Leita í fréttum mbl.is

Hjartadrepið gagnvart kristindómnum !

Það er athyglisvert hvað tíðarandinn er hreint út sagt orðinn andkristinn og það á bæði við á Vesturlöndum almennt og hérlendis. Í því sem öðru öpum við ósiðina upp eftir nágrannaþjóðunum og þykjumst víst meiri og menntaðri fyrir vikið.

Nú er vitað að menning og lífstilvera Vesturlanda er að miklu leyti byggð á kristnum grunni og sú var tíðin að kristniboðar frá Evrópu og Bandaríkjunum fóru til Afríku og Asíu til að boða þjóðum þar kristni. Ég býst við að hefði þeirra ekki notið við, væri líklega öll Afríka múslimsk í dag og þar með fjandsamlegri menningu Evrópuríkja umtalsvert meira en nú er. Afrísk kristni er víða til fyrirmyndar og líklega tímabært að fá fólk þaðan til að boða kristni hér.

Áhrifa kristindóms gætir líka víða í Asíu og kristið fólk þar er hliðhollara okkur á Vesturlöndum en við eigum í reynd skilið. Það munar líka um framlag þess til góðra hluta í þessum heimi og við ættum vissulega að vera þakklát fyrir það.

Það ætti því að geta legið ljóst fyrir hverjum sæmilega skynsömum manni að kristindómurinn er ein grundvallarstoðin undir lífsgildum þeim sem við höfum lengst af viljað fylgja og því er andúðin á honum í nútímanum mjög mikið umhugsunarefni.

Í íslenskum skólum má helst ekki minnast á neitt kristið lengur, en þar má liggja yfir allskyns efni úr heiðinni goðafræði tímunum saman. Venjulegur íslenskur menntaskólanemi veit yfirleitt talsvert um það efni enda er honum kennt það, en um Biblíuna, Bók bókanna, grundvallarrit trúar okkar, virðist hann býsna fáfróður. Í spurningaþætti í sjónvarpi nýverið vissu sex upplýstar manneskjur, kennarar þar á meðal, ekki hvað guðspjallamaðurinn Lúkas hefði starfað og oftast er það svo, þegar spurning kemur úr Biblíunni að menn standa á gati.

Þegar spurt var öðru sinni í sama þætti um hvað þorpið hefði heitið sem Marta, María og Lasarus bjuggu í, voru viðbrögð eins keppandans mjög athyglisverð. Hann fórnaði nánast höndum og kvartaði yfir að lið hans skyldi fá spurningu um eitthvað Biblíurugl, en hitt liðið miklu betri spurningu. Svo klykkti hann út með því að segja " Jesus " , og auðvitað með enskum framburði. Og að sjálfsögðu gataði liðið á þessu og líka hitt liðið.

Þarna var þó verið að spyrja um atriði varðandi heimssögulegan atburð, að maður var vakinn upp frá dauðum. En það virtist engin leið að vekja keppnisliðin upp frá þeim andlega dauða sem herjaði á þau varðandi áhuga á slíkum hlutum. Þau voru slíkir lasarusar að þekkingu á þessum efnum, að maður velti því nánast fyrir sér hvernig svona upplýst nútímafólk hefði getað komist hjá því að vita þetta ?

Það má til dæmis spyrja - er þekking íslenskra kennara í nútímanum á Jesú Kristi og lífi hans og starfi virkilega orðin svona bágborin ?

Það þarf víst ekki að búast við að nemendur í skólum viti mikið varðandi kristin gildi þegar fræðararnir eru gjörsamlega skilningsvana í þeim málum og ýmis skuggaöfl í þjóðfélaginu ýta leynt og ljóst undir fjandsamlega afstöðu til kristindómsins.

Hvað erum við að gera þegar við höldum uppi svona viðhorfum og teljum að það sé í þágu uppbyggilegrar lífssýnar fyrir börn okkar og framtíð þeirra ?

Ég held að margur sem í alvöru hugsaði það mál, kæmist fljótlega að þeirri niðurstöðu að þarna værum við á mjög rangri leið.

Heiðrum því Guð vors lands í skólum landsins og úthýsum honum þar ekki !

Samfélag sem gengur fram í því að höggva undan sér meiðinn sem það er byggt á getur ekki þrifist með heilbrigðum hætti. Það mun því taka út afleiðingarnar af röngum viðhorfum og lagasetningum sem þjóna niðurrifs-sjónarmiðum.

Þá mun koma að því fyrr en síðar að lítið sem ekkert líf verður lengur að finna í Lagarfljóti andans í þessu landi og þegar svo verður komið, mun enginn kannast við að bera þar nokkra ábyrgð, frekar en nú í náttúrulegu myndinni fyrir austan.

Kristindómurinn er besta gjöfin sem mannkyninu hefur hlotnast og sú gjöf er einnig gefin okkur Íslendingum. Látum engin öfl spilla fyrir okkur þeirri gjöf.

Förum vel með það sem blessar samfélag okkar og göngum þar saman í þjóðlegri einingu gagnvart sögu okkar og menningu !

Ég vil svo hér í lokin segja við alla sem vilja taka þeirri kveðju  - gleðilega páska !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 127
  • Sl. sólarhring: 219
  • Sl. viku: 907
  • Frá upphafi: 357088

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 723
  • Gestir í dag: 115
  • IP-tölur í dag: 114

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband