Leita í fréttum mbl.is

Leikmannsþankar um kirkjumál

Hver sæmilega upplýstur maður veit að kristin trú snýst um að eiga lifandi samfélag við Drottin Guð, Skapara himins og jarðar. Kristindómurinn er einfaldur boðskapur eins og Kristur setti hann fram og hefur alla tíð unnið sína mestu sigra í framsetningu þeirra manna sem hafa náð að skilja hann í einfaldleika hans, kærleika og sakleysi, og boðað hann þannig.

En Farísear og Saddúkear mannkynsins hafa um tuttugu alda skeið róið að því öllum árum að gera kristindóminn flókinn, að reyra utan um hann kreddur og kenningar, sem eiga lítið skylt við fagnaðarboðskap Frelsarans.

Þannig hafa það yfirleitt verið hinir drambsömu fulltrúar mannasetningarvalds kirkjunnar, metorðaprílarar hins falska himnastiga, sem hafa drepið vakningar og hreyfingar Anda Guðs í samfélagi þjóðanna.

Eitt sterkasta vopnið sem notað hefur verið gegn trúnni innan kirkjunnar er guðfræðin - tilbúin fræðigrein, sem endurspeglar mjög þá afleitu tilhneigingu manna að gera allt einfalt flókið. Einkum á slíkt við um menn sem hafa það mjög í sér að vilja teljast öðrum meiri.

Kirkjuvaldskerfið reisir enn í dag upp allskonar þröskulda skilyrða við heilbrigðri sannleiksleit mannssálarinnar, setur þar sem fyrr sín boð og bönn og ráðskast með fólk og frelsi þess. Forðum voru menn bannfærðir ef þeir vildu hugsa frjálst og brenndir á báli ef þeir fengust ekki til að hlýða hinu illa og óguðlega kirkjuvaldi. Guðfræðin leggur einlæga trúarþrá í hlekki kennisetninga og drepur smám saman andann í hverjum manni. Hún er sú andlega flatneskja fyrir mannssálina sem steingervingar kirkjunnar kenndu lengi vel að jörðin væri í efnislegum skilningi.

Kirkja sem stofnun verður alltaf andlaus. Hún verður bara framfærsluhæli fyrir preláta á allskyns embættisstigum, sem eyða tíma sínum í það að semja guðfræðilega kreddu-doðranta á milli þess sem þeir vasast í kirkjupólitískri valdabaráttu - oftast sjálfum sér til skammar og öðrum til skaða.

Menn geta ekki fylgt bæði guðfræðinni og Jesú. Farísearnir á dögum Krists gátu það ekki og enn síður geta fræðisjúkir kirkjustofnunarmenn það í dag, eftir að tuttugu alda framleiðsla guðfræði-doðranta hefur tekið trúna frá þeim, gert þá  dauða fyrir boðskap Frelsarans og fyllt þá lærdómshroka og kreddublindu !

Samt er það auðvitað svo að innan kirkjunnar hafa oft starfað mætir menn í prestastétt sem hafa gætt þess að glata hvorki jarðsambandi við fólkið í landinu né himintengingunni við Almættið. Það er ekki síst fyrir atbeina slíkra manna sem kirkjan lifir, þó að mikið vanti á að það líf sem hún býður, fullnægi heilbrigðri og vökulli trúarþörf einstaklingsins í þjáningafullum mannheimi.

En menn eins og t.d. biskuparnir Sigurbjörn Einarsson og Pétur Sigurgeirsson, munu trúlega jafnan eiga sinn stað í þjóðarsál okkar Íslendinga, sem ágætir kristnir kennimenn, trúir þeirri andlegu uppsprettu sem þeir voru vígðir til og helgaðir í þjónustu sinni.

En kirkjan hefur líka átt sína ógæfumenn, sem hafa með framferði sínu skaðað orðspor hennar á margan hátt. Nægir þar að nefna Ólaf Skúlason sem komst til æðstu valda og metorða innan kirkjunnar, þó margir hljóti að hafa vitað að sá skuggi hvíldi snemma yfir ferli hans sem hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum.

En hver er fús til að þrífa skúmaskot kirkjunnar, þegar þörfin krefur sem aldrei fyrr ? Það er stór spurning og einhver orti þetta vísukorn þegar hún var til umræðu :

 

Ólafur Skúlason skæður var,

skildi við kirkjuna í rústum.

Sitthvað þarf burt að sópast þar,

en sérarnir snerta ekki á kústum !

 

Kirkjupólitík er engu göfugra fyrirbæri en önnur pólitík og hún gat lyft þeim manni upp í biskupsstól sem aldrei hefði þar átt að sitja. Ólafur Skúlason komst í þann sess með stuðningi margra kirkjunnar manna og annarra sem nú reyna sem mest að hvítþvo sig af allri fylgispekt við hann og vilja þar ekki lengur við neitt kannast.

Kirkjupólitísk forherðing er síst betri en landsmálapólitísk forherðing, eins og sést hjá mönnum sem sitja á alþingi í dag - flestir fyrir sjálfa sig, en fáir sem engir fyrir þjóðina. Andleg vesalmennska ræður víða för !

Og það vantar víst ekki að það er stöðug valdabarátta í gangi innan kirkjunnar, meðal annars sækja konurnar þar fram í þeim anda sem þeim vill oft fylgja, og vilja fara að fá sinn biskup. Andstaðan við Karl biskup innan prestastéttarinnar er þannig líka að hluta til fyrir hendi vegna þess að hann er karl.

Þó er sú staðreynd enn verri, að í gegnum afskipti sín af málum Ólafs Skúlasonar hefur biskup sýnt sig vera heldur lítinn karl og vandræðalegan.

Þar virðist því miður hafa sýnt sig í ákvarðanatöku dómgreindarskortur sem ekki er ásættanlegur í vinnubrögðum æðsta manns kirkjunnar. Biskup verður að geta róið kirkjuskipinu áfram með öruggu áralagi þó andi á móti.

 

Enginn Allrason orti nýlega þessa vísu :

 

Nú er Karl í kröppum dans,

klerkar vilj´ann snáfi.

Kveiktu elda í kirkju hans

Kölski gamli og Láfi !

 

Slíka elda verður að slökkva og vinna að sáttum sem skapað geta traust. Kirkjan þarf að vera hafin yfir dægurþras og allt sem flokkast undir það að skemmta skrattanum. Kirkjan á ekki að vera karlakirkja eða kvennakirkja - eða neinskonar vettvangur kynjabaráttu eða metorðaslags - hún á að vera kirkja fólksins í landinu - andlegt friðarheimili þjóðarinnar !

Guðfræðin þarf að víkja en hin einfalda trú að ríkja - því sá boðskapur sem Kristur flutti okkur börnum jarðar, er eilíflega í fullu gildi.

Þar er hugsvölun, uppfyllingu og frið að finna, og þeir sem vilja taka að sér hirðisstarf innan kristinnar kirkju, þurfa að skilja að það er í raun eitt mest krefjandi starf sem nokkur maður getur tekið að sér - ef hugsað er til þess að rækja það eins og vera ber.

Ábyrgðarhlutur hirðis sem vanrækir starf sitt er því mikill gagnvart Almættinu !

Kristin trú er allt annað og miklu meira en það sem hin manngerða stofnun sem kennd er við hana - býr yfir. Hvernig sem prestarnir eru og reynast, þá er Jesú Kristur hinn sami í dag sem í gær og um alla framtíð.

Hann er aflgjafi hinnar hreinu kenningar sem kemur frá himnum -  guðfræðin er hinsvegar ekki af þeirri uppsprettu  !

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 792
  • Frá upphafi: 356973

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 620
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband