Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland í stórveldaslagnum !

 

 

 

Íslensk yfirvöld sýnast hafa mikla tilhneigingu til að burðast með býsna stóran hluta af samvisku heimsins, þó að heimurinn virðist raunar að mestu leyti samviskulaus. Ef allar þjóðir væru jafn íhlutunarsamar og yfirmáta afskiptasamar og íslenska örþjóðin, væri ástand heimsmála trúlega mun verra en það er, og er það þó enganveginn gott !

 

Íslensk stjórnvöld virðast nánast hafa gert það að venju sinni að taka þátt í deilumálum stórvelda heimsins með þeim hætti sem ráðamenn engrar annarrar smáþjóðar myndu láta sér detta í hug að gera og kysu þess í stað að forðast allt slíkt sem heitan eldinn. Af hverju skyldi sú afskiptasemi vera orðin svo glórulaus sem raun ber vitni og hreint út sagt hættuleg fyrir okkar litlu þjóð ?

 

Það er alltaf afar vont ástand sem getur skapast þegar minnimáttarkennd snýst upp í stórmennskubrjálæði, en það getur til dæmis gerst þegar 300.000 manna þjóð lætur eins og hún sé í það minnsta 100 milljónir og auk þess geysilega áhrifarík um allar jarðir. Þá getur fram-kvæmdavaldið slitnað úr öllum tengslum við heilbrigða og eðlilega dómgreind, og það af staurblindu ofstæki, þjóðþingið orðið eins og rómverska öldungadeildin á keisaratímanum, talandi um allt en engu ráðandi, og sjálfur dómstólavirðuleikinn glatast í skúffuðum veruleika eigin pappírsflóðs !

 

Slíkt ástand kallar ekki á neitt sem kann góðri lukku að stýra, enda fáránlegt af örþjóð að máta sig við eitthvað sem er margfalt stærra vandamál og viðfangsefni en hún gæti nokkurntíma ráðið við, hvernig sem að málum væri staðið. En það er líklega gert í trausti þess að okkur verði alltaf bjargað frá afleiðingum gerða okkar í nafni Bandaríkjanna og Nató !

 

En það er löngu kominn tími til þess að við förum að hegða okkur í réttu samræmi við það sem við erum, nefnilega örþjóð - sem á allt sitt undir því að friður ríki milli þjóða í þessum heimi. Af hverju berjumst við ekki heilshugar fyrir því á alþjóðavettvangi sem þjónar best hagsmunum okkar sem friðelskandi þjóðar ?

 

Margt virðist því miður benda til þess að stór hluti íslenska þjóðþingsins hafi meiri vilja til að þjóna erlendum hagsmunum en beinum íslenskum þjóðar-hagsmunum og vilji helst koma forræði lands og þjóðar út fyrir íslenska lögsögu og telji því best borgið þar. Staða okkar og sjálfstæðis okkar, í fullum þjóðlegum skilningi, hlýtur að teljast hrikaleg, ef svo er. En vonandi er staðan ekki svo svört og vonlaus þó margt sé í vondu fari !

 

En þingið virðist þannig saman sett, að ég sem Íslendingur finn ekki til nokkurs málefnalegs skyldleika við fulltrúa þá sem þar sitja og mér finnst það vont. Ég væri feginn ef ég gæti treyst forustuliði lands míns til að gæta hagsmuna þjóðar minnar, til dæmis gagnvart erlendri ásælni og erlendri stýringu, en mér er lifandis ómögulegt að bera traust til þess og þar við situr. Enda skilaði ég auðu við síðustu kosningar og gat ekki annað !

 

17. júní er tilbúinn þjóðhátíðardagur Íslands, ákveðinn í virðingarskyni við Jón Sigurðsson sem fæddist þann dag árið 1811. Vitað er samt, að mjög margt fólk lét aldrei af tryggð sinni við 1. desember, fullveldisdaginn okkar. Ég á sjálfur mjög fagrar og þjóðlegar minningar um fólk sem var ungt þegar það fagnaði fullveldi landsins og heiðraði 1. desember alla ævi. Ég held að íslenska þjóðin hafi hugsanlega aldrei verið íslenskari í sér en einmitt fyrstu árin eftir 1918. Skyldum við nokkurntíma geta orðið slík aftur hvað manndómsgetu varðar ?

 

 


Það er aldrei sjálfgefið að rata réttan veg !

 

 

Hvað er íslenskur þjóðvarnarflokkur eins og Flokkur fólksins að gera í ríkis-stjórnarsamstarfi með tveimur flokkum sem einblína á inngöngu í ESB ? Eða er Flokkur fólksins kannski ekki neinn þjóð-varnarflokkur ? Seldi hann sig kannski bara fyrir slikk ?

 

Var rótin að aðförinni að Ásthildi Lóu Þórsdóttur kannski upphugsuð í samstarfs-flokkunum, til að losna við manneskju úr forustu Flokks fólksins sem líkleg þótti til að verða erfið í komandi samstarfi, fyrir óþjóðlegu samstarfsöflin ?

 

Það mál var allt ákaflega gruggugt og líklega leyst með fyrirfram pantaðri lausn. En lausnin sú er öllum þeim til skammar sem virðast hafa keyrt hana í gegn. Þar voru Skottur og Mórar á ferð og óhreinleiki í allri málsmeðferð. Manneskja virðist þar í pólitískum skilningi hafa verið tekin af lífi af áhrifaöflum utan eigin flokks. Flokkur fólksins var þannig skorinn niður að áhrifum og hefur síðan bara virtst vera hækja ESB-flokkanna, sem munu halda áfram að eyðileggja hann og önnur hagsmunamál þjóðarinnar !

 

Það virðist sem forusta Flokks fólksins sé enganveginn að standa undir væntingum, en þær gengu út á það að flokkurinn yrði eitthvað meira en hækja. Það er nú skoðun fjölmargra landsmanna að formenn ESB flokkanna séu hættulegustu manneskjurnar í íslenskri pólitík, með hliðsjón af varðveislu sjálfstæðis og þjóðlegs frelsis Íslands. Þjóðvarnarleg staða okkar versnar sífellt vegna stöðugrar aukningar í fjárkröfum til íslenska ríkisins erlendis frá, ekki síst frá Nató, vegna áætlana um stóraukinn herkostnað með nýju vígbúnaðar-kapphlaupi og tilheyrandi mannkynsógæfu !

 

Bandaríkin virðast vera að nálgast 37 trilljónir í ríkisskuldum og Trump er ekki að skilja ástandið í hroka sínum og einæði. Og raunar er fjárhagsleg staða bandaríska ríkisins miklu verri en sem þessari tölu nemur. Sumir fyrri fylgismenn Trumps eru að falla frá honum vegna þess að þeir skilja ekki lengur á hvaða siglingu hann er !

 

Hann treður illsakir við áratugagömul fylgiríki Bandaríkjanna og segir ESB að það verði að standa undir herkostnaði í Evrópu, því það sé ekkert réttlæti í því að Bandaríkin borgi allt. Það má vera að það sé punktur í þeirri umsögn, en Bandaríkin hafa samt afar sjaldan síðustu 100 árin, átt samleið með réttlætinu og raunar spillt því víða í veröld okkar með óheyrilegum afleiðingum !

 

Staðreyndin er sú að Bandaríkin hafa ekki lengur þá burði sem þau höfðu. Þau eru orðin stórskuldug og meðal lánardrottna þeirra eru ríki sem þau eru enn að fjandskapast við. Hernaðarlega geta þau enn stórskaðað heiminn, en efnahagslegur styrkur þeirra er hættur að vaxa, ekki síst vegna þess að hvergi er tekið skynsamlega á málum !

 

Skuldirnar vaxa bara, því bandarísk yfirvöld neita að horfast í augu við gjörbreytta stöðu og þar er forsetinn fremstur í flokki. Öll fylgiríkin eru meira og minna á tauginni og skriðdýrseðli þeirra kemur æ betur í ljós þegar þau fara að skilja að Bandaríkin geta ekki lengur verið þeim sú vörn sem þau voru !

 

Öll heimssagan vitnar blákalt um það, að stórveldi koma og fara. Þau halda ekki sinni stöðu til lengdar. Bandaríkin eru sjáanlega að fara sömu leiðina og Sovét-ríkin. Háveldisstaða þeirra er senn á enda. Þau fögnuðu mikið 1991 þegar sovéska ríkjasambandið var leyst upp og fóru í framhaldinu að tala niður til Rússa í hroka sínum og yfirlæti !

 

En nú eru þau sjálf á niðurleið með allt sitt miðstýrða fargan og líkast til kominn tími til. Nú er sýnilega og sannarlega farið að fjara undan þeim. Rússland hefur þó burði til að taka við hlutverki Sovét-ríkjanna þar sem rússnesk þjóð er þar sem fyrr til staðar, en hvar er bandaríska þjóðin ?

 

Það er engin slík þjóð til. Í Bandaríkjunum er bara til fjölþjóðasúpa sem á ekkert sameiginlegt nema fána. Samkrull fjölmenningar án sameiginlegra þjóðlegra róta byrjaði feril sinn þar. Það fær hvergi staðist og mun tortímast af sjálfu sér. Bandaríkin sýna nú þegar augljós hnignunarmerki og eiga sér ekki viðreisnar von. Evrópusambandið mun svo fara sömu dauðaleiðina. Sú framvinda er algjörlega óhjákvæmileg og bara spurning um tíma !

 

Miðstýrð stórveldi eru úrelt fyrirbæri í dag og hljóta að víkja. Fólk af sömu rótum, sem getur myndað þjóðlega heild og á örugga samleið, mun finna sér lausnar-leið út úr hrærigrautnum, út úr fjöl-menningarsúpu vitleysunnar. En undirstaðan verður að vera byggð á sameiginlegum, þjóðlegum grunni, annars á fólk engan-veginn samleið og friðurinn er úti !

 

Það er alls staðar hægt að byggja upp þjóðvarnarsinnaða flokka, en að halda þeim við efnið er annað mál. Þá reynir fyrst á forustuna. Er hún starfi sínu vaxin og hlutverki sínu trú ? Flokkar fólksins verða að halda áfram að fylgja stefnu sinni þegar þeir komast til valda. Þeir eiga ekki að velta sér í völdunum í villtri sjálfumgleði – eins og hinir. Reynist þeir ekki betri og sannari grotna þeir niður, spillast og fara til fjandans. Og um leið er allt fylgi þeirra farið sömu leið !

 

Flokkur fólksins á Íslandi á ekki og má ekki verða að nytsömum sakleysingja eða spilltu meðhaldsafli í vondum félagsskap. Hann verður að halda tryggð við sína þjóð og þjóðvarnarleg stefnumið sín, öfugt við þá flokka sem nú eru að leiða hann afvega, inn á þokuvegi þjóðleysunnar. Geri hann það ekki, verður hann brátt búinn að vera sem pólitískt afl og hefði þá líkast til betur aldrei orðið til !


,,Farinn af hjörunum !“

 

 

Gavin Newson ríkisstjóri í Kaliforníu hefur sagst ætla að höfða mál gegn Trump forseta og alríkisstjórninni í Washington, þar sem ekkert samráð hafi verið haft við hann og yfirvöld í Kaliforníu um sendingu herliðs til Los Angeles vegna óeirðanna sem urðu nýlega í borginni. Newson ríkisstjóri hefur látið hafa eftir sér, að Trump sé farinn af hjörunum og það eru nokkuð sterk orð um forsetann !

 

En það er svo sem ekkert nýtt, að Donald Trump geri hluti sem stangast á við lög og rétt að margra mati, en þarna kemur upp mál sem viðkemur upprunalegu vandamáli innan ríkjabandalagsins, vandamáli sem hefur í raun aldrei hefur verið leyst. Það er hvernig valdahlutföll eigi og þurfi að vera milli einstakra ríkja og mið-stjórnarinnar eða alríkisins í Washington. Þetta vandamál skapaðist strax á stofnunarárum ríkjabandalagsins og svo traðkaði alríkið niður vald ríkjanna með ofbeldishætti eftir að Norðurríkin sigruðu í borgarastríðinu !

 

Styrjöldin var að stórum hluta afleiðing þess ágreinings sem var í gangi um valdahlutföllin, hún leysti hann heldur ekki og erfitt er að skilja hvað alríkisstjórnin gekk langt í því að kúga Suðurríkjamenn eftir að átökum linnti. En það var gert með 12 ára grimmum hervalds-yfirgangi og mikilli kúgun, alveg þangað til Rutherford B. Hayes forseti sá þörfina á því að draga úr andstyggðinni sem svo lengi hafði eitrað þjóðlífið og aflétti hernáminu af Suðurríkjunum 1877 !

 

Þó Hayes yrði forseti með afar veiku umboði af sérstökum ástæðum, varð hann farsæll í starfi sínu sem slíkur, enda var hann óumdeilanlega mannkostamaður. Saga þess tíma sem hér um ræðir hefur samt aldrei verið rakin til hlítar eða gerð sómasamlega upp, en þar er ekki við Hayes að sakast. Mörgu misjöfnu hafði bara verið sópað undir valdateppi alríkisstjórnvaldanna á þessum tíma, líklega af hefndarástæðum, og þar hefur býsna margt ljótt legið allar götur síðan, í glæpsamlegu þagnarvíti, og réttlætið verður líklega seint látið fjalla um þau mál ef að líkum lætur !

 

Washingtonvaldið hefur alla tíð haldið sjálfstæði ríkjanna sem mest niðri og lengstum hefur naumast nokkur ríkisstjóri þorað að anda á móti því, nema kannski Gavin Newson verði til þess núna, enda hefur Kalifornía kannski mestu burðina til þess berjast fyrir auknu valdi einstakra ríkja. En líklega verður sú andstaða kveðin snarlega niður bak við tjöldin, því Washingtonvaldið í Bandaríkjunum er algerlega sambærilegt við Moskvuvaldið í Rússlandi og Brusselvaldið í Vestur-Evrópu. Miðstjórnarvald er nefnilega alls staðar ágengt og yfirgangssamt klíkukerfi gagnvart almennu mannfrelsi og gerir yfirleitt allt verra !

 

En Donald Trump er í sjálfu sér ekki farinn af hjörunum, því hann hefur aldrei verið á neinum hjörum. Hugsanasveiflur hans eru fyrst og fremst sjálfskapaðar og lúta engum kerfisboðum neins stjórn-skipunarvalds. Trump er sérgæskusinni frá toppi að tá og út í alla fingurgóma. Sennilega hefur enginn forseti Banda-ríkjanna verið honum skæðari í þeim efnum. Allir hafa þeir líklega snúist á einhverjum hjörum, nema Trump !

 

Trump snýst bara um sjálfan sig og öll mál verða að snúast um mikilleika hans, annars er allt hundleiðinlegt. Jafnvel Elon Musk var orðinn leiðinlegur í hugsun Trumps vegna þess að hann er líka dálítið mikið fyrir það að hlutirnir snúist um hann. Trump og Musk áttu því ekki frekar saman en Björgólfur Thor og Robert Wessmann. Það geta ekki verið tveir kóngar í sama ríki !

 

En miðstjórnarkúgun Washingtonvaldsins stendur enn sem fyrr Bandaríkjunum fyrir lýðræðislegum þrifum, eins og það hefur alla tíð gert og menn eins og Donald Trump eru vægast sagt manna ólíklegastir til að verða styrkar stoðir fyrir lýðræðið í eigin landi, hvað þá lýðræðið í heiminum. Sú óþægilega staðreynd virðist satt að segja stöðugt vera að opnast betur fyrir skilningi fólks, jafnt heima fyrir sem erlendis – og líklega um allan heim !

 

Það leiðir vafalítið til þess, að sífellt fleiri spyrja sig þeirrar spurningar, hvort Bandaríkin sjálf séu bara ekki að fara af hjörunum, eftir alla þá gífurlegu valdamisnotkun sem þar hefur átt sér stað af hálfu stjórnvalda, og það í stöðugt meiri mæli hin síðari ár. Þar virðast flestar hjarir farnar að gefa sig, enda þarf enginn að undrast það !


,,Að frægja land og þjóð ?“

 

 

Íslenskan er fallegt mál og það segja það miklu fleiri en Íslendingar einir. En það er hægt að spilla tungumálum og fegurð þeirra með ýmsum hætti. Og það er líka víða gert, bæði hérlendis og erlendis. Í orði kveðnu er þó ýmislegt gert af opinberri hálfu til að hlynna að íslensku máli, en oft er þó eins og lítill hugur fylgi þar máli. Hugarfar sem helgast líklega af gróðavímu græðgismála vinnur líklega helst þar á móti. Og spyrja má - hvað vinnst við það, að helga einn dag málstað íslenskrar tungu þegar hinir 364 dagarnir eru notaðir til að spilla henni ?

 

Við höfum lesið um menn frá öðrum löndum, meðal annars frá Armeníu og frá Ítalíu, sem hafa orðið svo hrifnir af íslensku, að þeir hafa lært hana af eigin dáð og jafnvel svo vel að þeir hafa öðlast meiri og betri þekkingu á málinu en nokkur meðal Íslendingur. Og sjálfur Kristján Rask sem kunni skil á fjölda tungumála, sagði íslenskuna vera mikinn fjársjóð. En hvernig skyldi nú umgengni okkar við þennan fjársjóð okkar vera – í raun ?

 

Þegar ég var að alast upp, virtist alþjóð gjarnan setja sama sem merki milli íþróttamanna, drengskapar og þjóðlegheita. En sú samsvörun er líklega löngu liðin tíð. Íþróttamenn og kannski einkum þeir sem stunda boltaíþróttir og í framhaldi atvinnumennsku á því sviði, virðast til dæmis langt frá því að tala góða íslensku. Það er ekki tekið svo viðtal við slíka menn í íslenskum fjölmiðlum að þeir noti ekki meira og minna útlend orð yfir þetta og hitt. Líklega vilja þeir sýna að þeir séu atvinnumenn og hafi árum saman spilað erlendis, en þurfa þeir að vera minni Íslendingar fyrir það ?

 

Ein meginforsenda íþróttamennskunnar og afreka í þeim efnum er sögð vera að með því sé verið að frægja land og þjóð. En varla er stefnt að slíku marki af þeim sem virðast ekki eiga nein orð á íslensku, á sínu eigin máli, yfir það sem þeir vilja segja. Þar eru þjóðlegheitin orðin undarlega bjöguð og íþróttamennskan nokkuð afkáraleg í eðlilegu íslensku samhengi. Geta íslenskir íþróttamenn ekki lengur keppt erlendis öðruvísi en með því að afklæðast íslenskum persónuleika um leið, að meira eða minna leyti ?

 

Flestu hugsandi fólki er orðið það ljóst að íþróttir, ekki síst boltaíþróttir, snúast ekki lengur um heilbrigða sál í hraustum líkama. Þær snúast um peninga, efnahagslegan ávinning og ríkidæmi. Það er ekkert annað sem þjónar þar hinum fyllsta tilgangi. Draumurinn er að verða ríkur og frægur. Það virðist með öðrum orðum vera búið að einkavæða íþróttamennskuna í þágu stórkapítalískra sjónarmiða auðhyggjunnar og einstaklingsgróðans. Peningapólitíkin vakir þar sýnilega yfir öllum vötnum !

 

Ætlaðir afreksmenn okkar í íþróttum eru ekki lengur neinir fulltrúar okkar á sama hátt og þeir voru almennt taldir vera um 1950. Þeir virðast heldur ekki vera neinir sérstakir þjóðvarnarmenn íslenskrar tungu eða íslenskrar menningar, þó þeir hafi kannski verið taldir það hér áður fyrr. Þeir eru líklega flestir hverjir miklu frekar uppteknir af því að verða auðmenn, og það vantar ekki, að það er kynt undir þeirri afstöðu með öllum hugsanlegum innspýtingarkrafti, allrar nútíma fjöl-miðlunar, jafnt hérlendis sem erlendis !

 

Og við slíkar aðstæður þykir mönnum sennilega ekkert að því að sletta ensku í öðru hverju orði. Það sýnir bara hvað þeir eru orðnir miklir heimsborgarar, blessaðir strákarnir okkar eða stelpurnar okkar, því allt stefnir þetta sömu leið. Íþróttir nútímans hafa því miður verið leiddar afvega á græðgislegum peningalegum forsendum, og hugarfar manna innan íþróttahreyfingarinnar er áreiðanlega ekki í því fari sem það var á svonefndum gullaldartímum íþróttanna um 1950 !

 

Og ef afreksmenn okkar í boltaleikjum erlendis glata hæfileika sínum til að kunna að tjá sig á íslensku, þjóðtungunni okkar, þá mega þeir lengi reyna að drýgja dáðir í íþrótt sinni, svo þau meintu afrek geti jafnað upp það þjóðlega tap sem liggur fyrir, ef þeir geta ekki lengur talað eigið mál sem hreinir og beinir Íslendingar. Eða er staðan virkilega að verða slík í raun, að við getum ekki lengur varið neitt af því sem gerði okkur fyrir ekki svo ýkja löngu, að sæmilega virðingarverðri þjóð meðal þjóða ?

 

 


Seinni skólaspekin verður að falla !

 

 

 

Og af hverju gæti margur spurt? Vegna þess að hún virkar lamandi sem hin fyrri og stendur heilbrigðum og sönnum framförum fyrir þrifum. Skólaspekin er í dag orðin jafn eitruð og rotin og sú fyrri var orðin, þegar hún var felld af frjálsari og betri hugsun. En sú seinni sem enn ríkir í hroka sínum og mikillæti, þarf líka að falla því hún boðar enga nýja hugsun og þaðan af síður frjálsari og mannlegri hugsun, því þeir sem ráða í mygluðum háskólaköstulum hennar eru að mestu orðnir úrkynjaðir og afdankaðir fræðingar á fúla vísu afturhalds og einræðishyggju !

 

Menntalýður seinni skólaspekinnar varð hinn nýi þjóðfélagsaðall þegar kom fram á tuttugustu öldina og síst betri en sá gamli var. Þar var sami hrokinn, sjálfselskan, egóið í hágír og virðingarleysið fyrir allri heilbrigðri mennsku. Ytri klæði, skikkjur og skrauthúfur áttu sem fyrr að vera til uppfyllingar í eyður verðleikanna. Hégóminn fékk strax að ráða ríkjum, þar sem útvaldir vitringar samfélagsins áttu að veita heilbrigða leiðsögn til framtíðar ! Prófessorar nýju skólaspekinnar tóku hin andlegu völd og urðu fljótt jafn spilltir og fyrirrennarar þeirra höfðu í verið í gamla tímanum. Musteri Mammons urðu að þeirra höfuðvígjum !

 

Með tilkomu nýrrar upplýsingatækni er í raun hverjum manni boðið upp á þann möguleika að mennta sig sjálfur. Gamla skólaskipanin er orðin úrelt að mestu, en heldur fastast um það steingerða og myglaða valdakerfi sem varð til í kringum hana. Óteljandi vanmetasauðir hafa hreiðrað þar um sig í gegnum árin, hlaðið um sig hrokavígjum, gengið um torg með yfirgengilegu sjálfselskudrambi og haldið að þeir héldu á sjálfum hnettinum eins og Atlas og allt stæði og félli með þeim !

 

Í raunmynd hefur þetta hyski verið að mestu liðónýtt, ekki síst síðustu áratugina, og verið einar verstu afæturnar í öllu þjóðhagslegu tilliti í hverju samfélagi, með botnlausu mikillæti sínu og takmarkalausri sjálfsupphafningu. Það er löngu kominn tími til að skipta þessum auðnuleysingum út og fá í staðinn fólk sem vinnur fyrir kaupinu sínu, á grundvelli raunverulegrar hæfni !

 

Það er sama hvað svona inngróinn ómerkilegheitalýður hefur kallað sig með gráðum og gerviblómum, því mörg geta nöfnin verið, en af ávöxtunum þekkist þetta lið. Það byggir ekkert upp en vill bara fá að njóta velsældar í öllu og þykist eitt geta vísað öðrum veginn til góðra og gagnlegra lífshátta, en það er fjarri öllum réttum viðmiðum og sannleika !

 

Þarna getur verið um að ræða ójafnaðaralikálfa íhaldsins, sjálfs-eyðingarsinnaðar væflur vinstri grænna, athyglissjúkar upphlaupsbullur pírata ásamt úrkynjuðum og valdasjúkum hlaupaliðseiningum úr öllum spillingar-flokkum landsins. Í stuttu máli sagt, þá sem tilheyra lágkúruklíku allrar aumustu umræðunnar á tilvistarlegu hallærisplani þjóðlífsins. En þetta stórruglaða samansafn, telur sig samt líklega vera hina einu sönnu frelsisboðendur hámennta og framtíðarfarsældar á Íslandi - þvert á allan veruleika !

 

Það sem gildir í smáu og stóru í mann-lífinu, er að menn haldi frelsi sínu, frelsi til að hugsa og vera sjálfstæðir persónuleikar, frelsi til að taka eigin ákvarðanir og mennta sig sjálfir. Öll skólakerfi leiðast út í það að ráðskast með fólk og frelsi þess. Allt mannfrelsi verður smám saman fjötrað í glórulausan rétttrúnað sem hleður undir fylgjendur sína en úthýsir þeim smám saman sem ekki hlýðnast toppliðinu !

 

Menntasnobbið sem tók við af aðalsdekri fyrri tíma er jafnvel ógeðslegra en það var. Baráttufólk kommúnista og sósíalista á árum áður, sem barðist hér harðast fyrir því að réttur almennings til menntunar yrði frjáls og viðurkenndur, upplifði það áður en það lokaði augunum í hinsta sinn, að barnabörnin þeirra gátu farið í langskólanám. En þá fyrst fór hrollvekja veruleikans að blasa við !

 

Barnabörnin gengu nefnilega, eins og lömb leidd til slátrunar, í gegnum pólitíska innrætingu kerfisins og síðan enduðu þau 80% hjá íhaldinu, sérgæskuaðli Íslands, og snerust gegn flestu af því sem afar þeirra og ömmur höfðu barist fyrir – meðal annars í þeirra þágu. Til hvers var eiginlega barist, þegar fjandinn fékk þannig að hirða allt að lokum, í nafni sérgæskunnar ?

 

Menntun einstaklinga verður að fá að vera frjáls, svo þeir verði ekki lagðir kviknaktir á glóðarteina auðvaldsins og eyðilagðir sem samfélagsuppbyggilegar persónur, en manndómsmorð af slíku tagi eru býsna algeng þar sem dollarinn og evran hafa öll hin pólitísku völd og ekkert sjálfstæði fær að dafna við þjóðréttarlegar aðstæður. Mammon ríkir að fullu, í krafti spillingarvalds síns, yfir íslenska ríkis-kerfinu !

 

Framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald virðist nú í það heila talið, vera alfarið að glata virðingu þjóðarinnar. Og það er ekki síst vegna spillingar og sérgæsku langskólaliðs sem virðist ekki einu sinni vita eða hafa hugmynd um það - að menntunarlegt manndómsleysi þess, gegnum steindauða skólaspeki, er að ganga af öllum íslenskum atgervisanda dauðum. Mesta manndóminn er alltaf að finna meðal alþýðunnar. Alikálfar ávaxta ekki manndóm !

 


Að fjötra sig klikkuðum klúbbi !

 

 

Það mun hafa verið um 2014 sem John McCain þingmaður lét þau orð falla á gólfi bandarísku öldungadeildarinnar, að Rússland væri nú bara eins og meðal bensínsjoppa, dulbúin sem þjóðríki og fleiri öldungadeildarþingmenn Repúblikana tóku undir það. McCain sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af Rússlandi til lengri tíma litið. Hverskonar áhyggjur hefði hann svo sem þurft að hafa af því landi eða öðrum löndum í heiminum ?

 

Líklega hefði það nú verið afkoma bandarísku heimsveldisstefnunnar, sem var honum svo kær, sem hann hefði þá haft áhyggjur af. En nei, John McCain hafði ekki áhyggjur af þessari bensínsjoppu. Og hliðstæðar yfirlýsingar, fullar af hroka og heimskulegu yfirlæti, komu frá bandarískum valdamönnum um það leyti, allt upp í þáverandi forseta. Þvílíkir ráðamenn og þvílíkur málflutningur !

 

En lítilsvirðingarorð þeirra um Rússland stóðust enganveginn. Og eftir mestu efnahagsárásir sem nokkurt ríki hefur orðið að þola, virðist Rússland vera að ná vopnum sínum aftur og vaxandi styrk. Bandaríkin, Nató, ESB og öll Vestur-Evrópa, allt þetta batterí, hefur ausið peningum og vopnum linnulaust í fasistastjórnina í Úkraínu á undanförnum árum, en ekkert hefur dugað til að rústa þessari, að þeirra hyggju, aumu bensínsjoppu !

 

John McCain er dauður fyrir 7 árum, þó hann úthúði kannski Rússum ennþá í ætlaðri ,,Paradísartilveru forríkra Kana,“ að republikönsku mati, handan landamæra lífs og dauða. Maðurinn þótti víst geysileg hetja, á amerískan mælikvarða, meðan hann tórði, og hefur líklega gengið meira og minna hokinn undir þunga heiðursmerkja sinna. En þó hann sé dauður, er til nóg af slíkum mönnum í bandaríska stjórnkerfinu, nákvæmlega steyptum í sama mót. Það er kannski ein mesta ógæfa heimsins um þessar mundir !

 

Bandarísk réttlína var átrúnaðarefni John McCains og hans líka. En sú réttlína var oftar en ekki röng lína. Og fjölmiðlun er orðin að mjög ómerkilegu fyrirbæri nú til dags, en vestræn eða bandarísk fjölmiðlun er líklega afskaplega sér á báti hvað lygar og óheiðarleik snertir. Það er löngu liðin tíð að sannleikurinn sé þar sagður, hreinn og klár. Öllu er hagrætt í áróðursskyni og eigendur fjölmiðla eru oftar en ekki einhverjir sem hvergi eru nefndir sem slíkir. Enda líklega ekki gott að nefna þá suma hverja !

 

Allt í þessum efnum virðist gildislega gengið niður, miðað við þær forsendur sem í upphafi voru gefnar og áttu að vera til góðs. Ríkisútvarp Íslendinga, sem eitt sinn var frambærileg stofnun, virðist nú orðið að einhverskonar endurvarpsstöð fyrir ESB-áróður, enda sést hvaðan fóðrið kemur og styrkirnir koma. Getur einhver treyst sannleiksgildi frétta sem koma í gegnum spilltar og keyptar rásir ? Svari því hver eftir sínum siðgæðiskröfum. En það er hinsvegar ljóst að lengi er hægt að lækka lágt ris !

 

Það er ein sterkasta sönnunin fyrir úrkynjun og afturför Vesturlanda, hvað fjölmiðlun þar er á lágu plani. Og það er að miklu leyti bandarísk sýking. Það hefur oft verið talað um fjölmiðla sem fjórða valdið, óspillt vald sem þjónaði almenningsheillum, en nú á tímum er það hin mesta lygi því fjórða valdið virðist síst betra hvað spillingu snertir en hin þrjú. Jafnvel á litla Íslandi ber mikið á afvegaleiðslu fjórða valdsins. Það er margt gert í dag í þeim efnum hérlendis sem hefði tæpast þótt boðlegt af neinum fjölmiðlamönnum fyrir ekki svo löngu. En nú er öldin önnur og fjórða valdið fallin stoð !

 

Bara það, að lesa suma pistla Páls Vilhjálmssonar stórbloggara sýnir það svart á hvítu hvað spilling innan fjölmiðlaheimsins hérlendis er orðin geigvænleg. Allt virðist snúast þar um peninga og meiri peninga og ætla mætti eftir viðvarandi umræðu dagsins, að fólk gangi þar kaupum og sölum alla daga. Ef svo er, hlýtur það að teljast staðfesting á falleinkunn fyrir hérlenda fjölmiðla, sem öryggisvalds fyrir íslensku þjóðina, og þar með sjálfkrafa alla heilbrigðis-hagsmuni hins íslenska samfélags !

 

Afskipti íslenskra stjórnvalda af stórveldapólitíkinni eru svo fáránleg og vitfirringsleg sem frekast þau geta orðið og tengjast öll aðildinni að Nató. Það hlýtur að vera hverjum manni augljós staðreynd núorðið. Þegar þjóðin var á sínum tíma blekkt og véluð inn í þann klikkaða klúbb af stjórnmálaöflum sem vissu ekki hvað þau voru að gera, dró það á eftir sér langan hala þjóðvilltrar umræðu og gerir enn !

 

Aðildin að Nató var andlegt og siðferðilegt skemmdarverk á heilbrigði lítillar þjóðar sem átti allt sitt undir framgangi friðar og viðurkenningar á almennum mannréttindum. Leiðarlínan frá fullveldisdeginum var heilsteypt og góð sem slík, en þeim rökum átti víst ekki og mátti víst ekki hlýða. Óþjóðleg sérgæskuöfl, innlend sem útlend, vildu ekki hafa hlutina með þeim hætti. Spillingarferlið var sett af stað með fullum þunga. Og afleiðingarnar urðu og eru íslenskt þjóðarböl. Nú er nánast öll umræða látin standa á haus og þankaþynnt að ystu mörkum. Glóruleysið eitt ræður þar för !

 

Auk þess mikla skaða sem aðildin að Nató olli í andlegum efnum meðal þjóðarinnar, mun fjárhagslegt tjón hennar, vegna þeirra ranginda sem þá voru framin, gagnvart lýðræðislegum rétti Íslendinga til að ráða eigin örlögum, og hafa verið drýgð allar götur síðan, aldrei verða með tölum talið. Meðferðin á íslensku lýðræði um miðja síðustu öld var með þeim ómennska hætti, að það jafngilti nánast aftöku þess !

 

Það verður hlutverk seinni tíma manna að skilgreina þær meinsemdir, sem þá voru gerðar að fylgju íslensku þjóðarinnar, það er að segja ef mannkynið heldur velli áfram í þessum heimi og endurheimtir siðuð viðmið. Um það hvort svo verði, eru nú að vísu í meira lagi deildar meiningar. Raunverulegt sjálfstæði íslensku þjóðar-innar hefur, að margra mati, allt frá stofnunartíma Nató, verið í hundvísum tröllahöndum og búið sem slíkt við falska frelsisstöðu að mestu leyti, þjóðinni til viðvarandi ófarnaðar !

 

Þar gildir í hæsta hörmungarveldi hin gamla umsögn ,, allt verður Íslands óhamingju að vopni.“ Sannast það ekki hvað síst af þeirri nöturlegu staðreynd, að yfirlýstar vinaþjóðir okkar hafa lengstum verið okkar mestu arðránsblóðsugur og bölvaldar. Staða okkar sem friðelskandi þjóðar hefur beðið hnekki í alþjóðlegum skilningi og í þeim veruleika sést að við höfum stigið skref sem skaðað hafa fyrra álit okkar og það sennilega á heimsvísu !

 

Framtíðin er því miður ekki sérlega björt fyrir okkar litlu þjóð. Óvissan þar er orðin mjög mikil og vægi villu og reyks rosalega mikið. Fjárhagslegur grundvöllur íslenska ríkisins verður líklega skekinn og skældur og lífskjör almennings hugsanlega í lóðréttu falli, þegar Nató meðlagið fer kannski í 200 milljarða árlega í komandi tíð. Nató er dýr klúbbur og verður stöðugt dýrari. Það er líklega bara á færi norska olíuríkisins núorðið að vera í þeim blóðsuguklúbbi, enda virðist sú aðild vera norsku þjóðinni sem lífið sjálft. En það verður dýrt fyrir íslensku þjóðina að burðast með slíkan lausaleiks-króga því skilgetinn getur hann aldrei orðið !

 

Sú arðránsholskefla frá Nató sem hér um ræðir, verður líklega það versta áfall sem yfir íslenska þjóð kemur til með að dynja, allt frá upphafi landnámsins og gæti það þessvegna orðið okkar banabiti. Ef fer sem horfir, er alls ekki fráleitt að spyrja, - verða torfkofarnir okkar eina skjól eftir 50 ár, þegar hinn falski ,,stórveldistími“ Íslands verður löngu liðinn, vegna pólitísks afglapaháttar ráðamanna yfir línuna, ríkiskerfið auralaust og útsogið og þjóðin komin á kaldan klaka, í orðsins fyllstu merkingu ?


Alltaf versna kerfiskýlin !

 

 

 

Úlfar Lúðvíksson þótti nokkuð skeleggur í starfi sínu sem lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hann var oft ómyrkur í máli í fjölmiðlum þegar hann lýsti aðstæðum sem ekki voru boðlegar. Schengen aðildin er eitt það vitlausasta sem hefur verið tekið upp hérlendis og mikil þörf er að losa sig frá því glapræði. Ráðherrar þeir sem unnu að því að koma þeirri bölvun á hérlendis, þóttust fljótlega hvergi nærri hafa komið og ásökuðu aðra. Bersögli Úlfars varðandi Schengenaðildina og fleiri afglöp ráðamanna virðist hafa leitt til þess að óhæf yfirvöld hafa talið ástæðu til að losa sig við hann. Það ferli er flestum kunnugt og að margra mati til skammar !

 

Maður sem þykir standa sig vel í starfi og bendir með fullum rökum á ríkjandi vankanta í kerfinu á að fá stuðning, en ekki að vera hrakinn úr stöðu sinni af einhverjum óskiljanlegum pólitískum sérhagsmunaástæðum, sem virðast skilja sig frá öllu dómgreindarlegu samhengi. Enginn Allrason mun hafa ort eftirfarandi vísu þegar hann heyrði af framgangi mála, enda blöskraði honum sem og fleirum hvernig komið var fram við lögreglu-stjórann :

 

Yfirvöldin á sig kúka,

oft þau skaða land og þjóð.

Úlfar karlinn fékk að fjúka,

frammistaðan var svo góð !

 

Það fer að verða mjög erfitt fyrir venjulegan íslenskan ríkisborgara að skilja fyrir hvað ríkisstjórn og alþingi standa í þessu landi. Innra öryggi virðist brotið niður jafnt og þétt með niðurrifskenndum og öfugsnúnum lagasetningum. Fyrir nokkrum árum var haft eftir manni sem þekkti vel til mála í kerfinu, að utanríkismálaráðuneyti Íslands væri alfarið gengið í ESB og Brusselþjónkunin væri þar í hæstu hæðum. Embættisliðið þar væri sem sagt hugarfarslega komið inn í ESB. Margt bendir til þess að sú umsögn sé ekki úr lausu lofti gripin !

 

Það er löngu ljóst að margt er að í íslenska ríkiskerfinu. Þar virðist víða gengið um á skítugum skóm og íslensk þjóðræktarhugsun yfirleitt vera víðs fjarri. Þó að sumir vilji kenna sig þar við viðreisn mála er sú tenging fölsk og full af lýðskrumi. Verslunarauðvaldið í höfuðborginni horfir löngunaraugun til ESB og þar er engin þjóðhollusta að baki, aðeins sérgæskufull græðgishugsun. Pólitísk öfl eru líka til staðar sem sjá lítið annað en skurðgoðið í Brussel, þeirri borg sem virðist næst því að vera Babylon okkar tíma !

 

Evrópsk framvinda mála um þessar mundir er með þeim hætti að heimurinn stendur forviða. Jafnvel Norðurlönd hafa verið slegin út og eru nú sem óðast að glata þeim orðstír sem þau höfðu á árum áður. Brusselfasisminn hefur sýkt þau og gert þau að andstæðu þess sem þau voru. Sósíaldemókratískur svikræðisandi réttlínu-skoðunar, jafnvel í seinni tíð sveigður að fasistískum markmiðum, svífur þar nú yfir öllum vötnum og allt virðist aftengt lýðræðislegum framgangi. Það virðist vera litið á þjóðhollusta hérlendis sem heimsku því allt eigi að hafa sitt verð !

 

Ísland er galopið fyrir öllu innstreymi sem er hættulegt og þjóðskaðsamlegt í fyllsta máta. Enginn virðist mega vera þar á verði á heilbrigðum forsendum. Höfuð-borgin virðist orðin að sjóðandi seiðkatli rangra viðhorfa og glæpsamlegrar framvindu. Útlendir glæpahópar virðast líta á Stór-Reykjavíkursvæðið sem útvalinn kjörreit fyrir sig og sína, enda virðist lítið hamla þeim þar. Ofbeldisaukningin er með ólíkindum á síðari árum og virðist stöðugt vaxa með blóðugum afleiðingum fyrir þá sem þar búa. Sveðjur og hnífar og hvaðeina er á lofti ef orði er hallað !

 

Ískyggilegar horfurnar kalla á íslenska þjóðvarnarviðleitni, en samt er haldið áfram á sömu braut glóruleysis og siðferðilegs gjaldþrots af hálfu yfirvalda, þó viðvörunarbjöllur glymji án afláts. Alþingi situr og situr og situr, en þjóðlegt og uppbyggingarlegt framtak virðist þar hverfandi og sama hvert litið er. Inga Sæland og hennar flokkur virðist einna helst vera herleitt viðhengi af hinum ríkisstjórnarflokkunum og bara til pólitískrar uppfyllingar. Af sitjandi ríkisstjórn virðist því afskaplega lítils góðs að vænta fyrir land og þjóð !

 

 

 

 


Að vera með í að skemmta skrattanum !

 

 

Meðan við Íslendingar vildum vera okkur sjálfum samkvæmir og vorum að fikra okkur áfram sem fullvalda þjóð, var stefna okkar að halda frið við allar þjóðir og leggja gott til mála í hverju því efni sem upp kæmi í milliríkjasamskiptum. Að hefja einhverja stríðsstefnu gegn öðrum þjóðum í eigin nafni eða annarra var auðvitað fjarri okkar hugsun. Við vorum sakleysingjarnir í válegum eiturormagarði pólitískrar sérhagsmunagæslu á þeim tíma og höfðum litla vitneskju um öll rándýrin sem vildu eyðileggja allan okkar hag og þar með éta okkur út á gaddinn !

 

En það stóð heldur ekki lengi að við fengum að vera í friði. Brátt var öllum sjálfákvörðunarrétti okkar sem þjóðar burtkastað í nornakatli nýrra galdra-ofsókna, þar sem mál voru látin hverfast um kalt stríð og siðlausa stórveldapólitík. Og hvað höfðum við, smáþjóðin við ysta haf, að gera inn í gjörspilltan hrikaleik þeirra geðveikismála ?

 

Þá fór óíslenska nefndin að hrifsa til sín völdin í landinu. Hún var eftiröpun þeirrar óamerísku og engu betri. Í löndum sem lýðræðisleg réttindi hefðu átt að vera í hásæti, hófust ofsóknir gegn fólki sem hafði hugsanlega aðrar skoðanir en pólitísk rétthugsun heimtaði. Það voru atvinnuofsóknir og hverskyns ofbeldis-framganga af hálfu yfirvalda gagnvart einstaklingum, sem kannski höfðu verið ákærðir af einhverjum sem var illa við þá. Það voru fullkomnar samstæður við fyrri alda galdraofsóknir í gangi !

 

Það voru slæmir tímar og það voru tekin upp slæm vinnubrögð, sem skemmdu margt fyrir litlu, friðsömu þjóðinni við ysta haf, þjóðinni sem nýbúin var að losa af hálsi sér fyrra ok kúgunar og áþjánar. Og þegar þjóð er tæpast farin að anda að sér frjálsu lofti þegar annar og verri drómi bindur hana, dvína frelsisáhrifin jafnt og þétt og þrælslundaður undirlægjuhátturinn fer fljótt að taka yfir á ný. Það mun vera ferlið sem við höfum verið fest í með djöfullegum hætti og allskyns Júdasarbrögðum um langt skeið ?

 

Margir íslenskir utanríkisráðherrar hafa þótt slæmir fulltrúar fyrir þjóðarréttindi Íslands í liðnum tíma og legið flatir fyrir erlendum áhrifum. Þeir virðast yfirleitt ekki hafa séð neitt í hagsmunalegu samhengi nema Bandaríkin, Nató og ESB. En þeir tveir síðustu eru líklega verstir í þeim hóp sem hér um ræðir og það að margra hyggju. Það er virkilega illt til þess að vita, að mannval í íslenskum stjórnmálaflokkum sé með þeim hætti sem verið hefur og að ekki hafi verið á neinu skárra völ !

 

Á síðustu árum hafa hagsmunir Íslands í milliríkjaviðskiptum sýnilega orðið fyrir verulegum áföllum og ríki sem aldrei hafa sýnt okkur annað en velvild, skilgreina okkur nú sem fjandsamlegt ríki. Ísland hefur þannig verið fjarlægt hinum heilbrigða fullveldisanda þjóðarinnar, af aðilum sem virðast í einu og öllu þjóna öðrum öflum en þjóna ber, í heimi sem virðist vera óðfús að vígjast öllu því sem vísar honum til glötunar !

 


Um ríkjaleiddar ránsherferðir gegn Rússlandi !

 

 

Það vita nánast allir hvernig lögum og reglum er beitt gegn borgaralegum einstaklingum þegar þeir brjóta af sér eða eru taldir hafa gert það. Það gildir auðvitað fyrst og fremst þegar í hlut eiga einstaklingar sem eru ekki varðir í bak og fyrir af einhverju pólitísku flokksvaldi. Lagabrot eru oftastnær meðhöndluð af fyllstu alvöru og allir eru sagðir eiga að vera jafnir fyrir lögum. En veruleikinn er nú samt sá að lögreglan, sem og annað kerfisvald, samanstendur bara af mönnum sem eru skeikulir eins og aðrir og stundum jafnvel töluvert skeikulli, og það í flestum ríkjum, en sæmileg borgaraleg ábyrgðar-kennd getur mögulega sætt sig við !

 

Nú til dags virðist margt orðið breytt í framgangsferli laga og réttar. Heilu ríkin brjóta nú hiklaust af sér gegn lögum og reglum með margvíslegum hætti. Heilu ríkin fremja nú hermdarverk og stunda þjófnaði á eigum annarra ríkja og jafnvel í nafni ríkjasambanda sem stofnuð voru til þess að bæta ástandið í heiminum en hafa þess í stað bara gert það verra. Heilu ríkin glíma við sívaxandi efnahagsvanda, en ausa samt fjármunum sínum landa á milli í botnlausum blekkingarleik. Heilu ríkin eru í stríði gegn hermdarverkum en stunda sjálf hermdarverk í stórum stíl og varpa grundvallareglum laga og réttar út í hafsauga !

 

Þegar ástand milli ríkja verður eins og hið svokallaða villta vestur bauð upp á í eina tíð, er ekki við góðu að búast. Það hverfur allt traust og allar forsendur fyrir frið. Og þannig er ástand heimsmála orðið eða að verða. Alþjóðleg samvinna er að dragast saman með sín ótvíræðu gildi, tortryggni milli þjóða er að aukast, fordómar fara með himinskautum, hatursfylltir hleypidómar virðast þannig farnir að ráða lögum og lofum víða og jafnvel þar sem síst skyldi. Æstar tilfinningar hrósa sigri yfir vel yfirvegaðri dómgreind. Og enn er villta vestrið orsakavaldur ófriðarins og illindanna - eða í stuttu máli sagt Vesturlönd, og þeirra útþenslugræðgi og fíkn í að ræna aðra og lifa á þjófnaðarhyggju sinna gömlu nýlendusiða !

 

Nú eru nefnilega Vesturlönd með ESB og Nató í broddi fylkingar, farin að stunda þjófnað á rússneskum ríkiseignum eins og þau framast geta. Og eins og allir þjófar reyna þau að réttlæta gerðir sínar. En það er ekki hægt að stunda ránskap og brot á öllum eðlilegum samskiptum, án þess að það hafi sínar neikvæðu afleiðingar. Þjófar geta aldrei aukið álit sitt og glata bæði virðingu og trausti. Vestrænar fjármála-miðstöðvar eru nú að fá þann dóm í alþjóðlegu tilliti að þeim sé ekki lengur treystandi. Fjármagni verður hér eftir beint á aðra tryggari staði. Þjófar kalla ekki á traust, þjófar verða hvarvetna fyrirlitlegir og sniðgengnir !

 

Það er því líklegt að London og fleiri borgir á Vesturlöndum, borgir sem hafa hingað til verið skilgreindar sem fjármála-miðstöðvar á heimsvísu og hafa notið mikils ágóða af því að vera slíkar stöðvar fyrir fjármagn í alþjóðlegum skilningi, verði það ekki mikið lengur. Aðrar fjármálamiðstöðvar munu taka við hlutverkum þeirra, ný sambönd í fjármálaheiminum munu verða til sem munu byggja sitt á trausti í viðskiptum, en ekki á ránsskap og þjófnaði. Hversvegna voru Bretar að fara úr ESB, það er sami rassinn undir þeim og Brusselskrímslinu ?

 

Breska ríkisstjórnin sem nú situr, undir vesalmenni því sem er þar við völd þessa stundina, á eftir að sjá að áhrif höfuðborgar Breta í fjármálaviðskiptum heimsins munu fara ört dvínandi á næstu árum og færast annað. Og þegar og ef hún vitkast einhverntíma, verður orðið allt of seint fyrir bresk yfirvöld að iðrast framinna misgerða, standandi á flæðiskeri flónskunnar. Bretar eru í öllum skilningi á niðurleið, eins og Frakkar, hvað áhrif og vægi snertir !

 

ESB er að breytast fyrir augum heimsins úr því sem talin var samsteypa réttarríkja, í samviskulausan auðhring. Þar virðast hatursfullar konur nú ráða ferðinni. Þar er engin dómgreind til staðar, að vega og meta málin, þar er bara tilfinningaólga við stjórnborðið, borin uppi af óskhyggju sem á enga samleið með raunveru-leikanum. Svo virðist sem heimsfriðurinn sé kominn fram á ystu brún feigðar-bjargsins og nasisminn sé kominn á kreik á ný og það víðar en menn virðast almennt gera sér grein fyrir !

 

ESB er þannig orðið að mjög hættulegu fyrirbæri, ekki bara fyrir Evrópu heldur heiminn allan og þann frið sem við þurfum í raun öll á að halda og umfram allt. Sú stefna sem virðist vera fylgt af ESB - forustunni, stefnir aðeins að einu marki, einni niðurstöðu – þeirri lokastyrjöld sem allir hafa viljað forðast til þessa, ægilegustu styrjöld sem geisað getur á þessari jörð og endalokum mannkynsins í kjölfarið !


Trumpútgáfur !

 

 

Lygin er mörg en sannleikurinn er einn. Í seinni tíð hafa menn farið að tala um Trumpútgáfur, sem einhverskonar mjög svo persónubundna útlistun á sögulegum sannindum. Virðist flestum sem útlistun af því tagi eigi yfirleitt litla samleið með sannleikanum. Það þýðir líklega að veröld sem fellur fyrir Trumpútgáfum verður fyrir vikið verri en hún var. Leiðtogi sem hefur enga tilfinningu fyrir því hvað satt er og rétt, hlýtur undantekningarlaust að vera vondur leiðtogi !

 

Árásin á bandaríska þinghúsið var mjög örlagaríkur atburður því sjaldan hefur verið vegið jafn gróflega að lýðræði Bandaríkjanna. Eftirtíminn mun leiða alvarleika þess máls skýrt í ljós, þegar menn fara að fjalla um það mál í dómgreindarlegu samhengi. Nú í dag virðast menn halda að sér höndum í háskólum út um öll Bandaríkin, af ótta við valdið, og bíða átekta. Þeir sem álitnir eru mestu gáfnaljósin í þeim hópi eru kjarklausastir, enda hafa þeir búið við slíkar nægtir hingað til að það hálfa væri nóg. Slík velsæld gerir menn að gungum og vesalmennum, sem þora ekki að andmæla nokkru Hvítahússvaldi neins-staðar í heiminum, þó þeir sjái að það sé í engu sjálfu sér samkvæmt og rísi í flestum greinum gegn því sem þeir eiga að vita að er rétt !

 

Þegar Stóra Trumpútgáfan verður gjaldþrota eftir tæp fjögur ár, verður líkast til margt orðið breytt í heiminum. Þeir sem trúðu á Trumpútgáfurisann og lausnir hans á vandamálum heimsins, munu líklega fara þá með veggjum og tala á lægri nótum, allavega um skeið. Það skilar aldrei góðri líðan hjá mönnum þegar þeir neyðast til að átta sig á því að þeir hafi verið blekktir og hengdir upp í heilaþvottarstöð útgáfulyga sem dregið hafa drjúgan hluta heimsins fram og aftur á asnaeyrum mánuðum saman og fengið fólk þar til að trúa því sem aldrei gat orðið !

 

Það er svo margt að í heiminum, að fólk er orðið þreytt á öllum vandræða-ganginum. Það stekkur umhugsunarlaust eða lítið, á hvað sem er, ef það heldur að það skili lausnum. Þá er jafnvel horft framhjá ótal atriðum sem ættu að sýna skýrt og greinilega að lýðskrum og blekkingar einar eru í gangi. En umburðarlyndið gagnvart áróðurs-tilbúnum  lausnameistara hins ráðandi augnabliks, getur orðið svo mikið, að öll dómgreind hverfur. Nú eru væntanlega margir farnir að átta sig á því að Trumpútgáfur vandamála heimsins eru afskaplega einhliða. Þær ganga ekki upp, ekki síst vegna þess að útgáfustjórinn vill einn ráða öllu !

 

Við þurfum síst af öllu einhvern alheimsstjóra, við þurfum mann sem hefur víðtækan skilning á hlutunum, mann sem er göfugur í eðli sínu og réttsýnn. Slíkir menn vaxa ekki upp í gegnum bandarísku auðhringina og hafa aldrei gert. Slíkur maður hefur ekki setið á forsetastóli í Bandaríkjunum síðan 1945. Og allt frá þeim tíma, hefur enn minni friður ríkt í heiminum en þekktist í tímanum fyrir heimsstyrjaldirnar tvær, þar sem sú fyrri ól af sér þá seinni, vegna rangsleitni sigurvegaranna !

 

Franklin D. Roosevelt lagði upp í vegferð sína, sem forseti Bandaríkjanna, með New Deal stefnu sína, í svartnættisástandi efnahagslegrar kreppu. Hann ávann sér tiltrú og hélt þeirri tiltrú að mestu til dauðadags. Hann kom heiðarlega fram gagnvart þjóð sinni og rabbaði við hana um vandamál líðandi stundar. Hann beitti líklega aldrei neinum Trumpútgáfum vitandi vits. En nú eru tímarnir aðrir og leiðtogar dagsins virðast af allt annarri og hugvilltari manngerð. Hvers er þá að vænta ?

 

Donald J. Trump hefur lagt upp í vegferð sína í annað kjörtímabil sitt sem forseti Bandaríkjanna. Stefna hans virðist vera sú, að hann einn eigi að deila og drottna. Það rétta sé það sem hann segir. Önnur lönd eiga að fá nýja stöðu og nýtt ríkisfang vegna þess að hann segir, að það sé nauðsyn fyrir Bandaríkin, sem verndara hins frjálsa heims. Sannleikurinn skal vera það sem Donald J. Trump segir og frelsið í heiminum þarf að fá blessun hans, annars telst það ekki frelsi. Á slík einstefna geðþótta og valdhroka að vera leiðarljós mannkynsins inn í framtíðina ? Ég segi nei !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 121
  • Sl. sólarhring: 307
  • Sl. viku: 1112
  • Frá upphafi: 390202

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 957
  • Gestir í dag: 114
  • IP-tölur í dag: 113

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband