Leita í fréttum mbl.is

Velgjörðamaður auðhringaríkisins - John Wilkes Booth !

 

Bandaríki Norður Ameríku hafa fyrir löngu breyst úr höfuðríki lýðræðislegra stjórnarhátta í leppríki auðhringa og dollaraknúinnar heimsvaldastefnu !

Það er ömurleg staðreynd, ekki síst þegar haft er í huga á hvaða forsendum hin upphaflegu Bandaríki urðu til og hvað frelsishugsjónir skiptu þar miklu máli.

Fyrsta fórnarlamb nýlenduarðráns bandarískra stjórnvalda voru Suðurríkin sem biðu ósigur í borgarstyrjöldinni 1861-1865. Þau voru hersetin í 12 ár og gengu í gegnum miklar hörmungar af völdum hernámsstjóra alríkisstjórnarinnar, en þeir voru margir hefndarþyrstir eftir styrjöldina og sáu enga ástæðu til að fara mjúkum höndum um " The Rebels " uppreisnarmennina.

Spilling var mikil og mútur daglegt brauð, þar sem herstjórar þessir veittu allskonar vafasömum aðilum réttindi til að arðræna fólkið með svipuðum hætti og danskir kaupmenn gerðu hérlendis í eina tíð í skjóli konungsvaldsins. Suðurríkin voru rænd og niðurlægð og sumir telja að þau hafi ekki farið að jafna sig eftir þá meðferð fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina.

Þessi stjórnarstefna hinna sigursælu Norðurríkja gagnvart hinum sigruðu Suðurríkjum, var hreint ekki í anda hins myrta forseta Abrahams Lincoln.

Hann vildi græða sárin, vinna að því að sameina aftur það sem sundraðist í sótthita stríðsæsinganna um 1860. Það kemur skýrt fram í máli hans, við síðari innsetningarræðu hans við embættistökuna í marsbyrjun 1865, hvað hann hafði í hyggju. En þeir voru margir sem hötuðu Abraham Lincoln og þeir voru ekki allir Suðurríkjamenn. Slíka menn mátti finna víða í bandaríska stjórnkerfinu og ekki síður í stríðsgróða-mafíunni sem skapaðist í borgarastyrjöldinni og varð í mörgum tilvikum undanfari upprennandi auðhringa, sem í dag hafa gengið af öllum upphaflegum stjórnarfars-hugsjónum Bandaríkjanna dauðum.

Lincoln var í augum slíkra manna vandræðamaður, maður sem hafði að þeirra mati orðið forseti fyrir mistök, maður sem þurfti að fjarlægja og stóð í vegi fyrir því sem þeir kölluðu eðlilega framvindu. Það hafa því eflaust margir valdamenn í alríkiskerfinu hugsað mikið um það, þegar komið var fram á árið 1865, hvernig hægt væri að losna við Lincoln og koma honum frá.

En John Wilkes Booth hataði Lincoln vegna þess að hann var Suðurríkjamaður og kenndi forsetanum fyrst og fremst um ófarir Suðurríkjanna. Hann skildi ekki að Lincoln var á þessum tíma eina von Suðurríkjanna um ásættanlega meðferð af hálfu stjórnvalda í Washington. Hann var fullur af hatri og myrti eina valdamanninn sem vildi Suðurríkjunum vel af alhug. Þannig leysti hann málin fyrir fjandmenn Lincolns og gerði þeim leikinn auðveldan við að kúga og arðræna Suðurríkin. Þeir voru nefnilega hinir raunverulegu óvinir Suðurríkjanna. Varaforseti Lincolns reyndi að halda uppi stefnu hans gagnvart Suðurríkjunum, enda Suðurríkjamaður sjálfur, en þingið beitti sér af mikilli heift gegn honum og litlu munaði að því tækist að sakfella hann og flæma hann úr embætti. Sú saga er vægast sagt ljót.

En John Wilkes Booth gerði ekki aðeins sínum elskuðu Suðurríkjum það versta sem hægt var að gera þeim, með því að myrða Lincoln, hann gerði líka Bandaríkjunum stórkostlegan greiða með því, Bandaríkjunum sem hann hataði  !

Hann gaf þeim það mikilmenni sem þau guma hvað mest af enn í dag og er því í þeim skilningi mikill velgjörðamaður þeirra !

Staðreyndin er nefnilega sú, að hefði Booth ekki myrt Lincoln, hefði fjármálamafía stríðsgróðamannanna sem réði svo miklu á bak við tjöldin og hafði feikileg áhrif innan þingsins og stjórnkerfisins, hafist handa við það að eyðileggja Lincoln með einum eða öðrum hætti. Hann stóð nefnilega, eins og fyrr segir, í vegi fyrir öllum áformum þeirrar gjörspilltu valdaklíku. Þar réðu ferðinni menn sem ekki voru vandir að meðölum, menn sem áttu lítið sem ekkert sameiginlegt með göfugmenninu Abraham Lincoln !

Þeir voru ekki með það í huga - eins og hann - að binda um sár þjóðarinnar, þeir ætluðu að láta kné fylgja kviði og flá Suðurríkin eins og frekast væri unnt. Stefna Lincolns gat hvergi átt tilvist í þeirra hugmyndum, en þeir voru nógu klókir og falskir til að látast fella tár yfir dauða hans og þykjast harmi slegnir, þó að í raun og veru væri þungu fargi af þeim létt.

Það er John Wilkes Booth að þakka - óvart að vísu - að Bandaríkin eiga Abraham Lincoln óskemmdan sem það mikilmenni sem hann sannarlega var. Hefði Booth ekki komið til með sitt drepandi skot, hefðu fyrrnefnd óþverraöfl gert allt sitt til að ófrægja Lincoln og grafa undan honum og gera hann ómerkan.

Það hefði getað orðið til þess að heimurinn hefði farið á mis við mikilmennið Abraham Lincoln og aldrei fengið að kynnast honum sem þeim manni sem hann var. Þannig hefur verið farið með marga menn sem gleymst hafa vegna þess að unnið hefur verið að því með skipulegum hætti að þurrka út spor þeirra.

Þau öfl sem voru að seilast til valda í Bandaríkjunum um 1865 voru eins andstæð hugsjónum Lincolns og manna af hans tagi eins og þau gátu frekast verið. Þeir hinir sömu sem vildu hann feigan, voru hinsvegar fúsastir manna til að setja hann dauðan á stall sem píslarvott, en um leið og þeir gerðu það, unnu þeir markvisst að því að koma stefnu hans fyrir kattarnef og eyða mannbætandi áhrifum hans sem mest úr löggjöf og stjórnkerfishugsun Bandaríkjanna.

Í dag er Lincoln og minning hans eitt það fegursta sem bandarísk saga geymir, en Bandaríkin í dag eru hinsvegar komin langt frá öllu því sem Lincoln stóð fyrir og hefði viljað leggja nafn sitt við. En þau guma af honum þrátt fyrir það og þykjast enn starfa að hugsjónum hans. En þau hættu því um leið og hann gaf upp andann og eyðilögðu öll hans endurreisnaráform varðandi Suðurríkin, sem urðu í raun, sem fyrr segir, fyrsta nýlenda Bandaríkjanna og upphaf kúgunar þeirra á frelsisréttindum annarra ríkja, kúgunar sem orðin er býsna langvinn og ljótari en flestir virðast eða vilja gera sér grein fyrir.

Þau Bandaríki sem lifðu af borgarastyrjöldina urðu að öðrum Bandaríkjum en þeim sem þekkt voru í heiminum frá 1776 til 1861 og jafnframt í mörgu tilliti að verra ríkjasambandi stjórnarfarslega séð. Hugsjónavægi meðal bandarískra stjórnmálamanna fór mjög hnignandi á árunum eftir borgarastyrjöldina og hagsmunavægi ýmissa auðfélaga fór að taka yfir flest í stjórnkerfinu með tilheyrandi spillingu. En það má samt aldrei gleyma því að hin upphaflegu Bandaríki voru reist á hugsjón frelsis og mannréttinda og komu mörgu góðu til leiðar meðan þeirri hugsjón var fylgt. Frumherjar bandarísku sjálfstæðis-byltingarinnar voru flestir mjög merkir og virðingarverðir menn. Þeir hefðu aldrei samþykkt þá stjórnarstefnu Bandaríkjanna sem hóf skeið sitt eftir 1865 og hefur haft allsráðandi stöðu nú um langt árabil.

Næsta tímabil hinnar bandarísku sögu 1865-1945 sýnir ljóslega hvernig Bandaríkin urðu á tiltölulega skömmum tíma að enn einu böðulsríki nýlendustefnunnar. Sú framvinda skapaði mikil vonbrigði fyrir frelsisunnendur um allan heim sem talið höfðu Bandaríkin varnarskjöld frelsis og mannréttinda. En nú var það annar andi og verri sem réði þar málum, andi fjármagns og forréttinda, andi yfirgangs og valdhroka !

Og eftir 1945 varð heimsvaldastefnan meginþáttur utanríkismála Bandaríkjanna sem þá voru farin að vera fulltrúi fyrir nánast allar þær vammir og skammir sem gamli heimurinn hafði staðið fyrir og gert hafði það að verkum að ofsótt fólk flúði Evrópu ósómans í stórum stíl á sínum tíma og sótti " vestur í frelsið " !

Í dag eru bandarísk alríkis-stjórnvöld síst í þeim hugleiðingum að sporna við ofurvaldi auðhringa landsins, enda sama liðið ráðandi á báðum stöðum, og áreiðanlega verður enginn í framboði til forsetaembættisins þar vestra öðruvísi en að hafa áður verið samþykktur af " réttum aðilum " eins og stundum er sagt.

Þeir " réttu aðilar " eiga að öllum líkindum flest sammerkt með þeim óhreinu Norðurríkjaöflum sem á sínum tíma litu á morðið á Abraham Lincoln sem heppilegan atburð á hárréttum tíma. John Wilkes Booth var því og er velgjörðamaður þeirra afla í bandaríska stjórnkerfinu sem lofa Abraham Lincoln hástöfum á hátíðastundum, en eiga hinsvegar ekkert sameiginlegt með honum og hugsjónum hans og hafa aldrei átt.

Abraham Lincoln og það sem hann stóð fyrir og stendur, tilheyrir nefnilega öðru ríki, því ríki sem hét Bandaríki Ameríku frá 1776 til 1865 !

Í ljósi sögu þess ríkis eru Bandaríki nútímans eins og umskiptingur af verstu gerð !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 10
  • Sl. sólarhring: 94
  • Sl. viku: 816
  • Frá upphafi: 356661

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 648
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband