Leita í fréttum mbl.is

Hvað varð um Sjálfstæðisflokkinn ?

 

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi Moggaritstjóri, kom fram með eftirfarandi spurningu fyrir nokkru í pistli í sunnudagsblaði Moggans : " Hvað varð um verkalýðsflokkana ? "

Það er athyglisverð spurning og það mættu eflaust fleiri spyrja svo og það sennilega á mun sterkari forsendum en Styrmir Gunnarsson.

Fróðlegt var að lesa pælingar ritstjórans fyrrverandi varðandi þetta viðfangsefni. Hann er í það fyrsta einn af þeim sem telur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið verkalýðsflokkur, sem hann auðvitað aldrei var, þó margir í verkalýðs-hreyfingunni hafi vissulega þjónað undir hann. En það gerðu þeir fyrir flokkinn en ekki hreyfinguna sem slíka.

Verkalýðsflokkarnir í almæltri umræðu voru yfirleitt flokkarnir til vinstri, svonefndir A-flokkar, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið. Fyrir 1956 var Sósíalistaflokkurinn mjög í forsvari fyrir launafólk og þar á undan Kommúnistaflokkur Íslands.

Á sínum fyrstu árum  reyndist Alþýðuflokkurinn óneitanlega góður skjöldur fyrir hagsmuni verkalýðsins, en sennilega hefur þó enginn flokkur hérlendis barist jafn vel fyrir hagsmunum launafólks og Sósíalistaflokkurinn gerði á sínum tíma, enda flykktist verkafólk undir merki hans og studdi hann óspart.

Meginsókn íslenskrar verkalýðshreyfingar var því eðlilega undir forustu þessara vinstri afla og öll framfaraspor til almenningsheilla í þessu landi voru yfirleitt leidd af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn fór ekki að hreiðra um sig innan verkalýðsfélaga fyrr en hann taldi sig neyðast til þess vegna þess hvað verkalýðshreyfingin var orðið mikið afl.

Þá fóru hægri sinnaðir menn að koma sér þar fyrir og gera kröfur um  " faglega launabaráttu " sem þýddi í raun að verkalýðshreyfingin mætti ekki vera róttæk og pólitísk og auðvitað síst af öllu rauð.

Hún átti að þeirra hyggju bara að vera svona einhverskonar stofnun sem hægt væri að sveigja og beygja eftir hentugleikum. Svo átti hún náttúrulega að forðast að styggja þá sem með völdin fóru, en það voru auðvitað oftast og ekki síst hægri menn. Menn af þessu sauðahúsi þjónuðu forréttindastéttum þá eins og nú og gerðu nákvæmlega ekkert fyrir almennt launafólk.

En þeir hinir sömu töluðu jafnan fjálglega um Sjálfstæðisflokkinn sem verkalýðsflokk sem þeir sögðu að leitaði " faglegra lausna " í öllu fyrir verkafólk landsins. Um það er aðeins hægt að segja - að öllu má nú nafn gefa !

Þannig hegðuðu sér menn sem virtust fullkomlega sáttir við að leika hlutverk hundanna undir borðinu sem biðu eftir því einu að beinum væri fleygt í þá.

Það ætti þó ekki að vefjast fyrir neinum heilvita manni sem kynnir sér liðna tíma og verkalýðsbaráttuna, að Sjálfstæðisflokkurinn var aldrei og gat aldrei orðið verkalýðsflokkur. Það getur enginn þjónað tveim herrum og það hefur alltaf legið fyrir hvaða hagsmunum Sjálfstæðisflokkurinn hefur þjónað og þjónar enn.

En Styrmir Gunnarsson, einn helsti þjónustumaður Sjálfstæðisflokksins um langt skeið, spyr hinsvegar um verkalýðsflokkana ? 

Og það virðist hann gera í tilbúinni einfeldni manns sem var um langtíma skeið inni í miðju valdaspilinu, en þykist samt ekki vita það sem hann ætti klárlega að vita  !

Það er eins og hann finni nú til þess sem Íslendingur, að það vanti eitthvað inn í þjóðlífið, eitthvað sem verið hafi en sé ekki lengur, það vanti í raun sannan verkalýðsflokk sem þjóni hagsmunum fólksins í landinu !

Það skyldi þó aldrei vera ?

Í öllu falli er það athyglisvert að maður eins og Styrmir Gunnarsson skuli fara að pæla í þessu og velta því fyrir sér. Það má því kannski segja að lengi sé von með suma.

Á sínum tíma fór séra Gunnar Benediktsson að hugleiða þjóðfélagsmál djúpt og ærlega af innri þörf og gerðist eftir það sannfærður sósíalisti.

Jónasi frá Hriflu þótti það illt afspurnar og sagt er að hann hafi spurt séra Gunnar út í þessi sinnaskipti hans. Gunnar á að hafa svarað : " Nú, ég fór að hugsa ! "

Þá svaraði Jónas: " Það var slæmt. Þú áttir aldrei að fara að grufla út í þetta !"

Nú þætti mér ekki ólíklegt að einhver forustumaður Sjálfstæðisflokksins hefði þegar sagt við Styrmi Gunnarsson : " Þú ættir ekkert að vera að grufla í þessu !"

En þar með er ekki sagt að þessar hugarins pælingar geti leitt Styrmi Gunnarsson inn á brautir sósíalisma og verkalýðshugsjóna. Það er af og frá að svo geti farið. Til þess er maðurinn allt of langt leiddur í gagnstæða átt.

Samt álít ég að virða megi það að nokkru hjá mönnum, þegar þeir slysast til að vera það einlægir við sjálfa sig og aðra, að þeir leyfa sér að hugleiða hluti sem geta komið flokknum þeirra illa !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband