann er líka búinn að gefa veiðimanninum syni sínum upp allar sakir þvert á fyrri orð sín og fer líklega af forsetastóli með það sem sitt síðasta afrek og hafi hann skömm fyrir það !
Hann verður vafalítið talinn einn af lökustu forsetum Bandaríkjanna frá upphafi og hafa þeir þó margir, ekki síst í seinni tíð, verið í meira lagi lélegir menn í manndómslegu viðmiði. Hafi forsetarnir verið úrvalseintök bandarísku þjóðarinnar, hvernig í ósköpunum eru þá hin eintökin ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook
8.12.2024 | 16:32
Hin endalausa blóðtaka mannkyns-ódáðanna !
Þegar tekið er mið af því á hvaða þjóð það mæddi mest að berja nazismann niður, vestræna fasistaskrímslið sem var reist upp af auðvaldi Vesturlanda í miðri Evrópu, er ekkert óeðlilegt við það, að hugað sé að þeim fórnarkostnaði í mannslífum talið sem fylgdi þeirri baráttu fyrir hverja þjóð fyrir sig. Það er að minnsta kosti nokkuð sem aðeins þeir kjósa að véfengja sem eru orðnir heilaþvegnir sálarleysingjar, hengdur upp á glansmynda-snúru hinnar algjöru ómennsku !
Flestar tölur virðast hníga að því að Sovétríkin hafi misst 27 milljónir manna, Bandaríkin 450.000 menn og Bretar annað eins. Þetta voru þær þjóðir sem fyrst og fremst héldu uppi hernaðaraðgerðum gegn Þýskalandi nazismans. Inn í breskum og bandarískum mannfallstölum er líka það mannfall sem viðkomandi þjóðir biðu í átökum við Japana, austræna fasista-skrímslið !
Ef Sovétþjóðirnar hefðu ekki misst þessar 27 milljónir í hetjulegri vörn sinni gegn fasismanum, væru milljónir manna til í Rússlandi í dag sem afkomendur þeirra. Það var beinn fórnarkostnaður, lagður fram af Sovétríkjunum fyrir allan heiminn, og það framlag hefur aldrei verið metið sem skyldi og verður það seint. Zukhov marskálkur sagði í rústum Berlínar 1945 við félaga sinn Rokossovsky marskálk : ,, We have liberated them, and they will never forgive us that. Það voru og eru sannmæli !
Aðrar þjóðir urðu fyrir talsverðu mann-falli, en börðust þá með herafla annarra þjóða, vegna þess að lönd þeirra og ríki höfðu verið gleypt í byrjun styrjaldar-innar af þýska hervaldinu og voru ekki lengur til sem slík. Nazistar höfðu yfirleitt ekki fyrir því að lýsa formlega yfir stríði, enda yfirleitt fátt mannlegt við þeirra gerðir. Líklega lögðu aðrar þjóðir helst Bretum til liðsauka, svo sem Frakkar, Pólverjar, Tékkar og Slóvakar og fleiri !
Alls er talið að nærri 800.000 Frakkar hafi látist af styrjaldarástæðum og 5 - 6 milljónir Pólverja. Tékkar og Slóvakar munu hafa misst um 380.000 manns. Júgóslavar héldu stöðugt uppi hörðum skæruhernaði þó land þeirra félli snemma í styrjöldinni í hendur Þjóðverja. Yfirvöld nasista gátu hinsvegar aldrei bugað þá, þó aftökur á borgaralegum gíslum væru hæstar að tölu þar. Þýskar ódáðir í Serbíu verða seint upptaldar !
Nefna má hér eitt dæmi. 21. október 1941 drápu Þjóðverjar yfir sjö þúsund borgaralega gísla í borginni Kraguevac í Serbíu. Sú ógnaraðgerð átti að kenna Serbum að hlýða. En fjöldamorðin höfðu þveröfug áhrif og mögnuðu andstöðuna við þýska hernámsliðið um allan helming. Skæruliðar bundu mikinn þýskan herstyrk í landinu en það kostaði líka sitt. Mannfall Júgóslava mun hafa verið ríflega 1.7 milljónir manna. Þeir lögðu sannarlega sitt til gegn Nasista-Þýskalandi !
Blóðtakan var auðvitað skelfileg og vitnar um gífurlegan skort mannkynsins á mennsku við slíkar aðstæður. Í stríði geta víst flestir menn orðið skepnum verri eins og fjölmörg dæmi sanna !
Gyðingar eru taldir hafa misst um 6 milljónir manna í seinni heimsstyrjöldinni og er sá fjöldi inni í þeim tölum sem nefndar eru hér í viðkomandi þjóðríkjum, en á þessum tíma voru Gyðingar landlaus þjóð og víðast hvar ofsóttir. Takmark nasista var að útrýma þeim með öllu og er það ein hryllilegasta villimennska í allri sögu mannkynsins, eins og vitað er og viðurkennt af flestum !
En af hverju að vera að rifja þetta upp ? Jú, vegna þess að það sem gerðist fyrir rúmum átta áratugum er á framhalds-sögustigi í dag. Nú eru sömu óheillaöflin mætt á ný til leiks og vilja hefja upp nýja nýlendustefnu og skipta upp heiminum sér til frekari auðsuppsprettu, alveg eins og forðum. Fasisminn er hin rísandi ógn í dag og hann er studdur af þeim sem síst ættu að styðja hann, og þeir gera það vegna þess að þeir lærðu ekki lexíuna sína fyrir 80 árum ! Eigum við öll að farast vegna þess ? Þurfa Vesturveldin með sitt síhungraða auðvald ef til vill að missa 27 milljónir þegna sinna í ægilegri styrjöld til að læra að meta friðinn og hætta stöðugum ágangi sínum gegn öðrum ríkjum ?
5.12.2024 | 00:57
Engin þjóð hagnast á fjandskap við Rússa !
Efnahagsþvinganir og refsiaðgerðir Banda-ríkjanna og Vesturlanda gagnvart öðrum ríkjum hafa oftast verið í trássi við alþjóðalög og gengið út á það að eyðileggja lifibrauð milljóna manna og alls almennings í viðkomandi löndum. En þegar umræddir kúgunarvaldar ráða alþjóða-lögum og hvernig þeim er beitt, þarf enginn að búast við neinu réttlæti úr þeirri átt !
En öll svívirða á sér sín takmörk og trúlega eiga fleiri eftir að komast að því en Hitler og Mussolini, að mælirinn geti orðið fullur. Glæpir Vesturlanda gagnvart þriðja heiminum eru löngu orðnir svo óhugnanlega miklir, að það hlýtur að koma að því einhverntíma að refsiaðgerðum verði beitt gegn þeim og það af fullum þunga. Og þær munu dæmast fullkomlega réttmætar þegar þar að kemur og það er kannski ekki svo langt í það !
Svokallað réttlæti Vesturlanda hefur aldrei birtst öðruvísi en sem blóðugt ranglæti gagnvart þriðja heiminum og vanþróuðum löndum, þar sem arðrán og nýlendukúgun hefur sett mark sitt á öll utanaðkomandi afskipti. Sú glæpasaga er svo mikill hryllingur, að það hefur lengi verið nánast óbærileg tilhugsun fyrir marga hugsjónamenn, að lífskjörum í okkar heimshluta skuli lengstum hafa verið haldið uppi með ófyrirgefanlegu framferði kúgunar í nýlendum og arðránslöndum vestræns kapítalisma. Það þarf sannarlega að leiðrétta og laga margt frá liðinni tíð og það er geymt en ekki gleymt og koma mun að þeim skuldadögum !
Langstærsta ríki jarðar Rússland hefur um skeið verið beitt hörðustu refsiaðgerðum og efnahagsþvingunum sem nokkurt ríki hefur orðið að þola. Rússar hafa staðið það allt af sér og aðgerðirnar gegn þeim hafa bitnað öllu harðar á vestur-evrópskum ríkjum sem notið höfðu hagstæðra orkukaupa frá Rússlandi. Þar má til dæmis nefna að efnahagsleg staða Þýskaland hefur veikst svo mikið að þar er nú nánast kreppuástand að skapast. Natóyfirgangurinn gagnvart Þýskalandi og þýskum þjóðarhagsmunum er ekki lítil plága fyrir þýsku þjóðina. Eyðilegging Nordstream leiðslunnar var árás Nató-þjóða á þýskar eignir og brot gegn öllum sáttmála Atlantshafsbandalagsins. Það má því skrifa efnahagslega afturför þýska ríkisins alfarið sem skuld hjá Nató !
Rússland er loksins komið í þann gír að loka vesturglugganum. Það var löngu tímabært að gera það, vegna yfirgangsins að vestan. Nú einbeita Rússar sér kröftug-lega að auknum viðskiptalegum tengslum við ríki Asíu. Vestur-Evrópuríkin fá líklega aldrei aftur þau góðu viðskiptakjör sem þau höfðu við Rússland og Ísland ekki heldur. Þeir markaðir sem Rússar eru að byggja upp og tryggja sér í Asíu verða þeim áreiðanlega miklu hagstæðari, bæði nú og í framtíðinni, en nokkur viðskipti geta orðið vestur á bóginn. Brics módelið mun að öllum líkindum eflast mikið á komandi árum ef áfram verður líf á þessari jörð !
Þegar Natólandið Bretland ætlaði að kúga Ísland með fisksölubanninu 1952 voru það Rússar sem buðust til að kaupa af okkur allan fiskinn, ekki Nató eða Natólönd. Hefði það boð ekki borist okkur, hefðum við Íslendingar verið svínbeygðir af Bretum. Og engin íslensk ríkisstjórn, sama hvað Natósinnuð hún var, sagði upp olíuviðskiptunum við Sovétríkin vegna þess að þau voru okkur alltaf svo hagstæð. Bein þjóðhagsleg viðskipti áttu alltaf að vera mark okkar og mið, á frjálsum grundvelli milliríkjasamskipta. En helbláa græðgis-höndin kom í veg fyrir það !
Nató fjandskapaðist við alla slíka stefnu af okkar hálfu og aðildin að árásar-bandalaginu fól í sér, að við mættum ekki ráða okkar málum. Þannig að sjálfstæði okkar var alltaf í spennitreyju kúgunar af hálfu þeirra þjóða sem áttu að vera okkar bestu vinir og er enn. Sjálfstæðisrök þau sem lágu að baki fullveldi okkar voru heilbrigð og samboðin ærlegri þjóð. En þegar Bretar og Bandaríkjamenn heimiluðu Íslendingum að stofna lýðveldi 1944 var staðan kynnt með öðrum og óhreinni hætti. Enda hefur sjálfstæði okkar alltaf verið innan afskaplega stórra gæsalappa þegar ,,vinaþjóðirnar miklu eiga í hlut !
Íslenskir fjölmiðlar eru í öllum atriðum leiðinlegur endurómur hlutdrægra vestrænna fréttastofa. Þar er ekki vottur af þjóðlegu sjálfstæði. Þjóðin er mötuð á hræsnisfullri lygi allan ársins hring, upp á hvern einasta dag. En þó að allir fjölmiðlar Vesturlanda sameinist í því verkefni að gera lítið úr Rússlandi og getu þess til að verja sig, verður sú blekking fljótlega afhjúpuð. Rússland verður ekki sigrað, vegna þess að í vopnabúri þess er til nóg af háþróuðum gereyðingarvopnum !
Og þeir sem ætla, þrátt fyrir þá staðreynd, í stríð við Rússland, munu aðeins hrinda þeirri framvindu af stað sem ekki verður stöðvuð og mun rústa öllu. Ef Rússland verður eyðilagt verður heimurinn líka eyðilagður. Borgir Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu verða líka geislavirkar rústahrúgur. Eldflaugarnar sem munu sjá til þess, munu koma frá fyrirfram stilltum skotstöðvum og kjarnorkukafbátar í hafdjúpunum munu sjá um afganginn !
Þó Notre Dame kirkjan hafi verið byggð upp í París eftir eldsvoðann mikla og það með rándýrum hætti, eru frönsk stjórnvöld ekki að leggja sitt til friðar í heiminum í framtíðinni. Það ætti þó að vera í anda þess boðskapar sem kristnar kirkjur eiga að standa fyrir. Svo hver veit hvað Notre Dame fær lengi að standa ? Það er jafnvel mjög svo óvíst að París verði til áfram, ef til kjarnorkustyrjaldar kemur ?
Ef mannkynið hefur ekki vit á því að halda frið við þessar voðalegu og ógnarfullu aðstæður, er erfitt að sjá fyrir sér að það eigi sér framtíð. Leikur að eldi endar yfirleitt með því að það kviknar í og björgunaraðgerðir þurfa að hefjast. En ef það kviknar í öllum heiminum verður engu bjargað og allir hljóta að farast í þeim eldi. Þar verður ekki um neitt annað tækifæri að ræða !
Stórveldapólitíkin er orðin þjóðum heimsins hættulegri en nokkru sinni fyrr, og er við það að steypa öllum fram af ystu brún og ofan í kjarnorkubálið. Meginástæða þess að hætturnar hafa margfaldast á síðustu árum, er að Bandaríkin finna að þau eru að missa valdatökin í heiminum. Það gerir þau hálfu hættulegri fyrir heimsfriðinn en þau voru. Donald Trump mun ekki stilla til friðar, hann verður litlu betri á forsetastóli en Biden.
Bandaríska auðvaldið mun stjórna Trump engu síður en Biden, enda er hann hluti af því. Trump er þegar farinn að vera með hótanir gegn Brics og heimta að dollarinn ríki áfram sem yfirgjaldmiðill um allan heim. Slíkur yfirgangur verður ekki liðinn öllu lengur. Nú verður hver þjóð að kunna sér hóf í breyttum heimi !
En styrjaldarhættan er samt með ýmsum hætti að verða áþreifanleg. Kannski er þessi veröld okkar á síðustu metrunum fyrir allsherjar tortímingu ? Brátt verður kannski ekkert eftir annað af plánetunni Jörð en eldur, eimyrja og geislavirkni ? Þagnarvíti Dauðans er oftast endapunktur allrar vitfirringar. Lífið verður kannski senn - að fullu og öllu farið !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook
2.12.2024 | 11:45
Litið á pólitíska stöðu mála eftir kosningarnar !
Úrslit alþingiskosninganna virðast mikil falleinkunn fyrir þá flokka sem stóðu saman að síðustu ríkisstjórn og er það í alla staði mjög skiljanlegt. Stefna Katrínar Jakobsdóttur hefur nú endanlega gert út af við Vg. Það var löngu orðið fyrirséð. Svandís Svavarsdóttir reyndi á síðustu stund að berja í brestina, en allt kom fyrir ekki. Þar varð engri tiltrú komið upp aftur. Kjósendur vildu ekki sjá flokkinn og það sannar hvernig almennt var litið á málin. Svik á aldrei að verðlauna. Það hlálega er að einum af Vg þingmönnum frá fyrri tíð, manneskju sem var þar hafnað vegna fylgisvöntunar í prófkjöri, hefur nú verið skilað inn á þing undir öðru flokksmerki !
Lilja Rafney Magnúsdóttir lifir þar með allt Vg þingliðið og getur nú sent því öllu langt nef, ef út í það fer. En þar fyrir utan sé ég enga ástæðu til að fagna endurkomu hennar á þing, nema síður sé. Svo er heldur engin ástæða til að harma brottfall Pírata af þingi. Flokkur sem virðist fyrst og síðast vera með hugann við erlend málefni og umhyggju fyrir slíkum hlutum, þegar ótalmargt er að í okkar samfélagi sem huga þarf að og laga, er ekki að sinna þjóðlegum skyldum sínum á þjóðþinginu, að mínu mati. Ég vona því að þeir eigi enga endurkomu til þings nema þá sem stórlega betrumbætt útgáfa af sjálfum sér, með öðru og þjóðlegra hugarfari !
Það er í sjálfu sér gleðilegt að íhaldið skuli vera komið niður fyrir 20% að atkvæðamagni, en hinsvegar er myndin önnur og verri þegar Viðreisnaríhaldinu er bætt þar við, enda er það jafnvel öllu afleitara en gamla íhaldið, þó flest sé nú líkt með kúk og skít. Svo sýnist Miðflokkurinn á leiðinni með að verða þriðja íhaldið, þó hann sé nú ef til vill heldur þjóðlegra fyrirbæri en hin tvö !
Flokkur fólksins kemur vel út úr þessum kosningum, en ég hef grun um að einingin innan flokksins geti orðið brothætt, ef sú gamla eykur einræðishneigð sína og vill þar öllu ráða, en vaxandi stjórnsemi hennar kann að verða hugsjónum veg-ferðarinnar dýrkeypt um síðir. Það er alltaf varasamt og felur í sér pólitísk vandkvæði, ef formaður flokks fær of háar hugmyndir um eigið gildi og telur jafnvel kosningalegan ávinning fyrst og fremst persónulegan sigur. Inga Sæland þarf því að gæta að sér ef vel á að fara. Persónulegur skörungsskapur þarf ekki að fela í sér formannslega hæfileika !
Framsókn er nú orðin litli flokkurinn á þingi. Formaðurinn sjálfur er uppbótar-þingmaður. Líklegt þótti upp úr alda-mótunum að Framsókn færi bráðlega að lognast út af, en svo hresstist flokkurinn við og vann kosningasigur sem kom eiginlega flestum á óvart og líklega Framsóknarmönnum sjálfum einna mest. En síðan hefur fátt verið maddömunni meðdrægt. Formaðurinn er enginn skörungur og Framsókn hefur helst markað sig þeim stimpli að vera fylgifiskur íhaldsins. Líklegt er að áfram dofni yfir gengi flokksins, uns hann fer í sögukistu hins liðna, trúlega áður en langt um líður. En það er bara leiðin fyrir allt sem verður úrelt !
Ég neita því ekki að mér er nokkur forvitni á að sjá hvernig Miðflokkurinn mun spila úr þeirri stöðu sem hann virðist nú hafa á hendi. Flokkurinn er ekki enn kominn með skýrt afmarkaða stefnu og kann því að koma nokkuð á óvart með sín útspil. Þó held ég að Sigmundur formaður sé í mörgu þjóðlega hugsandi maður og fleiri eru þar í flokknum sem kannski má vænta góðs af. Íslenskir þjóðarhagsmunir eru að mínu mati líklegir til að verða metnir þar mun hærra en hjá sumum hinna flokkanna, þó maður viti aldrei til fulls hvernig menn koma til með að halda á málum. En við skulum sjá hvað setur og hverjir drýgja sitt pund best í þágu þjóðarheilla !
Samfylkingin er að koma nokkuð sterk út úr þessum þingkosningum, eftir nokkuð langa og stranga eyðimerkurgöngu með Evrópusambandsdrauginn í eftirdragi. Núverandi formaður ýtti þeirri leiðu fylgju frá í bili hvað sem verður. Sennilegt er þó að farið verði fljótlega að knýja dyra hjá flokknum, með skilaboð frá Brussel. Jafnvel með milligöngu Viðreisnar-sendiboða. En þjóðin kaus ekki að veita Samfylkingunni aukið gengi til að það verði notað til einhverra launráða gegn íslensku sjálfstæði. Þá mun fljótt fjara undan ef slíkt kemur í ljós. En pólitíkin býr yfir ýmsu og völt er hún sem veganesti að trausti. Vert er að minnast þess !
Um Viðreisn sé ég enga ástæðu til að fara mörgum orðum. Þar er um að ræða flokk sem varð til þegar Evrópusambandssinnað verslunaríhaldið á Stór-Reykjavíkusvæðinu yfirgaf gamla íhaldið og brestir komu í samtrygginguna, jafnvel innan sjálfrar Engeyjarættarinnar !
Ég hef ekki mikið álit á því liði sem þarna er á ferðinni og síst formanninum. Þjóðin mun varla hafa mikinn ávinning af þingsetu þessa hóps, enda fær hann þarna, að minni hyggju, of mikið umboð í hendur. Tel ég meiri en minni líkur á því að því verði illa og ógæfusamlega skilað, en það mun að sjálfsögðu koma í ljós !
Lýðræðislegar kosningar á Íslandi eiga að skila góðum hlutum fyrir þjóðina. Ég var því miður svo vonlítill um þjóðhagslegan ávinning af þessum kosningum, miðað við alla uppstillingu, að ég skilaði auðu. En ég fór á kjörstað og virti réttinn sem ég hafði til að kjósa, þó ég gæti ekki notað hann.
Á leiðinni út úr kjörstofunni kvað ég með sjálfum mér eftirfarandi vísu :
Allt er þetta rýrt í roði,
ratar fátt á punkta ljósa.
Þegar ekkert er í boði
ekki er nokkur leið að kjósa !
Vonandi verður þó 30. nóvember 2024 ekki minnst sem ógæfudags í sögu þjóðar okkar, þegar ljóst verður hverjar afleiðingar þessar kosningar munu hafa fyrir land og lýð !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook
29.11.2024 | 11:14
,,Kóngurinn þarf að skíta !
Það er nú ekki ýkjalangt síðan kóngar í Evrópu héldu því blákalt fram að vald þeirra væri fengið beint frá Guði og væri þar af leiðandi þjóðum þeirra algerlega óviðkomandi. Það væri bara um prívatmál milli þeirra og Skaparans að ræða !
Og svo undarlegt sem það er, gekk þessi túlkun mála í þálifandi kynslóðir og jafnvel lærðustu menn skólunarlega séð. Slíkir menn gerðu litlar sem engar athugasemdir við þetta einkamálefni kónganna við Almættið. Þó náði þessi grófa skilningsvilla yfir á svonefnda upp-lýsingartíma, svo velta má því fyrir sér hver upplýsingin hafi eiginlega verið þegar allt kom til alls ?
En hafi kóngarnir verið allt að því guðlegar verur, svona einhverskonar hliðstæður við páfann, sem líka flaggaði persónu-bundnu valdsumboði frá Guði og gerir enn, þá þótti margt samt býsna óguðlegt við athafnir þeirra bæði siðferðilega og réttlætislega séð. Ekki varð með nokkru móti séð að Guð ætti þar nokkurn hlut að máli nema síður væri. En fáir voguðu sér að nefna slíkt, enda konungsvaldið hreint út sagt ekkert lamb að leika sér við á þessum ofurvaldstímum sínum !
Menn gátu átt það á hættu að vera hengdir eða hálshöggnir ef það spurðust frá þeim ógætileg orð því mörg voru jafnan konungs-eyrun. Ófáir vesluðust líka upp í dýflissum konungsvaldsins árum saman og dóu þar að lokum. En þannig voru tímarnir, kóngurinn var allt og þjóðin ekki neitt. Kóngurinn sat í umboði himnaríkis að eigin sögn og enginn þorði að mótmæla því og hann notaði aðalinn til skítverkanna eins og jafnan fyrr og síðar !
Og ef einhver reyndi að standa með þjóðinni, fólkinu í landinu, gat hann, sem fyrr segir, átt á hættu að verða tekinn af lífi fyrir landráð ,,high treason, en gegn hverjum ? Nú, líklega gegn kóngsa, einræðisherranum með Almættis umboðið !
En kóngarnir voru nú ekki mjög guðlegir, þeir þurftu meira að segja að skíta eins og venjulegt fólk. Þeir tóku sig ekkert betur út á klóinu en aðrir. Og kúkurinn frá þeim var ekkert sérlega konunglegur og lyktin mjög lík og af ósköp venjulegum kúk. Í hverju gat það þá legið, að ósköp venjulegur maður sem þurfti að skíta eins og allir aðrir, ætti að hafa vald frá himnum sem tryggði honum ótakmörkuð völd yfir heilli þjóð ?
Það minnir á kvæðið eftir Örn Arnarson, þegar Jón póstur og kotbóndi sagði við kaupmanninn að hann beygði sig auðmjúkur fyrir einum voldugri aðila nánast daglega, en kaupmaður hafði sagst ekki beygja sig fyrir kvabbi manna og kveini. ,,Nú, hver er það ? spurði kaupmaður þá, uppfullur af hroka, ,,hver skyldi það vera, sem skipar mér ? Og kvæðið endar á svari Jóns. ,,Það er skíturinn yðar, kvað Jón !
Þarna reyndi kaupmaðurinn að leika kóng eins og kóngurinn hafði reynt að leika Guð í allt of langan tíma, svo að allir dönsuðu með. En þeir urðu að beygja sig báðir hvenær sem kallið kom fyrir kröfunni frá eigin skít. Og árið 1907 var sagt frá því í glettinni blaðagrein í tímaritinu Iðunni, að óp og köll hefðu gengið milli manna við konungskomuna það árið, þar galaði hver upp í annan kónginn vantar ?
Og hvað vantaði kónginn ? Jú, hann vantaði kopp, en það mátti ekki segja það blátt áfram, en staðreyndin var sú að hinn hátt upp hafni kóngur þurfti líka að þjónusta sinn óæðri enda. Að hugsa sér að sjálfur kóngurinn, skyldi þurfa að kúka og pissa alveg eins og venjulegt fólk !
Ágúst H. Bjarnason var sá sem skrifaði greinina og íhaldssöm yfirvöldin bönnuðu blaðið með það sama og gerðu það upptækt. Þorvaldur pólití og annar maður til, voru látnir bera upplagið út á Arnarhól og kveikja í því. En um 200 eintök höfðu samt selst og við það varð ekki ráðið, svo greinin barst út og var lesin með áfergju. En með þessum hætti, með tilvísun til yfirvaldanna, var nú íslensk kóngs-þjónkun, undir algjörum harðlífiskjörum, árið 1907. Það er nú ekki lengra síðan !
Sérgæskusinnar vilja vafalaust flestir enn þjóna undir kónga, þjóna undir Mammon og þjóna undir skrattann sjálfan og alveg sérstaklega ef þeir telja sig fá eitthvað fyrir það. En þjónusta við almannahagsmuni er ákaflega lítils metin af slíkum aðilum, nú sem endranær. Þeir telja sig aldrei til heildarinnar á jöfnum forsendum, en fylgja alltaf öllum þeim sem álíta sig vera með guðlegt umboð til að níðast á öðrum, í þeirri von að fá fyrir það bein eða mola undan borðinu eins og hundarnir !
Sumir íslensku stjórnmálaflokkanna virðast nánast í heilu lagi vera stofnaðir um þá fjandsamlegu samfélagsafstöðu. En mannlegar þarfir eru og verða þær sömu og hingað til og kóngarnir munu alltaf þurfa að skíta, því þeir eru aldrei neitt annað en menn, þótt þeir hafi reyndar sjaldnast náð því að vera það með heilbrigðum og mannsæmilegum hætti !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook
25.11.2024 | 15:31
Um lýðræðislegan ömurleika !
Hvað á þessi þjóð að kjósa ?
Það á lítið gott sér stað.
Passar fátt við punkta ljósa,
pólitíkin sér um það !
Framundan eru kosningar þar sem velja á fulltrúa á þing, að sögn til að annast hagsmuni íslensku þjóðarinnar næstu fjögur árin. ,,Það er vandi að vegsemd hverri segir spakmælið og auðvitað er það viss vegsemd að fá að kjósa. En hvernig stöndum við okkur í því ábyrgðarmáli ? Og hvernig eru flokkarnir sem bjóða fram og hvernig eru fulltrúar þeirra sem okkur er boðið upp á ?
Svarið við öllu þessu er líklega talsvert verra en það þyrfti að vera. Við höfum verið að lækka þau siðagildi sem oftast áður var reynt að fylgja. Siðfræðileg staða flokkanna er lakari en hún var og það virðist eiga við um þá alla. Fulltrúarnir sem boðið er upp á, eru þar af leiðandi ekki sérlega álitlegir. Fjöldi kjósenda er kominn í þá stöðu að vita ekki hvað þeir eiga að kjósa, þeim finnst ekkert frambærilegt í boði. Og það er því miður töluvert til í þeirri gagnrýni !
Mörg getur spurningin verið sem varpar ljósi á slæma stöðu mála. Hvernig erum við til dæmis að ala upp börnin okkar í dag ? Því sem var undirstaða og kjarni heilbrigðs uppeldis á árum áður, er nú nánast úthýst úr uppfræðslukerfinu, og í staðinn hafa allskonar ranghugmyndir verið settar á stall. Og hvaðan kemur slík alda yfir samfélagið ? Ekki síst frá þjóðþinginu, sem er að mínu mati það lakasta sem við höfum haft til þessa. En líklegt er þó að komandi þing muni slá það met og verða ennþá verra !
Á hvaða leið erum við ? Nú hafa verið teknar ákvarðanir í utanríkismálum sem ég fæ ekki annað séð en skilji okkur Íslendinga eftir sem þjóð með blóð á höndum okkar. Við erum farnir að fjármagna vopnakaup sem nota á til að drepa fólk í öðrum löndum. Það er að minni hyggju nýtt skref út í ómennskuna. Slíkt þótti ekki boðlegt fyrir nokkrum árum. Við greiðum oftar en ekki atkvæði á alþjóðavettvangi með skammarlegum hætti !
Verstu áhyggjur þeirra þjóðlegu Íslendinga sem börðust harðast gegn inngöngunni í Nató á sínum tíma, eru nú að raungerast í veruleika. Við erum orðnir beinir hernaðaraðilar. Svívirðingum er hlaðið ofan á svívirðingar. Við erum að glata því sem var okkur mest til gildis sem þjóð, viljanum til að ástunda frið og jákvæð samskipti við allar aðrar þjóðir og umheiminn. Sú hugsjón var sett fram 1918 við upphaf fullveldisins en alveg frá þeim tíma höfum við verið að ganga aftur á bak, frá þeim gildum sem við ákváðum þá að fylgja !
Í fyrstu voru ómennskuskrefin kannski ekki stór, en þau hafa stækkað og stækkað með árunum og nú stöndum við ekki á neinum föstum gildisgrunni lengur, enda virðing okkar ekki lengur sú sem hún var áður í samfélagi þjóðanna. Við eltum þar bara aðra, erum orðin ábyrgðarlaust viðhengi sem þjóð, og siðirnir versna. Og þjóðþingið er sannarlega ekki lengur sú samkunda sem hún var, að mínu áliti, svo þaðan er engrar heilbrigðrar stefnu að vænta lengur fyrir land og þjóð !
Svo hvað eiga Íslendingar að kjósa ? Það er ekki langt síðan mestur hluti þjóðarinnar vildi ekki á nokkurn hátt blanda saman pólitík og forsetakjöri. Nú virðast allmargir frambjóðendur í forseta-kjörinu fyrr á árinu vera komnir í pólitísk framboð. Það hefur greinilega verið boðið í þá suma. Aðrir í þeim hópi virðast hafa fengið óhóflega háar hugmyndir um sjálfa sig og vilja sýnilega sprikla áfram á því falska plani. Þarna má sjá hvernig fjölmiðlaathyglin hefur spillt betri eigindum ákveðinna einstaklinga og trekkt upp egó þeirra svo dómgreind þeirra hefur sjáanlega beðið skaða af !
Ég endurtek því, hvað eiga Íslendingar að kjósa ? Þegar íhaldið missti Brusselsinnað verslunaríhaldið frá sér fyrir nokkrum árum töldu margir það betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og litu svo á að ákveðin hreinsun hefði þó átt sér stað innan flokksins. En nóg var samt óværan eftir. Verslunaríhaldið skipulagði sig svo í framhaldi mála og kom eigin flokki á laggirnar, flokki sem nú virðist vera að skora hátt í skoðanakönnunum, ef eitthvað er að marka þær. En stefnan er sem fyrr á Brussel og Evrópusambandið, hið gjörspillta miðstjórnarbákn álfunnar, sem leitar hungruðum augum eftir nýlendum, í sívaxandi auðlindaleysi sínu !
Óþjóðlegur er flokkurinn, að minni hyggju, þó hann kenni sig við Viðreisn og ekki líst mér betur á formanninn eða forustuna þar yfir höfuð. Eins er með Pírata. Ég sé engan þjóðhagslegan ávinning heldur af þeim flokki á þingi, og tel líka að Vg ætti alveg skilyrðislaust að hverfa af þjóðþinginu eftir sjö ára samfelldan skammarferil. Í því sambandi vil ég benda á pistil minn um Vg 22. október síðastliðinn, en þar er talað afgerandi hreint út um það efni !
Flokkur fólksins virðist vera að verða einhverskonar einræðisflokkur Ingu Sælands og það er ekki góð framvinda ef svo er. Og ef Sósíalistar samtímans ætla að gera út á tiltölulega hreina ímynd gamla Sósíalistaflokksins, verða þeir að taka til í sínum forusturanni. Þar mega ekki vera neinir menn sem hafa spillingarorð á sér eftir áralanga þjónustu við ýmis vafasöm öfl !
En hvað er þá eftir ? Gamalt mynstur sem löngu er orðið úrelt og búið að lifa sig, að minnsta kosti í tvígang. Það er ekkert nýtt og heilbrigt í hinum pólitísku kortum. Svo hvað eiga Íslendingar að kjósa ? Það er nefnilega stórt atriði fyrir kjósendur að eiga pólitískt athvarf, byggt á trausti, til einhvers flokks eða frambjóðanda. En það er nánast að verða liðin tíð að svo sé !
Þá sem sjá ekki forsvaranlegan kost, vil ég samt hvetja til að virða lýðræðið og mæta á kjörstað. Það er þá hægt að skila auðu vegna þess að ekkert sé í boði sem unnt sé að kjósa. Og ég sé ekki fram á annað en að margir séu í þeirri stöðu að geta ekkert kosið af þeirri ástæðu. Vegna þess einfaldlega að fyrir þeim eru engir valkostir í stöðunni eða nokkrir þeir í framboði sem líklegir eru til að auka sæmd lands og þjóðar, úr því sem komið er !
Aumt er að kjósa Alþing hér,
allar varnir bila.
En þegar boðlegt ekkert er,
auðu er best að skila !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook
22.11.2024 | 09:08
Á hið góða að koma með friði frá Bandaríkjunum heimsófriðar valdinum mesta ? !!
Augljóst er að Donald Trump er ekki endilega að leita að hæfum einstaklingum varðandi uppstillinguna á sinni vald-stjórn. Hann er fyrst og fremst að leita að hlýðnum þjónum. Og til hvers ? Við þekkjum dæmin um slíka menn, menn sem krefjast persónulegrar hollustu umfram allt, en ekki endilega hollustu við þjóðina, landið og lýðræðið og þau samfélagslegu gildi sem staðið er fyrir !
Donald Trump er að mínu mati varhugaverður maður og það í fyllsta skilningi. Hann virðist aðeins trúr sínu eigin egói. Fylgismenn hans verða að gangast honum á hönd í einu og öllu. Þeir verða að læra að hlýða Foringjanum. Það er farið fram á skilyrðislausa hlýðni. Sú krafa hefur áður komið fram hjá öðrum Foringja sem vitað er, og sá Foringi leiddi hirð sína, þjóð sína, álfu sína og allan heim inn í svartnætti dauða og tortímingar !
Enginn veit hvað framundan er. Flestir virðast halda að eitthvað gott sé í vændum, en er það svo ? Halda menn að góð atburðarás verði ávöxtur þeirrar illsku sem valdið hefur óheyrilegum átökum milli stóru flokkanna tveggja á Banda-ríkjaþingi og stórskaðað hina upphaflegu lýðræðisarfleifð ríkisins sem aldrei fyrr ? Sjá menn ekki hvað kann að vera í vændum ? Eru menn blindir fyrir því hugsanlega voðavaldi sem er að springa út fyrir augunum á þeim ?
Ég tel að þegar varhugaverðir menn komast til æðstu valda í ríkjum sem eiga að heita lýðræðisríki, þá sé það oftast vegna þess að kjósendur hafi stórlega misskilið þá framvindu sem sett hefur verið í gang og kjósi einhverjar væntingar sem aldrei komi til með að skila sér í raunhæfum veruleika. Slíkar forsendur fyrir þjóðfélagslegri farsæld eru að minni hyggju veikar og vafasamar !
Einu sinni var sagt að spekin vildi meina, að góður leiðtogi yrði sá sem lærði fyrst að þjóna. Ekki er það mitt álit, að þjónustulundin sé áberandi þáttur í eðlis-fari Donalds Trumps. Honum virðist miklu eðlislægra að skipa fyrir og láta aðra þjóna sér, eins og kóngar fyrri tíma gerðu. Framganga hans líkist miklu frekar slíkum einvaldskóngum frá gamalli tíð, en lýðræðislega kjörnum valdamanni nú til dags, sem á að styðjast við löggjafarþing og ærlegt dómsvald, og beita völdum sínum í hvívetna í þágu þjóðarheilla. Og Trump er að minni hyggju ekki maður þjóðarheilla heldur vill hann vera maður eigin heilla !
Framgangur hans mun vera í hans huga það sem öllu máli skiptir og það mun að öllum líkindum sýna sig æ meir í komandi tíma. Síðasta mannsaldurinn hafa Bandaríkin því miður staðið fyrir mestum ófriði allra ríkja í þessum heimi. Þau hafa leikið mörg ríki svo illa, að þar hafa milljónir manna sem bjuggu við skapleg kjör, hlotið alveg hræðilega útreið og verður þar málum seint snúið til betri vegar. Þeir glæpir sem búa að baki þeirri hroðalegu meðferð á saklausu fólki sem þar talar, hljóta að hrópa til himins hvern dag, og það ákall hlýtur að verða í fyllingu tímans heyrt af Almættinu og mun þá skila þeirri hefnd sem verðug er !
Það getur engin blessun fylgt Banda-ríkjunum lengur. Þau hafa fyllt bikar brota sinna og misgerða og Donald Trump mun ekki megna að bæta þar úr neinu. Seint munu menn af slíku tagi verða fulltrúar Almættisins hér á jörð. Til þess er hrokinn í þeim allt of augljós og þannig algjör hindrun þess að þeir geti gengið góðra erinda um þessa jörð. Það mun sanna sig að vera bæði víst og satt !
Þar að auki eru Bandaríkin sem ríkja-samband þegar á niðurleið og bíða sinna örlaga. Það getur varla verið langt í þann dóm. Það getur ekki verið nein spurning eftir það sem á undan er gengið. Hitt er líklega miklu frekar spurning hve stór hluti af heiminum hugsar sér að fara niður með Bandaríkjunum þegar að því kemur ?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook
19.11.2024 | 13:01
Arfleifð Francos !
Óeirðir og mótmæli á Spáni nýverið vegna flóðanna í Valencia, og reiði almennings þar yfir ábyrgðarleysi og sofandahætti ráðamanna sem hefur kostað ófá mannslífin, leiða hugann að því hversvegna Spánn er konungsríki en ekki lýðveldi. Það væri kannski rétt að skoða það mál og átta sig á því hvað það getur verið erfitt að leiða mál í réttan lýðræðislegan farveg, eftir langtíma villuför á fasistaslóðum og óþjóðleg skemmdarverk vondra leiðtoga ?
Það er skemmst frá því að segja, að fasistaleiðtoginn Francisco Franco hers-höfðingi komst til valda á Spáni í borgarastyrjöldinni 1936-1939, aðallega fyrir tilverknað Hitlers og Mussolinis og hernaðarstuðning þeirra, og jafnframt fyrir dulbúinn stuðning breskra og franskra stjórnvalda þess tíma. Það ferli á mestan þátt í því að Spánn er konungsríki enn í dag og forsagan að því er bæði skítug og skuggaleg !
Lýðveldisstjórnin á Spáni sem var löglega kjörin stjórn annars spænska lýðveldisins, fékk engan frið til starfa fyrir uppreisnargjörnum auðvaldsöflum, heima fyrir og ekki síst erlendis. Einkum urðu svik Breta og Frakka afdrifarík í þeim pólitíska hráskinnaleik. Fasistaríkjunum Þýskalandi og Ítalíu var algerlega gefinn laus taumur til að drýgja stöðu auðvalds og fasisma í Evrópu. Þjóðabandalagið gerði ekki neitt að gagni enda jafnónýtt tæki og SÞ nú á dögum. Stórbankavaldið sem stóð að því ,,hlutleysi sem Bretar og Frakkar þóttust sýna, var nákvæmlega það sama sem hafði komið Hitler til valda !
Raunverulega áttu þeir Hitler (Der Fuhrer), Mussolini (Il Duce), og Franco (El Caudillo), að verða að voldugu þríeyki í Evrópu og þjóna þar alfarið auðvalds-öflunum. Sem það þríeyki áttu þeir að sjá til þess að hin rísandi rauða hætta truflaði ekki arðránsspil auðvaldsins um alla jörð. Það var hið ætlaða undir-heimaplan. Jafnvel Íslendingar vita hvað það kann að vera áhyggjulítið og þægilegt fyrir ráðamenn, að fela einhverju þríeyki öll völd í hendur á einhverjum stór-blekkjandi forsendum farsótta eða fjár-hagslegra glæpa !
En lýðveldisstjórnin spænska þraukaði hinsvegar töluvert lengur en fjendur hennar bjuggust við, því til liðs við hana komu ýmsar sveitir hugsjónaríkra manna víða að. Meira að segja þrír, að mig minnir, frá Íslandi. Það hefur líklega munað um þá. Þessi liðsauki dró meðal annars styrjöldina á langinn og skekkti þar með ætlaða sigurútkomu. Svo þegar átökum linnti loks, þessum grimmilega aðdraganda að seinni heimsstyrjöldinni, var Spánn nánast í rústum og efnahags-lega niðurbrotinn !
Franco var því enganveginn fær um að endurgjalda hinum einræðisherrunum hjálpina þó feginn vildi. Hann sendi þó fjölmenna herdeild til liðs við Hitlers-herina þegar þeir hófu innrásina í Sovétríkin, en litlar sögur fara samt af afrekum spænsku fasistanna í Bláu herdeildinni á austurvígstöðvunum !
En það voru vissulega þeir Hitler og Mussolini sem komu Franco að langmestu leyti til valda með beinni hernaðaraðstoð og blóðugum hryðjuverkum gegn spænsku þjóðinni og því má aldrei gleyma. Sú glæpasaga hefur aldrei verið gerð upp. Valdaöfl á Vesturlöndum hafa alltaf séð til þess og varið arfleifð Francos. Það var hinsvegar staðreynd, að mikill meirihluti spænsku þjóðarinnar vildi ekkert með þann ofbeldismann hafa !
Það má raunar heita alveg furðulegt að fasistavaldhafi sem átti völd sín algerlega Hitler og Mussolini að þakka, skyldi geta setið að völdum óáreittur allar götur til dauðadags 1975. En svörin við því hafa aldrei verið gefin upp og hafa alltaf legið í þagnargildi hjá vestrænum valdhöfum og verða það víst áfram. En Franco átti sína verndara þó Hitler og Mussolini væru horfnir. Það felst margt í vestrænum ,,lýðræðisríkjum" sem þolir ekki ljós. Fasistaóværunni var aldrei útrýmt í Vestur Evrópu 1945, hún átti að fá að vaxa og dafna fyrir seinni tíma !
Síðar var líka hið komandi Natóvald verndarhlíf Francos til fleiri ára, þó formleg innganga Spánar í árásar-bandalagið alræmda drægist fram yfir dauða hans. Það varð svo að vera, því það þótti nefnilega dálítið pínlegt að hafa El Caudillo þar við valdaborðið í ljósi óhreinnar fortíðar hans. Skyldi annars einhver finnast með hreina fortíð við það borð ?
En Franco var samt af ríkum samkenndar-ástæðum sinna líka, alltaf býsna vel haldinn í vaxandi vinahópi sínum innan Nató, svona á bak við tjöldin, uns hann fór á sinn endanlega dvalarstað í nóvember 1975, þar sem hann hefði í raun helst átt að hafna - að minnsta kosti fjörutíu árum fyrr !
Það er svo sem þarflaust að rekja þessa sögu frekar. Fasistaþríeykið varð sem betur fer aldrei að veruleika, og loks urðu ríki þau sem byggðu hin fasistaríkin fjárhagslega upp, að neyðast til að taka þátt í að kveða þau niður. Þau voru alveg hætt að láta að stjórn þeirra sem leiddu þau á legg, enda stjórnlaus sjálf og orðin öllum heimi hættuleg. Þannig fer stundum, að þrautskipulögð framvinda glæfrabragða fer í handaskolum og breytist í andstæðu sína, ekki síst vegna sálarlegra innanmeina þeirra sem þar eiga í hlut !
En spænska konungdæmið er klárlega arfleifð Francos. Hefðu Spánverjar tekið upp lýðveldisfyrirkomulag eftir dauða einræðisherrans alræmda, hefði það verið eins og að snúa aftur til stjórnarhátta fyrir borgarastríð, áður en fasisminn spillti öllu stjórnkerfi Spánar og afnam lýðræðið. Það kom náttúrulega ekki til mála og þessvegna var úrelt toppfígúru-kerfi sett upp, andstæða lýðræðislegra stjórnarhátta. Það hugnaðist hinni fasis-tísku valdaelítu öllu betur og konungur var þannig settur á koppinn !
Vesturlönd hafa ekkert út á fasisma að setja, svo framarlega sem hann er þeim hlýðinn og undirgefinn. Það sást lengi vel á Spáni og það sést nú í Úkraínu. Vestræn ríki dansa þar í kringum umboðslausan forseta, sem hefur aflagt allar kosningar og allt lýðræði. En það er sýnilega allt í lagi hvað það snertir, meðan viðkomandi valdhafi er Vesturlöndum hlýðinn og fórnar þjóð sinni miskunnarlaust á altari auðvaldsafla í tilgangslausu og óvinnan-legu stríði við Rússa. En eftirmæli þess ömurlega valdhafa munu að öllum líkindum síðar, í ljósi sögulegra staðreynda, verða hliðstæð eftirmælum Francos, og þar er sannarlega leiðum að líkjast !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 26
- Sl. sólarhring: 75
- Sl. viku: 595
- Frá upphafi: 365493
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 508
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)