Leita í fréttum mbl.is

Niður með blóðsugukerfið !

Margt hefur kallað á áleitnar spurningar hjá almenningi, eftir að það kom í ljós við hrylling hrunsins, hvað efstu mannlífslögin í íslenska samfélaginu reyndust hafa verið orðin gráðug og gjörspillt í framferði.

Enginn hafði fyrir þann tíma getað ímyndað sér að slík forherðing og glæframennska af hálfu ráðamanna gæti átt sér stað hérlendis.

Og eftir hrunið héldu valdamenn áfram hyglingum og bjargráðum fyrir hina fáu á kostnað hinna mörgu. Af hverju var t.d. bönkum sem höfðu verið seldir innan sviga frá ríkinu, á verði sem aldrei var greitt nema að litlu leyti - voru sem sagt orðnir einkavæddir bankar, af hverju var þeim bjargað ?

Af hverju voru þeir ekki bara einfaldlega látnir fara í sitt gjaldþrot ? Það var búið að stela úr þessum bönkum innanfrá svo til hverri krónu - frá þjóðinni að mestu leyti og skaðinn auðvitað skrifaður á hana. Svo var farið í að endurfjármagna þá með skattpeningum þjóðarinnar !

Hverskonar fjármálastjórn er það eiginlega sem birtist í slíku ?

Af hverju voru ekki bara tveir skítlausir ríkisbankar stofnaðir og hitt látið fara í sitt endanlega hrun ? Skyldi skýringin vera m. a. sú, að nokkuð mörgum finnst greinilega að bankastarfsemi og skítur sé ein besta blanda sem þeir eigi völ á ?

Og það liggur svo sem fyrir hversvegna var farið í hlutina með þeim hætti sem gert var, þegar hin hábölvaða ríkisstjórn sem bauð upp á hrunið, loksins áttaði sig á því að frjálshyggju-fyllerí hennar væri búið að setja allt á hausinn.

Enn einu sinni var nefnilega farin hin gamla leið, að bjarga fjármagnseigendum á kostnað þjóðarinnar. Að vísu voru áreiðanlega ýmsir, sem höfðu aðgang að innherja-upplýsingum í kerfinu, búnir að taka sitt fé út úr bönkunum, því rottur flýja jafnan sökkvandi skip. En það voru svo margfalt fleiri sem þurftu vernd kerfisins og höfðu kröfuvægi til að heimta þá fyrirgreiðslu.

Svo í stað þess að bankaskrímslin færu í þá glötun sem þau höfðu fyrirbúið sjálfum sér með þjóðarógæfustefnu sinni, var hellt í þau peningum á nýjan leik, sem auðvitað var stolið frá þjóðinni í gegnum hið þrælgötótta fulltrúalýðræði sem hér hangir sem fyrr á ystu spillingarþröminni.  Af hverju var það mál ekki bara sett í þjóðaratkvæði ?

Það þurfti bara eina spurningu :

Eruð þið hlynnt því eða andvíg að þið verðið rænd aftur ?

En það var enginn að hugsa um þjóðina, það var bara verið að hugsa um þá sem eiga peninga í þessu þjóðfélagi. Og eins og flestir eiga að vita, verður enginn maður ríkur í gjörspilltu umhverfi nema því aðeins að hann sé samdauna því.

Það er því sannfæring mín, að það hafi tæpast nokkur maður auðgast að marki á Íslandi eftir 1990 með heiðarlegum hætti ! Stjórnvaldsaðgerðir hafa hyglað ýmsum hópum stórlega svo sem í gegnum kvótakerfið, en þegar slíkt er gert er auðvitað gengið á rétt annarra. En þegar yfirvöldin sjálf ræna og stela, er forsendan að baki verknaðinum yfirleitt réttlætt með lagastimpli. Það hafa mörg lög verið sett á Íslandi síðustu tuttugu árin sem eru í hrópandi ósamræmi við mannlega siðvitund og almennt réttlæti. Slík lög eru ólög og virka öfugt við eðlilega lagasetningu. Þau brjóta samfélagið niður í stað þess að byggja það upp.

Og staðreynd allra staðreynda í kringum hrunið er að almenningur í þessu landi var svikinn og rændur af bönkum og fjármálafyrirtækjum með blessun yfirvalda. Það er versti verknaður sem framinn hefur verið á Íslandi til þessa og fjöldi fólks mun aldrei aftur geta borið eðlilegt traust til íslenskra yfirvalda og margir hata nú yfirhyskið í landinu, sem leiddi hrunið yfir okkur með græðgi sinni. Þar mun ekki gróa um heilt nema yfirvöld játi sök sína og gangi í það af heilindum að græða sárin.

Við sitjum hinsvegar uppi með handónýtt kerfi !

Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem vill vera með annan fótinn í Brussel en hinn í 101 Reykjavík !

Við sitjum uppi með forsætisráðherra í höfuðborginni og yfirforsætisráðherra úti á Álftanesi !

Við sitjum uppi með þing sem sýnir næstum daglega afskræmingu lýðræðislegra vinnubragða, harðneskjulega fundarstjórn og hroka í ótal myndum !

Við sitjum uppi með hæstarétt sem er sýnilega í stjórnarandstöðu !

Við sitjum uppi með sömu bankakerfisspillinguna og réði ríkjum hér fyrir hrun !

Hvað hefur breyst ?????????

Við sitjum uppi með fyrirhrunsskítinn og bætum skít á skít. Hér eru Mubarakar og Gaddafar í kerfinu, ekki síst fjármálakerfinu, menn af sama tagi og þessir illræmdu harðstjórar, menn sem hugsa ekki eina heilbrigða hugsun gagnvart landi og þjóð. Hvað á að gera við slíka kvislinga ?

Mahatma Gandhi sagði eitt sinn: " Earth provides enough for every man´s need but not for every man´s greed ! "

Við getum sagt það sama um Ísland, landið okkar er gott og gjöfult, en það er hægt að eyðileggja það og allan þess hag með yfirvaðandi græðgi auðvalds og frjálshyggju. Og þau eyðileggingaröfl hafa þegar sýnt hvers þau eru megnug þegar þeim er gefið svigrúmið til vítisverkanna.

Þjóðarógæfuflokkarnir sem voru við völd í meira en áratug frá 1995, gáfu það svigrúm sem þurfti og það má aldrei fyrirgefa eða gleyma þeim glæp !

Við eigum ekki að sætta okkur við ránskap og ábyrgðarleysi kerfisins og fjármálamafíunnar gegn okkur - borgurum þessa lands !

Við eigum ekki að sætta okkur við verðtryggingu gegn velferð !

Við eigum ekki að sætta okkur við að þjóðin verði negld á skuldaklafa fátæktar og kúgunar, hvorki af útlendum hákörlum né innlendum !

Það er ekki framtíðin sem lífsbarátta okkar átti að skapa fyrir börnin okkar !

Hvenær rís íslenska þjóðin fyrir alvöru upp og neitar alfarið að standa undir drápsklyfjum blóðsugukerfisins ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband