Leita í fréttum mbl.is

Icesave ánauðin

Nú liggur fyrir að þjóðin, venjulegir Íslendingar, eiga að kjósa um það hvort þeir séu reiðubúnir til að bera ábyrgðina á frjálshyggjufylleríi einkavæddra banka og fjármagnseigenda, sem viðgekkst hérlendis með allri sinni svívirðu árin fyrir hrunið -  með velþóknun og veislustuðningi íslenskra yfirvalda.

Lýðræðið er svo dásamlegt á Íslandi, að fólk á að fá leyfi til að samþykkja sína eigin hengingu. Íslenskum almenningi er ætlað að gefa fordæmi um undirgefni í vaxandi auðvaldsheimi nútímans, svo fjármagnsöflin geti haldið áfram að spila frítt sitt glæfraspil og sturta öllum ófarnaði yfir alþýðu manna.

Og það er ekki bara verið að fara fram á það að við hengjum okkur heldur börnin okkar líka - í fjötrum skulda sem aðrir hafa stofnað til !

Þetta eru afleiðingar einkavæðingarinnar sem átti að lyfta hér öllu til hærri og betri lífskjara. Rekstur á vegum ríkisins, í þágu fólksins, var bannsunginn af öllum sem trúðu á íhaldið og frjálshyggjuna, og slíkir fuglar fundust svo sem í öllum flokkum - allur einkarekstur átti að vera svo miklu betri - fyrir fólkið !

En hvað gerðist ?

Gullkálfarnir mökuðu krókinn hver í kapp við annan, rændu og stálu hver sem betur gat og ekkert raunhæft eftirlit var í gangi. Forseti, ríkisstjórn og þing voru svo hrifin og upptekin af útrásarliðinu, að þjóðin gleymdist gjörsamlega eða það höfuðverkefni þessara aðila að standa á öryggisvakt fyrir ríkið og almannahag.

Allar hættubjöllur glumdu og allt vitnaði um voðann en engu var sinnt. Og svo kom hrunið og þá ákvað frjálshyggju-ríkisstjórn Geira og Imbu að ríkisvæða alla bankana sem höfðu verið " einkavæddir til góðs fyrir alla ", að sagt var, fáum árum áður. En þá voru bankarnir auðvitað orðnir gjaldþrota vegna græðginnar ofsalegu sem þar réði og ránanna sem höfðu verið látin viðgangast átölulaust. Einkavæðingarmafían sá því að það varð að fjármagna þá á ný og auðvitað með peningum úr ríkiskassanum, peningum fólksins. Svona er sagan og ljót er hún og öllu íslenska stjórnkerfinu til ævarandi skammar og svívirðu !

Ráðamenn brugðust skyldu sinni og sviku þjóðina með hryllilegum hætti.

Markaðurinn var löngu orðinn sjúkur og beinlínis gerður sjúkur til að koma fyrirhuguðum eignaþjófnaði í gegn. Ofþenslan hefði löngu áður átt að leiða til inngrips stjórnvalda til tryggingar almannahagsmunum. En það var ekkert gert af slíku því að í augum þeirra sem með völdin fóru var markaðurinn heilagur og eina mælistikan á rétta þróun. Og yfirvöld og fjármálageirinn mættust því í heilagri einingu í því að arðræna fólkið í landinu með svívirðilegasta hætti.

Þjófnaður allra þjófnaða Íslandssögunnar var framinn á þessum forsendum - af þeim sem áttu skyldu sinnar vegna að koma í veg fyrir hann.

Skuldatryggingarlög voru látin ganga í gegnum alþingi á sínum tíma, af allra flokka mönnum, til að koma því í gegn að þeir sem væru lánadrottnarar hefðu alltaf sitt á þurru. Og hverjir eru þeir, hverjir eru svo aflögufærir á hverjum tíma að geta lánað - auðvitað fjármagnsöflin, bankarnir, þeir sem í raun og veru skapa forsendurnar fyrir verðsveiflunum og vítunum sem á okkur skella.

Þeirra hag þurfti að tryggja svo þeir væru nú aldrei í hættu með sitt fjármagn gagnvart afleiðingum gerða sinna.

Þessvegna var verðtrygging skulda leidd í lög, því sumir eru nú einu sinni þannig gerðir að þeir vilja alltaf láta það heita svo að allt sé gert samkvæmt lögum - þó um raunverulega samfélagsglæpi sé að ræða.

Og þingmenn hlupu upp til handa og fóta í þessu máli til að þjóna fjármálavaldinu sem vildi níðast með þessu móti á almennum mannréttindum íslensku þjóðarinnar.

Það var enginn að hugsa um það, að á sama hátt væri þá jafn nauðsynlegt að setja lög um eignatryggingu, að eignir væru tryggðar til jafns við skuldir. Því hver eru veðin á bak við skuldirnar - það eru eignirnar ?

Fjármagnsöflin vildu hinsvegar bara verðtryggingu skuldanna því þau voru kröfuhafar þeirra, en eignirnar sem stóðu að baki máttu verðfalla þeirra vegna og voru látnar verðfalla beinlínis fyrir þeirra tilverknað.

Þannig var hægt að draga fjölda fólks inn í þrælahaldið sem arðránsöflin byggja líf sitt á um allan heim. Útsendarar þeirra afla eru búnir að taka öll sín próf í þessum efnum. Þeir vita fullkomlega hvernig þeir eiga að vera böðlar sinna eigin þjóða.

Arðránsfléttan felst í því að byggja upp hátt markaðsverð á lognum forsendum, skapa falska umgerð um hlutina, svo eru veitt lán út á allt of hátt og rangt skráð eignaverð. Svo eru réttir aðilar látnir vita í tíma svo þeir geti selt sitt á hæsta verði og síðan er markaðurinn sprengdur !

Í framhaldinu stendur svo allt venjulegt fólk uppi með eignir á hálfvirði en  margfaldaðar skuldir. Fólk sem treysti því að yfirvöldin með allt sitt dýra eftirlitskerfi  " í almannaþágu " sæju til þess að verðlagning fasteigna væri eðlileg og eignir stæðu undir þeim skuldum sem stofnað væri til.

Eftir að gildran hefur verið látin smella með þessum hætti, fara svo fjármagnsöflin fljótlega að herða þumalskrúfurnar, að innheimta blóðpeningana með dyggri aðstoð yfirvalda því verðtrygging skulda er jú með lögum sett !!!

Þetta er samkvæmt mínum skilningi glæpurinn sem yfirvöld og bankar frömdu á fólkinu í landinu !

Verði Icesave samþykkt í þjóðaratkvæði, mun verða hamrað á því við alþýðu manna í öðrum ríkjum, að fólk verði að fara að dæmi Íslendinga og sýna almenna ábyrgð. Það á sem sagt að láta okkur ryðja brautina fyrir stefnumörkun sem gengur út á viðurkenningu á ábyrgðarfríum forréttindum fjármagnseigenda, -  gróði eigi að tilheyra þeim og tap eigi að vera á ábyrgð almennings.

Icesave gjörningurinn gengur út á þetta. Það á að hengja þjóðina með lögleiddum skuldafjötrum.

Slík þrælahaldslög samþykki ég ekki sem Íslendingur.

Ég segi NEI !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 20
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 826
  • Frá upphafi: 356671

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 655
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband