Leita í fréttum mbl.is

Gyðingahatur - hægri - vinstri ??

Páll Vilhjálmsson stórbloggari skrifaði undarlega grein á blogg sitt nýlega um það sem hann kýs að kalla Gyðingahatur vinstri manna á Íslandi !

Þykir mér það skrítið uppátæki af manninum þar sem ég hef aldrei vitað til þess að Gyðingahatur sem slíkt bæri að flokka sérstaklega eftir afstöðu manna til stjórnmála. Reyndar má að vísu segja að flestir setji sama sem merki milli nazista og Gyðingahatara, en varla getur Páll átt við það sérstaka tilfelli, þar sem nazistar og fasistar hafa jafnan talist hlutar af þeim söfnuði sem heldur sig mest til hægri. Gyðingahatur grundvallast ekki á stjórnmálastefnu heldur miklu frekar á öfundar og illskuhneigðum mannskepnunnar eðlislega séð.

Það hugarfar virðist byggjast að mjög miklu leyti á því að hatast sé við það útvalningarhlutverk sem Biblían kennir að Gyðingaþjóðin hafi í veröld þessari, samkvæmt fyrirheiti Guðs. Af þeim rótum eru hinir takmarkalausu fordómar sem menn hafa haft gagnvart Gyðingum á umliðnum öldum og öll hin neikvæða umræða í þeirra garð. Þar er um gífurlegt andavald að ræða !

Það hefur hinsvegar í sjálfu sér afskaplega lítið að gera með vinstrimennsku eða hægrimennsku í pólitík. Við þurfum ekki að fara langt aftur í söguna, til að finna tíma þar sem engin vinstrimennska var til staðar í skilningi einhvers valds, en samt var alltaf fyrir hendi bullandi hatur á Gyðingum.

Krossfararnir voru riddarar af aðalsættum Evrópu og hægrisinnaðir valdamenn. Þeir voru yfirleitt fullir af hatri á Gyðingum. Á leiðinni til Landsins helga í annarri krossferðinni 1146-1147, stóðu þeir t.d. víða fyrir fjöldadrápum á Gyðingum, svo sem í Frakklandi og Þýskalandi. Kvað svo rammt að óhæfuverkum þeirra að Bernhard af Clairvaux taldi sér ekki annað fært en að blanda sér í málin til varnar Gyðingum. Annars var kaþólska kirkjan á þessum tíma sem og yfirleitt í sögunni haldin djúpstæðu Gyðingahatri og seint verður sú stofnun kennd við vinstrimennsku ! Kirkjan gekk svo langt að fullyrða hástöfum að hún væri tekin við útvalningarhlutverki Gyðinga þar sem þeir hefðu brugðist Guði !

Páll Vilhjálmsson stórbloggari segir ennfremur í umræddum bloggpistli sínum, að einkenni vinstrimennsku á Íslandi sé alger skortur á innlendum forsendum ! Ég segi nú bara - heyr á endemi, og spyr á móti, hefur nokkurntíma verið til einhver söfnuður manna í þessu landi sem hefur hlaupið eins eftir útlendum forskriftum og fyrirmælum og íslenskir hægrimenn fyrr og síðar ? Hefur Páll Vilhjálmsson aldrei heyrt talað um danska Íslendinga, Bretaþræla, Natódindla og Kanasleikjur ?

Hverjir hafa í áravís sleikt skóhæla útlendra forstjóra og viðrað sig upp við erlenda auðhringi ef ekki íslenskir hægrimenn, m.a. í blindri stóriðjuvímu ?

Hverjir voru tilbúnir að fórna þjóðarhagsmunum okkar í landhelgismálunum á altari Nató sem framlagi til vestrænnar samvinnu ?

Er Páll Vilhjálmsson stórbloggari virkilega alveg ókunnugur þeirri sögu ?

Engin þjóð Evrópu er líklega saklaus af Gyðingahatri og margar þeirra hafa gerst sekar um fjöldadráp á Gyðingum í liðinni tíð, og þar þurfti sannarlega ekki vinstri menn til. Þó að það séu vafalaust til einhver dæmi um vinstrimenn sem kjósa að sýna Gyðingum andúð vegna þess að þeir eru Gyðingar, hefur það verið miklu algengara í gegnum söguna að hægrimenn hafi haft alla forustu í slíkum efnum.

Vöntun á mannréttindum til handa Gyðingum í öllum löndum Evrópu á umliðnum öldum skrifast á reikning forréttinda-stéttanna - sem voru auðvitað hægrisinnaðar þá eins og nú !

Á Íslandi var staðan sú fyrir seinni heimsstyrjöldina, að hægri menn sem sátu hér að völdum, áttu það til að neita landflótta, þýskum Gyðingum um landvistarleyfi, og ráku þá jafnvel til baka til að styggja ekki hin nazistísku stjórnvöld Þýskalands. Í sumum tilfellum hafa menn þar hugsanlega verið reknir út í dauðann, og þar voru sannarlega ekki íslenskir vinstri menn að verki !

Full þörf væri að kanna slík mál til hlítar og vita þannig örlagasögu fleira fólks en Veru Hertsch einnar, þó ég viti að hægri mönnum mörgum séu örlög hennar hugstæð og ég telji mig líka vita af hverju ?

Sumir virðast líka eiga mjög létt með að gleyma þeirri staðreynd, að hér var starfandi nasistaflokkur fyrir stríð og ég veit ekki betur en að flestir sem þar voru fremstir í flokki hafi síðan gengið í Sjálfstæðisflokkinn og orðið sérlega dyggir flokksmenn þar. Það má gera ráð fyrir því  að þar í hópi hafi verið menn sem skrifuðu upp á stefnu Hitlers gagnvart Gyðingum. En Morgunblaðið lýsti þeim reyndar á þessum árum " sem ungum mönnum með hreinar hugsanir ! "

Íslenski hægrimaðurinn hefur trúlega margar birtingarmyndir hið ytra, en innrætið er víðasthvar það sama í þeim söfnuði. Það gildir því líklega einu hvort við tölum í því sambandi um Pál Vilhjálmsson, Illuga Gunnarsson, Guðlaug Þór Þórðarson eða sjálfan höfuðgoðann Davíð Oddsson !

Þar er í öllum tilvikum um sama persónuleika-fyrirbærið að ræða. Það er bara gefið út í mismunandi umbúðum frá Valhallar-útgáfunni !

Við getum þannig sagt að Davíðseintakið hafi verið sent út í gullslegnu Perlubandi, Guðlaugseintakið í svörtu skinnbandi eða gærubandi, Illugaeintakið í lauslímdu prentsmiðjubandi og Pálseintakið sé bara kilja. En eðlisinnihaldið er hinsvegar það sama, og frá mínum bæjardyrum séð, er það afar ógeðfellt !

Páll Vilhjálmsson velur að hlaupa með lokuð augu framhjá öllu hinu sögulega baksviði Gyðingahatursins, til þess eins að reyna að koma höggi á íslenska vinstrimenn ! Næmni hans á söguna er ekki meiri en það, enda leiðist hann sýnilega af pólitískri þröngsýni og hræsnisfullri hægrimennsku.

Páll stórbloggari má auðvitað vera hægrimaður fyrir mér, en ég tel þennan málflutning hans hinsvegar afskaplega lítilbloggaralegan og honum til vansa.

Og þó að hávær menntamanna-minnihluti sem telur sig til vinstri manna, sjái ekkert nema Palestínumenn og þá helst Hamas-liða, og noti hvert tækifæri til að sverta Ísrael og Gyðinga, er sá hópur ekki neinn tákngervingur fyrir almenna vinstri menn í þessu landi og verður það áreiðanlega seint.

Ég hef alla tíð verið ákveðinn vinstrimaður og sósíalisti en ég hef jafnframt alltaf verið hliðhollur tilvist Ísraelsríkis og hef aldrei séð að það þurfi að stangast á við það að ég sé vinstrimaður. Ég hef yfirleitt tekið upp hanskann fyrir Ísrael þar sem deilt er um atburði fyrir botni Miðjarðarhafs, en ég get samt ekki annað en viðurkennt að stundum hafa Ísraelsmenn verið iðnir við það að auka fögnuð óvina sinna með óskynsamlegum aðgerðum. En þeir eru hinsvegar alls ekki einir um það í þessum heimi !

Ég vil líka minna á það, að meðal fremstu forvígismanna vinstristefnu á heimsvísu hafa verið mjög margir Gyðingar og þeir hafa þar sem víðast annarsstaðar unnið sér merkan orðstír. Margir kunnir leiðtogar kommúnista, sósíalista og annarra róttækra vinstrimanna hafa líka verið Gyðingar.

Karl Marx var Gyðingur. Valdamiklir menn í Sovétríkjunum sálugu voru Gyðingar. Auk þess man ég ekki betur en rismesti stjórnmálamaður Ísraels David Ben-Gurion hafi verið sósíalisti og vinstri maður !

Gyðingahatur á Íslandi eða annarsstaðar í heiminum er hvorki vinstrisinnað í sjálfu sér eða hægrisinnað og svo er heldur ekki með það yfirgengilega Araba og múslimadekur sem hér er jafnan viðhaft, að því er mér virðist, í öllum fjölmiðlum. Allar fréttir frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs eru og hafa lengi verið mjög hlutdrægar og virðast miða að því einu að sýna Ísrael í sem verstu hlutverki.

Þegar umræðuþættir eru í sjónvarpi um einhverja atburðarás í þessum heimshluta, er kallað til fólk sem talar máli Araba, en aldrei er neinn fenginn þar á móti til að ræða málin út frá hagsmunum Ísraels. Umræðan er því alltaf skökk og ólýðræðisleg og í raun einhliða áróður fyrir málstað Araba og múslima.

Þetta er að mínu mati ekkert annað en ein birtingarmynd Gyðingahatursins hérlendis og hún virðist því miður eiga nokkuð almennt við fjölmiðlafólk, hverjar svo sem pólitískar skoðanir þess eru.

Kjarni málsins er auðvitað sem fyrr segir sá -  að Gyðingahatarar geta verið jafnt til hægri sem vinstri og finnast í öllum flokkum og meðal allra þjóða. Að halda öðru fram er bara tilraun til blekkinga og áróðurs í einni eða annarri mynd.

Ég vil svo ljúka þessum pistli mínum með efnislegri líkingu við lokaorð Páls Vilhjálmssonar stórbloggara í hans pistli.

Íslenski hægrimaðurinn stendur á gömlum misréttismerg og öskrar þaðan sínar blekkingaræður um sjálfstæðismál okkar út yfir þjóðina, eftir að hafa keyrt íslenska ríkið í þrot og stolið því verðmætasta úr eignasafni þess handa einkavinum og útvöldum flokksgæðingum. Það er mesta aðför sem gerð hefur verið að sjálfstæði þessa lands. Í föruneyti hægrimanna verður aldrei um neinn kærleiksboðskap að ræða fyrir almannaheill í þessu landi, eins og staðreyndirnar sanna sífellt best sjálfar !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 50
  • Sl. viku: 806
  • Frá upphafi: 356702

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 633
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband