Leita í fréttum mbl.is

" Örlætisgjörningur ? "

Fyrir nokkru horfði ég á fréttir í sjónvarpi og var þar kynnt niðurstaða úr svonefndum Baugsmálum og ósköp fannst mér nú afraksturinn lítill eftir allt stappið árum saman. Það er augljóst mál að þjóðin hefur ekki grætt neitt á þessum miklu málaferlum en fróðlegt væri að vita heildar launasummu lögfræðinga eftir þetta fargan því hún hlýtur að vera stjarnfræðileg !

En þar sem ég sat og hlustaði á þessar fréttir, heyrði ég orð sem ég hafði ekki heyrt áður, en það var „ örlætisgjörningur " !

Það kom fljótt í ljós að þetta var einskonar lagatæknilegt orð yfir þjófnað !

Og eins og skilja má, er þetta orð bara notað þegar „fínir aðilar"  brjóta lög og reglur. Þeir stela nefnilega ekki þessir menn, ónei, þeir ganga bara fram í örlætisgjörningum gagnvart sjálfum sér og öðrum !

Þetta þykja víst oft svo kurteisir og flottir menn, að allt réttarkerfið liggur eiginlega hundflatt fyrir þeim og virðist dást að þeim í bak og fyrir, enda eru lögfræðingar þeirra ekkert slor !

En þessi glansmynd er ekki ekta og veruleikinn er allur annar, hvað sem reynt er til að „hagræða"  sannleikanum, enda eiga svikahugtök aldrei samleið með því sem satt er og rétt.

Huliðsblæja hræsninnar dugir oftast skammt gagnvart þeim sem vilja sjá og skilja hvað er í gangi og neita að beygja sig fyrir blekkingum og svínaríi.

Það er rangt að loka augunum fyrir því sem sjáandi fólki ber að sjá !

Þegar eignum almennings eða þjóðar er stolið er það kallað að  „einkavæða"   og þegar stolið er innan úr fyrirtækjum sem eru í raun gjaldþrota, til að hygla vinum og vandamönnum er það sem sagt kallað „ örlætisgjörningur" og þá er örlætið auðvitað á annarra kostnað, yfirleitt lands og þjóðar !

Þetta er ekkert nýtt í sögunni. Það hafa alltaf verið til menn sem hafa talið það sjálfsagðan hlut að fara frjálslega með almannafé. Cató gamli sem uppi var um 200 árum fyrir Krist og var með kostum og göllum nokkuð samkvæmur sjálfum sér, sagði um samtíð sína „ þegar einhver stelur frá nágranna sínum fer hann í fangelsi og hlýtur refsingu, en sá sem stelur af almannafé er klæddur purpura og gulli !"

Á þessu sjá menn kannski hvað maðurinn hefur þroskast mikið á þessum 2200 árum sem liðið hafa frá þessum ummælum Catós um samtíð sína !

Það er gamalt áróðursbragð að búa til hugguleg hugtök yfir vonda hluti. Eitt sinn var talað um extermination þegar átt var við ákveðinn verknað, en það þótti ekki nógu gott orð og minna óþægilega á hugtök eins og extermination camps, svo tekið var upp hugtakið termination, en það ónáðaði líka samvisku einhverra, svo tekið var upp hugtakið abortion en með því þóttust menn ná niðurstöðu sem truflaði engan !

Við Íslendingar féllum svo í nokkuð sambærilega gryfju og fórum að tala um fóstureyðingu, svona í svipuðum dúr og talað er um sorpeyðingu.

En rétta orðið er auðvitað fósturdeyðing því það er verknaðurinn sem hér um ræðir. Það er nefnilega ekki verið að losa sig við eitthvað rusl eða fjarlægja eitthvað slíkt, það er verið að deyða saklausasta líf sem til er !

Eins er það þegar talað er um örlætisgjörning þegar menn eru einfaldlega að fremja þjófnað !

Af hverju er ekki talað um hlutina á einfaldan og ærlegan hátt ?

Hverjir hafa svona mikinn hag af því að umvelta slíkum og þvílíkum hugtökum og gera þau hlutlaus, ópersónuleg, flöt og ósönn ?

Það skiptir miklu að fólk sé vakandi fyrir því hvernig hugtök eru notuð og geri sér grein fyrir þeim blekkingabrögðum sem viðhöfð eru hverju sinni.

Það virðist alltaf vera nóg til af aðilum sem kjósa að þrífast á því öllu öðru fremur að beita blekkingum og svikræði í samfélagslegri framgöngu sinni.

Slíka aðila ber að varast, og þeir sem tala um örlætisgjörninga í staðinn fyrir þjófnað eða fjalla um hluti með sambærilegum hætti, eru að mínu mati í hópi þeirra sem standa falskt og rangt að málum.

 

Auðga sig á illu stigi

ýmsir menn á hverjum degi.

En þjóðfélag sem þrífst á lygi

það er ekki á góðum vegi !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.3.): 238
  • Sl. sólarhring: 259
  • Sl. viku: 1112
  • Frá upphafi: 375594

Annað

  • Innlit í dag: 208
  • Innlit sl. viku: 931
  • Gestir í dag: 203
  • IP-tölur í dag: 202

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband