Leita í fréttum mbl.is

Stórabróðurstefna hins allsráðandi eftirlits !

Í fjölskyldulegu samhengi er það oftast talið hið besta mál að eiga stóran bróður. Þá er hugsað til þess að þar sé einhver til staðar sem gætir manns og sér um að enginn sé að abbast upp á mann.

Og það sækir mig áleitinn grunur um - að nokkuð margir smásálarlega innréttaðir landsmenn hafi meðvitað eða ómeðvitað þá afstöðu til Evrópu-sambandsins, að það sé einhverskonar stóri bróðir sem muni passa upp á hagsmuni litla bróður, það er að segja Íslands, þegar fjölskyldusamhenginu hefur verið komið á !

Það eru nefnilega svo ótrúlega margir sem vilja áfram láta einhvern passa sig, eins og gert var meðan þeir voru börn. Þeir virðast enn á því þroskastigi, þó fullorðnir eigi að teljast, að halda í barnaskapinn og vilja ekki leggja hann niður !

En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að þegar sú staða kemur upp, að einhver valdamaður eða valdaklíka vill taka upp það hlutverk að verða með sjálfskipuðum hætti umsjónaraðili allra þegna þjóðfélagsins, er virkileg hætta á ferðum. Svo allt um grípandi og viðamiklu „umönnunar-hlutverki" verður nefnilega ekki komið á nema með drjúgmiklu eftirliti. Og þá kemur trúlega að því þjóðfélags-ástandi sem George Orwell fjallar um í bók sinni 1984. Þar er Stóri bróðir kominn ofan í hvers manns kopp og enginn lengur óhultur fyrir njósnum og eftirliti !

Og hver vill búa við slíkt, líklega enginn og alls ekki til lengdar þegar ískaldar staðreyndir stöðunnar fara að tala sínu máli ?

Það tekur nefnilega á taugarnar að vera undir stöðugu eftirliti, því það skerðir að sjálfsögðu frelsi hvers manns, og það kemur nánast alltaf að því að kerfisbundið eftirlit verður með einum eða öðrum hætti að kúgunarkenndu fyrirbæri. Jafnvel þó að svo virðist sem til séu enn hér á landi menn sem trúa því að bandaríska leyniþjónustan CIA starfi á svipaðan hátt og Rauði krossinn, og aðrir sem halda að yfirþjóðlega valdasöfnunarkerfið í Brussel sé til þess eins skapað að hægt sé að gegna umhyggjusömu barnapíuhlutverki fyrir þjóðir álfunnar, mundu slíkir dáleiðsluþegar fljótlega hrökkva óþyrmilega upp úr dvala sínum, ef þeir færu að búa við stöðugt áreiti Stóra bróður í orwellskum skilningi.

Og við skulum hafa það hugfast að kerfisleg eftirlitsárátta hefur stóraukist í okkar þjóðfélagi á síðustu árum og nú starfar fjöldi manns við það á vegum ríkis og sveitarfélaga að hafa eftirlit með fólki og fylgjast með því hvað það er að gera og hvort það hegði sér eftir settum reglum. Menn geta ekki lengur lagt silunganet í sjó án þess að sækja um sérstakt leyfi og lúta allskonar skriffinsku-ritúali og hefur þó leyfilegur tími á viku verið skertur að hálfu, líklega vegna hagsmuna laxveiði-aðalsins sem er yfirleitt nátengdur Stórabróður-valdinu.

Eins er það með að fá byssuleyfi. Nú þurfa menn að fara á námskeið og taka próf, kaupa veiðikort og henda líklega um 50 þúsundum í kerfið og eftirlitshéppa þess, til þess að geta til dæmis skroppið í rjúpnaveiðitúr. Eftirlitsmennskan er dýr fyrir fólkið í landinu og það eykur ekki ábyrgðarkennd og samviskusemi einstaklinga að þeir fari að hafa það sí og æ á tilfinningunni að það sé verið að fylgjast með þeim. Á góðum stað stendur - Traust er undirstaða allra mannlegra samskipta, en á sama hátt má segja að samfélag sem er sífellt að auka kerfislega eftirlitsmannahjörð sína sé ekki á góðum vegi. Því meira sem eftirlitið verður, því minna verður um traust milli manna !

Og hvenær kemur að því að farið verður að skapa innra eftirlit, að hafa eftirlitsmenn til að vakta aðra eftirlitsmenn ? „Hver á að gæta varðanna" var eitt sinn sagt og ekki að ástæðulausu !

Frelsi mannsins er eitt það dýrmætasta sem hann getur átt og því hefur verið ógnað á öllum tímum með fjölbreytilegum aðferðum yfirvalda og annarra Stórabróður-sinna. Að ýmsu leyti má segja að því sé ógnað í dag með lúmskara hætti en áður. Það er yfirleitt látið í veðri vaka að það sé verið að hjálpa upp á þig meðan frelsisfjaðrirnar eru plokkaðar af þér, ein af annarri !

Lýðræði hefur aldrei fengist ókeypis, mannfrelsi ekki heldur. Það þarf að berjast fyrir öllum góðum gildum í þessum heimi - og sú barátta mun aldrei líða undir lok. Verum á verði fyrir öllum áhrifum sem leitast við að gera stjórnkerfi að ómanneskjulegu bákni boða og banna, eftirlits og persónunjósna.

Látum Stóra bróður hrollvekju Orwells aldrei verða að veruleika !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband