Leita í fréttum mbl.is

Ólánasýslan og skuldahrepparnir !

Íslenska ríkið er sannkölluð ólánasýsla fyrir landsmenn. Þar hafa algerlega óhæfir kerfiskarlar um langt árabil haft með höndum efnahagsmál okkar og gert það með þeim hætti að yfirgengileg skömm er að því. 

Ég leyfi mér að fullyrða, að þó ýmislegt geti sjálfsagt verið að á hinum Norðurlöndunum, hafi meðferð opinberra fjármuna verið þar með miklu betri hætti en hér hefur tíðkast.

Það er svívirðileg lenska hér, að valdamiklir aðilar og hagsmunasamtök hafa alltaf fengið að blóðsjúga ríkið á forsendum sérhagsmuna og heildarhagsmunir aldrei verið sérlega mikils metnir.

Við slíkar aðstæður verður sérhver lánasýsla hins opinbera að ólánasýslu sem þrýstir skuldaklöfum á herðar alls vinnandi fólks í landinu og þurrkar upp allar skapaðar forsendur fyrir velmegun.

Og það gæti svo sannarlega ríkt velmegun hér. því þjóðin er dugleg og vinnusöm að öllu jöfnu, en blóðsugurnar eru orðnar allt of margar sem sjúga linnulaust frá fólkinu mestan hluta af því sem það aflar í sveita síns andlitis.

Ríkisaðallinn er skelfilegt ógæfulið fyrir þjóðina og  svipaða sögu er að segja af ráðsmennskunni á sveitarstjórnarstiginu. Þar hafa víðast hvar hreiðrað um sig kjötkatlaklíkur sem maka krókinn fyrir sig og sína á kostnað almennings.

Þar eru skuldahrepparnir í leiðandi stöðu !

Jafnvel þó einhver sveitarfélög eigi peninga, sem helst er þá vegna sölu eigna, er vandlega séð til þess að þeir peningar fari ekki í að bæta þjónustu við almenning. Þær krónur skulu sérmerktar gæðingunum við kjötkatlana með einum eða öðrum hætti. Og allar álögur á fólkið eru hafðar sem hæstar, jafnvel hjá þeim sveitarfélögum sem guma af góðri fjárhagsstöðu sinni og eiga einhverja peninga - oftast vegna seldra eigna !

En það er alltaf sagt, af hálfu opinberra aðila, að það verði að hækka þjónustu -gjöld vegna erfiðra aðstæðna í þjóðfélaginu og þungrar stöðu ríkis og bæja !

En hvar eru þær erfiðu aðstæður fyrst og fremst, sem verið er að vitna til, eru þær ekki hjá almenningi sem hefur orðið að bera drápsklyfjar syndagjaldanna alla tíð og síðast hryllinginn eftir hrunið og frjálshyggjufylleríið mikla ?

Og um leið og ólánasýslan og skuldahrepparnir hækka gjöldin, hækka skuldir almennings og skuldir heimilanna og verðtryggingardjöfullinn hlær hástöfum !

Og meðan heilbrigðisþjónustan er svelt og svikin um ærlega meðferð fær Harpan viðbótarfé þvert ofan í gerða samninga. Raunsæir menn vissu að þar myndu hlutirnir aldrei standa undir sér, en menningarpostularnir þóttust vita betur og fengu sitt fram. Og svo eru fasteignagjöld sem alltaf lá fyrir að þyrfti að greiða ekki borguð og þess í stað grenjað á meira fé.

Ábyrgðarleysið gagnvart almannahag sést vel í þeim gjörningum :

Síst er landsins svelta þjóð

sátt við skammtinn smáa,

þó Harpa syngi Hörpuljóð

á Hörpulaufið gráa !

Og nú ætla skilgetnir synir hrunsflokkanna að kippa öllu í lag ?

Nýafstaðnar kosningar virðast fyrst og fremst endurspegla smekk kjósenda fyrir gálgahúmor !

Ég var spurður að því eftir að úrslit lágu fyrir hvað ég héldi að kæmi út úr málum ?

Svar mitt var eftirfarandi :

Sigmundur Davíð með Kögunarkjarna

mun koma sér saman við Valhallar-Bjarna,

þó fortíðin hræði

og ferlið þar mæði

og fráleitt sé yfir því hamingjustjarna !

Og þeir félagarnir Sigmundur Davíð og Bjarni, sem endurbornir Halldór og Davíð, voru ekki búnir að ræða mikið saman þegar þeir urðu sáttir á eitt atriði, þeir urðu strax sammála um að þeir yrðu að vera góðir við LÍÚ, enda verður óburðurinn sem settur verður á laggirnar hreinræktuð LÍÚ-stjórn !

Loforðapostuli Framsóknarflokksins er samt þegar byrjaður að grenja yfir því að staða ríkisins sé miklu verri en hann hafði haldið, sem virðist ávísun á það að ekki sé inneign fyrir gullnu framtíðinni sem hann lofaði !

Bjóst þessi lýðskrumari við því að staða ríkissjóðs væri góð - fimm árum eftir hrun ?

Ef honum hrýs hugur við stöðu mála núna, hvernig hefði honum þá litist á að taka við árið 2009 þegar allt var í rúst ?

Síðan þá hefur hann samt alltaf þóst hafa lausnir á öllum málum, standandi sem stjórnarandstöðuleiðtogi  í ræðustól í þinginu, en hvar eru þessar lausnir nú, þegar hann er varla tekinn við - en samt byrjaður að barma sér ?

Megi Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson uppskera eins og þeir hafa sáð til. Þeir sáu ráð til alls meðan þeir voru í stjórnarandstöðu og aðrir þurftu að glíma við efnahagsósköpin sem hægri flokkarnir, flokkar þeirra, sköpuðu með ábyrgðarleysi sínu.

Nú tekur ábyrgðin við og uppfylling loforðanna sem gefin voru ! Og kannski er von að þeir Sigmundur og Bjarni séu farnir að svitna svolítið og heykjast gagnvart því að standa við sitt !

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir fara að því að stjórna og standa við heitin, hvernig þau öfl ætla að koma til liðs við almenning sem aldrei hafa gert það fyrr, hrunsöflin sjálf  !

Ég yrði ekki hissa þó ríkið yrði enn meiri ólánasýsla í gegnum valdaferil þessara nýju topptvíbura og skuldahrepparnir næðu nýjum hæðum í efnahagslegu öngþveiti því sannleikurinn er sá -

að lýðskrumarar reynast aldrei vel !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 805
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 632
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband