Leita í fréttum mbl.is

Böðlasporin frá My Lai til Dasht-el-Leili, Abu Ghraib og Guantanamo !

Þau eru ekki svo fá staðanöfnin í sögunni sem vekja hrylling vegna atburða sem þar gerðust og þar á meðal má nefna My Lai, Dasht-el-Leili, Abu Ghraib og Guantanamo. Það er ekki af engu sem ég nefni þessa staði, því gerendur þess sem þar gerðist og veldur því að þessir staðir eru illræmdir um heim allan, voru Bandaríkjamenn ! Það er erfitt að skilja, að þeir „synir frelsisríkisins mikla í vestri", skuli hafa gerst sekir um þá voðalegu verknaði sem framdir voru á þessum stöðum. En það er svo margt í sambandi við Bandaríkin sem er erfitt að skilja. Þar virðist svo margt ríða á sama hestinum sem enganveginn ætti að eiga samleið !

Bandaríkin eru í dag ríki sem í raun hefur snúið baki við því flestu sem var forsenda mála þar í upphafi. Það er löngu liðin tíð að Bandaríkjamenn séu álitnir boðendur frelsis og góðra hugsjóna. Sérgæskan hefur með algerri valdsyfirtöku auðhringa í bandaríska stjórnkerfinu, séð til þess að þar þrífst ekki lengur frumgróði neins frelsis, hvorki fyrir bandaríska þjóð né aðra. Og eins og sagan sýnir með stórveldi fyrri tíma, þá nærast Bandaríkin í dag á því sama og þau, að sjúga blóð úr sínum nýlendum, sem eru fleiri en flestir gera sér grein fyrir.

En það er eins og sannleikurinn varðandi þetta sé svo sár, að fólk vilji forðast að horfast í augu við hann. Það kjósa margir fremur að lifa við blekkingarnar ! Allt of margir vilja enn í dag dýrka Bandaríkin sem það sambandsríki sem þau voru áður en heimsveldisstefnan tók þar völdin. En það er löngu liðin tíð og mikilmenni bandarískrar sögu myndu ekki kannast við Bandaríki nútímans sem það ríki sem þau helguðu krafta sína og dáð.

Við höfum fengið áreiðanlegar fréttir um að njósnakerfi Bandaríkjanna sé ofan í hvers manns koppi, og að af þess hálfu sé ekki síður njósnað um vini og bandamenn. Við vitum að yfirfangabúðastjórinn í Guantanamo er skráður  friðarverðlaunahafi Nóbels og var útnefndur til þeirra verðlauna fyrir ódrýgðar dáðir ! Við vitum að lygarnar um meinta kjarnorkuvopnaeign Íraka hafa kostað tugþúsundir manna lífið !  Við eigum líka að vita að loftárásirnar á Júgóslavíu voru svívirðilegur verknaður, en fjölmiðlamafían rangfærði allar staðreyndir í því máli og ófáir saklausir borgarar voru drepnir !

Það er nánast sama hvaða glæpur er drýgður með hernaði og allskonar sértækum valdatryggingaraðgerðum um allan heim, alltaf virðast þeir nógir til sem vilja trúa því að Bandaríkin séu ríkið sem gætir heimsfriðarins !

Ég treysti mér samt til að halda því fram, eftir að hafa lesið og rannsakað ræður og stefnumál fyrri forseta eins og Georg Washingtons, John Adams, Thomas Jeffersons, John Quincy Adams og Abraham Lincolns, Woodrow Wilsons og Franklin D. Roosevelts, að Bandaríki nútímans séu orðin allt annað fyrirbæri en þessir menn trúðu á og hefðu viljað sjá vaxa til framtíðar á helguðum hugsjóna grunni. Óskabarnið þeirra er orðið að umskiptingi sem hefur gert fullkomið hagsmunabandalag við þau öfl gamla heimsins sem fólkið sem fór vestur í upphafi var að flýja. Ófrelsi austurheimsins hefur náð yfirhöndinni yfir því frelsi sem komið var á í vestri. Þessvegna er ekkert í dag sem aðgreinir Bandaríkin frá venjulegum arðránsríkjum evrópskrar sögu. Það er dapurleg niðurstaða fyrir heiminn og okkur öll !

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna frá 1776 er og verður heimssögulegt frægðarplagg, en hún er löngu hætt að vera lifandi leiðarvísir fyrir bandarískt stjórnarfar. Það er annar andi þar en var !

Síðasti forseti Bandaríkjanna sem var virðingarverður sem slíkur að mínu mati, var Franklin D. Roosevelt. Oft hef ég hugleitt hvað hann dó á heppilegum tíma fyrir þau öfl sem tóku við og voru langt frá öllu því sem hann vildi standa fyrir. En raunverulega fór valdakerfi Bandaríkjanna eins með þá alla Lincoln, Wilson og Roosevelt ! Stefnu þeirra var hafnað og verri menn tóku við og eyðlögðu eða þynntu út verk þeirra og dáðir !

Auðhringarnir virðast bara búa til forsetana nú til dags. Þeir fitna og auðgast á kostnað ríkisins sem skuldar nú sennilega um 16 þúsund milljarða dollara. Meðal helstu lánadrottna bandaríska ríkisins eru að sögn Kínverjar og Japanar !

Republikanar hafa með herskárri stefnu sinni stórspillt hag ríkisins og þeir fást með engu móti til að taka á ríkisfjármálunum með öðrum hætti en þeim að skera stórlega niður félagslega þjónustu og níðast á hag almennings. Þeir eru fulltrúar bandaríska sjálfstæðisflokksins - varnarþing auðstéttarinnar !

Eftir Franklin D. Roosevelt hafa, sem fyrr segir, setið talsvert ómerkari menn á forsetastóli vestra og ekki síst hin síðari ár. Kannski hafa það fyrst og fremst verið menn sem hafa kunnað að hlýða þeim fyrirmælum sem þeir hafa fengið frá hinum raunverulegu valdhöfum ?

Hver kannaðist við Bill Clinton áður en hann varð forseti, hver kannaðist við Barack Obama ? Hversvegna urðu þeir forsetar ? Var það ekki bara vegna þess að þeir voru útvaldir af útvöldum til að gera nákvæmlega það sem ákveðið hafði verið áður - á bak við tjöldin - að ætti að gera ?

Er hægt að tengja George Washington og það sem hann stóð fyrir við glæpinn í My Lai ? Væri mögulegt að tengja nafn John Adams við það sem gerðist í Dasht-el-Leili ? Myndi Thomas Jefferson  hafa verið sáttur við Abu Ghraib-svívirðuna ? Hefði Abraham Lincoln lagt blessun sína yfir Guantanamo-pyntingabúrið ?

Nei, auðvitað ekki ! Þau Bandaríki sem þessir menn sköpuðu og unnu fyrir af dáð og drengskap, voru allt annað ríkjasamband en það sem ber þetta nafn í dag. Bandaríki nútímans virðast óðum stefna að því einu að tryggja sér stöðu í hópi svörtustu sóða-ríkja Sögunnar, hvort sem litið er til efnislegrar eða siðferðilegrar mengunar.  Göfugt er takmarkið eða hitt þó heldur !

Bandaríkin eru í dag ört hnignandi stórveldi. Innanskömmin er farin að éta upp mikið af afltaugum ríkisins og hugsjónagrundvöllur þess er löngu hruninn. Það sem gaf Bandaríkjunum í upphafi kraftinn til að leiðbeina gamla heiminum til betri hluta, er ekki lengur til staðar. Almenna frelsistengingin hefur verið slitin úr sambandi. Uppdráttarsýki allra svívirðinga hins viðbjóðslega valdakerfis gamla heimsins hefur flutt sóttkveikjur sínar í þann nýja og er með kyrkingartaki sínu að gera út af við hann !

Efnahagslegt hrun hagkerfis Bandaríkjanna mun hafa gífurlegar afleiðingar í för með sér. Það mun kollvarpa lífskjörum og almennri velferð um öll Vesturlönd og skapa kreppu og þjóðfélagslegt glundroðaskeið til margra ára. Enginn getur vitað hvað kemur til með að rísa að lokum upp úr slíku öngþveiti til ráðandi valdastöðu - en vonir um að það geti orðið eitthvað heilbrigt og gott fyrir okkur öll geta tæpast verið bjartar !

Óseðjandi græðgi ójafnaðarmanna sérgæskunnar, hvort sem er á Íslandi eða í Bandaríkjunum, eða annarsstaðar á Vesturlöndum, hefur þegar eyðilagt eða skaddað margt af því besta sem við höfum getað byggt upp og búið við í samfélagslegu tilliti. Þar á ég við almenn velferðargildi sem tók áratugi mikillar og fórnfúsrar baráttu að skapa !

Hvenær ætla menn að læra af reynslunni og varast vítin ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband