Leita í fréttum mbl.is

Það loðir við landið sem leiðir í strandið !

Það er ýmislegt sem loðir við landið og virðist ekki geta lagast á nokkurn hátt. Frjálshyggjubullurnar sem óðu hér yfir allt á árunum fyrir hrun eru enn með fullar hendur fjár og vilja fjárfesta í því sem eftir er af eignum landans. Stjórnmálamafían sem baktryggði allan feril gróðabrallsmannanna er enn við sama heygarðshornið og hún var og hefur ekkert lært og reyndar er hún öllu forhertari eftir hrunið og stöðuga afneitun allrar ábyrgðar í meira en fimm ár !

Almenningur situr enn í sárum og enginn tekur upp hanskann fyrir hann. Það er sannfæring mín að venjulegt fólk í landinu eigi enga málsvara á alþingi í dag. Áður var talað um verkalýðsflokka og það voru oft á þingi einhverjir sem töluðu máli venjulegs launafólks, nú er enginn þar í þeim anda !

Menn sem þykjast vera þar á vinstri vegum eru að verða litlu skárri en afæturnar til hægri. Síðustu kosningar sem leiddu til þess að pólitískar valdablokkir hrungerenda hafa komist aftur til valda í þessu landi munu sanna sig sem afdrifarík mistök. En hvernig á fólk að vita hvernig það á að verja atkvæði sínu þegar enginn góður kostur virðist í boði ? Jóhanna með sinn tíma í höndunum talaði um að mynda skjaldborg um heimilin í landinu og hvernig var svo staðið við það loforð, og nú er Simmi silfurskeið að falla á tíma með fyrirheitið um skuldaleiðréttinguna miklu sem fleytti flokki hans til valda.

Allt sem fyrri stjórn gerði sem hjó eitthvað í aðstæður forréttindahópa landsins, er nú sem óðast að ganga til baka fyrir aðgerðir núverandi stjórnvalda, sem eru fyrst og fremst á verði fyrir hagsmunum þeirra sem mest mega sín. Kögunarkapítal og Engeyjarvald eru í mínum huga ljóslega af sama meiði þó annað sé haft uppi við. Það þurfti því engan speking til að sjá eftir síðustu kosningar að Simmi og BB myndu ná saman, enda var alltaf að því stefnt og engu öðru.

Íhaldið hefur alltaf ráðið í þeim stjórnum sem það hefur setið í - óklofið. Og oftast hefur það verið skilyrði að það hefði stjórnarforustuna. En þegar menn eins og Halldór Ásgrímsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eru annarsvegar getur íhaldið vel hugsað sér vissan undanslátt í þeim efnum, til að mæta persónulegri framalöngun manna, enda vitað að umræddir menn eru í allri hugsun svo nátengdir þeim sem ráða í Valhöll að þar skilur sáralítið á milli. Þeir hafa því báðir fengið að verða forsætisráðherrar en þeir hafa setið sem slíkir fyrir náð sjálfstæðisflokksins og slík náð er alltaf skilyrðum háð !

En er ekki kominn tími til að einhverjir fulltrúar launafólks og almennings í landinu verði kosnir til að gæta hagsmuna þjóðar-grasrótarinnar á alþingi ? Druslur Samfylkingar gera það ekki og nú er Össur búinn að skrifa heila bók sem hefði líklega helst átt að heita „Að sleikja íhaldið enda á milli" !

Vinstri grænir virðast orðnir svipur hjá sjón og lítils af þeim að vænta. Tveir krataflokkar á alþingi er allt of stór skammtur af froðuliði og ómerkingum til vinstri. Við þurfum fólk á þing sem er með lifandi blóð á hreyfingu í æðum, en ekki steindauðar kerfisblækur sem megna ekki á nokkurn hátt að standa í gegn forréttindapakkinu og frjálshyggju-græðgisliðinu til hægri og er að sumu leyti orðið samdauna því.

Sumir tala hástemmt en eru ekkert nema lýðskrumsmenn. Við þurfum ekki menn eins og Franklín inn í okkar pólitík. Hann virðist vilja verða hinn íslenski Sakashvili en slíkir sérhyggjupostular sýna yfirleitt fljótt hverju þeir gangast fyrir og það er að mínu mati hvorki þjóðlegt né gott. Auk þess er hugtakið „hægri grænir" bara blekking !

Við þurfum vakningu á þjóðlegum grunni ! Við þurfum að sækja á ný á gömul mið. Við þurfum að endurnýja ungmennafélagsandann og samvinnuhreyfingarhugsjónirnar og verkalýðskraftinn, allt það sem kveikti hin félagslegu ljós síðustu aldar og hóf þessa þjóð upp úr fátækt til bjargálna og síðan velferðar.

Íþróttahreyfingin var um og upp úr 1980 gleypt af peningaöflum og er enn í hörðum klóm slíkra, þar er ræktun lands og lýðs algjörlega gleymt mál. Samvinnuhreyfingin var eyðilögð af dollarasjúkum gróðapungum og hugsjónirnar afskrifaðar á markaðstorgi Mammons. Verkalýðshreyfingin var rústuð af siðlausum pólitískum kjaftaskúmum og mönnum sem aldrei hefðu átt að fá að koma þar nærri nokkrum hlutum. Forustumennirnar þar í dag eru talandi dæmi um stöðu mála þar, gagnslausir menn í huga og hjarta á háum launum, menn sem þekkja ekki alþýðu Íslands nema kannski af afspurn !

Þessum spillingaröflum þarf að ryðja út, öllum þeim aðilum sem eru alltaf tilbúnir að setja silfur sitt á markað sérhagsmunanna og hafa aldrei átt heima þar sem félagsleg samstaða þarf að vera grundvöllur mála. Í herbúðum sérhagsmunaliðsins snýst allt um að fá verðlaun í gulli eða silfri, að virða verðlaun sín til fjár og selja þau ef svo ber undir eða fá andvirði þeirra greitt út með annarra fé - helst almenningsfé ! Siðfræðin í kortunum þar er engin enda jafnvel engin kort til í þeim efnum !

Látum ekki spillt yfirvöld og markaðsrefi eyðileggja allt sem íslenskt er og gott. Hlustum ekki á sérprentaða útsendara auðvalds og sérhagsmuna, menn eins og Má Guðmundsson seðlabankastjóra, tala niður til almennings og gera kröfu um að menn geri engar kröfur eftir allar þær launalækkanir sem átt hafa sér stað. Það hefur öllu í sambandi við hrunið verið sturtað niður til almennings. ÖLLU !

Almenningsvæn hagstjórn á Íslandi hefur aldrei verið til, það er allt í þeim efnum sniðið að þörfum „hins íslenska aðals", sem er í raun ekki íslenskur heldur afskræming alls þess sem íslenskt er. Afneitum því þeirri misbeitingu réttlætis og mannréttinda sem þar á sér stöðugt stað. Tíu þúsund króna seðillinn er talandi tákn um það að við séum enn á sömu feigðarferð og áður. Það var líka athyglisvert að hann féll á gólfið úr höndum seðlabankastjóra og kannski engin tilviljun. Endum við kannski með gjörsamlega verðlausan milljón króna seðil í höndunum ?

Verum vakandi og mótmælum öll hverskonar yfirgangi yfirvalda í landinu gagnvart þjóðréttarlegum mannlífsgildum, hvort sem er á ríkismálasviði eða sveitarstjórna. Verum tilbúin hvenær sem þörfin krefur að verja íslenska mannfrelsis arfleifð - með búsáhöldum og öðru sem til þarf !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 110
  • Sl. sólarhring: 157
  • Sl. viku: 679
  • Frá upphafi: 365577

Annað

  • Innlit í dag: 106
  • Innlit sl. viku: 591
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband