Leita í fréttum mbl.is

Frá siðferði til siðleysis -

Hvernig er hægt að þurrka úr fólki allt siðferði og hverja ærutaug á fáeinum árum ? Margir hefðu haldið að slíkt væri ekki gerlegt hér á Íslandi en staðreyndirnar sýna að þetta var gert og það vitandi vits.

Fólki var mútað á ýmsa vegu, það fékk drjúgar sporslur út á hlýðni og þrælslund gagnvart valdhöfum og stóreignamönnum og það sem aldrei fyrr.

En fyrr en varði stóð þetta fólk ekki lengur á neinum föstum grundvelli. Það var til sölu, það gekk um með verðmiðann á sér. Það þurfti engar 300 milljónir til að kaupa það. Þrjátíu silfurpeningar dugðu í flestum tilfellum.

Og þannig var þetta fólk dregið út í meiri og meiri spillingu af stjórnvaldi, af flokksvaldi og kerfinu sem orðið var að ófreskju sem myrti sína eigin þjóð.

Valdaklíkan eftir 1991 fyllti hirð fylgjenda sinna af hroka og græðgi. Fjöldi fólks sem hefði átt að geta orðið hagsmunum Íslands að gagni, ánetjaðist hrokanum og græðginni svo á Davíðstímanum, að það varð á skömmum tíma sem þjóðvilltir umskiptingar - afætuhyski sem hugsaði um það eitt að blóðsjúga land sitt og þjóð í eiginhagsmunaskyni.

Hvernig gátu t.d. tiltekin hjón orðið svo gráðug sem raun virðist vitni bera ? Hvað gerði þau að fólki sem virtist alveg búið að tapa áttum þjóðlega séð og var að snúast um sjálft sig með mörg hundruð milljónir króna í spilinu   ?

Hvað gerði það að verkum að þetta fólk þurfti svona óskaplega mikla peninga ?

Var kannski búið að láta allt of mikið með þau ? Það er víst ekki lengur bein tenging milli íþrótta og drengskapar þó svo væri löngum talið hér á árum áður. Og það vantaði ekki heldur að viðkomandi frú væri leidd fram á hið pólitíska svið á sínum tíma með miklum glæsilátum ? Var þessum hjónum kannski hampað svo mikið að þau þoldu það ekki ? Biluðu þar allar eðlilegar hugarfars-tengingar við eigið samfélag og fólkið í landinu ?  Hvað gerðist eiginlega með þetta fólk ?

Og það eru fleiri, miklu fleiri sem það sama virðist gilda um - fólk sem margir bundu vonir við sem leiðtogaefni á ýmsum sviðum þjóðfélagsins, fólk sem hefði átt að geta vísað öðrum veginn til góðra hluta, manneskjur sem brugðust  sjálfum sér og öðrum, hæfileikamiklar persónur sem á skömmum tíma hurfu bókstaflega inn í 100 % sjálfelskuferli. Andi Lúðvíks XIV gekk í ljósum logum um vaxandi ofurlaunaklíkur og margur þar virtist haldinn þeirri firru að hann væri Sólkonungurinn sjálfur sem allt ætti að snúast um.

Lög og reglur og samfélagskerfið í heild sinni - það átti bara að vera til að halda skrílnum í skefjum, menn sneru upp á sig og gáfu landslögunum langt nef og fingurinn að auki !

Margt það sem fyrir Davíðstímann var afgerandi talið til hins verra, varð allt í einu umpólað sem eitthvað gott og gilt. Sum siðagildi fóru beinlínis kollhnýs í meðförum þeirra sem með völdin fóru og áttu að leiða hjörðina. Svo var þeim endurvarpað ofan frá fílabeinsturni frjálshyggjunnar með spillandi áhrifum út í þjóðlífið.

Græðgi, siðleysi, hroki og viðbjóður fór stöðugt að lýsa sér meir í eðli og athöfnum og viðskiptalífið varð ein iðandi ormagryfja þar sem hver beit annan með eitruðum hætti. Ísland var þannig gert að daunillum seiðkatli yfirgengi-legrar fjármálaspillingar.

Þar var hafin til vegs með frjálshyggjunni sama þrælahaldshugsunin og hefur lamað heilu þjóðirnar í Afríku og víðar og gerir enn. Afleiðingarnar urðu þær að íslenska stjórnkerfið var alfarið rekið í sérhagsmunaskyni og fór að herja gegn velferð eigin þegna sem aldrei fyrr.

Bölvað sé slíkt stjórnkerfi, bölvað sé þing sem setur lög sem hindrar fólk í því að geta lifað mannsæmandi lífi. Bölvuð sé verðtrygging eignaraðalsins, kvótakerfið og annað sem stuðlar stöðugt að auknu misrétti í þessu landi.

Siðleysið var gert að skurðgoði fjölmargra með þessum rangindum, margir gerðu það að sínum átrúnaði fyrir tilverknað hinna illu stjórnvalda. Rétt gildi voru sett á hvolf og rænt og stolið í nafni hins öfuga frelsis frjálshyggjunnar.

Og enn er haldið fast um sérhvern ránsfeng og engu skilað til fólksins.

Enn hefur enginn íslenskur mafíósi iðrast eða snúið frá sínum illu gjörðum.

Það er allt við það sama, ekki síst í musterum Mammons, bönkunum sem voru pumpaðir upp með almannafé í sama hrokagírinn og fyrir hrun. Það hefði átt að láta þá alla sitja í sínu gjaldþroti því það var þjóðarbölvun að endurreisa þessi skrímsli siðleysisins.

Í öllum fjármálageiranum, í stjórnkerfinu og orkugeiranum, alls staðar spruttu fram gerendur glæframennskunnar til að ræna þessa þjóð auðlindum sínum, velferð sinni og framtíð. Frjálshyggjan opnaði á sérhverja svívirðu sem hægt var að drýgja og enginn þóttist þó vera að gera neitt rangt því siðleysið var við völd.

Og alltaf kemur meiri og meiri skítur í ljós !

Vinstri stjórnin sem nú situr og fékk nánast allan þennan skít yfir sig frá valdatíma íhaldsins, virðist í mörgu vera á þeirri ömurlegu leið að verða samdauna honum. Sá sem verður samdauna skít hættir að sjá þörfina á því að þrífa til. Maður spyr sjálfan sig, fullur af ógeði á íslenskum yfirvöldum og kerfinu öllu - hvernig gat og getur fólk, sprottið úr íslenskum jarðvegi, orðið svona gjörspillt ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 50
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 356701

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband