Leita í fréttum mbl.is

Lítil hugvekja í byrjun árs

Nú vita það flestir að margir eiga bágt í þessum heimi. En sem betur fer eru líka margir sem vilja hjálpa og líkna og gera náunga sínum til góða, beint og milliliðalaust. Þannig hefur líka hinn sanni kærleikur sýnt sig best á öllum tímum. Það er með mannelskunni í sinni einföldustu mynd !

Kirkjudeildir hafa hinsvegar löngum verið því marki brenndar, að þær hafa  verið milliliðir í góðverkunum. Af þeirra hálfu er sí og æ sótt til almennings um fjárframlög til líknarmála, en þessar stofnanir muna þó oftast vel eftir því að taka þakkirnar til sín fyrir það sem vel er gert. Hjálparstofnun kirkjunnar ætti kannski heldur að heita Hjálparstofnun almennings, því frá fólkinu kemur féð til starfseminnar.

Biskup Íslands talaði í áramótaræðu sinni um ástandið í heilbrigðismálakerfinu, þar sem tæki séu orðin léleg og úrelt, en kirkjan er líka stofnun og hefur viljað fá sína peninga. Og úrræði biskups er landssöfnun þar sem enn einu sinni á að herja á langþreyttan almenning þessa lands til framlaga.

Engum hefur blætt í þessu landi í gegnum hrunið eins og hinu almenna fólki, ríkishítin að meðtalinni kirkjunni fær sitt, en hvar sem um er að ræða þjónustu við almenning er skorið niður og kauphækkanir eru hvergi nefndar.

En biskup landsins er eins og páfinn þegar hann flytur ávörp sín af svölunum frægu, hvetur aðra til þess að hjálpa en situr fast á sínu !

Þó margar kirkjudeildir séu hreint ekki á flæðiskeri staddar, peningalega séð, liggja þeirra peningar yfirleitt ekki á lausu. Kaþólska kirkjan sem er svo auðug, að hún þyrfti ekki annað en að selja eitt málverk úr safni sínu til að bjarga málum varðandi yfirvofandi hungursneyð í einhverju landi, lætur aldrei neitt slíkt af hendi og heldur fast um sitt sem í mörgu er talið illa fengið.

Þó hún teljist eiga fjölda listaverka og allskyns verðmæti sem eru talin nánast ómetanleg, situr hún á sínu gulli eins og hún hefur alltaf gert og réttir blæðandi heimi aldrei heilshugar hjálparhönd. Páfaríkið hefur alltaf verið margfalt í roðinu og hefur vasast í alls konar fjárfestingum í tímans rás og staðið í  veraldlegu braski sem enginn hefði getað ímyndað sér að væri í þess verkahring.

Það hefur haft óheyrileg völd í margar aldir og margt í sögu þess er að mínu mati með því ljótasta sem til er. Það er ekki furða þó fullyrt sé að Hitler hafi oft farið lofsamlegum orðum um þetta stórauðuga prelátaríki við ýmis tækifæri. Fjöldi fólks hrífst þó enn í dag af viðhafnarmiklum skrúðgöngum og ytri umgerð þessarar valdamiklu kirkjudeildar og gerist jafnvel kaþólskt á þeim upplýsingartímum sem við lifum á þó sagan ætti að hrópa gegn slíku.

Ég held að hjá slíkum einstaklingum sé flest annað meira ráðandi en trúarleg afstaða ein og sér. Aldrei gæti ég séð fyrir mér að ég gerðist kaþólskur, því í mínum augum er það svona svipað því og að vera flokksbundinn í rangnefndum sjálfstæðisflokki. Og þar er bara um menn að ræða sem hafa kosið að vera innmúraðir og innvígðir andstæðingar sinnar eigin réttlætiskenndar !

En fleirum en kaþólsku kirkjunni þykir gullið gott !

Margir bandarískir prédikarar hafa lifað og lifa í vellystingum praktuglega, ekki síst þeir sem hafa lagt fyrir sig svokallað sjónvarpstrúboð.

Peningahyggja og auðsækni margra í þeim hópi virðist vera með ólíkindum. Ég lít svo á að í þessum hópi séu t.d. Benny Hinn, Kenneth Copeland, Creflo Dollar, Joyce Meyer, Jim Bakker, Paul Crouch  - og reyndar margfalt fleiri - afskaplega þurftarmiklir einstaklingar !

Þetta fólk á flottar íbúðir hér og þar, yfirleitt með dýrasta húsbúnaði, það ekur um á glæsibílum og á oftast nokkra slíka, það ferðast um í einkaþotum og tekur sér laun sem eru upp á milljónir dollara.

Það virðist ekkert sérstaklega horfa til himins eftir launum þjónustu sinnar, því það er á fullu í því að taka laun sín hérna megin - í milljónum dala ár hvert !

Hefur þetta fólk enga hugmynd um að það er til blæðandi heimur allt í kring ?

Sér einhver Jesú Krist og fordæmi hans í þessum gírugu lífsháttum ?

Það er sagt að þetta fólk prédiki " The health and wealth gospel ", sem gengur út á það - að fólk eigi hikstalaust að búa við góða heilsu og nóg af peningum.

Ef það sé ekki raunin, þá hafi fólk bara gert eitthvað af sér og þessvegna sé flæði gæðanna frá Guði ekki fyrir hendi !

Það er eins og þetta fólk þekki ekki neitt til sögunnar og hafi ekki hugmynd um að kristindómurinn vann sinn sigur í gegnum píslarvætti ótaldra þúsunda manna og kvenna sem höfðu ekki gert neitt af sér ; fólks sem varð saklaust fyrir ofsóknum vegna þess að það hafði gengið Kristi á hönd í heiðnum heimi.

Það fólk sóttist ekki eftir efnislegum gæðum, það sóttist eftir því óforgengilega lífi sem Orðið býður þeim sem hafa fullnað skeiðið í trú og sönnum Guðsótta.

David heitinn Wilkerson lýsti sjónvarpstrúboði í bók sinni Set the Trumpet to Thy Mouth sem einu mesta afleiðingarferli í trúarleiðsögn sem hann þekkti.

Hann sagði að sjónvarpið væri eitt mesta skurðgoð sem tekið hefði verið inn á heimili manna, eins og það væri notað almennt í dag. Það neikvæða sem væri haft fyrir fólki í gegnum sjónvarpið væri svo risavaxið að áhrifum að ekkert kæmist þar í samjöfnuð. Og þeir sem héldu að þeir gætu notað þetta idol til kristins trúboðs væru á algjörum villugötum.

Nú er David Wilkerson látinn en orð hans lifa og ég trúi því að hann hafi verið það gegnheill Guðsmaður að hann hafi ekki varað við slíkum hlutum af ástæðulausu. Munum að við þurfum að þekkja allt af ávöxtunum sem það gefur. Látum ekki blekkjast af sýndarmennsku, lygum og lýðskrumi, það er alltaf nóg framboð af slíku. Gætum okkar á þeim sem eru í raun glefsandi vargar !

Gerum okkur grein fyrir því að í upphafi hvers árs er okkur ekki síst nauðsyn á því að sameinast í þeirri bæn - að nýhafið ár megi verða landi og þjóð til heilla !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 263
  • Sl. viku: 783
  • Frá upphafi: 356964

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 611
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband