Leita í fréttum mbl.is

Að syngja Landsbjargarlagið !

Á Íslandi er það oft svo að erfitt er að skapa samstöðu, jafnvel um hin bestu mál.Einn vill þetta og annar hitt og sundurlyndisfjandinn virðist alltaf vera til staðar í einhverri mynd. Það liggur fyrir, eins og sagan sýnir okkur, að samfélagskennd Íslendinga hefur aldrei verið neitt sérstök og allra síst á síðustu sérgæskutímum.

Allt of lengi hafa ráðið í landinu stjórnmálaöfl sem hafa stöðugt ýtt undir það viðhorf að hver sé sjálfum sér næstur og náungakærleikur sé sama og heimska.Sérgæskan á sinn eigin flokk og hann hefur skiljanlega aldrei átt samleið með velferð þjóðarinnar. Sá flokkur er í raun og veru hrollvekja íslensks samfélags og elur að mínu mati á þeim tilhneigingum mannseðlisins sem hvað verstar eru og  hvimleiðastar, svo sem ágirnd botnlausrar eigingirni og sjálfselsku.

Við Íslendingar þurfum á lifandi landsbjörg að halda sem nýtur trausts og virðingar þjóðarinnar og veitir hjálp þegar höfuðskepnurnar fara hamförum og hættur ógna lífi manna á landi og sjó. Við þurfum að geta treyst á gott skipulag í þeim efnum, fórnfýsi, dyggðir og drengskap í hvívetna.

Við búum við þjóðarþing sem veitir landsmönnum litla öryggiskennd og hefur sannarlega ekki verið nein landsbjörg fyrir okkur !

Við höfum búið við ríkisstjórnir sem hafa síður en svo hlynnt að öryggi okkar og fjöreggi og þar hefur landsbjörgin heldur ekki fyrirfundist sem nokkru nemur !

Við búum við dómstóla sem auka hvorki borgaralegt öryggi né efla vissu um gott réttarfar eða stuðla almennt að neinum landsbjargargildum í lífi okkar !

Við búum við fjármálakerfi sem virðist bera Júdasarmerkið gagnvart þjóðinni í öllu sem snertir hagsmuni hennar, þar á meðal bankakerfi sem engin orð ná yfir. Þar hefur öll landsbjörg sjáanlega lengi verið undir öfugum formerkjum !

Allt þetta tel ég að hafi, einkum þó í seinni tíð, unnið þjóðinni meira og minna í óhag og brugðist þar öllu sem gott er og göfugt. Enginn ærlegur Íslendingur getur glaðst yfir því landsbjargarleysi sem dunið hefur yfir þjóðina í gegnum hrun og yfirgengilegt fjármálamisferli undanfarinna ára. En alla þá ógæfu má skrifa á reikning óhæfra yfirvalda og samviskugeldra eftirlitsstofnana.

En þótt við virðumst sjaldan bera gæfu til þess að taka verulega höndum saman og styðja góða hluti til framgangs, gerist stundum það ævintýri að allir standa saman, að allir virðast sjá þörfina á átaki til ákveðins máls. Það er yndislegt að upplifa slíka samstöðu og þannig varð hin sanna Landsbjörg til !

Og við getum því og þrátt fyrir allt glaðst yfir þeirri staðreynd að það er Landsbjörg til í landinu og það Landsbjörg sem stendur fyrir sínu, Landsbjörg sem vinnur þjóðinni í hag og á samleið með öllu því sem gott er og göfugt.

Og einmitt þessvegna er það sem allir eru fúsir til að styðja starf Landsbjargar, björgunarsveitanna okkar, hinna fórnfúsu framvarðasveita okkar í stríðinu við óblíð náttúruöflin, í baráttunni fyrir heill og hamingju íslensku þjóðarinnar !

Það starf sem Landsbjörg vinnur er unnið fyrir okkur öll. Það skilja það allir og fólk virðir af alhug hið ómetanlega framlag Landsbjargar til lífsins í landinu.

Stuðningur við Landsbjörg er stuðningur við þjóðina, stuðningur við þann hugsjóna-anda sem segir í öllum gjörðum sínum heilshugar eins og skytturnar þrjár - Einn fyrir alla og allir fyrir einn !

Við erum á sama báti, við erum á þjóðarskútunni ! Við þurfum öll á hvert öðru að halda, við eigum samleið og við byggjum öll þetta þjóðfélag !

Og sem betur fer, er margt enn gott við samfélag okkar og eitt það besta sem við eigum er hin sanna LANDSBJÖRG !

Syngjum því Landsbjargarlagið einum rómi og látum það hljóma eftirfarandi:

 

Landsbjargarlagið

 

Það vitnar um manngæsku marga

á mannfólksins fjölbreyttu leið,

að hafa þá hugsjón - að bjarga

og hjálpa í hverskonar neyð !

 

Það leysir svo víða úr vanda

og veitir hin sönnustu skil,

að meta hvern lifandi landa

og leiða hann öryggis til !

 

Við hyllum því hamingju slagið

sem heilindum samkenndar nær.

Og syngjum öll Landsbjargarlagið

því Landsbjörg er þjóðinni kær !

 

Það vitnar um manngæsku marga

á mannfólksins fjölbreyttu leið,

að hafa þá hugsjón - að bjarga

og hjálpa í hverskonar neyð !

 

Við styðjum og stuðninginn þiggjum,

sem stöðugt er öryggishlíf.

Á grundvelli gæskunnar byggjum,

þar gildir hvert einasta líf !

 

Við hyllum því hamingju slagið

sem heilindum samkenndar nær.

Og syngjum öll Landsbjargarlagið

því Landsbjörg er þjóðinni kær !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 50
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 356701

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband