26.4.2012 | 20:00
Á lýðræðisnótum IV.
LÝÐRÆÐIÐ ER LÍFSNAUÐSYN !
I.
Það hefur löngum verið leið fylgja fjölmargra manna í liðinni sögu að sækjast eftir meiri og meiri völdum. Sú árátta hefur valdið gífurlegum mannlegum hörmungum í aldanna rás og dauða milljóna manna. Sagan kennir ótvírætt að þegar einstakir menn sölsa undir sig alræðisvöld í heilu þjóðríkjunum, leiðir það fljótt til þess að mannslífið verður lítils metið. Valdhafinn lætur iðulega taka þá af lífi sem eru honum ekki nógu auðsveipir og oft eru menn drepnir fyrir sáralitlar sakir eða jafnvel engar.
Einræðis-seggir liðinna tíma létu þannig murka lífið úr fólki út um allan heim og alltaf virtust þeir vera nógir til sem voru reiðubúnir að þjóna undir kúgunarvaldið og fremja hverskonar níðingsverk. Sennilega hefur svokölluð konunghollusta verið þar samvisku-svæfandi meðal fyrir þá sem lögðu til drápshendurnar, en við eigum þó að vita nú á tímum að þar var bara um að ræða undirlægjuhátt gagnvart valdi. Sú þrælslund sem þar var til staðar virðist alltaf - því miður - vera til í mannlegu eðli. Full ástæða er því til að vera á verði gagnvart öllu af slíku tagi, hvar sem reynt er að halda uppi mannlegu samfélagi á grundvelli þess að lífið eigi að vera friðheilagt.
Lýðræðis-skipulag síðari tíma tekur einmitt mið af þessu, að skapa skilyrði til þess að hver maður hafi tækifæri til að vaxa að dáð í sínu samfélagi, jafnt til styrktar eigin hag og hag samfélagsins í heild.
Í þeirri viðleitni eiga flestir menn samleið, en þeir sem vilja fara aðrar leiðir, leiðir sem oftast byggja á sérgæsku og kröfu um að fá stærri hlut en aðrir úr sameiginlegum sjóði, verða að skilja að starfsemi sem stuðlar að samfélagslegu niðurrifi á ekki og má ekki viðgangast.
Lög og reglur lýðræðislegs þjóðfélags eiga að sjá til þess og tryggja það með trúverðugum hætti, að máttarviðir samfélagsgerðarinnar verði ekki rifnir niður og burðarafl þeirra rofið af þeim sem hafa sérgæskuna fyrir sinn guð.
Það ber stöðugt að hafa í minni. Ekkert samfélag manna getur viðhaldist með heilbrigðum hætti ef ráðandi hugsun meðal þegnanna er sú að einhverjir aðrir eigi alltaf að tryggja ávexti viðgangs og velferðar.
Allir verða að halda vöku sinni til verndar lýðræðinu, gegn þeim ranglætisöflum sem vilja það feigt á hverjum tíma, og leggja sitt til ef vel á að fara !
II.
Á Íslandi virðumst við í stjórnskipunarlegu tilliti vera töluvert vanþróuð. Löngu vitaðir annmarkar á lýðræði okkar hafa ekki enn verið lagfærðir þó talað hafi verið um þá í áratugi og þörfina á endurbótum þar. Sennilega telja einhverjir sig hafa þann ávinning af þessum ágöllum að áhuginn fyrir að bæta þar úr er lítill sem enginn. En ástæður slíkra aðila eru þá spillingarlegs eðlis, því heiðarlegt fólk hefur ekki ávinning af lýðræðis-ágöllum, heldur þvert á móti.
Við vitum að í mörg Herrans ár hafa ýmsir glöggskyggnir menn bent á óeðlilega samþættingu framkvæmdavalds og löggjafarvalds í stjórnkerfi okkar. Það hefur nefnilega viðgengist alla tíð að fulltrúar löggjafarvaldsins, kjörnir þingmenn, hafa orðið ráðherrar og þar með orðið fulltrúar framkvæmdavaldsins en haldið samt sætum sínum á þingi. Þetta er náttúrulega afskræming á eðlilegu lýðræði.
Dreifing valds er nauðsynleg til þess að tryggja að hver maður viti sín mörk.
Hvernig á löggjafarvaldið að halda sjálfstæði sínu og einurð gagnvart framkvæmdavaldinu þegar sömu menn sitja að völdum á báðum stöðum ?
Því við skulum ekki gleyma því að það eru yfirleitt og oftast nær áhrifamestu þingmennirnir sem verða ráðherrar !
Hverjir skyldu hafa hag af þessu fyrirkomulagi ? Hverjir skyldu hafa staðið í vegi fyrir því að þessu væri komið í eðlilegt lýðræðishorf ? Já, hverjir ?
Ég læt ykkur, hlustendur góðir, alveg um það að svara því, enda geri ég fastlega ráð fyrir því að svarið sé ykkur jafnljóst og mér !
Það er í sjálfu sér mjög einfalt mál að breyta þessu ef vilji er fyrir hendi. Málið er bara það, að viljann til þess hefur vantað, því allt of margir stjórnmálamenn okkar eru svo valdagírugir að þeir vilja bæði vera þingmenn og ráðherrar ?
Einn kunningi minn sagðist eiginlega vera mest hissa á því að sumir þeirra skuli ekki líka vera komnir með dómarasæti í Hæstarétti, því aldrei hefur nú verið skortur á lögfræðingum á alþingi. Það er svo líklega skýringin á því hvað lagasetningar okkar hafa þótt götóttar og gegnumsmjúganlegar í flestum greinum !
Þær hafa nefnilega á öllum stigum verið úthugsaðar og stílfærðar af fagmönnum,
sem virðast aldrei geta samið lagagreinar án þess að með í dæminu séu hafðir möguleikar til að fara í kringum þær.
Miklu skýrari ákvæði þurfa að vera fyrir hendi í stjórnarskrá okkar sem kveða á um ábyrgð og skyldur ríkisins gagnvart almannahagsmunum og velferð samfélagsins sem heildar. Við verðum að geta stuðst með afgerandi hætti við stjórnarskrárbundin lög sem tryggja lífshagsmuni og öryggi þegnanna í samræmi við lýðræðisleg mannréttindi, ef þetta samfélag okkar á að búa við frið og sátt til frambúðar. Æðstu lögin þurfa því ávallt að eiga sér það kjarna-markmið, að viðhalda og verja velferð fólksins í landinu.
III.
Í samtímanum stöndum við frammi fyrir æ viðameiri fyrirferð skoðanakannana og allskonar fræðilegra eftirgrennslana, að sagt er. Þar er þó oftast um að ræða fyrirbrigði sem eru í raun lítið annað en dulbúnar persónunjósnir. Skoðanakannanir eru aldrei í þjónustu lýðræðisins sem slíkar, enda eru þær oftast keyptar af einhverjum aðilum sem mikla hagsmuni hafa og vilja fyrirfram geta hagrætt seglum eftir vindi pólitískra aðstæðna. Fjármagnseigendur, útfarnir silfurrefir kauphallarviðskiptanna, pólitískir tækifærissinnar og allra handa framkvæmdastjórnir, eru því jafnan mjög vakandi fyrir skoðanakönnunum og þær eru ekki síst gerðar til að veita þeim þjónustu og tryggja hagsmuni slíkra aðila. Skoðanakannanir eru því hreint ekki þjónusta við almenning og almenna hagsmuni. Þær eru hinsvegar að langmestu leyti til þess ætlaðar að hafa áhrif á kjósendur fyrir kjördag og leiðbeina þeim við beitingu kosningaréttarins.
Margir taka mikið mark á þeim og vilja vera í vinningsliðinu, með því að kjósa þann frambjóðanda eða þann flokk sem líklegastur er til að sigra.
Þeir sem standa fyrir skoðanakönnunum vita vel að engum fellur það að tapa.
Uppsetning mála í þessum efnum er jafnan miðuð við það markmið að kjósendur þjóni hagsmunum þeirra sem borga fyrir skoðanakannanirnar, með því að styðja þá mynd sem þær gefa. Skoðanakannanir stuðla þannig ekki að eflingu lýðræðisins en áreiðanlega töluvert að eflingu tækifærisinnaðrar afstöðu meðal kjósenda, sem er ekki af því góða og bætir ekki samfélagið.
Við getum t.d. hugleitt hvernig skoðanakönnunum er beitt núna varðandi væntanlegt kjör forseta Íslands.
Nú er það svo eins og vitað er, að flestir Íslendingar vilja að kosning forseta Íslands sé ópólitísk og sem mest laus við íhlutun stjórnmálaflokkanna. Samt eru hafðar í gangi skoðanakannanir sem eiga að sýna fylgi frambjóðenda til forsetaembættisins meðal fylgismanna hinna pólitísku flokka og tel ég það athæfi siðlaust með öllu. Umræðan varðandi gildi embættisins fyrir þjóðina og afstaða manna til kjörs forseta á fyrst og fremst að taka mið af uppbyggingu eðlilegrar lýðræðislegrar framvindu, en ekki af pólitískum hagsmunum einstakra þrýstihópa.
IV.
Í þessum síðasta pistli mínum af fjórum, sem helgaðir hafa verið umfjöllun um lýðræðið, ætla ég að fara nokkrum orðum sérstaklega um embætti forseta Íslands og stöðu þess í ljósi lýðræðislegra viðmiða, enda hafa þau mál verið nokkuð í brennidepli umræðunnar um nokkurt skeið og ekki af ástæðulausu.
Samkvæmt stjórnarskránni er hver sá gjaldgengur til embættis forseta Íslands sem náð hefur 35 ára aldri og uppfyllir að öðru leyti skilyrði kosningaréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu.
Þessu ákvæði þarf að breyta að mínu áliti. Aldursviðmiðunin er of lág.
Allar líkur eru á því að þeir sem bjóða sig fram til embættis forseta, verði yfirleitt úr hópi langskólamenntaðra einstaklinga. Það þýðir að fólk sem hefur nýlokið námi er kannski að bjóða sig fram og ferill þess er bara skólaganga og segir almennum kjósendum lítið sem ekki neitt. Ég hefði viljað hækka kjörgengið um 10 til 15 ár.
Þá er væntanlega að bjóða sig fram fólk sem á orðið einhvern starfsferil að baki og því hægt að taka afstöðu til framboðs þess og ferils á vitrænum forsendum.
Í embætti forseta tel ég að æskilegt sé að sitji manneskja sem hefur reynslu af þátttöku í íslensku samfélagi á starfslegum forsendum. Ekki einhver sem þekkir bara þjóðfélagið út frá setu á skólabekk.
Annað sem þarf að endurskoða er beint lýðræðislegt grundvallaratriði. Kjör forsetans verður að byggjast á því að meirihluti kjósenda veiti honum brautargengi. Því er algjör nauðsyn á því að kosið verði í tvennu lagi ef frambjóðendur eru fleiri en tveir. Í seinni umferð verður að kjósa um þá tvo sem mest fylgi hafa fengið. Að kjósa forseta með algjörum minnihluta atkvæða er lýðræðislega séð fráleitt og getur aldrei gefið af sér sterka stöðu fyrir þann sem embættinu gegnir.
Forseti Íslands þarf að vera lýðræðislega rétt kjörinn, með meirihlutastuðning kosningabærra manna að baki sér ef vel á að vera. Þannig getur hann beitt sér í málum í fullvissu þess að honum hafi verið vel trúað til starfans og þjóðin standi með lýðræðislegri fullmekt að baki honum. Ef til ágreinings kemur milli forsetans annars vegar og þings og ríkisstjórnar hins vegar, skiptir auðvitað miklu máli að forsetinn sé kjörinn af meirihluta þjóðarinnar í lýðfrjálsri kosningu og embættisleg réttindi hans séu óumdeilanleg.
Voru kannski reglurnar um forsetakjör hafðar eins og þær eru, til þess að forsetinn væri kosinn á veikum forsendum og yrði því aldrei maður mikils vægis í stjórnskipun okkar ! Málið skyldi þó aldrei hafa viljandi verið þannig hugsað ?
Framboðsreglur til forsetakjörs hafa þannig frá upphafi verið meingallaðar, út frá lýðræðislegu sjónarmiði, en hafa við ýmsar breytingar á þjóðfélagsaðstæðum orðið jafnvel enn fráleitari en þær voru. Það gegnir eiginlega furðu að sérhæfir menn skuli hafa gengið frá reglunum á sínum tíma eins og þær eru, því svo slæmur vitnisburður eru þær um afstöðu þeirra til eðlilegrar framkvæmdar á lýðræðislega kjörnum þjóðhöfðingja. Helst má því ætla að hugsun þessara manna hafi einfaldlega gengið út frá því að forsetinn ætti bara að vera toppfígúra og sinna selskapsmálum og snobbi, svo það þyrfti ekki að hafa mikið tilstand í kringum það eða vanda til mála við að kjósa einhvern í djobbið !
Og þegar þeir forsetar sem í upphafi voru kjörnir til embættisins, þeir Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson, hegðuðu sér að langmestu leyti eins og til var ætlast af þeim, af hálfu stjórnmálaflokkanna og kerfiselítunnar, þótti engin ástæða til að gera neitt í því að skilgreina valdsvið forsetans frekar.
Svo embættið virðist hafa verið skilið eftir í einhverskonar svífandi stöðu, í illa skilgreindum starfsramma, í kerfislegu tómarúmi ! Það var bara látið vera nokkurskonar dittó-embætti í stjórnkerfinu, eitthvað sem skipti engu sérstöku máli og þannig var það í verunni, að minnsta kosti til 1968.
V.
Ef við lítum til sögunnar varðandi forsetakjör, er svo sem ekki um stórt að stuðla. Sveinn Björnsson, fyrsti forsetinn, var upphaflega kosinn til embættisins af þingmannaliðinu og var svo sjálfkjörinn þar til hann lést. Ég hef aldrei haft mikið álit á honum og tel að hann hafi aldrei verið alþýðlegur maður eða sérstakur lýðræðissinni. Hann var fyrst og síðast embættismaður og að sumra mati nokkuð danskur í viðhorfum. Margir litu á hann sem íhaldssaman kerfiskarl og trúlega átti það sjónarmið nokkurn rétt á sér, en ekki er víst að auðvelt hefði verið að finna mann í embættið sem mætti jafn vel og Sveinn þeim kröfum sem þá voru gerðar af þeim sem réðu málum. Hann hafði líka gegnt embætti ríkisstjóra áður og sennilega hefur það styrkt stöðu hans sem forsetaefnis og að öllu samanlögðu er kjör hans mjög skiljanlegt í ljósi samtíma-viðhorfa.
Aðkoma Ásgeirs Ásgeirssonar að embættinu 1952 var hinsvegar öllu sögulegri því Sjálfstæðisflokkurinn með Framsókn sér við hlið, ætlaði að ráðskast með valið á forsetanum og gerði út sinn eigin frambjóðanda. Það fór ekki vel í fólk og því meir sem valdaelítan hamaðist gegn Ásgeiri því meiri varð stuðningurinn við hann meðal almennings. Ásgeir var síðan kosinn í krafti þeirrar samstöðu sem skapaðist með þessum hætti fyrir kjöri hans.
En hann var hinsvegar þannig maður að hans fyrsta verk var að gera leiðandi stjórnmálamönnum það snarlega ljóst eftir kjörið, að þeir þyrftu ekkert að óttast af hans hálfu, enda var hann alfarið úr þeirra hópi.
En við kjör hans kom þó skýrt í ljós að þjóðin vildi fá að kjósa forsetann á sínum eigin forsendum. 1968 gerðist það svo aftur að fólk fékk það á tilfinninguna að það ætti að halda utan um kjör forsetans á öðrum forsendum en bara lýðræðislegum þjóðarvilja í eðlilegri kosningu. Tengdasonur sitjandi forseta bauð sig fram, hafði áður setið í ríkisstjórn, dregið sig í hlé og verið sendiherra um tíma og komið svo heim - að því er virtist til að taka við af tengdapabba.
Á þessum tíma voru Íslendingar áreiðanlega mun meðvitaðri og vökulli fyrir framgangi lýðræðis en þeir virðast vera í dag. Ég var þá ungur strákur og heyrði aldraða menn ræða um þessi mál í afgreiðslu Sparisjóðs Skagastrandar.
Þar sagði Andrés Guðjónsson kaupmaður með þunga í röddinni: " Það má aldrei verða á Íslandi að forsetaembættið gangi í erfðir ! "
Og enginn andmælti honum. Og ég hygg að þetta sjónarmið hafi haft mikið að segja með það, að fólk vildi ekki Gunnar Thoroddsen sem forseta. Almenningi hugnaðist ekki að einhver fjölskylda ætlaði að hafa embættið á sínum vegum.
Það varð svo almenn vitundarvakning fyrir því að koma í veg fyrir það.Þjóðkunnur embættismaður, Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, vel kynntur í alla staði, var hvattur mjög til að fara í framboð og hann hlaut síðan afgerandi kosningu sem forseti Íslands. Ég held að Kristján sé sá forseti okkar sem hefur fallið fólkinu í landinu hvað best í geð. Hann var maður hógvær og lítið fyrir yfirborðsmennsku og þaðan af síður glansmyndaímyndir. Hann var góður fulltrúi sinnar þjóðar á forsetastóli og sennilega er hann sá forseti okkar sem síst hefur haft í sér nokkra tilhneigingu til athyglissýki eða löngunar til að vera hampað í fjölmiðlum.
Ég minnist þess að Kristján Eldjárn sagði er hann tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér áfram - eftir 12 ára setu í embættinu, að hann teldi þann tíma mjög hæfilegan í þessu starfi. Og ég er sannfærður um að sú skoðun Kristjáns hefur við sterk rök að styðjast. Kjörinn forseti þarf mikið til eitt kjörtímabil til að komast að fullu inn í embættið og meta þar stöðu sína til hlítar. Annað kjörtímabilið er hann með fullum þrótti í starfinu, en hætt er við að eitthvað dragi úr vökulum varðmannshuga þegar líða fer á þriðja kjörtímabilið.
Þá er slagkraftur til dáða vafalaust farinn að verða minni og kyrrstöðu-hugarfar embættismannsins getur þá farið að vaxa með værðarkennd hins andlega doða.
Þá er líka tímabært að gefa ekki kost á sér áfram og opna á það að ferskari maður komi til starfa fyrir þjóðina. Og við skulum ekki gleyma því að forsetinn á að starfa fyrir þjóðina. Kannski fannst Kristjáni Eldjárn sem hann væri tekinn að þreytast eftir svo sem 10 ár í embætti, og kannski gerði hann sér grein fyrir því að það væri þjóðinni fyrir bestu að hann yrði ekki í embættinu öllu lengur.
Kannski fann hann líka til þess að heilsan væri eitthvað að láta undan, en eins og menn vita lifði hann ekki lengi eftir að hann lét af embætti.
Það er mikill mannlegur hæfileiki hjá lýðræðislega kjörnum forustumönnum að vita og skilja hvenær rétt er af þeim að víkja. Það eru ekki margir sem sýna þá hæfni. Flestum falla völd, áhrif og athygli svo vel í geð að þeir vilja sitja og sitja, langt umfram það sem þeir ættu að gera.
Vigdís Finnbogadóttir sat sem forseti í 16 ár. Hún jafnaði tíma Ásgeirs Ásgeirssonar í embættinu. Sú sögn hefur heyrst, að hún hafi viljað hætta eftir 12 ár, en dregist á að vera eitt kjörtímabil í viðbót vegna þrýstings af hálfu forustumanna í stjórnmálum. Ég veit ekki hvað hæft er í þeirri sögn, en ég hygg hinsvegar að Vigdís hafi engu bætt við orðstír sinn með því að sitja fjórða kjörtímabilið. Hún hafði að minni hyggju lagt fram allt sitt eftir 12 ára setu.
En allt hefur sínar afleiðingar og hefði Vigdís hætt sem forseti 1992 er mjög vafasamt að Ólafur Ragnar Grímsson hefði boðið sig fram. Hann var eiginlega ekki í stakk búinn til þess á þeim tíma. Svo það hefði getað breytt miklu í málum ef forsetakjör hefði farið fram 1992, en hvort það hefði verið til góðs fyrir íslenska þjóð skal ósagt látið, enda engum fært að geta í þá eyðu.
Í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur fór fljótlega að bera nokkuð á aukinni fjölmiðlaumræðu um forsetann og þar með ákveðinni sköpun glansímyndar. Vigdís var vissulega mjög hugguleg í embættinu með sitt geislandi bros. Hún kom afar vel fyrir og hafði mikið aðdráttarafl á marga og svo var hún kona !
Allt þetta hafði mikil áhrif og má segja að öll forsetatíð Vigdísar hafi einkennst af mjög myndrænni framsetningu í fjölmiðlum á hennar framgöngu og öllum hennar embættisstörfum. Sennilega eru til ókjörin öll af fréttamyndum sem spanna allan hennar forsetaferil frá A til Ö, en ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þann tíma hér, enda ekki svigrúm til þess.
En þegar Vigdís Finnbogadóttir var ákveðin í að láta af hendi lyklana að Bessastöðum 1996, var Ólafur Ragnar Grímsson tilbúinn og klár í slaginn og kom galvaskur þar til leiks - beint úr pólitíkinni. Hann þurfti ekki að víkja þar af sviðinu nokkrum árum áður eins og Gunnar Thoroddsen, enda margt breytt frá fyrri tíð í þeim efnum sem öðrum, sem sést best á því að fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins skuli hafa ákveðið að gefa kost á sér í forsetakjöri.
VI.
Og það fór svo sem ekki á milli mála að Ólafur Ragnar boðaði nýja hluti strax í upphafi síns framboðsferils. Hann sagðist vilja breyta forsetaembættinu, gera það lýðræðislega skilvirkara og færa það nær fólkinu - það átti að vera marktækur öryggisventill fyrir þjóðina ef stjórnvöld brygðust í gæsluhlutverki sínu fyrir almannahag. Og þó að Ólafur væri umdeildur sem aldrei fyrr, hafði þessi málflutningur hans mikil áhrif.
Maðurinn var sjálfsöryggið uppmálað, glæsilegur í framgöngu og talaði af mælsku og þekkingu og hafði fjölbreyttar, alþjóðlegar tilvísanir á hraðbergi. Meðframbjóðendur hans virkuðu satt að segja litlausir við hlið hans og málflutningur þeirra var jafnvel enn litlausari.
Og svo var Ólafur Ragnar hreint ekki einn á ferð, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir kona hans dró ekki svo lítið fylgi til hans, hún var vinsæl og virt af störfum sínum og þar að auki afar glæsileg kona. Framkoma hennar og eðlislægur þokki vakti aðdáun fólks og þeir voru áreiðanlega hreint ekki svo fáir sem kusu Ólaf vegna þess hvað þeim leist vel á hana. Kannski hugsuðu slíkir með sér : " Ólafur Ragnar er náttúrulega pólitískt ólíkindatól en Guðrún mun halda honum við efnið ! "
Og auðvitað var Ólafur Ragnar kosinn - því fyrir alla þá sem vildu sjá eitthvað breytast og höfðu væntingar til skilvirkara lýðræðis, virtist hann eini raunhæfi kosturinn og ég var vissulega í þeim hópi sem vildi láta reyna á það.
En svo verður framvindan sú, að innan skamms tíma er Guðrún Katrín forsetafrú látin ! Það var mikið áfall - ekki bara fyrir hinn nýbakaða forseta heldur fyrir þjóðina alla. Það er mín skoðun að ekkert hefði tryggt það betur, að Ólafur Ragnar hefði getað orðið verulega góður forseti í þjóðlegum skilningi, en það að Guðrún kona hans hefði lifað áfram og getað starfað við hans hlið.
Eftir lát hennar var um tíma eins og Ólafur hefði hálfpartinn tapað áttum, tapað þræðinum varðandi það sem hann hafði sagt vera sín markmið. Spurning er það líka hvort hann höndlaði þann þráð nokkurntíma aftur - hvort eftirfarandi tími hans í embættinu varð nokkurntíma samhljóða því sem í upphafi var stefnt að.
Ólafur hefur nefnilega aldrei hætt að vera pólitíkus og framganga hans hefur því verið með ýmsum hætti, einkum í seinni tíð, og tekið að því er virðist mun meira mið af ætluðum framahagsmunum hans sjálfs og orðspori, en almennum þjóðarhagsmunum.
Og nú er staðan sú, að Ólafur Ragnar er að bjóða sig fram fyrir fimmta kjörtímabilið í forsetaembættinu - hann stefnir sem sagt að því að sitja í 20 ár - að minnsta kosti !
Tólf ára viðmið Kristjáns Eldjárns er löngu að baki, Ólafur ætlar heldur ekki að una við sextán ára starfstíma eins og Ásgeir og Vigdís, hann vill sitja lengur !
Ekki virðist það benda til þess að hann þekki sinn vitjunartíma ?
Það er nú alkunnugt orðið að hann skemmdi fyrir sér með leikbrögðum sínum um áramótin, þar sem hann þóttist hafa verið að tilkynna að hann væri að hætta en gerði það aldrei, fékk ákveðna stuðnings-yfirlýsingu í gegnum undirskriftir og þóttist þar með verða að svara " kalli þjóðarinnar " eins og hann orðaði það. Talaði eins og hann einn væri fær um að koma þjóðinni yfir boða og sker hruns og kreppu og þótti mörgum kominn fullmikill stórmennskutónn í gamla Glókoll.
Þarna var hann greinilega búinn að fjarlægja úr sínum huga allt sem tengdi hann við útrásina alræmdu og lét í það skína með orðum sínum sem hann væri sá eini sem öllu gæti bjargað. Og svo klykkti hann eiginlega út með það, að ef hann væri búinn að bjarga þjóðinni innan tveggja ára, myndi hann áskilja sér rétt til að hætta á miðju kjörtímabili, ef honum sýndist það óhætt !
Hafa menn heyrt annað eins ? Hvað heldur Ólafur Ragnar Grímsson eiginlega að hann sé ? Hann er sýnilega í eigin huga orðinn allt of stór fyrir þessa þjóð !
Á sem sagt að halda auka-forsetakosningar eftir hálft kjörtímabil bara vegna geðþótta Ólafs Ragnars Grímssonar ? Hvað kostar það fyrir þjóðina að halda slíkar kosningar og það fyrir geðþótta eins manns ? Er eitthvað lýðræði fólgið í slíkum gjörningi ? Svari því hver fyrir sig ?
VII.
Skrautlegt var líka að heyra og sjá í sjónvarpinu þegar stuðningsmenn Ólafs skiluðu af sér undirskriftalistum áskorunar til hans um að sitja áfram.
Guðni Ágústsson hafði orð fyrir þeim, og sá maður er nú þekktur að því að hafa sitt eigið tungutak. Hann sagði við fréttamanninn sem talaði við hann, að undirskriftirnar væru til þess að fá Ólaf til að vera áfram en lýsa ekki yfir því að hann væri að hætta " eins og hann segist hafa gert í ávarpi sínu um áramótin ! "
" Eins og hann segist hafa gert um áramótin " sagði Guðni sem sagt og hafði opið í báða enda til undankomu eins og Framsóknarmenn eru þekktir fyrir.
Hann vissi auðvitað ekki frekar en aðrir hvað Ólafur hafði sagt eða meint í ræðu sinni um áramótin og vísaði túlkun þess með þessum orðum sínum alfarið til föðurhúsanna. Guðni ætlaði sér greinilega ekki að standa bak við eldavélina í því máli, en var hinsvegar fús til að styðja við bakið á Ólafi þrátt fyrir það - líkast til af gamalli Möðruvallatryggð !
Og mótframboðin sem komið hafa fram gegn sitjandi forseta eru skýr vottur þess að staða Ólafs Ragnars hefur veikst. Fylgi við hann hefur minnkað vegna þessara sjónhverfinga sem hann hefur haft í gangi frá áramótum og það gæti hugsanlega kostað hann embættið.
En þó að hann komi til með að sitja eitthvað áfram, er það skoðun mín að hann muni engu bæta við orðstír sinn með því, enda er það - lýðræðislega skiljanleg afstaða kjósenda - að það skapast alltaf fyrr eða síðar þreyta meðal fólks gagnvart ráðamönnum sem virðast hafa orðið það eina markmið - að sitja sem lengst ! Við þurfum víst á einhverju öðru fremur að halda á Íslandi en einhverskonar Mugabe heilkenni með sívirkum gírugheitum fyrir valdasetu.
Árið 1996 þegar Ólafur Ragnar var fyrst í framboði til forseta-embættisins, skrifaði þekkt kona, sem innmúruð var og innvígð í Sjálfstæðisflokkinn, eins og Styrmir Gunnarsson, grein í Morgunblaðið og sagði þar að hún myndi líklega flytja af landi brott ef Ólafur yrði kosinn forseti. Þannig eru löngum viðbrögð þeirra sem hafa lengi notið forréttinda, en standa svo frammi fyrir því hvernig lýðræðið vinnur og hugnast það enganveginn. Þá er Ísland ekki lengur landið, þá er ekkert sem bindur slíkt fólk við þjóð sína, menningu og sögu. Þá á bara að flytja úr landi !
VII.
Þeir eru margir sem eiga enn í sér þau hrokafullu smákóngagen frá Noregi, sem fluttust hingað með landnámsmönnunum og hafa það víst enganveginn í sér að geta orðið mannleg á lýðræðislega vísu. Þannig menn standa yfirleitt lengst til hægri í pólitík, nema þeir séu dulbúnir hægri menn í vinstri flokkum. Slíkir telja að það eigi að vera sjálfgefið, að æðri embætti eigi aðeins að vera til ráðstöfunar fyrir innmúraða og innvígða sérgæðinga - og megi hreint ekki vera á boðstólum fyrir óbreytta plebeja.
Slíkir gera sífellt kröfur um forréttindi og hlunnindi og telja sjálfsagt að ríkiskassinn sé þeim opinn til fjártöku ef eitthvað gengur andsælis, en greiða sjálfum sér arð ef vel gengur. Þeir líta alltaf svo á að þeir séu höfuðbólið með sinn rekstur en þjóðfélagið er og á að vera hjáleigan sem á sífellt að hlaða undir höfuðbólið.
Þeir hóta þegar þeim sýnist og virða engin þjóðleg og samfélagsleg gildi, þegar þeirra prívat staða er annarsvegar.
Þetta geta menn til dæmis ljóslega séð í dag í gegnum samfélagsleg viðskipti yfirvalda við langtíma forréttinda-alinn kvóta-aðalinn. Ef stjórnvöld ætla að gera eitthvað til þess að þjóðin hafi aukinn ágóða af auðlindinni, sem hún á þó samkvæmt lögum, er talað um að flytja starfsemi úr landi, leggja togurum, segja fólki upp o.s.frv. Og maður spyr náttúrulega sjálfan sig að því, hver eigi að ráða í landinu, til þess kosin stjórnvöld eða auðhringur út í bæ ?
Og þjóðhollusta er auðvitað hvergi til í huga þeirra manna sem eru sérgæðingar til anda og sálar og lifa fyrir veskið og viðskiptareikninginn. Þar gildir enn sem áður það sem skáldið Þorsteinn Erlingsson sagði forðum um slíka menn :
" Því buddunnar lífæð í brjóstinu slær
og blóðtöku hverri er þar svarað,
svo óðara en vasanum útsogið nær,
er ámóta í hjartanu fjarað.
Og Þorsteinn sagði líka í Skilmálunum :
Ef þér ei ægir allra djöfla upphlaup að sjá
og hverri tign að velli velt, sem veröldin á,
og höggna sundur hverja stoð, sem himnana ber,
þá skal ég syngja sönginn minn og sitja hjá þér.
Og ef þú hatar herra þann,sem harðfjötrar þig
og kúgar til að elska ekkert annað en sig,
En kaupir hrós af hræddum þrælum hvar sem hann fer,
þá skal ég líka af heilum huga hata með þér.
Ef anntu þeim sem heftur hlær og hristir sín bönd
og vildi ekki krjúpa og kyssa kúgarans hönd,
En hugumstór að hinsta dómi hlekkina ber,
þá skal ég eins af öllu hjarta unna með þér.
Og það er málið, að þola ekki órétt, að hata alla kúgun og elska réttlætið réttlætisins vegna. Það er lýðræðisleg mannskylda hvers einstaklings sem lifir og vill lifa í samfélagi sem heiðrar og ver sameiginleg réttindi þegna sinna.
Megi forsetakjörið í sumar verða þjóðinni til gæfu og megi íslenska þjóðin eignast sem fyrst forustulið sem vinnur af heilindum og hugsjón fyrir hennar velferð. Megi forsjónin jafnframt gefa að við losnum sem fyrst við forustulið sem tapar sér í sjálfhverfu framapoti og sérgæskuvitleysu sem á hvergi samleið með eðlilegu lýðræði. Við þurfum forustufólk af öðru tagi, fólk sem hefur hjarta fyrir velferð íslensku þjóðarinnar. Við þurfum þannig fólk, lýðræðislega hugsandi fólk, á þing, í ríkisstjórn og á Bessastaði.
Með þeim orðum lýk ég síðasta pistli mínum af fjórum þar sem ég hef leitast við að skerpa sýn hlustenda á gildi lýðræðisins og nauðsyn þess fyrir okkur öll.
(Frumflutt í Kántrý-útvarpinu 22. 4. 2012 )
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Facebook
Nýjustu færslur
- Arfleifð Francos !
- Í kringum kosningasirkus hégómans !
- Innflutningur á ófriði og ofbeldisbreytni !
- Um óraunhæfar væntingar !
- Á skelfilegt skítkast í kosningum að leiða til Gullaldar ?
- Félagshyggjuna upp örvæntinguna og vonleysið niður !
- Er Ísland utanríkispólitískt núll ?
- Um valdaspil að tjaldabaki !
- Að komast yfir Rússland !!!
- Áskorun til kjósenda : Sendum Vg afleggjaratusku íhaldsins ...
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 9
- Sl. sólarhring: 101
- Sl. viku: 815
- Frá upphafi: 356660
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 647
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)