Leita í fréttum mbl.is

Að falla í stafi !

Nýlega var ég að lesa áróðurspésa frá lífeyrissjóðnum Stöfum og satt að segja féll ég í stafi yfir því hvað tekið var stórt til orða um hag vinnandi fólks af því að leggja framlag í lífeyrissjóði og það sérstaklega í séreignasjóði !

Þarna er talað um sólstafi, kjarnastafi og upphafsstafi....... um áþreifanlegan árangur, um stuðning, aðstoð, hjálp, úrræði og umfram allt náttúrulega traust !

" Gefðu ekki frá þér 2% kauphækkun " segja bæklingshöfundar eins og fólk sé að missa af auði og allsnægtum. En þarna er verið að tala um ósköp ómerkilegt ávinningsmál fyrir einstaka launamenn eins og gefur að skilja.

Launahækkanir á Íslandi hafa nú ekki verið neitt til að húrra fyrir og það um langan aldur. Það er pólitísk  " þjóðarsátt " fyrir því í efstu röðum þjóðfélagsins að kaup hækki sem minnst. Og forsvarsmenn hinnar líflausu og steingerðu verkalýðshreyfingar nútímans eru svo sannarlega í þeim hópi sem vill halda fast í láglaunastefnuna, enda eru þeir sjálfir á allt öðrum og betri launum.

En fyrir lífeyrissjóð er það auðvitað stórt mál ef allur fjöldinn greiðir framlag í sjóðinn. Þá eru forsvarsmenn sjóðsins að fá mikið fjármagn til að valsa með - en þegar þannig aflast er glatt á hjalla í Sjóðsbúðum og margt hægt að gera.

En það er hinsvegar aldrei gert neitt við slíka peninga í þágu fólksins að mínu áliti. Það hefur heldur aldrei verið hið raunverulega markmið þó því sé óspart hampað. Lífeyrissjóðir eru bara enn ein svikaleiðin til að arðræna fólk.

Það vantar heldur ekki hjá þessum andfélagslegu sjóðum, að boðið sé í sífellu upp á leiðsögn frá ráðgjöfum og sérfræðingum til að vísa fólki á bestu ávöxtunina með fé sitt, alveg eins og var í bönkunum fyrir hrun og er líklega enn í dag, þó umsvifin hljóti að vera orðin mun minni vegna þess hvað margir hafa tapað aleigunni vegna leiðbeininganna sem þeir fengu.

Fjármagn það sem lífeyrissjóðakerfið hefur sölsað undir sig hefur að mínu mati fyrst og fremst verið notað í fjárhættuspil og valdapólitíska fyrirgreiðslu.

Kerfið er blekking og svikamylla sem aldrei hefði átt að viðgangast. Það fé sem hefur verið haft af fólkinu í landinu í gegnum lífeyrissjóðakerfið er slíkt að vöxtum að ég tel vafasamt að nokkur annar opinber arðráns-óskapnaður komist þar í hálfkvisti þó af ýmsu sé að taka í þeim efnum.

Og ég vorkenni hálft í hvoru öllu þessu fólki sem vinnur fyrir þessa sjóði og ímyndar sér víst að það sé að vinna fyrir fólkið í landinu og velferð þess.

Það er nefnilega nokkuð langsótt að ímynda sér það, ekki síst þegar þær upplýsingar liggja fyrir sem sýna hvernig farið hefur verið með þetta fjármagn sem fólkið á með öllum rétti. Það er búið að spila milljörðum út og suður í alls kyns áhættusækni og vitleysu. Það hafa ekki verið neinir sólstafir yfir því sukki og tapast hafa gífurlegir fjármunir, allt á kostnað almennings í landinu.

En þegar minnst er á það við forsvarsmenn sjóðanna að þeir taki þátt í því að létta skuldaþrýstingi af heimilunum í landinu, er svarið " við megum ekki niðurfæra eignir sjóðanna !" Hvað voru þessir menn að gera þegar þeir spiluðu með þetta fé þannig að tapið er líkast til upp á fleiri milljarða ?

Voru þeir ekki að niðurfæra eignir sjóðanna og það með þeim andstyggilegu aðferðum sem markaðsgræðgin kallaði fram í þeim og öðrum ?

Voru þeir ekki að skerða verðskulduð eftirlaun þúsunda launþega að stórum hluta og spilla lífskjörum þeirra í ellinni sem því nemur ?

Getur nokkur lifandi maður sofið eina einustu nótt sem er sekur um slíkt ?

Það þarf engan að undra þó almennir borgarar í þessu landi falli í stafi yfir yfirgengilegri ósvífni þessara hrægamma sem stöðugt eru að reyna að ná í meiri pening frá fólkinu. Ég hef alla tíð verið andvígur lífeyrissjóðakerfinu eins og því var ungað út, enda varð mér snemma ljóst að það þjónaði ekki hag fólksins heldur þvert á móti. Það voru bláar hendur sem áttu mestan þátt í að skapa þennan umskipting og því miður drógust margir með og studdu það verk sem aldrei hefðu átt að koma þar nærri. En þeir voru nytsamir sakleysingjar sem áttuðu sig ekki á því að þeir voru orðnir að leiksoppum vondra afla.

Lífeyrissjóðakerfið er þjóðfélagslegt átumein og bölvað sem slíkt.

Vonandi kemur sá dagur á Íslandi, að hér verði hvorki til kvótakerfi né lífeyrissjóðakerfi mismununar, svívirðingar og arðráns.

Burt með hrægammana og hákarlana, þetta óþjóðlega andstyggðarhyski sem stendur í vegi fyrir fjölskyldulegum vænleika samfélagsins. Út með óloft og eitraðar gufur svikræðis og siðleysis af þjóðarheimili okkar, hleypum hreinu lofti og heilnæmu inn í stofur þess og líðum ekki lengur lífeyrissjóði sem eru engir lífeyrissjóðir heldur óseðjandi arðránsvélar.

Burt með mörgæsir mannvonskunnar og spillingu sérgæskunnar í þessu landi !

Við Íslendingar höfum engin efni á því að fóðra alla þessa hákarla sem hér hafa lifað í vellystingum árum saman á því að ræna okkur hin réttmætum ávinningi af erfiði okkar !

Tökum hvergi þátt í svínaríi, vinnum að því heilshugar að Ísland barna okkar megi verða land sem hægt er að vera stolt af !

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 13
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 793
  • Frá upphafi: 356974

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 621
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband