Leita í fréttum mbl.is

Hugað að íslenskum rótum !

Við Íslendingar erum sannarlega undarleg þjóð og margbrotinn söfnuður !

Við höfum þraukað í gegnum aldir harmkvæla og hörmunga, oftast eins og hangandi á hálmstrái fornrar frægðar og enn erum við síspilandi út mikilmennsku af inngróinni minnimáttarkennd.

Það er eins og Jón Hreggviðsson skríði þá fram í okkur öllum og ríði húsum í okkar sálarbyggðum og kveði rímur við raust !

Og þó að sumir Íslendingar þykist heimsborgarar miklir og tali af fyrirlitningu um þröngsýnan torfkofahugsunarhátt og nesjamennsku, skína jafnvel í gegnum slíkan og þvílíkan gorgeir erfðir sem eiga kannski rætur í eyjarnefnu á Breiðafirði eða jafnvel einni lítilli þúfu norður í landi !

Í átthagana andinn leitar segir í kvæðinu og þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur er líka þekkt viðkvæði. Við eyðum kannski hálfri ævinni og vel það í þá sígildu baráttu að koma okkur fyrir einhversstaðar og uppgötvum svo á stund sigursins og uppskerunnar að við eigum í raun heima á allt öðrum stað.

Þá er það kannski einhver afdalur sem dregur eða einhver hundaþúfa út við hafið, þar sem afi og amma áttu kannski heima, þar sem einhverjar óljósar minningar í sálarlífinu eiga upphaf sitt og þangað leitar hugurinn - ekki síst þegar líða fer að ævikveldinu !

Og við Íslendingar erum svona upp til hópa - allir með einum eða öðrum hætti, að leita eigin upphafs, leita í eigin kviku, leita að því sem skiptir okkur mestu. Við finnum þetta þegar aldurinn fer að færast yfir okkur, þegar við höfum eltst við blekkingar meginhluta ævinnar, hlaupið á eftir vindinum og tilbeðið skurðgoð síbreytilegs og síversnandi tíðaranda. Þá loks sjáum við að það vantar einhvern  sálarhrópandi kjarna í lífsmyndina !

Þá finnum við allt í einu að okkur langar heim, heim í heiðardalinn, heim með slitna skó. Þá er það heimur pabba og mömmu, heimur afa og ömmu, sem togar, höfnin sem við lögðum frá út á lífshafið mikla, endur fyrir löngu.

Gamlar heimaslóðir öðlast nýtt líf og margt fólk sem er að verða gamalt, virðist halda að það finni æskubrunninn aftur með því einu að snúa heim og hlynna að því besta sem hugurinn geymir og einu sinni var. En það er auðvitað ekki svo, en samt er það oftast óviðráðanleg hvöt sem rekur okkur til bernskuslóðanna, til móts við okkar eigin rætur.

En það er kominn annar tími sem talar með nýjum hætti og kynnir nýja siði, og það er náttúrulega allt breytt og lífið sem skipti okkur svo miklu þegar við vorum á æskuskeiði, fólkið okkar, gömlu ástvinirnir sem voru þá til staðar allt í kringum okkur, þetta dýrmæta skyldulið, er farið og hefur kvatt og kemur aldrei aftur.

Og við sitjum eftir með minningarnar sem lifa í okkur og með okkur, og því fer svo hjá okkur flestum að við teljum okkur njóta þeirra best þar sem þær urðu til, í gamla dalnum eða á ströndinni við ysta haf.

Og lífssagan spinnur nýja og nýja kafla utan um okkur meðan við erum hér, uns við hverfum líka inn í víddina sem bíður okkar - eins og þeir sem á undan eru gengnir.

Vonandi skiljum við flest eitthvað eftir sem gagnast getur niðjum okkar á þeirra vegferð og hjálpað þeim til að greina vörður á leið til lífshamingju og lífsfyllingar.

Við Íslendingar erum svo fáir, að við ættum þessvegna að geta verið sem ein fjölskylda og slíkt næst best fram með því að vökva hinar þjóðlegu rætur, hin sameiginlegu erfðabönd, sem eru hin þjóðlegu blóðbönd okkar allra !

Þarf ekki höfuðtakmark lífs okkar að vera að hlynna að öllu því sem getur gert samfélag okkar heilbrigðara og okkur að betri manneskjum meðan við erum hér ?

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband