Leita í fréttum mbl.is

Gleðidagar mannkynsins !

Það er ekki ný saga, að fólk grípur oft mjög sterklega til áróðurs þegar það er að kynna þann málstað sem það stendur fyrir. Stundum er gengið svo langt í slíku að það sem sett er fram, fer alveg á svig við staðreyndir þær sem veruleikinn býr yfir. Fólk reynir að nota stóryrtar yfirlýsingar með rómantískum tilþrifum og ná fram áhrifum með því móti þó heilbrigð rök hljóti alltaf að mæla á móti slíkum málflutningi. Betri niðurstöður fást yfirleitt þegar fólk er með fætur á jörðinni og í eðlilegu sambandi við eigið blóðstreymi.

Á síðari árum hefur verið farið út í það af ýmsum minnihlutahópum, að markaðssetja hagsmunamál sín með háværum áróðri sem mannréttindamál, þó viðkomandi mál eigi oft í raun réttri heima í öðru samhengi - ekki síst þjóðfélagslega séð.

Siðfræðigildi samfélagsins sem í eina tíð virðast hafa verið miklu skýrari en þau eru núna, voru að flestu leyti hugsuð sem öryggishlíf fyrir mannlífið, þó auðvitað séu dæmi til fyrir því að þeim hafi verið misbeitt og meðferð þeirra þannig valdið óhamingju einstaklinga.

En ekkert af því sem maðurinn gerir er fullkomið og eftirfylgd við góðar reglur skilar sér ekki alltaf eins og best verður á kosið.

Siðferðilegt framferði einstaklinga hefur líka alltaf verið umdeilanlegt þar sem sumir eru því marki brenndir að fara sínu fram hvað sem hver segir. Sérgæskufullir siðleysingjar hafa alltaf verið til !

Langtíma siðferðileg gildi eru nú greinilega mörg hver í hættu, og sum þegar afnumin vegna kröfu tiltölulega fámennra þrýstihópa um viðurkenningu mannréttinda sem stangast á við þau. Grunneining siðaðs samfélags, sem hefur verið hjónabandið, hefur nú verið svipt sínum heilbrigða grundvelli og fjölskyldulegar skilgreiningar hafa þar með verið settar í algert uppnám.

Föður og móðurhugtak er horfið í hafsjói viðurkenninga á afbrigðilegum mannréttindum sem byggja samfélagið ekki upp heldur rífa það niður. Það er löngu kominn tími til þess að menn staldri við og hugsi með ábyrgð til þeirrar atburðarásar sem sett hefur verið af stað með þessum hætti.

Eru þessi yfirlýstu mannréttindi þess eðlis að þau styrki mannlegt samfélag eða eru þau til lengri tíma litið niðurrifsmál ?

Ég er sannfærður um að við séum búin að gera mörg mistök í þessum efnum, og því miður er það svo, að þeir sem hefðu átt að standa þar í skarðinu til varnar, hafa þvert á móti gengið að ýmsu leyti í fararbroddi fyrir vitleysunni.

Það má líka þegar sjá á ýmsu að afleiðingarnar eru hreint ekki góðar og það er mín skoðun að þær eigi eftir að sýna sig verri og því verri sem lengra líður.

Þjóðfélagið er ekki að upplifa neina gleðidaga af þessum sökum, enda virðist gleðin í lífi mannkynsins, sem áður var byggð á almennri skilgreiningu, hafa verið tekin eignarnámi af ákveðnum hópi sem flaggar henni óspart sem sínu framlagi til samfélagsins.

Þar er áróðursvilla yfirgangshneigðar í gangi sem á eftir að vinda upp á sig eftir því sem undanlátssemin eykst gagnvart henni.

Gleði mannkynsins er enginn ávöxtur afbrigðilegra lífshátta. Hún er þvert á móti eðlileg fylgja hverrar manneskju sem vill ganga á Guðs vegum og gleðst yfir fegurð sköpunarverksins og öllu góðu, fögru og uppbyggilegu í mannlífinu.

Það er staðföst skoðun mín að eðlilegt hjónaband, eðlilegt fjölskyldulíf og eðlileg heimili, eigi nú mjög í vök að verjast og þar sé vegið mjög hart að þeim gildum sem hafa jafnan verið flestum kær. Og árásirnar á þessi gildi eru gerðar með mjög kænlegum hætti, einna líkast því að höggormur sé að verki.

Þar er allt framkvæmt undir fögru yfirskini þess að verið sé að tryggja vanrækt mannréttindi. En málið er hreint ekki eins og sumir vilja vera láta.

Hér er um stöðu siðferðilegra gilda að ræða sem alltaf hafa haft það hlutverk að varðveita samfélagið frá öllu því sem leiðir það í ógöngur og andlegt skipbrot. Siðspilling á aldrei samleið með eðlilegum mannréttindum og mannréttindi sem eru þess eðlis að þau krefjast siðspillingar eru og hljóta alltaf að vera samfélagslega óásættanleg.

Gleðin í lífi mannsins er ekki heilbrigð ef hún á að byggjast á og taka mið af einhverju sem er þannig óásættanlegt. Þau viðhorf sem við eigum að byggja upp í lífi barna okkar, eiga að taka mið af öllu því sem varðveitir þau gildi í lífi þeirra sem stuðla að eðlilegum hjónaböndum, eðlilegu fjölskyldulífi og eðlilegri heimilisgerð.

Þá eru fullar forsendur fyrir því að mannleg gleði geti þrifist með eðlilegum hætti í lífi þeirra og þau búið við heilbrigðar samfélagsaðstæður. Hættum að tala um nýju fötin keisarans, tölum um þá nekt sem við blasir, þegar öfugsnúin rétthugsun bindur heilt samfélag í samsæri þagnarinnar gagnvart því sem ekki er ásættanlegt !

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 806
  • Frá upphafi: 356702

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 633
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband